Gylfi Haraldsson (1946-2019)
Héraðslæknir í Laugarási 1984-2016
Gylfi Haraldsson fæddist í Stykkishólmi 7. apríl 1946. Hann lést þann 2. desember 2019. Foreldrar hans voru hjónin og Kristín Cecilsdóttir húsmóðir.
Nám og störf.
Gylfi ólst upp í Stykkishólmi. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1966 en á sumrum var hann á sjó. Hann varð læknakandídat frá Háskóla Íslands 1974 og starfaði síðan sem heilsugæslulæknir í Ólafsvík 1975-1977. Sérfræðinámi í heimilislækningum lauk hann í Svíþjóð árið 1980 og starfaði þar sem heimilislæknir til ársins 1984, en þá flutti hann í Laugarás. Hann starfaði í 32 ár sem heimilislæknir í Laugaráslæknishéraði með Pétri Skarphéðinssyni. Í Laugarási lauk hann ævistarfinu árið 2016.
Fjölskylda
Gylfi hóf sambúð 1976 með Höllu Arnljótsdóttur hjúkrunarfræðingi (1947-2006), en þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Þröstur Freyr (1979) og Guðbjört (1982).
Árið 1994 kvæntist Gylfi Rut Meldal Valtýsdóttur (1947). Synir hennar eru Björgvin, Rúnar Már og Hreiðar Ingi Þorsteinssynir.
Gylfi var alla tíð virkur í félagsstörfum og hlaut árið 2016 æðstu heiðursviðurkenningu Lions-hreyfingarinnar.
——-
Kveðjuhóf til að þakka Pétri og Gylfa störf þeirra fyrir samfélagið í Laugaráslæknishéraði í ríflega 30 ár, var haldið í Aratungu þann 12. janúar 2017. Þar var eftirfarandi flutt, meðal annars, en það er í frekar léttum dúr (höf. Páll M. Skúlason):
Í kveðjuhófi fyrir lækna tvo.
Minningarorð frá samferðafólki:
Gylfi var góður og gegn maður, afar samviskusamur og nákvæmur í öllum sínum störfum sem læknir og naut virðingar og vinsælda skjólstæðinga sinna. (Pétur Sísa)
Sjaldan heyrði ég Gylfa kvarta – man reyndar ekki eftir einu einasta tilviki, núna þegar ég hugsa um það – enda virðist hann hafa tekið lífinu og tilverunni með stóískri ró, sem er góður eiginleiki og líklega nauðsynlegur í lífsins ólgusjó. En það er ekki auðvelt að lifa eftir þessari lífsstefnu, að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt og reyna að einbeita sér að því sem maður getur breytt – þetta eru eiginleikar sem Gylfa hafði tekist að tileinka sér, eiginleikar sem við hin getum nú tekið með okkur sem veganesti frá honum. (Rúnar Már Þorsteinsson)
Margir okkar geta borið vitni um farsæl ráð hans við heilsukvillum. Á fjórða áratug gegndi Gylfi starfi héraðslæknis í Laugarási, en umdæmið nær yfir hinar víðfeðmu uppsveitir Árnessýslu. Það er óhætt að fullyrða að Gylfi naut fádæma vinsælda í sínu starfi. Sinnti hann því af mikilli ástríðu. Enda vildi hann allt fyrir alla gera og varð fljótt gjörkunnugur íbúum héraðsins. Gjarnan hringdi hann upp á sitt eindæmi í skjólstæðinga sína ef honum fannst tilefni til að athuga með líðan þeirra. (Lionsmenn úr Geysi)
Uppfært 06/2024