Guðmundur Bergsteinn Jóhannsson
(1942-2005)
Héraðslæknir í Laugarási 1972-1983, með stuttum hléum.
Uppruni
Guðmundur fæddist 4. febrúar 1942. Foreldrar hans voru Sesselja Helga Jónsdóttir (1916 -2006), húsfreyja, og Jóhann Salberg Guðmundsson (1912-1999), sýslumaður á Hólmavík og sýslumaður og bæjarfógeti á Sauðárkróki. Guðmundur var annar í röð fjögurra bræðra.
Nám og störf
Guðmundur ólst upp á Hólmavík til 16 ára aldurs, en fluttist til Sauðárkróks árið 1958. Hann varð stúdent frá M.A. 1962 og lauk læknaprófi frá H.Í. 1969.
Á námstíma, kandídatsári og árunum þar á eftir, starfaði hann m.a. á Þórshöfn og á skurðdeild og röntgendeild Borgarspítalans.
Árið 1972 varð hann héraðslæknir í Laugaráshéraði með hléum til ársins 1983, en á þessum tíma fór hann til Svíþjóðar þar sem hann aflaði sér sérfræðiréttinda í röntgenfræðum. Hann tók síðar að sér afleysingar á röntgendeildum í Svíþjóð, sjúkrahúsinu í Helsingjaborg og Háskólasjúkrahúsinu í Lundi. Sumarið 1986 var hann yfirlæknir á röntgendeild við sjúkrahúsið í Falköping.
Frá árinu 1983 til 2004 var hann heilsugæslulæknir á Heilsugæslustöð Selfoss og röntgenlæknir á Sjúkrahúsi Suðurlands frá 1980 en þá hófst röntgengreining og síðar ómskoðanir á sjúkrahúsinu þar.
Á árunum í Laugarási sat hann í barnaverndarnefnd og heilbrigðisnefnd Biskupstungna. Hann var mikill tónlistaráhugamaður, lærði ungur á trompet og bætti síðar við kunnáttu sína. Hann var félagi í Oddfellowstúkunni Hásteini á Selfossi og í frístundum fékkst hann nokkuð við prófarkalestur og þýðingar.
Fjölskylda
Árið 1963 kvæntist Guðmundur Jósefínu Friðriksdóttur, kennara (1942-2024). Þau eignuðust börnin Sigurð Hrafn (1963-2002) og Helgu Salbjörg (1967).
Uppfært 06/2024