Landamerki

Kort af Laugarásjörðinni eins og það er birt í Kortasjá SASS í janúar 2019.


Hér framan við örnefnaskrána sjálfa birti ég orðrétt landamerkjalýsingu Laugaráss frá 1886.

Landamerki milli jarðanna Laugaráss og Höfða: Varða sem stendur á Holtsrana í sundi, sem gengur yfir þvert Langholt, milli sauðahústóttar frá Laugarási og sauðahúss frá Höfða, úr þeirri vörðu eptir upphlöðnum vörðum niður í Undapoll í beina stefnu í norðuröxlina á Mosfellsfjalli. Svo aptur úr vörðunni á Holtsrananum austur í Hvítá beint að sjó í norðurendann á Selholtunum sömuleiðis eptir upphlöðnum vörðum. Svo ræður Hvítá að austan og sunnan vestur í Undapoll; svo Undapollur milli Skálholts og Laugaráss. (Afrit af Landamerkjabréfi á skrifstofu Sýslumanns Árnessýslu á Selfossi).

Undir þetta rita Guðmundur Vigfússon bóndi í Laugarási og bændur í Skálholti og Stórafljóti, en neðst er ritað: ,,Eigandi jarðarinnar Höfða er þessu samþykkur.“ 

Ekki er ljóst hvort bóndinn á Stórafljóti er eigandi Höfða eða hvaða hagsmuna hann hefur haft að gæta. Aðeins tvær jarðir liggja að Laugarásjörðinni, Skálholt og Höfði. ,,Svo ræður Hvítá,“ svo notuð séu orð landamerkjabréfsins. Jörðin mun vera um 300 hektarar og hefur verið meðal jörð, 20 hundruð að fornu mati.

Teikning Atla Harðarsonar, en hún fylgdi grein Bjarna í Árnesingi. Páll M. Skúlason færði örnefni inn að nýju og bætti tveim við: Böðvarsskeri og Brennuhól.

Iðuhamar þar sem brúarstöpullinn er vinstra megin, en hinn stöpullinn stendur á Skálholtshamri. (mynd frá Vegagerðinni)

Örnefni verða nú rakin og landamerkjalýsingin þá skýrð þegar að þeim hluta jarðarinnar kemur. Byrjað er við Iðubrú [Hvítárbrú hjá Iðu]. 

Iðubrú liggur yfir Hvítá þar sem hún er mjóst og straumhörðust. Beggja vegna stendur brúin á hamri. Heitir Iðuhamar að sunnan, í Iðulandi, en Skálholtshamar að norðan, Laugarásmegin, en algengt var, að fólk kallaði hann einnig Iðuhamar, þó hitt sé vafalaust eldra og réttara.
Á Skálholtshamri, þar sem brúarstöpullinn stendur núna, var áður grasi gróinn blettur, og á honum allstór tóft eftir ferjumannskofa. Önnur tóft er í hólnum norðan við brúna vestan þjóðvegar, rétt ofan við dæluskúr vatnsveitunnar. (um þetta er fjallað í kaflanum um Roða-Teit)

Uppfært 01/2019