Eigendur Skálholtsjarðarinnar
Skálholtsjörðin var, frá því Hannes Finnsson biskup (1739-1796), keypti hana árið 1785 og allt þar til ríkið keypti hana 1936, í eigu Hannesar, konu hans Valgerðar og síðan afkomenda þeirra.
Um kaup Hannesar biskups segir Arnór Karlsson svo í grein sinni „Sala stólsjarðanna“ í Litla Bergþór, 2. tbl. 1990:
Skálholt.
Það er fyrsta jörðin sem seld er af stólsjörðunum og hefst skráin á þessa leið: "Anno 1785 d. 25. júlí í Skálholti í nærveru þess konungslega tilskickaða Commissariii M. Stephensen var við opinbera Auktion uppboðin jörðin Skálholt með öllu tilheyrandi."
Hún er seld í þremur jöfnum pörtum og kaupir Hannes biskup Finnsson þá alla. Um hálfri öld síðar eru tveir leiguliðar búandi á jörðinni, en hún mun hafa verið í eigu sömu ættar í um hálfa aðra öld eða þar tíl ríkið keypti hana. Greint er frá því að stiftamtmaður hafi samþykkt að "6 kýrgildi skuli fylgja Skálholti," og kaupir biskup þau einnig á 6 rd. hvert.
Eigendur jarðarinnar eftir Hannes Finnsson, voru þessi:
1796-1856 Valgerður, biskupsfrú Jónsdóttir (1771-1856).
1856-1886 Þórunn Hannesdóttir Finsen Thorsteinsson (1794-1886), dóttir Valgerðar og Hannesar biskups.
1886-1907 Árni Thorsteinsson, landfógeti, sonur Þórunnar.
Sophie eiginkona Árna sat í óskiptu búi, en hún lést 1914.
1914-1931 Hannes Thorsteinsson, lögfræðingur og bankastjóri, sonur Árna.
1931-1936 Erfingjar Hannesar, en hann var ókvæntur og barnlaus.
Eftir lát Hannesar voru þessi eigendur jarðarinnar:
1/3 hluti: Þórunn Árnadóttir Siemsen Thorsteinsson (1866-1943) dóttir Árna landfógeta.
1/3 hluti: Árni Thorsteinson (1870-1962) tónskáld, sonur Árna landfógeta.
1/6 hluti: Árni Pálsson (1897-1970), sonur Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.
1/6 hluti: Kristín Pálsdóttir (1898-1940), dóttir Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.
Árni og Kristín voru börn Sigríðar Árnadóttur Thorsteinsson (1872-1905) og Páls Einarssonar (1868-1954), sem var lögmaður, hæstaréttardómari og fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur.
Móðir þeirra lést árið 1905, rúmlega þrítug að aldri. Páll kvæntist aftur og eignaðist 4 börn með síðari konu sinni, Sigríði Franzdóttur, Siemsen (1889-1970).
1936 - Íslenska ríkið.
Aðeins meira um eigendasöguna
Það var 32 ára aldursmunur á Hannesi biskup og Valgerði, konu hans. Hann lést 57 ára og þá var Valgerður 25 ára og hafði alið honum tvö börn. Hún tók jörðina í arf eftir Hannes og bjó í Skálholti til ársins 1816.
Árið 1806 giftist Valgerður Steingrími Jónssyni, sem síðar tók við biskupsembætti. Hún lifði hann einnig og var oft kölluð Valgerður “biskupsekkja”
Börn Hannesar og Valgerðar voru Jón, síðar Finsen, fæddur 1792, hann varð embættismaður í Danmörku og lést þar 1848, og það yngra var Þórunn, fædd 1794, en hún giftist Bjarna amtmanni Thorsteinsson. Hún tók Skálholtsjörðina í arf eftir móður sína.
Þórunn og Bjarni eignuðust synina Árna (1828-1907) landfógeta og Steingrím, skáld (1831-1913). Árni tók jörðina í arf eftir móður sína.
Þegar aldurinn fór að færast yfir Árna, freistaði hann þess að selja jörðina, en árið 1905 birtist í Þjóðólfi, þessi auglýsing um uppboð á jörðinni:
Uppboð á fasteign
Við eitt uppboðsþing, sem haldið verður á skrifstofu Árnessýslu að Kaldaðarnesi þriðjudaginn 25. apríl 1905 kl. 10 árdegis, verður, ef viðunanlegt boð fæst, seld kirkjujörðin Skálholt í Biskupstungum að nýju mati 57.6 hundr. (fornu 60 hundr.) með 9 kúgildum lifandi, og húsum þeim, er jörðinni fylgja og leiguliðum ber að skila. Afgjald jarðarinnar var 1903—4: landskuld 270 meðalálnir, leigur 20 fjórðungar smjörs, í peningum 88 kr.
Hálf jörðin verður laus til ábúðar í næstu fardögum. Kirkjueigninni fylgja ( 3 ½ % ríkisskuldabréfum 1800 kr., sem jarðareigandi nýtur vaxta af eins og annara jarðargjalda, þar eð þau eru ígildi seldra ítaka jarðarinnar, og verður kaupandi að borga seljanda þau eptir gangverði þeirra án uppboðs. Nánari upplýsingar fást hjá eiganda jarðarinnar, fyrv. landfógeta A. Thorsteinsson og hjá uppboðshaldara.
Skrifstofu Árnessýslu 23. marz 1905.
Sigurður Ólafsson
Ekki fékkst „viðunanlegt boð“ í jörðina, og Árni lést tveim árum síðar. Sophia sat eftir lát hans, í óskiptu búi þar til hún lést 1914.
Börn Árna og konu hans Sophia Christine Hannesdóttur Thorsteinsson (1839-1914) voru Hannes (1863-1931) lögfræðingur og bankastjóri, Þórunn (1866-1943), gift Franz Ziemsen sýslumanni, Árni (1870-1962), tónskáld, Sigríður (1872-1905) og Bjarni (1875-1922). Sigríður lést tveim árum á undan föður sínum og Bjarni veiktist af “ensku veikinni”, eða beinkröm (rachitis) á barnsaldri og varð aldrei heill heilsu upp frá því.
Hannes tók jörðina í arf eftir föður sinn. Hann lést síðan árið 1931, án þess að hafa kvænst og eignast erfingja.
Í Óðni er svo greint frá andláti Hannesar:
Hannes Thorsteinsson bankastjóri andaðist 17. maí síðastl., á 68. ári. fæddur 2. okt. 1863, sonur Árna landfógeta Thorsteinsson og eldri bróðir Árna tónskálds Thorsteinsson. Hann var lögfræðingur og hafði tekið próf við háskólann í Kaupmannahöfn 1892. Var hann fyrst aðstoðarmaður föður síns á landritaraskrifstofunni og fjekst jafnframt við málaflutningsstörf. En er Íslandsbanki var stofnaður 1904, varð hann þar starfsmaður og skömmu síðar lögfræðilegur ráðanautur bankans. 1920 varð hann bankastjóri og hafði það starf í 4 ár, en hvarf þá frá því og gegndi eftir það engu föstu starfi, enda fór þá heilsu hans að hnigna og átti hann við langvinn veikindi að stríða á síðustu árunum. Hann bjó altaf í húsi foreldra sinna þar sem hann var fæddur og uppalinn og hjelt þar öllu í sömu skorðum og áður hafði verið. Hann var vænn maður og vel látinn, en gaf sig sem minst við opinberum málum. Aldrei kvæntist hann.
Ríkið kaupir Skálholt
Hannes Thorsteinson lést í maí árið 1931, barnlaus. Sú staða, ásamt því að mörgum sveið hvernig komið var fyrir hinum fornfræga stað, ýtti líklega undir kröfur um að hafin yrði endurreisn staðarins, en þá höfðu leiguliðar annast um hann í talsvert á aðra öld. Þeir þurftu auðvitað bara að berjast við að sjá sjálfum sér farborða og höfðu enga burði eða skyldur til endurbyggja staðinn, eða reisa hann til þess vegs og virðingar sem margir kölluðu eftir. Í júli þetta ár, ritaði Ólafur Björnsson, kirkjuráðsmaður stutta grein í Morgunlaðið:
Vesalings Skálholt!
Vafalaust á Skálholt mikil ítök í hugum þjóðarinnar. Skálholt var fyrsti, og um hríð einasti, biskupsstóll Íslands. Þar var mentastöð landsins. Þar höfðu oft og tíðum aðsetur sitt andlegir vitar og mentunarfrömuðar þjóðarinnar.
Frá Hólum og Skálholti streymdu þau menningaráhrif út um bygðir landsins, sem nútímamenning vor og þjóðareinkenni hvíla á, að ekki svo litlu leyti. Jeg hefi lengi haft huga á að koma í Skálholt, þó ekki hafi jeg komið því við fyr en nú í sumar. Jeg ætla ekki að skrifa langt mál um Skálholt, en jeg get ekki orða bundist, vegna vonbrigða komu minnar þangað.
Jeg hjelt að þar væri öllu vel við haldið, og margt sem minti á forna frægð. Þar eru fáar minjar, og þeim lítill sómi sýndur. Kirkjan sem nú er á fyrsta biskupsstóli landsins er hrörleg; á ljelegum grunni. Þar er engin altaristafla, ekkert hljóðfæri, enginn ofn. Skálholtskirkja er nú útkirkja, þar sem messa á 5. hvern sunnudag.
Jeg mintist á það hjer að framan, að Skálholt hlyti að eiga mikil ítök í hugum landsmanna. Í Skálholti ber þó ekkert vitni þar um, nema ef vera skyldi komur landsmanna á staðinn.
Jeg býst nú við að hver einstaklingur afsaki sig, en mæni vonaraugum til Alþingis, þegar um er að ræða verndun slíkra fornhelgra staða. Jeg vildi óska og vona, að hafist yrði handa um að reisa þenna fornfræga stað úr rústum.
Heiti jeg á þing og stjórn og aðra góða menn þar til, svo að sem fyrst verði af okkur rekið ómensku orðið um ástand þessa fornhelga staðar. Gagnvart kirkjunni í Skálholti undrast jeg að prestar landsins og biskup skuli ekki hafa tekið sjer fram um að beita sjer fyrir því að þar væri ekki kirkja sem væri landinu til skammar, því þar sem svo margir útlendir og innlendir gestir koma, og með tilliti til hinnar frægu Skálholtsdómkirkju og helgi staðarins, finst mjer betur við eiga - ef það endilega þarf að vera - að annars staðar en í Skálholti væri sýnishorn þess hvernig kirkjur eiga ekki að vera.
Akranesi, 31. júlí 1931. Ó. B. Björnsson.
Fljótlega fór krafan um að ríkið keypti jörðina á flug.
Í Bjarma, sem var “kristilegt heimilisblað” var greint frá aðalfundi prestafélagsdeildarinnar “Hallgrímsdeild”, en þar “var meðal annars rætt um áskorun prestafundar á Þingvöllum, þar sem farið var fram á að ríkisstjórnin keypti Skálholt. Upplýstist þar, að hætta væri á að Skálholt mundi ganga kaupum og sölum framvegis og jafnvel lenda í höndum erlendra manna eða trúboðsfjelaga kaþólskra. Af kirkjulegum og sögulegum ástæðum þótti fundarmönnum það mjög illa farið, ef svo yrði. Var því á fundinum um það rætt, hvernig hægt yrði að koma í veg fyrir þetta, en þar sem sýnt var að ekki var að vænta stuðnings frá ríkisstjórninni í því skyni, þótt sjálfsagður væri, þú leist fundarmönnum ekki önnur leið fær en sú að prestastjett landsins, með aðstoð kirkjulega sinnaðra leikmanna, festi kaup á staðnum.
Fundurinn fól þeim sr. Eiríki á Hesti sr. Ásgeir í Hvammi, Sr. Birni á Borg, sr. Jóni á Prestsbakka og Sr. Sigurði í Stykkishólmi málið til framkvæmda og hafa þeir sent prestum og ýmsum fleiri áskorun til fjársöfnunar til að kaupa Skálholt, svo að “þessi fornhelgi staður geti orðið miðstöð íslenskrar prestastjettar og kristilegrar menningar með þjóðinni”. Þeir gera ráð fyrir að um 70 prestar að minsta kosti leggi fram fje í þessu skyni, 100 kr. á ári næstu 2 árin Kr. 14000. Sömu menn greiði 50 kr. á ári í 8 ár, þar á eftir Kr. 28000. Frá leikmönnum áætlað Kr. 10000. Samtals Kr. 52000.
Óneitanlega væri það prestastjettinni sómi, ef þetta tækist og jörðinni yrði svo vel ráðstafað. — Reynslan sker úr”.
Ólafur Björnsson var ákafur talsmaður kaupa ríkisins á jörðinni og hann skrifaði grein í Prestafélagsritið 1933:
Það eru óefað sannindi, að mikið megi marka menningu hverrar þjóðar af því, hvernig hún varðveitir arf sinna dýrustu minninga og minja. Mér dettur í hug, hvernig þjóð vor hefir farið með sjóð þann af minningum og dýrgripum, sem bundinn er við hinn fræga Skálholtsstað. Niðurlæging Skálholts er í einu orði sagt svo mikil, að ég hefi hvorki geð, né orðkyngi til að draga upp svo ömurlega mynd, sem verðugt væri þeirri þjóðarsmán. Er sárt til þess að hugsa, að ríkið hefir frá siðaskiftum farið ránshendi um eignir kirkjunnar svo miljónum króna skiftir. Það er ilt að horfa á, að svo fari um stað þann hinn mikla, að hann gangi ef til vill kaupum og sölum milli innlendra eða erlendra braskara. Þess skal þó getið í þessu sambandi, og finst mér það saga til næsta bæjar, og virðingarvert, að lægst launaða embættisstéttin í landinu (prestarnir) hefir þó nú í „kreppunni" gjörst svo djörf og stórhuga, að vilja nokkuð á sig leggja til þess að forða þeirri smán, að svo fari um Skálholt, sem ég hefi hélýst og helzt litur út fyrir.
Smám saman fór krafan um kaup á jörðinni að ná meiri fótfestu og í Morgunblaðinu í maí 1933 er greint frá útgjaldaheimildum stjórnarinnar fyrir árið 1934: “Ennfremur var stjórninni heimilað: að kaupa fyrir fje úr kirkjujarðasjóði því verði, er dómkvaddir menn meta jörðina Skálholt í Biskupstungum”.
Í janúar 1936 er svo greint frá því í Degi, að ríksstjórnin hafi keypt Skálholt í Biskupstungum “fyrir ríkisins hönd fyrir 30 þús. kr. (nál. kr. 10 milljónirá verðlagi 2024) af erfingjum Hannesar sál. Þorsteinssonar þjóðskjalavarðar”.
Við þessa tilkynningu í Degi er það að athuga, að ekki verður séð að Hannes Þorsteinsson, þjóðskjalavörður hafi átt jörðina. Þar kemur aðallega þetta til:
Hann lést sama ár og kaupin voru gerð og ólíklegt að ríkisstjórnin hafi, með svo litlum fyrirvara að stökkva til og kaupa jörðina.
Ekki verður séð að hann hafi tengst afkomendum Hannesar biskups fjölskylduböndum og ekki hef ég fundið heimildir fyrir því að Hannes Thorsteinson hafi selt jörðina.
Umræður í samfélaginu árin fyrir dauða hans benda til að jörðin hafi verið komin í sölu fljótlega eftir lát Hannesar Thorsteinsonar, lögfræðings og bankastjóra, sem var afkomandi Hannesar biskups.
Ég lít svo á, að þarna hafi Dagur ruglast á mönnum.
Læt ég hér lokið frásögn af eigendasögu Skálholtsjarðar.
Uppfært 08/2024