1955

Myndin er frá ábúendum á Iðu og er tekin þegar brúarsmíðinni er lokið.

Myndin er frá ábúendum á Iðu og er tekin þegar brúarsmíðinni var lokið.

Í júlíbyrjun sagði svo í Alþýðublaðinu:

Unnið að brúarsmíði hjá Iðu. Öll vinna við hana lá niðri síðastliðið sumar.

Innan skamms munu hefjast framkvæmdir við brúargerð á Hvítá hjá Iðu. Sú brú mun tengja saman þjóðvegina í Biskupstungum og á Skeiðum og verður hún mesta samgöngubót fyrir Suðurland. — Vegamót í Biskupstungum verða við Brúará, liggur vegurinn síðan í túnfæti í Skálholti og niður í Laugarás. Áður var heimreið að Skálholti úr suðri og er sú aðkoma stórum fegri, sem hin nýja brú hjá Iðu skapar skilyrði til. Í hitteðfyrra var hafizt handa um þessar framkvæmdir og reistur annar stöpullinn. Í fyrra lá hins vegar verkið niðri vegna verkfræðingaverkfallsins. En nú í sumar er áætlað að reisa hinn stöpulinn og sökku, og standa vonir til að hægt verði að ljúka verkinu annað sumar, 1956.

Árið 1955 var ár hinna miklu brúasmíða en þá var meðal annars unnið að þrem stórbrúm sem voru yfir 100 metrar.  Þetta voru, auk Hvítárbrúarinnar (109 m),  brú yfir Skjálfandafljót hjá Stóruvöllum í Bárðardal (113  m) og Hofsá í Álftafirði  S.-Múlasýslu (118 m). Þetta sumar voru 14 brúarvinnuflokkar að störfum vítt og breitt um landið.

Biskupshúsið í byggingu 1956. (Mynd mbl. Ól.K.M))

Í fjölmiðlum var greint frá því að brúarsmíðinni hjá Iðu ætti að verða lokið sumarið 1956. Stór ástæða fyrir þeirri ætlan var Skálholtshátíðin. Mun nefndin, sem fór fyrir endurreisn Skálholtsstaðar og undirbjó hátíðina, hafa lagt mikla áherslu á að svo gæti orðið. Í Þjóðviljanum í maí er þetta haft eftir formanni nefndarinnar:

Er nefndin á sínum tíma hafði heildarathugun Skálholtsmála með höndum sumarið 1954, skoraði hún á stjórnarvöld að flýta lagningu háspennulínu til Skálholts, og er það verk nú mjög langt á veg komið. Ennfremur skoraði hún á stjórnarvöld, að brúin á Hvítá hjá Iðu væri fullgerð fyrri hluta sumars 1956 vegna hinnar miklu umferðar er þá má vænta. Þetta hefur ekki tekizt og er mjög bagalegt vegna hátíðarinnar, þar sem umferðarmálin verða þann dag ákaflega örðug, er ógerlegt að koma á ákveðnum einstefnuakstri. Hins vegar liggja til þeirrar tafar margar orsakir og er ekki á færi byggingarnefndar Skálholts að bæta úr þeim.

 1956

Í Morgublaðinu  þann 12. ágúst er greint frá því að ekki verði af því að brúarsmíðinni ljúki eins og að hafði verið stefnt:

FULLGERÐ NÆSTA ÁR

Í fyrrahaust var lokið við að steypa turnana beggja vegna og þannig standa þeir í dag. Síðan hefur ekkert verið að frekari smíðum unnið, en nú er að því unnið að efniskaup fari fram í vetur og það komi hingað fyrripart sumars næsta ár og verði þá tekið á ný til starfa við að fullgera brúna.

Gjaldeyrisvandræðin hafa valdið því að ekki hefur verið hægt að festa kaup á stáli í hengibrúna.

Skálholtshátíðin var haldin þann 1. júlí, 1956. Lengi höfðu vonir staðið til að Hvítárbrúin hjá Iðu yrði tilbúin fyrir hátíðina, en svo fór ekki.
Það hlýtur að hafa verið mikið að gera hjá ferjumönnunum á Iðu þennan dag, því fólk sunnan ár streymdi að ferjunni, fyrst um morguninn og svo aftur síðdegis til baka.
Myndin var tekin þegar þeir Loftur Bjarnason (rær bátnum nær) og Ingólfur Jóhannsson (fjær) voru að flytja einn hópinn yfir.

Myndin kemur frá Friðsemd Eiríksdóttur frá Vorsabæ, en ljósmyndarinn er líklegast Jón, bróðir hennar. Í bátnum nær, lengst til vinstri, Sigríður Eiríksdóttir frá Vorsabæ. Konan í miðjum bátnum er annaðhvort Guðrún eða Kristín Sveinsdóttir frá Ósabakka.

1957

Síðla sumars þetta ár var hafist handa við að ljúka brúarsmíðinni.

Í lok ágúst var heilmikil grein um verkið í Morgunblaðinu, en það sagði, meðal annars:

Brúin opnuð í vetur

 Það var verið að undirbúa að senda níunda burðarvírinn milli stöpla á hinni nýju hengibrú á Hvítá í Biskupstungum, sem venjulega er kölluð Iðubrú, er við komum þangað austur síðdegis á mánudaginn. Er brúin nú mesta brúarmannvirkið, sem er í smíðum hér á landi, hið veglegasta í hvívetna og mun verða mikil samgöngubót fyrir hinar efri sveitir Árnessýslu. Hófst smíði brúarinnar, sem áætlað er að alls muni kosta 6,5 milljónir króna, árið 1951. Nú eftir um 2 ára hlé við brúarsmíðina, er kominn þangað brúarsmiðaflokkur frá vegamálastjórninni. Er hugmyndin að halda verkinu áfram, þar til brúarsmíðinni er að fullu lokið, og sagði yfirsmiðurinn, Jónas Gíslason, að hann vonaðist til að það gæti orðið í nóvembermánuði n. k.

Um miðjan desember var loks greint frá því að brúin væri opin til umferðar, 15 árum eftir að Eiríkur Einarsson lagði fram tillögu um brúarsmíðina á Alþingi og 27 árum eftir að Geir Zoega, vegamálastjóri greindi frá því, í frumvarpi sem hann samdi, að Hvítárbrúin væri ein þeirra stórbrúa sem fyrirhugað væri að byggja.

Fyrsti bíllinn ók yfir brúna þann 21. nóvember, 1957 og hún var opnuð fyrir almenna umferð 12. desember.  Ekki var framkvæmdunum að fullu lokið þá, en það átti eftir að ganga frá vegfyllingum við brúna og steypa plötur á þær við brúarsporðana. Einhver málningarvinna var eftir, svo og burðarþolspróf, en það fór fram vorið 1958.

Eftir stendur, að Hvítárbrúin var aldrei opnuð formlega, eða vígð og mun það helgast af árstímanum þegar smíðinni lauk.

Það blandast líklega fáum hugur um mikilvægi Hvítárbrúarinnar fyrir byggð í uppsveitum og auðvitað er hún og hefur verið grundvöllur læknisþjónustunnar og síðar heilsugæslunnar í Laugarási, sem hefur nú þjónað uppsveitafólki og gestum á svæðinu í 94 ár á þessu ári.   Án brúarinnar hefði sláturhús SS ekki risið í Laugarási og flest hefði reyndar orðið með öðrum hætti, ekki síst almennar samgöngur um efri hluta Árnessýslu.

Þar til nýja brúin á Hvítá hjá Bræðratungu var opnuð, var Hvítárbrúin hjá Iðu auðvitað enn mikilvægari en hún er nú.

Uppfært 08/2024