Seinni tíma örnefni
Hér í lokin ætla ég, mest að gamni mínu, að geta nokkurra nafna, sem orðið hafa til um vegi í hverfinu. Heimildamaður fyrir þessum nöfnum, sem tæpast flokkast með örnefnum, verður að teljast ég sjálfur. Fyrir svo sem 15 árum hygg ég að þessi nöfn hafi verið flestum hverfisbúum tungutöm en það kann að hafa breyst á seinni árum.
Er þar fyrst að telja, að vegurinn gegnum hverfið er að sjálfsögðu nefndur Þjóðvegurinn, þó opinberlega heiti hann Skálholtsvegur. Af honum, um það bil 300 metrum norðaustan við Iðubrú, liggur vegur til suðausturs að læknisbústöðunum þremur. Hefur sá verið kallaður Launréttargata og húsin við hann nefnd Launrétt I, II og III.
Vegurinn af þjóðveginum inn í hverfi, að brekkunni upp að gamla læknisbústaðnum, heitir Heimreiðin, en brekkan sjálf Helgabrekka eftir Helga Indriðasyni, fyrrum bónda hér. Nafnið tilheyrir veginum en á fyrri tíð hafði fólk nafn á sjálfri brekkunni, eins og fyrr er rakið.
[Gatan sem BH nefnir Heimreiðina, heitir nú Skúlagata, eftir Skúla Magnússyni í Hveratúni. Brekkan, Helgabrekka, kallast nú Hverabrekka. Innskot PMS].
(mynd pms)
Af Heimreiðinni liggur svo vegur norður með Laugarásholtinu, og var hann kallaður Dungalsvegur eftir Páli Dungal, garðyrkjubónda í Ásholti, en hann var fyrstur til þess að reisa býli við veg þennan. Annað nafn á vegi þessum er Ásvegur, og er það þá annaðhvort eftir lóð Páls, eða þá Laugarásásnum. [Dungalsvegur, eða Ásvegur virðist nú hafa fengið nafnið Skógargata. Innskot PMS]
Úr myndskeiði Magnúsar Skúlasonar frá ágúst 2015.
Ásvegur endar svo við krossgötur, þar sem Auðholtsvegur liggur frá þjóðveginum og niður að Auðholtshamri, en Höfðavegur í beinu framhaldi af Ásvegi og að bænum Höfða. Heimreiðin, Ásvegur, Auðholtsvegur og Þjóðvegurinn mynda saman Stóra hringinn en innan hans eru 8 garðyrkjubýli og ein stór lóð að auki. [Gatan sem BH nefnir Auðsholtsveg heitir nú Ferjuvegur. Innskot PMS]
Uppfært 01/2019