Vað á Hvítá - kross til varnar í neyð
Milli Draugahvers og Bæjarhvers bungar landið lítillega upp, og þar eru Hverahólmar (fyrr nefndir). Á hólma þessum fannst við jarðrask fyrir miðja öldina fornt hellugólf sem ÓE taldi geta verið eftir baðhús eða laug. Um nákvæma staðsetningu þessa veit ég ekki.
Brekkan upp af hólmanum heitir Hverabrekka og holtið þar Laugarás eða Laugarásholtið. Á því var gamla bæjarstæðið, þar sem nú er gamla læknishúsið. Suðvesturhluti holtsins, beint ofan við Vöðlana, heitir Krosshóll, og er norðurendi hans á lóðamörkum Lindarbrekku og sumarbústaðarlóðar Sigurðar Sigurðssonar landlæknis (d . 1986), sem hann sjálfur kallaði Krosshól, en er í daglegu tali nefnd Sigurðarstaðir.
Fyrir neðan Krosshól er tangi, sem gengur út í Vöðlana; heitir hann Gœsatangi; er það nýtt örnefni, dregið af því, að þarna gengu aligæsir Ólafs Einarssonar. Þegar Runólfur var hér, var talað um Tangana sem samnefni á öllum þeim töngum og nesjum, sem út í Vöðlana ganga. Þar þóttu góðar slægjur.
Sunnan við Gæsatanga, við suðurenda Krosshóls, er lítill hver, sem í seinni tíð hefur verið kallaður Sigurðarhver. Austan og neðan við Krosshól er hvilft inn í holtið, og var hún kölluð Dalurinn. Vestan undir Dalnum er mýri, sem stundum var slegin og kölluð Dýjamýri, þegar Sigurmundur læknir var hér.
Krosshóll vísar beint á Vaðið, fornt vað í Hvítá, þó tæplega sé það réttnefni nú. Er þar komin skýring á nafni hólsins, þar sem oft var settur kross beint á móti vaði til hjálpar mönnum í háska. Engar sagnir eru mér vitanlega til um þetta vað á ánni og um aldir hefur það verið haft fyrir satt að Hvítá væri hvergi væð svo neðarlega.
(Sunnlenskar byggðir I. Búnaðarsamband Suðurlands 1986. Bls. 17. Sbr. vísu Æra Tobba sem sagt er að hann hafi kveðið á Skálholtshlaði þegar ferðamenn spurðu hann eftir vaði á ánni:
Veit ég víst hvar vaðið er,
vil þó ekki segja þér.
Fram af eyraroddanum,
undan svarta bakkanum.
(Segir sagan að skáldinu hafi verið skemmt þegar ferðalangarnir drukknuðu í ánni.)
Til eru sagnir frá fyrri öldum um að áin hafi verið sundriðin á þessum slóðum en frægust þeirra frá drápinu á Jóni Gerrekssyni biskupi 1433 þegar Teitur í Bjarnanesi og hans menn komu austanað.
„Þá var fyrst riðin áin á Þengilseyri,“
(Skírnir, Rv. 1959, bls. 56) segja annálar og hefur ferjan væntanlega verið vöktuð af mönnum biskups.
Rétt hjá Vaðinu, aðeins neðan við beygjuna á ánni, eru leifar af hlaðinni bryggju, og voru þar lögð út net og færi langt fram á þessa öld. Með veiðilögum frá miðri öldinni voru svona mannvirki til netalagningar bönnuð, og hefur þessari gömlu hleðslu ekki verið haldið við síðan.
Lindin, sem Lindarbrekka dregur nafn sitt af, er í litlum gilskorningi, sem gengur inn í Laugarásholtið á nyrðri lóðarmörkum Lindarbrekku . Utan um hana er steypt þró, enda var hún áður vatnsból ábúenda.
Uppfært 01/2019