Banaslys í Hveralæk


Í suðvestur frá báðum þessum hverum (Draugahver og Hildarhver) runnu lækir, svokallaðir Hveralækir og sameinuðust skammt frá hverunum. Þegar farið var að virkja Draugahver 1923 var afrennsli hans veitt í Hildarhver eftir mjórri rás, sem lá á milli þeirra. Þaðan rann svo allt afrennslið eftir Hveralæk út í Vöðla. Lækirnir, sem voru tveir, urðu þannig að einum 1923.

Hverasvæðið af fjósþaki sumarið 2014 (mynd pms)

Árið 1975 var svo grafið upp í kringum báða þessa hveri og þeir sameinaðir undir eina steinsteypta, lokaða þró. Á sama tíma var grafið upp í kringum flesta aðra hveri svæðisins, þ.á.m. Bæjarhver, og steypt yfir þá. Rétt við farveg gamla Hveralæksins, austan megin við hann, þar sem hann beygir hjá suðurgafli gróðurhúsa Ólafs Einarssonar, voru þrír litlir hverir, og hét sá neðsti (syðsti) þeirra Pottur.

Ekkert vatn er nú lengur í Hveralæk og hverasvæðinu öllu er nú mjög spillt frá því sem var fyrir aðeins 20 árum. Á móti kemur að hættur eru þar til muna minni, en svæðið allt var stórhættulegt börnum áður.

„Eldivið spara hér hverirnir, en á móti drepst þar í peningur þess á milli,“ segir í Jarðabók Árna og Páls frá 1708.
(Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, II, Khöfn 1918, bls. 292).

Ekki er vafi á að af öllum hættum á hverasvæðinu voru Hveralækirnir langsamlega hættulegastir.
Það bullaði í sjálfum hverunum og vel það í Draugahver en slíkt dugði til að halda óvita börnum og skepnum frá. Lækurinn var aftur á móti miklu meinleysislegri til að sjá. En bakkarnir niður í hann gátu verið hálir og eftir honum rann vatn, nær 100 gráðu heitt.
Í Annálunum sem spanna árin 1400 til 1800 er getið um tvo atburði í Laugarási.

1692: ,,Barn 5 vetra dó fyrir fátækri konu í Hveralæk í Laugarási fyrir austan Skálholt.“ 
(Hestsannáll 1692. Annálar 1400— 1800, II b., Rv. 1927— 1932, bls. 533. Sbr. sömu bók, bls. 293 og IV b. Rv. 1940-1948, bls. 134).

1715 segir svo sami annálaritari frá því að í „...Hveralæknum hjá Laugarási dó kona.“ 
(Hestsannáll 1715, bls. 567).

Vafalaust eru slysin á fyrri öldum miklu fleiri, enda líða hér fá ár á milli.

Mynd frá árinu 1968
1. Íbúðarhúsið í Grósku (síðar Sólveigarstaðir) 2. Hér sést móta fyrir hveralæknum sem rann skammt fyrir neðan íbúðarhúsið. Yfir lækinn var farið á trébrú. 3. Hveratún. (mynd frá Hveratúni)

1943 varð banaslys þegar kona sem bjó í Grósku, þar sem nú heita Sólveigarstaðir, missti þriggja ára barn í Hveralækinn. Brú var á læknum og gekk konan út á hana með barnið í fanginu, en missti það þegar brúin gaf undan að hluta.

Uppfært 01/2019