Brúin eða rafmagnið?
1950
Einar Sigurfinnsson
Það má nærri geta, að heimamenn voru orðnir langeygir eftir að eitthvað gerðist í málinu, en flestir samt ekki talið sig þess umkomna að tjá sig um það á opinberum vettvangi. Einar Sigurfinnsson, bóndi á Iðu (1884-1979) hafði kannski umfram marga aðra beina hagsmuni af því að af brúargerðinni yrði sem fyrst og hann ritaði grein sem birtist í Alþýðublaðinu 13. ágúst 1950 undir fyrirsögninni:
Hvað dvelur Hvítárbrú við Iðu?
Orðsending til þingmanna Árnessýslu og vegamálastjórnar Íslands.
Séð yfir Iðu af Suðurási að ferjustaðnum (mynd frá Iðu)
Þarna segir Einar, meðal annars:
Fyrir næstsíðustu alþingiskosningar hrósuðu þingmenn Árnessýslu sér mjög af því, að þeir hefðu með harðfylgi og dugnaði fengið samþykkta þingsályktun um að brú á Hvítá hjá Iðu skyldi byggð og fullgerð fyrir árslok 1948.
Ekki veit ég hvort þetta var aðeins kosningabeita af hálfu þingmannanna eða þingsins í heild. En menn glæptust á að trúa að hér væri af heilindum mælt, en ekki með ákveðin svik í huga. En svo mikið er víst, að ekki er verk þetta enn hafið.
Ég er nú svo gamaldags að álíta að alþingi sjálft — sú virðulega stofnun — megi ekki svíkja gefin heit, að það verði að standa við gerðar samþykktir, jafnvel þótt einstakir þingmenn telji sér engan vanza að svíkja sín hátíðlegustu loforð.
Heyrzt hefur, að verið sé að smíða þessa brú í Englandi, en aðrir fullyrða, að sú brú eigi að fara eitthvað annað. Hvað satt er í þessu veit ég ekki. En eitthvað „dvelur orminn langa". Eitthvað tefur þessa nauðsynlegu samgöngubót.
Síðan leiddi Einar fram helstu rökin fyrir brúarsmíðinni, en sagði svo:
Ferjumaðurinn Loftur Bjarnason á Iðu á ferjubát við Iðuhamar. (Mynd frá Iðu)
Okkur Iðubúum þykir all þung kvöð á okkur hvíla að verða að gegna ferjukalli, hvernig sem á stendur, í hvaða veðri sem er, á nótt sem degi. Og þótt við séum seinþreyttir til vandræða, getur að því rekið, að við neyðumst til að gera verkfall, ef stjórn samgöngumálanna sýnir ekki betri vott skilnings á starfi ferjumanna hér eftir en hingað til. Enda er það sjálfgert, því nú fæst ekki spýta í bátsár, hvað þá borðstubbi til að gera við ferjubát. En ferjubátar fyrnast og bila fljótt. Þeim er lagt í ísskrið og jakaþurð, sem mjög reynir á traustleika þeirra og illa getur farið, ef ár brotnar, þegar ferjuskilyrði eru slæm.
1951
Séð yfir Iðubæi og ferjustaðinn áður en framkvæmdir við brúna hófust. (Mynd frá Iðu)
Fleiri uppsveitamenn áttu eftir að tjá sig um brúarmálið, en í millitíðinni var greint frá því í blöðum, að framkvæmdir við brúargerðina væru hafnar. Þannig sagði í fyrirsögn í Tímanum í september 1951:
Hafin er bygging stórbrúar á Hvítá hjá Iðu.
Brúin verður lengri en Ölfusárbrúin hjá Selfossi og mikil samgöngubót í héraðinu.
Í fréttinni sagði ennfremur:
Síðustu dagana fyrir helgina var verið að flytja að vélar og áhöld til brúarsmíðinnar. Skálar fyrir verkamenn voru fluttir í heilu lagi á stórum bifreiðum frá Selfossi og öðrum vinnustöðvum vegagerðarinnar eystra. Loftbor var fluttur þangað til að bora vegna sprenginga en allmikið þarf að sprengja úr klöppum í sambandi við brúarsmíðina. Mun eitthvað hafa staðið á því, að framkvæmdir gætu hafizt vegna þess, að sprengiefni vantaði og var ekki komið til landsins.
Í haust mun ekki ætlunin að vinna nema að undirbúningsframkvæmdum hjá Iðu. Ráðgert er að ganga frá undirstöðu undir stöplana og ef til vill steypa þá. En brúin sjálf verður ekki reist fyrr en næsta sumar, og þá ekki talið ólíklegt, að hægt verði að opna hana til umferðar næsta haust.
Teikning að Hvítárbrú hjá Iðu frá 1950. (Mynd frá Vegagerðinni)
Árni G. Eylands (mynd: Landbúnaðarsafn Íslands)
Það var ekki aðeins forgangsröðun í brúabyggingum sem tafði fyrir framkvæmdum á Iðu, því á þessum tíma blönduðust raforkumál í umræðuna. Í grein í Samtíðinni í október, 1951, sem fjallaði um endurreisn Skálholts skrifaði Árni G. Eylands um raforku og brúarmálin eins og þau myndu bæði geta gengið í gegn á sama tíma. Hann sagði m.a.:
Skálholt hefur hímt í myrkri um skeið, en það á að vera bjart yfir staðnum bæði í orði og verki. Ljósið frá Ljósafossi þarf að ná þangað og lýsa þar og sem víðast um Suðurland. Það væri glámskyggni að ganga framhjá því, að það er að byrja á öfugum enda og fálm, en ekki skynsamleg framkvæmd, að efna til mikilla hluta í Skálholti, án þess að jafnframt sé leitt þangað rafmagn frá Soginu. Og það stendur vel á spori um þetta. Brúin á Hvítá hjá Iðu kemur alveg á næstunni.
Árið 1950 var lokið við að leggja veg að fyrirhuguðu brúarstæði, beggja vegna.
1952
Teitur Eyjólfsson
Í byrjun árs 1952 birtist grein í Tímanum eftir Teit Eyjólfsson, bónda í Eyvindartungu (1900-1966), en hann var um tíma oddviti Laugardalshrepps, undir fyrirsögninni:
Raforkan og sveitirnar
Þessi grein átti eftir að koma talsverðu róti á hugi margra. Í greininni fjallar hann um miklvægi þess að lokið verði við rafvæðingu í uppsveitunum.
„Þó stærsta orkuver landsins sé í Grímsnesi, og hefir sent ljós og yl á annan áratug í þéttbýlið vestan fjalls, þá sitja sveitabæirnir í Grímsnesi enn þann dag í dag í sama myrkrinu og var, er Ketilbjörn hinn gamli nam þar land“.
Hann lýsti þeirri skoðun að ekki væri hægt að „gera þrotlausar kröfur á hendur ríkinu nema hægt sé að benda á leiðir til að afla fjárins“. Hann lagði því til að fé það sem ætlað hafði verið til byggingar brúar hjá Iðu yrði sett í að koma raforku á alla sveitabæi í héraðinu. Hann taldi að megin rökin fyrir brúnni, væru bætt aðgengi að læknisþjónustu og það væri einfalt að leysa með því að skipta héraðinu þannig, að læknir yrði bæði í Laugarási og austan Hvítár.
Síðan sagði Teitur:
„Nú vaknar sú spurning við athugun þessa máls, hvort það yrði ekki meiri lyftistöng fyrir héraðið, að þessar millj. yrðu lagðar í rafveitur um Skeið, Hreppa og Biskupstungur, en brúin yrði látin bíða, — betri tíma“.
Og loks:
Og það virðist háskaleg léttúð, að binda svo mikið fé í þriðja steinboganum yfir Hvítá, á sama tíma og fyrirsjáanlegt er, að hin blómlegu héruð báðum megin Hvítár munu ekki fá raforku á næstu árum vegna fjárskorts.
Eiríkur Jónsson
Eins og nærri má geta urðu viðbrögð við grein Teits. Þar reið Eiríkur Jónsson í Vorsabæ (1891-1963), oddviti Skeiðahrepps frá 1922-1950, á vaðið með grein í Tímanum 31. janúar:
Eiríkur lýsti sig sammála Teiti varðandi mikilvægi rafvæðingar sveitanna, taldi ekki hættu á að sveitafólkið myndi flytja í stórum stíl í kaupstaðina eins og Teitur hafi haldið fram.
Sú öfugþróun, er komst í okkar þjóðlíf á hernámsárunum, er sem betur fer að snúast við, bæði af því að með aukinni ræktun og þessum og öðrum lífsþægindum, er fólkið farið að sjá það, að varhugavert getur verið að hlaupa beint í ljósið til þess að brenna þar af sér vængina, og í von um betri lífsþægindi, sem mörgum hefir brugðizt, enda er ekki það framundan nú í atvinnulífi kaupstaðanna, að til eftirsóknar sé, betra er því að bíða 2—3 ár eftir rafmagni í sveitirnar heldur rasa að hinu um ráð fram.
Eiríkur fór síðan yfir sögu brúarmálsins og fjallaði um þá samstöðu sem var um það í öllum hreppunum og hafnaði hugmyndum Teits um að skipta læknishéraðinu. Síðan sagði hann:
Mér finnst, að brúargerð og rafmagnsmál séu það óskyld, að ekki þurfi að blanda því saman, og hvað sem þessu öllu líður, þurfi ekki að gera neinar neyðarráðstafanir til þess að fólkið út um byggðir landsins fái þann rétt og þau lífsþægindi, sem því ber, eins og það, sem í þéttbýlinu býr, og það eins fljótt og unnt er.
Þorsteinn Sigurðsson
Í lok janúar birtist í Vísi, viðtal við Þorstein Sigurðsson á Vatnsleysu og þar kom Iðubrúin meðal annars til tals. Þorsteinn sagði:
Á sviði samgöngumála í Árnessýslu tel eg hiklaust merkilegast, að nú hyllir undir áratuga vonir manna um brú á Hvítá hjá Iðu. Undirbúningsframkvæmdir eru hafnar sem kunnugt er og verður verkinu haldið áfram næsta sumar. Allt héraðið mun njóta góðs af þessari samgöngubót og mest aðliggjandi sveitir, og er ekki sízt mikilvægt, er brúin kemst á, að aðstaðan batnar stórlega til sambands við héraðslækninn í Laugarási, en Hvítá klýfur nú læknishéraðið í tvennt. ... Brúin hjá Iðu verður mikið mannvirki, hengibrú, yfir 100 metrar á lengd, og brúarsmíðinni mun vart verða lokið á skemmri tíma en 2 árum.
Brynjúlfur Melsted, vegaverkstjóri
14. febrúar birtist grein Brynjúlfs Melsteð Stóra-Hofi í Gnúpverjahreppi (1889-1974) . Hann kveður skoðanir Teits koma of seint fram auk þess sem brúargerð og rafvæðing séu óskyld mál. Auðvitað heldur hann á lofti rökum sem tengjast læknisþjónustu í Laugarási, en segir svo:
Annað hlýtur að verða þungt á metunum, er deilt er um brú hjá Iðu. En það er Skálholt, staðurinn sem eitt sinn var höfuðsetur íslenzkra mennta og menningar, en er nú fátækari en allt annað íslenzkt.
Áfram heldur Brynjúlfur:
Járnateikning frá 1951 (mynd frá Vegagerðinni)
Það var viturleg ráðstöfun er Sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur. Að vísu var Hvítá þröskuldur á leið læknis austur um hérað, en allir sáu þá að auðvelt var að brúa hana á Iðuhamri. Og þegar brú sú hefur byggð verið, er læknissetrið á Laugarási eins vel sett og hugsast getur í hjarta héraðsins og sýslunnar. Á þessu miðsvæði Árnessýslu um Skálholtsland, Laugarás og Iðu er hið ákjósanlegasta sveitaþorpsstæði, svo að þar skortir aðeins brúna. – Nú þegar er að myndast atvinnuhverfi við gróðurhús og búrekstur í Laugarási. Auk þess hefur Rauði kross Íslands látið reisa þar miklar byggingar með hitalögnum frá hverum og stórum orkuvélum til ljósa og annarra nota. Í þessum húsum er talið að séu stæði fyrir þrjú til fjögur hundruð rúm handa börnum í sumardvöl eða öðrum eftir atvikum.
Teitur Eyjólfsson svaraði síðan í grein þann 19. febrúar:
Ég leiddi nokkur rök að því, að þessi brú væri ekki orðin eins aðkallandi, og hún var í þá tíð, er hún var kosningamál í Árnessýslu. Með fimm miljónum króna, — brúarverðinu - mætti nokkuð flýta fyrir því, að Skeið, Hreppar og Biskupstungur fengju rafmagn á heimili sín.
Ennfremur:
Sveitafólkið getur ekki unað við það eitt, að sjá orkuverin rísa upp í námunda við sig, og fá aðeins að horfa á ljósadýrðina.
Að öðru leyti snerist grein Teits um mikilvægi rafvæðingarinnar fyrir uppsveitirnar.
Einar Sigurfinnsson á Iðu svarar grein Teits í Alþýðublaðinu þann 3. mars, en hún hefst svo:
Í óvenjulegu blíðviðri í mánuðunum október og nóvember síðast liðið haust var unnið að því að sprengja og grafa fyrir stöplum og akkerum fyrirhugaðrar og lengi þráðrar brúar á Hvíta á Iðuhamri. Þar með virðist nú loks hilla undir þessa mikilsverðu samgöngubót, sem flestir eða allir íbúar Biskupstungna, Skeiða eða Hreppa hafa lengi þráð og oft óskað eftir.
---
Og nú loks er verkið hafið. Vegur er lagður að brúarstæðinu báðum megin, verkamannaskálar reistir, vinnusvæði jafnað og íborið og sprengt fyrir stöplum, eins og áður er sagt. Allt virðist nú tilbúið að smíði og steypa geti hafizt strax þegar vorar.
En allt í einu kemur hljóð úr horni, ein hjáróma rödd. Teitur Eyjólfsson bóndi í Eyvindartungu m. m., leggur til að hætt verði við þessa brúarbyggingu, um sinn og að fé því, sem við þetta sparast, verði varið til raflagna um héraðið.
---
Jafnvel raforka, þótt ágæt sé, vegur ekki á móti því öryggi, sem trygg vegasambönd veita. Ef Teitur Eyjólfsson væri búinn að annast ferju á Hvítá eða öðru álíka vatni í nokkur ár, hygg ég að skoðun hans á brúarmálinu myndi allt önnur en skrif hans benda til.
Auðvitað má ímynda sér, með því að fram kemur opinber klofningur í uppsveitunum í viðhorfi til brúarsmíðinnar, að dregið hafi úr slagkraftinum sem kominn var á málið og framkvæmdir raunar hafnar. Þetta er gömul saga og ný: þar sem okkur hefur auðnast að standa saman að verkefnum hefur vel gengið. Hinsvegar má tilgreina ófá góð verkefni sem hafa fallið á samstöðuleysi uppsveitamanna.
Uppfært 08/2024