Hverasvæðið


Lækurinn, sem rennur í ána við Launrétt, kemur úr lóni, sem hverirnir ofan við það mynda. Runólfur Guðmundsson taldi þennan læk hafa heitið Hveralœk, en aðrir heimildamenn höfðu það nafn yfir
annan læk á sjálfu hverasvæðinu og í tíð Sigurmundar læknis var þessi lækur kallaður Ósinn
Lónið, sem nú heitir svo, var fyrr jafnan nefnt Vöðlar eða Vaðlar .

Hverasvæðið í Laugarási. Mynd tekin af Vörðufelli (mynd pms)

Skýringu á nafnbreytingunni sagði Ingólfur á Iðu mér vera þá, að þegar Ólafur Einarsson var hér læknir og bóndi, hafi hann stíflað lækinn við Launrétt. Var það gert til þess að girða túnið betur af með því að vatnið í Vöðlunum hækkaði til mikilla muna. Og þó stíflan brysti strax næsta ár, hélst nafnbreytingin, og hefur þetta síðan heitið Lónið. Ólafur sjálfur taldi þetta vel mega vera rétt .

Mynd sem tekin er yfir hverasvæðið, áður en farið var að hreyfa við því að einhverju ráði. Íbúðarhúsið í Hveratúni ásamt gróðurhúsum. Gróðurhúsið og bragginn hægra megin tilheyrðu Ólafi Einarssyni. Líklegur tími um 1950. (Mynd frá Hveratúni).

Í miklum vatnavöxtum á áin það til að flæða yfir í Lónið, enda mjúk, gróin eyri sunnan þeirra að ánni.
Ofan við Lónið, norðan við það, er aðalhverasvæðið, þó hverir séu reyndar líka austan við og úti í því.

Myndskeið frá Laugarási, sem Magnús Skúlason tók í október 2015. Þarna má sjá yfirlitsmynd af hverasvæðinu, meðal annars.

Á hverasvæðinu eru þrír aðalhverir nafngreindir. Sá syðsti þeirra stendur nærri Vöðlunum, austan við dæluskúra hitaveitunnar. Til eru fimm nöfn á þeim hver; BœjarhverHeimahverMatarhverÞvottahver og Syðstihver. Heimildamenn mínir voru mjög óklárir á nafni þessa hvers, og töldu ekki eitthvert eitt nafnanna rétt, þó enginn þeirra hefði heyrt þau öll. Bæjar- eða Heimahver hefur hann verið kallaður, því þennan hver notaði Laugarásheimilið og ekki önnur heimili hér áður fyrr, og hefur verið bæði eldað og þvegið í honum, og þannig gætu hin tvö nöfnin, Matarhver og Þvottahver, hafa orðið til. En þó bendir margt til þess, að nafnið Þvottahver hafi hann ekki fengið fyrr en á þessari öld, þegar Ólafur Einarsson byggði þvottaskúr þarna rétt hjá.
Á skipulagsuppdrætti frá 1958 er hann kallaður Bæjarhver, en Þvottahver er ekki síður útbreitt í dag.

Um það bil 100 metrum norður af Bæjarhver eru tveir hverir mjög nálægt hvor öðrum; heitir sá syðri Draugahver en sá nyrðri Hildarhver eða Þvottahver. Í báðum þessum hverum þvoði fólk af nágrannabæjum þvott. Kom það víða að, og var þarna oft nokkuð margt um manninn. Þarna þvoði Guðrún Víglundsdóttir í Höfða langt fram á 5. tug þessarar aldar, en hætti því þegar yfirbyggingar vegna virkjunar hveranna voru orðnar svo fyrirferðarmiklar, að tæplega var hægt að komast að með þvotta. Við Hildarhver voru gamlar grjóthleðslur sem þvotturinn var klappaður á.

Uppfært 01/2019