Hvítárbrú hjá Iðu
Mynd Auguste Mayer frá 1835 af Iðuhamri. Greina má Launrétt ofarlega hægra megin.
Hvítárbrú hjá Iðu, eða Iðubrúin, eins og hún er kölluð alla jafna, skipti, í ýmsu tilliti, sköpum fyrir Laugarás og reyndar flesta íbúa uppsveitanna. Stærstu rökin sem notuð voru fyrir þessari brúarbyggingu fólust í bættu aðgengi íbúanna að læknisþjónustu, en árið 1923 var aðsetur læknisins í Grímsneshéraði flutt í Laugarás. Héraðið sem lækninum var ætlað að þjóna var afar stórt: allir þeir hreppar sem taldir eru tilheyra uppsveitum Árnessýslu.
Gamla brúin á Brúará hjá Spóastöðum, byggð 1921
Á þessum tíma var nýkomin brú á Brúará hjá Spóastöðum (1921).
Önnur brú var á Brúará ofan Reykja. Það var hinsvegar snúnara að komast yfir Hvítá. Á svæðinu milli Ölfusárbrúar og Brúarhlaða var engin brú, aðeins ferjur, þar af tvær hjá Laugarási, Auðsholtsferja og Iðuferja. Brúin á Ölfusá var vígð 1891 og var stærsta brú landsins. Brúin við Brúarhlöð var trébrú sem var byggð í tilefni konungskomunnar 1907. Varanlegri brú var sett þar 1930.
Þetta var nú staðan þegar læknissetrið kom í Laugarás 1923.
Brýr og ferjur sem nefndar eru í textanum
Þegar læknissetrið var flutt í Laugarás voru ekki í umræðunni, svo séð verði, hugmyndir um brú á Hvítá hjá Iðu. Um aldir hafði verið lögferja á ánni milli Iðuhamars og Skálholtshamars (Laugarásmegin). Einnig var lögferja á Hvítá við Auðsholtshamar. Þeir sem leita þurftu læknis af Skeiðum og Eystri-Hrepp (Gnúpverjahreppi) þurftu að nýta ferjuna hjá Iðu og íbúar Ytri-Hrepps (Hrunamannahrepps), Auðsholtsferju. Auðvitað nýtti læknirinn einnig ferjurnar til að komast í vitjanir á bæi í þessum hreppum og má nærri geta að ferðir hans í vitjanir hafa oft tekið á, ekki aðeins vegna þess að notast þurfti við ferjurnar í öllum veðrum, heldur voru samgöngutækin að öðru leyti hestar. Í minningarorðum um Óskar Einarsson, lækni, sem starfaði hér í rúmt ár (1923-4), segir:
Laugarás 1908-1910. Herforingjaráðskort.
„...., þoldi ekki ferðalög á hestbaki í því stóra héraði,...“.
Þegar upp er staðið, var læknishéraðið umkringt óbrúuðum ám, utan brúarinnar sem kom á Brúará hjá Spóastöðum 1921.
Læknirinn sem tók við af Óskari var Sigurmundur Sigurðsson, sem var læknir í Laugarási frá 1925-1932. Á hans starfstíma kom brú á Tungufljót (1929) og ný brú við Brúarhlöð (1930). Við af honum tók Ólafur H. Einarsson, sem var héraðslæknir í 15 ár, eða til 1947. Þá tók Knútur Kristinsson við og hans tíma lauk tveim árum áður en Hvítárbrúin var opnuð. Jón G. Hallgrímsson tók við af honum, en hvarf á braut nokkrum mánuðum fyrir opnun brúarinnar árið 1957. Þannig var það Grímur Jónsson sem fyrstur lækna í Laugarási gat brunað í vitjanir um allar trissur, en hann var læknir í Laugarási um 10 ára skeið.
uppf. 06.2021