Grímur Jónsson (1920-2004)
Héraðslæknir í Laugarási 1957-1967.
Inngangur
Grímur var læknir í Laugarási á þeim tíma sem ég var á aldrinum 3-13 ára, svo minni mitt um hann kann að vera gloppótt. Ég man samt að hann var rólegur, hæglátur og vissi alltaf lausnir á vandamálunum. Mér líkaði vel við hann og treysti honum. Ég held að það hafi ekki bara verið barnslegt traust til læknis, enda minnist ég þess ekki að nokkur maður hefði hallað á hann orði í mín eyru.
Börnunum fimm kynntist ég mismikið, helst þeim Jónínu og Þórarni (Dodda), sem eru næst mér í aldri. Krakkarnir í Laugarási áttu heilmikið saman að sælda eins og nærri má geta og ýmislegt brallað.
Ég man nokkuð vel eftir Gerðu, konunni hans Gríms, enda fór hún ekki með veggjum. Hún var afskaplega lífleg og skemmtileg og talaði heilmikið á dönskuskotinni íslenskunni sinni, sem maður átti stundum frekar erfitt með að skilja. Mér er mjög minnisstætt þegar hún var að kalla á syni sína (sérstaklega), en þá stóð hún efst í tröppum gamla læknishússins og hrópaði á þá. Best man ég eftir þegar hún vildi fá Dodda heim í mat: “Doddí!”
Grímur keyrði um á Austin Gypsy, sem mér fannst hálfgerð drusla. Landróverinn hans pabba var talsvert betri bíll. Um þetta gátu orðið heitar umræður í krakkahópnum. (pms)
Uppruni og starfsferill
Grímur Jónsson læknir var sonur hjónanna Jóns Hjaltalíns Sigurðssonar prófessors og Ragnheiðar Grímsdóttur Thorarensens og var næstyngstur átta systkina.
Grímur ólst upp í Reykjavík. Eftir barnaskóla og gagnfræðaskóla brautskráðist hann frá Menntaskólanum í Reykjavík 1939 og lauk embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1937. Hann starfaði síðan sem aðstoðarlæknir á Vífilsstaðahæli 1949-1950, var námskandídat á Landspítalanum 1950 til 1951. Hann var aðstoðarlæknir á Avnstrup í Danmörku 1951 til 1953, aðstoðarlæknir á Arvika sanatorium og lungnasjúkrahúsi 1953 til 1954, aðstoðarlæknir á Vífilsstöðum 1955. Grímur var skipaður héraðslæknir í Reykhólahéraði 1955-1957, héraðslæknir í Laugaráshéraði 1957 til 1967 og héraðslæknir í Hafnarfjarðarhéraði frá 1967 til 1988.
Fjölskylda
Grímur kvæntist 1949 Gerdu Jónsson, (1924-2013) í Kaupmannahöfn.
Börn Gríms og Gerdu eru:
Grímur Jón (f. 1949), Lárus (f.1951, d. 2019), Þórarinn (f. 1952), Jónína Ragnheiður (f. 1956), Bergljót (f.1959) og Egill (f.1962).
Minningarorð samferðafólks:
Grímur var hlédrægur maður og hafði sig ekki mikið í frammi, en það fór aldrei á milli mála að hann var mikill fagmaður á sínu sviði og fremstur meðal jafningja í heimilislækningum. Það var okkur kollegunum mikils virði að læra grundvallaratriði heimilislækninga af Grími, sem einkenndust af ósérhlífni hans, samviskusemi, góðri klínískri dómgreind og mikilli umhyggju fyrir skjólstæðingum sínum. (Emil L. Sigurðsson, Jóhann Ág. Sigurðsson.)
———
Hann átti hug og hjörtu allra sinna sjúklinga og sást það best eftir að hann lét af störfum í Laugarási í Biskupstungum en þar starfaði hann sem héraðslæknir í rúm tíu ár. Þegar bændurnir komu í bæinn kíktu þeir oft inn hjá héraðslækninum sínum gamla og þá var oft glatt á hjalla. Grímur var hægur maður og rólegur, flíkaði ekki tilfinningum sínum og sagði ekki mikið en það sem sagt var var vandað og yfirvegað. (Helga, tengdadóttir)
Uppfært (06/2024