Knútur Kristinsson (1894-1972)
Héraðslæknir í Laugarási 1947-1955
Knútur fæddist að Söndum í Dýrafirði, og lauk kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands, árið 1922.
Hann byrjaði að stunda læknisstörf eftir að hafa lokið fyrrihlutaprófi, sem aðstoðarlæknir í Keflavík. Tók svo að sér afleysingu fyrir bróður sinn, Halldór Kristinsson, í Reykjarfjarðarhéraði á Söndum, með aðsetur í Kúvíkum, vetrarlangt. Hann var auðvitað alls óreyndur á þeim tíma, og hafði t.d. aldrei verið viðstaddur barnsfæðingu.
Síðan var hann staðgengill fyrir lækna um skamman tíma á hverjum stað, á Stórólfshvoli, Patreksfirði og Flatey áður en hann hélt til Kaupmannahafnar til náms á fæðingarspítala.
Eftir dvölina í Kaupmannahöfn fékk hann Nauteyrarlæknishérað í N-Ísafjarðarsýslu og bjó þar fyrst í Skálvík í Mjóafirði og síðan á Arngerðareyri á Langadalsströnd.
Árið 1930 tók hann við embætti í Hornafirði og var þar í 13 ár. Þar kynntist hann konu sinni Huldu Þórhallsdóttur (1912-1981). Eftir Hornafjörð var hann 4 ár á Reykhólum.
Knútur tók við embætti héraðslæknis í Laugaráshéraði árið 1947 og þjónaði því til 1955, þá rúmlega sextugur. Um þennan tíma segir Knútur:
Frá Reykhólum fór ég í Laugaráshérað. Það er fjölmennast þeirra sem ég hef þjónað: í því voru á þriðja þúsund manns. Það nær yfir sex hreppa í Árnessýslu, enda var þar mikið að gera og ég oft þreyttur, ekki sízt þegar vegir voru slæmir og ég hafði brotist áfram einsamall á bílnum dag- eða næturlangt. Í þessu héraði eru fjórir prestar, en aðeins einn læknir, má því ætla að fljótlega sé ráðin bót á þeim sálarmeinum, sem kunna að þjaka fólkið, þó erfiðlega gangi að lappa upp á líkamann. Komið gat þó fyrir að læknirinn þurfti að vera hálfgerður sálnahirðir – því svo virðist, sem nokkuð náið samband sé milli líkama og sálar.
Ég leit aldrei á mig sem mikinn lækni, og hafði minnimáttarkennd ef ég stóð andspænis verkefnum sem ég taldi mig ekki færan um að leysa. Hins vegar tókst mér, þrátt fyrir þetta, að koma mér vel við fólkið, og vinna mér nokkra tiltrú þess.
Árið 1955 hætti ég í Laugaráshéraði og sagði af mér læknisstörfum. En um næsta nýár hringir Vilmundur Jónsson sem þá var landlæknir, til mín og biður mig fara í Dalahérað sem staðgengill í sex mánuði. Um það bil er sá tími var að verða útrunninn, hringir landlæknir aftur og biður mig að fara til Flateyjar á Breiðafirði. „Fyrst Guðmundur Thoroddsen gat farið til Grænlands á gamals aldri, ættuð þér að geta farið í Flatey.“ Þar var ég svo fjögur ár. Þetta var ágæt ráðstöfun. Flatey varð einskonar elliheimili fyrir mig. Í læknishéraðinu öllu voru svona 160-180 manns. þar af í eyjunni sjálfri 40-50 og fór fækkandi. Þetta var flest gamalt fólk, sem lítil umsvif gat haft.
Þegar ég var í Flatey var hún í eigu margra manna. Fæstir þeirra nytjuðu sína eignarhluta sjálfir, heldur leigðu öðrum fyrir eftirgjald, sem nam 1 kg af dún fyrir hvert jarðhundrað.
Árið 1960 fór Knútur úr Flatey eftir að hafa sinnt læknisþjónustu í 40 ár.
Knútur og Hulda eignuðst ekki börn, en kjördóttir var Hulda, f. 18. des. 1933, systurdóttir Huldu.
(byggt á bókinni Leifturmyndir frá læknadögum sem Bókamiðstöðin gaf út 1970)
Knútur lést árið 1972 og um hann voru skrifaðar minningargreinar, eins og gengur, og er þar dregin um talsvert ólík mynd af honum sem lækni, en sú sem hann gerir sjálfur í frásögninni í “Leifturmyndir frá læknadögum”.
Rósa B. Blöndals, búsett á Mosfelli í Grímsnesi á tíma Knúts í Laugarási, fór um hann fögrum orðum, meðal annarra þessum:
Hann vildi böl bæta, — ekki með stærri neyð, heldur með bættum kjörum alþýðu. Það reyndist með nýjum tímum auðveldara að bæta úr fátækt en öðru lífsböli.
Knútur læknir var fríður maður, gáfaður og skemmtilegur. Allra manna var hann góðgjarnastur.
Hann var áræðinn maður, óttalaus á ferðum, hræddist hvorki skriðuföll né önnur torleiði, hræddist ekki „brimgný né tryllta vinda. Vanur beint fram í voðann að hrinda, halda eitt strik og hika ekki við." Hann lét ekki sjúkling bíða þjáðan til morguns eftir hjálp sinni, væri hann beðinn líknar um kvöld eða nótt, - ekki heldur þótt hann þyrfti sjálfur að fara langa og erfiða leið. Hann var læknir af Guðs náð.Hann fór frá erfiðu læknishéraði á Vestfjörðum í annað fullt eins erfitt hérað á Suðausturlandi. Þar fékk hann sína elskulegu konu, Huldu Þórhallsdóttur. Hún var bæði glæsileg kona og samhent lækninum í líkn og ástúð við aðra menn.
Þegar hann var í Laugarási, þá fór hann stundum yfir Hvítá á svo veikum ísi, að krapaði milli vaka, og ísspöngin dúaði undir fótum hans. Það var eins og jörð, ár og sær hefðu svarizt í bræðralag um það að granda honum ekki.
Ein var sú „krafa", sem Knútur læknir gerði. Hún var sú að vera sjálfur alltaf reiðubúinn, ef sjúklingur þurfti á læknishjálp að halda og til hans var leitað. Kjörorð hans var, eins og Þorláks helga:”Sæll er sá þjónn, sem Drottinn finnur vakandi, þá hann kemur.” Að vísu heyrði ég lækninn aldrei segja þetta, en hann lifði eftir því.
Knútur var organisti Skálholtskirkju.
Á Laugarásárunum veiktist frú Hulda af þeim sjúkdómi, sem olli varanlegum heilsubresti, - og læknirinn veiktist einnig alvarlega og varð að hverfa frá embætti og fluttu þau þá til Reykjavikur.
Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en tóku í fóstur systurdóttur Huldu Þórhallsdóttur, Huldu að nafni. Einnig ólst þar upp að miklu leyti annar systursonur Huldu, Haukur Dan Þórhallsson skipstjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, auk annarra ungmenna, sem áttu skjól á heimili þeirra hjóna.
Önnur kona, Þóra Einarsdóttir frá Kálfafellsstað, bar Knúti einnig vel söguna:
Eitt sinn var sagt: Teldu aldrei stundirnar, sem þú vinnur án endurgjalds, öðrum til heilla eða hjálpar, gefðu eitthvað af sjálfum þér. -Aðeins á þann hátt verða menn ríkir, af þeim auðæfum, sem ein hafa nokkuð gildi. Knútur Kristinsson var ríkur maður. Elskaður og virtur af öllum, sem urðu á vegi hans. Það er gott, og þykir flestum sjálfsagt, að eiga sér vini, á meðan maðurinn er enn ungur, - fyrst seinna sjáum við, hve dýrmætir þeir eru. Við vinir hans verðum að hafa það hugfast, að öðlast vináttu manns eins og Knúts Kristinssonar, var eins og hver önnur gjöf, sem forsjónin miðlaði okkur af gæðum sínum, og vera jafnframt þess minnug, eins og ég tók fram í upphafi. „Hinir vitru segja, að dauðinn sé líf" Knútur Kristinsson var svo einlægur í trú sinni á framhaldslíf, eftir líkamlegan dauða, að ég er sannfærð um, að hann, í krafti hans, sem öllu ræður, í krafti hans, sem aldrei verður aflfátt, í æsku, sem aldrei eldist, verður fengið í hendur verkefni, sem hann verðskuldar, og hefur áunnið sér með lífi sínu í þessari jarðvist.
Þóra Einarsdóttir skrifaði einnig minningargrein um Huldu, eftir lát hennar 1981:
Lítil breyting varð á heimilsháttum frá bernskuárum Huldu, þau hjón héldu uppi reisn staðarins af sama höfðingshætti og fyrr. Þar var mannmargt og gestkvæmt. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en áttu kjördóttur, Huldu, systurdóttir Huldu Þórhallsdóttur sem var augasteinn þeirra. Einnig dvaldist með þeim á Hornafirði faðir Huldu, höfðinginn Þórhallur, ásamt kjörsyni sínum Hauki Dan, auk annarra ungmenna, sem voru þar heimilisföst um lengri eða skemmri tíma.
Landsíminn var til húsa á Garði, og var Hulda símstöðvarstjóri um árabil. Einnig hafði símstöðin talstöðvarþjónustu fyrir bátaflotann, sem var mikið öryggi fyrir sjómenn á hafi úti, einkum á stríðsárunum. Hulda Þórhallsdóttir fékk verðlaun fyrir þá þjónustu er hún varð til að bjarga togaranum Narfa frá Hrísey, frá bráðum voða, vegna árvekni sinnar og snarræðis.
Hulda var úrræðagóð og hjálpsöm svo af bar, og manni sínum stoð og stytta í starfi hans. Þá þekktust ekki heilsuverndarstöðvar úti á landsbyggðinni, né fastir viðtalstímar hjá læknum. Sjúklingar fengu inni á læknisheimilinu meðan beðið var eftir ferð „suður", eða þeir þurftu að vera í námunda við lækni vegna sjúkleika.
Hulda Þórhallsdóttir hlaut í vöggugjöf glæsimennsku svo af bar, frábæra sönghæfileika sem svo ríkjandi eru hjá ættmönnum hennar, glaðværð og hlýtt viðmót. Þrátt fyrir mótlæti og veikindi, sem fæstir fara varhluta af, reyndist stilling meðfæddur eiginleiki og trú beiskjunni yfirsterkari. Hulda Þórhallsdóttir bar ekki sína eigin sjúkrasögu né vonbrigði á torg, og kvartaði ekki undan eigin mótlæti. Var hún þó manna fljótust til að rétta öðrum hjálparhönd og sýna samúð í orði og verki. Ótaldir eru þeir sem komu til frú Huldu með sorgir sínar og áhyggjur. Hún hafði lag á að gefa þeim skerf af bjartsýni sinni og glaðværð.
Þóra Einarsdóttir.
Uppfært 06/2024