Konráð Sigurðsson ( 1931 - 2003)

Héraðslæknir í Laugarási 1967-1983

Inngangur

Konráð (Konni) tók við af Grími Jónssyni, árið 1967. Þetta var á þeim tím sem ég var að hverfa að heiman á veturna vegna skóla og á sumrin vegna sumarvinnu og því er ég víst ekki í aðstöðu til að fjalla að einhverju ráði um störf Konráðs í Laugarási, en hann gegndi stöðu héraðslæknis með hléi til ársins 1982. Mér fannst Konráð vera einkar vel starfi sínu vaxinn og hann var vel látinn í samfélaginu, eftir því sem ég heyrði á hann minnst.
Konráð var kvæntur Sigrid Österby þegar Laugarásdvölin hófst, en þau skildu nokkrum árum eftir að þau fluttu í Laugarás. Þau áttu saman fimm börn. Hann kvæntist svo aftur, Önnu Agnarsdóttur, og þau eignuðust þrjár dætur.

Áfallið sem þau urðu fyrir þegar tveggja ára dóttir þeirra drukknaði í Hvítá, árið 1979, var líklega meira en svo að þau gætu hugsað sér að búa áfram í Laugarási, en samt byggðu þau sér þar hús í Austurbyggð árið 1981, sem hlaut nafnið Árós. Þar bjuggu þau síðan þar til þau hurfu á braut. (pms)

Æviágrip og starfsferill

Konráð Sigurðsson fæddist í Reykjavík 13. júní 1931, sonur þeirra Sigurðar Jónssonar skólastjóra og Rósu Tryggvadóttur.
Konráð missti föður sinn 5 ára að aldri og móður sína 13 ára. Hann ólst eftir það upp hjá bróður sínum Steinþóri og síðar hjá systur sinni Guðrúnu. Á yngri árum starfaði hann á skurðgröfu og öðrum þungavinnuvélum.
Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1963 en fékk almennt lækningaleyfi 1966.
Konráð starfaði sem héraðslæknir í ýmsum læknishéruðum frá 1963, m.a. Kópaskers-, Raufarhafnar-, Hólmavíkur- og Djúpuvíkurhéraði, en lengst í Laugaráslæknishéraði á árunum 1967-1982. Á þeim tíma gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum í félögum lækna.
Hann starfaði sem læknir á geðdeild Borgarspítalans á árunum 1972-1973 og í Svíþjóð á árinu 1981. Hann var yfirlæknir heilsugæslustöðvar Seltjarnarness 1982-1983 en frá þeim tíma og til dauðadags starfaði hann sem heimilislæknir á eigin stofu, í Reykjavík.

Konráð var þríkvæntur.
1. Þórunn Benediktsdóttir Gröndal 1953 en þau skildu 1957.
Börn þeirra: Sigurður (1953) og Áslaug (1955).
2. Sigrid Østerby framhaldsskólakennari og listmeðferðarfræðingur 1960, en þau skildu 1973.
Börn þeirra: Atli (1959), Sif (1960), Huld (1963), Ari (1968), og Andri (1971).
3. Anna Agnarsdóttir kennari og M.Paed. í íslensku 1976.
Dætur þeirra: Hildur Rósa (1974), Anna (1977 -1979), og Anna Guðrún (1980).

Minningarorð samferðamanna:

Hann var héraðslæknir í Laugaráshéraði í Árnessýslu frá 1967 til 1982. Þegar Konráð kom þangað til starfa var hann eini læknirinn í héraðinu og einn starfsmaður til aðstoðar. Héraðið var afar víðfeðmt en fjölmennir skólar á Laugarvatni heyrðu m.a. undir héraðið. Á þessum árum var vinna við Búrfellsvirkjun í fullum gangi og alvarleg vinnuslys tíð. Vinnutími Konráðs var allur sólarhringurinn og álag á honum oft og tíðum gríðarlega mikið. Vegir voru vondir og oft illfærir á vetrum vegna snjóa og á vorin vegna aurbleytu. Í þá tíð var algengt að háaldrað og sjúkt fólk dveldi heima fram í andlátið og miklu tíðara en nú að læknar væru sóttir í heimahús.

Löngu áður en ég kynntist Huld, dóttur Konráðs, varð ég vitni að natni Konráðs og umhyggjusemi við sjúklinga sína. Yfir móður minni sat hann eitt sinn heilan dag þegar hún var hætt komin vegna hjartasjúkdóms. Hann ráðlagði henni að hætta að reykja 1968 og hlýddi hún því en um þetta sem annað gildir að auðveldara er að kenna heilræðin en að halda þau. Vægt er til orða tekið að segja að Konráð hafi verið elskaður og dáður af fólki í uppsveitum Árnessýslu og veit ég ekki til að nokkurn skugga hafi borið þar á. Vafalaust er hins vegar að á honum hafa verið brotin öll vökulög og vinnuverndarreglur. Hugtakið "samþætting starfs og fjölskyldulífs" var fjarlægt á þessum árum. Gríðarlegt vinnuálag hefur varla gert fjölskyldulífinu í læknisbústaðnum í Laugarási gott.

Þegar frá leið fjölgaði starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar. Læknarnir urðu tveir, hjúkrunarfræðingur og fleiri starfsmenn bættust í hópinn. Meiri tími gafst þá til tómstunda.

Í Laugarási varð Konráð fyrir stærsta áfallinu þegar Anna litla dóttir hans drukknaði rúmlega tveggja ára vorið 1979. Hefur þessi erfiða reynsla vafalaust ýft upp ógróin sár vegna missis ástvina í bernsku. Þau Anna eiginkona hans reistu sér eftir það nýtt hús, Árósa, í Laugarási en dvöl þar varð þeim erfið eftir fráfall Önnu litlu þótt fjölskylda og góðir vinir þeirra, svo sem séra Guðmundur Óli og Anna í Skálholti, hafi reynst þeim einkar vel. Gerðist Konráð 1982 yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar á Seltjarnarnesi. Andlegri líðan Konráðs hrakaði mikið eftir þetta og á árinu 1983 varð hann alvarlega veikur af geðhverfasýki. Enda þótt hann næði sér aldrei fyllilega af þessum erfiða sjúkdómi náði hann ótrúlegum bata með dyggum stuðningi Önnu. Konráð tók fljótlega aftur til starfa sem sjálfstætt starfandi heimilislæknir í Reykjavík en því starfi gegndi hann til æviloka. (Tryggvi Agnarsson)

—————-

Konráð Sigurðsson entist þó manna lengst við miklar vinsældir og vaxandi traust, enda var hann gæddur þeirri náðargáfu, sem of fám er gefin. Hann kunni manna bezt að annast aldraða og umkomulausa og hlífði sér hvergi í þeirra þágu. Allir vissu, að starfið var erilsamt og óx ört að umfangi. Það orðspor festist þó við Konráð, að aldrei ætti hann svo annríkt, að hann gæti ekki sinnt gamalmenni eða smælingja. Og raunar mun hann löngum hafa vitjað þeirra margra óbeðinn. Sagt var, að sjaldan hefði honum legið á í slíkum vitjunum. Hér eystra varð honum því aldrei vina vant. Þeir urðu æ fleiri, sem settu traust sitt á hann og hresstust í anda við hverja heimsókn og spjallstund. Því var hann án efa í fremstu röð þeirra öðlinga sem lögðu traustan grundvöll að því farsæla og fágæta starfi sem unnið er á Heilsugæzlustöðinni í Laugarási enn í dag. Ég hygg, að uppsveitarmenn í Árnesþingi muni nokkuð samdóma um, að læknaþjónusta í strjálbýli á Íslandi geti naumast orðið öllu betri en þar gerist. (Guðm. Óli Ólafsson)

Uppfært 06/2024