Að komast að og frá Laugarási

Það þarf ekki að velta vöngum sérstaklega um það, hvernig samgöngum var háttað í kringum Laugarás í byrjun 20. aldar. Þrjár lögferjur voru þá starfræktar: tvær á Hvítá og ein á Brúará. Fyrsta brúin í nágrenninu kom á Brúará hjá Spóastöðum, árið 1921 og svo á Hvítá hjá Iðu árið 1957.

Hér er fjallað um samgöngur í og í grennd við Laugarás á fyrstu þrem áratugum 20. aldar, um það bil.

Ferjurnar

Í aldir þurftu ferðalangar að reiða sig á ferjur eða vöð til að komast yfir ár og fljót. Ferjustaðirnir voru þá alla jafna í grennd við bæi og ef um var að ræða lögferju, var ábúendum skylt að ferja þá yfir, sem yfir þurftu að komast, ef nokkur kostur var. Í uppsveitunum voru nokkrar lögferjur í upphafi síðustu aldar, þegar Grímsneslæknishérað var stofnað. Helstu lögferjurnar voru á Brúará hjá Spóastöðum, til 1903, og hjá Reykjanesi í Grímsnesi, frá 1899 þar til brúin kom við Spóastaði, á Hvítá hjá Auðsholti og þjónað þaðan og Iðuferja, sem bændurnir þar þjónuðu. Einnig má nefna ferju á Tungufljóti, hjá Króki. Vissulega voru ferjur á fleiri stöðum, en þar var ekki um að ræða lögferjur, sem sérstök lög giltu um.
Á þessum vef er í sérstökum þáttum, fjallað um Iðuferju og Auðsholtsferju.

Heilmiklar upplýsingar er að finna um starf ferjumanna á þessum vef.

Vegasamgöngur

Skálholt, Laugarás og efsti hluti Skeiða um 1910. Inn á kortið eru teiknaðir vegir eins og þeir eru í á fyrri hluta 21. aldar. Kortið er herforingjaráðskort samkvæmt mælingum frá 1908.

Á kortinu hér fyrir neðan má sjá vegakerfið í grennd við Laugarás og Skálholt í upphafi 20. aldar. Rauðar brotalínur hafa verð teiknaðar inn á herforingjaráðskort Dana, til að sýna hvar vegir liggja nú.

Bréf Skúla læknis til sýslunefndar.

Skúli Árnason, læknir, fjallaði talsvert um vegamál í árlegum bréfum til sýslunefndar, fyrstu árin eftir að hann settist að í Skálholti. Bréfin sendi hann jafnan í lok mars eða byrjun apríl frá árinu 1900 til 1910. Umfjöllunin hér um samgöngumálin í kringum Skálholt og Laugarás á fyrstu árum aldarinnar, byggir að mestu leyti á bréfum Skúla.

Vegurinn að Iðuferju að sunnan

Það er dálítið mismunandi eftir kortum hvar brautin frá ferjustaðnum lá. Á kortinu hér til hliðar lá hann austur með Hvítá og síðan með Stóru-Laxá, suður undir Ósabakka. Á öðru korti frá svipuðum tíma liggur braut frá ferjunni, vestur fyrir Brúnarás og síðan um hlaðið hjá Iðu og þaðan niður að Hvítá.
Önnur braut lá frá Iðu vestur að Hvítá og síðan suður með henni að Fjalli á Skeiðum.

Eins og vænta má, safnaðist vatn í læki og rann síðan sem leið lá í næstu, heppilega á. Í þessu tilviki var það Stóra-Laxá. Þar sem brautin frá Iðuferju niður á Skeið lá með ánni, var yfir læki að fara og á einum stað nefnir Skúli fimm læki, skurði eða ósa á þessari leið, miserfiða yfirferðar og misjafna eftir árstíðum.

Í bréfi sínu til sýslunefndar vorið 1904 kallar Skúli eftir að settar verði hið bráðasta, brýr “yfir ósinn fyrir austan Eiríksbakka og sömuleiðis yfir smáós skamt fyrir vestan Ósabakka í svokölluðum Landskörðum.”

Það er ekki hægt að segja að sýslunefndin hafi stokkið til og skellt þessum tveim brúm á ósana. Árið eftir voru brýrnar enn á dagskrá í bréfi Skúla: “þarf að gjöra 2 smábrýr á sýsluveginum frá Iðu ferjustað að Ósabakka” og hann bætti við ósk um bætt aðgengi að ferjustaðnum sunnan megin: “og ennfremur að gjöra færan veg frá dragferjunni austur fyrir Iðuhamar. Hamarinn er snarbrattur þar sem fara verður niður af honum, og mjög grýttur.”

Enn kallaði Skúli eftir vegabótum vorið 1907, enda hafði greinilega fátt gerst: “Milli Ósabakka og Eiríksbakka eru 2 ósar óbrúaðir, annar skamt fyrir austan bæinn á Eiríksbakka en hinn fyrir utan Ósabakka að austanverðu við svokölluð Sandskörð [sjá kort]. Ósar þessir eru með öllu ófærir í leysingum á vetrardegi og oft ekki fært að komast hjá að fara yfir þá þegar mýrin er ísalaus. Kostnaður er ekki mikill að brúa ósa þessa og er þá vegurinn fær frá Reykjum út undir Iðu, nema þegar árflóð eru”
Hann kallaði eftir bættu aðgengi að ferjustaðnum: “Að sunnanverðu Hvítár hjá Iðu er mýrarsund á milli svonefndra Iðuhamra. Yfir það sund þarf að leggja brú og ryðja hamrana svo að fært verði með vagna til þess að þeir sem flytja á vögnum geti komið vögnunum alla leið að ferjunni.

Gamli vegurinn teiknaður inn eftir loftmyndum á LMÍ. Lækir og skurðir sett inn eftir því sem má greina á loftmyndum.

Árið 1908 gætti dálítils pirrings í bréfi læknisins, enda hafði lítið gerst af því sem hann hafði farið fram á:

Á sýsluveginum milli Ósabakka og Eiríksbakka er 2 ósar, sem brúa þarf. Annar þessara ósa er að vestanverðiu við svokölluð Sandskörð, hinn ósinn er fyrir austan Eiríksbakka. Á sumrum eru ósar þessir ekki til tálmunar, en að vetrinum til eru þeir oft afar illir yfirferðar og alveg ófærir með vagna þegar ekki eru því betri ísar.
Brýr á ósa þessa geta ekki kostað mikið, með því að skamt frá veginum, akbrautinni, eru þeir ekki öllu breiðari en 3 álnir.
Ég hef, ár eftir ár kvartað um brúaleysi á ósum þessum og vonast til að sýslunefndin láti mig ekki oftar hafa fyrir því.

Enn hafði Skúli athugasemdir fram að færa vorið 1910:

Allar timburbrýr, sem hafa verið látnar á ósa á sýsluveginum frá Ósabakka að Iðu eru svo lágar að þær sjást ekki í snjóum eða vatnsflóðum, sem eru mjög tíð að vetrinum. Þetta getur verið mjög hættulegt fyrir ríðandi menn og lestamenn, ekki síst fyrir þá sem fara með vagna.
Þessu þarf að ráða bót á, og ætti það að vera kostnaðarlítið fyrir sýsluna.
Ráðið er einfalt, þarf aðeins að byggja 2 vörður við hvorn brúarsporð, sem stæðu fast við brúarholið. Þetta þarf að gera fyrir næsta vetur. Þetta gerir tvöfalt gagn, bæði sýnir það hvar brýrnar eru og jafnfram fyrirbyggir það að menn hleypi ofaní. Þessar brýr eru fjórar og þyrfti því að hlaða 8 vörður.
Ég skal ennfremur geta þess, að ein af þessum brúm er of mjó fyrir vagna (timbrið nær ekki út á brúnir vegarins eins og venja er til). Þetta er því hættulegra sem brúin er ekki bein og mjög hátt fyrir utan, ef útaf er farið. Hér þarf aðgerðar við sem fyrst.

Skúli fjallaði ekki frekar, í bréfum sínum, um veginn fyrir sunnan Iðuferju og ekki er finnanlegt í samþykktum sýslunefndar, að umbeðnar brýr hafi verið settar upp, eða að lagfæringar hafi verið gerðar við ferjuna sunnanverða. Það má þó reikna með að komið hafi verið til móts við óskir læknisins, þó svo ekki sé þess getið í fundargerðum.

Vegakerfið milli Skálholts og Laugaráss fram að bílaöld

Leiðir að og frá Iðuferju eins og þær voru sýndar á herforingjaráðskorti Dana frá 1910 (gul brotalína) eru hér teiknaðar inn á loftmynd frá LMÍ frá 2018-19. Bleikar brotalínur eru nokkurskonar aðlögun miðað við landslag, en ber að líta á sem ágiskanir.

Þegar ferðalangar komu með ferjubátnum yfir Hvítá að sunnan, var um þrjár leiðir að velja, eftir því hvert ferðinni var heitið og hér er gerð nokkur grein fyrir þeim

Hér fyrir ofan er loftmynd af Laugarási sem var tekin á síðari hluta annars áratugs 21. aldar. Inn á hana hafa verið teiknaðar leiðirnar sem sýndar eru á herforingjaráðskortinu frá 1910. Hversu nákvæmar leiðirnar voru sem Danirnir drógu upp, er ekki ljóst, en þær sýna þó í stórum dráttum legu brautanna sem um ræðir.

Leiðirnar:
Vestur í átt að Skálholti. Leiðin lá frá ferjustaðnum á svipuðum slóðum og nú er göngustígur, út fyrir vestustu sumarhúsin og þaðan á mörkum mýrarinnar, sem kallast Geymsla, og Tíðaholts. Þessa leið notaði fólk sem var á leið í Skálholt, áfram að Reykjanesferju, Spóastaðaferju eða upp Biskupstungur eftir Skálholtsásum. Meðan læknissetur var í í Skálholti var þetta leið læknisins í vitjun til sjúklinga sunnan Hvítár.
Á herforingjaráðskortunum liggur brautin frá Laugarási í Skálholt eins og gula punktalínan sýnir. Ef rýnt er í myndina má hinsvegar greina rask í mýrinni þar sem bleika brotalínan er. Ekki verður fullyrt hér, að þarna hafi leið í Skálholt legið á einhverjum tíma, en ljóst samt að eitthvert mannanna verk var þarna.
Milli Smáholtanna og Skálholts er mýri (Geymsla/Langasund) sem var erfið yfirferðar og eftir henni endilangri Hundapollsrás, eða Undapollsrás, sem var nánast eins og kastalasíki fyrir Skálholtsstað áður fyrr. Þessi rás eða lækur kemur talsvert við sögu vegamála á svæðinu.

Norður eftir Kirkjuholti. Þessi braut lá frá ferjustaðnum, upp Kirkjuholtið skammt vestan húsanna í Vesturbyggð. Þaðan fyrir ofan Laugargerði, Lyngás, og Kvistholt. Við Kirkjuholt greindist brautin, annarsvegar niður Smáholtin í átt að Skálholti og sameinaðist þar þeirri sem kom norður með Tíðaholti, en hinsvegar áfram norður, niður Smáholtin, þá til austurs, áður en hún sveigði aftur til norðurs, upp á Langholt í átt til Höfða og Hrosshaga. Á herforingjaráðskortunum er ekki sýnd tenging eins og sú sem er sýnd með bleikri punktalínu hér fyrir ofan. Það verður að teljast ólíklegt að hún hafi ekki verið þarna. Þá verður að teljast líklegra að brautin hafi legið út á enda Smáholtanna, frekar en niður á mýrina þar sem Storð er nú.

Hverasvæðið í Laugarási 1910

Austur yfir hverasvæðið. Þessi braut er sýnd á kortinu rétt sneiða hjá Varmagerði og þaðan yfir hveralækinn, núverandi hitaveituhús og upp brekkuna fyrir framan Laugarásbæinn. Það sem helst vekur efa um þessa staðsetningu brautarinnar, er annarsvegar, að það hefði þurft að þvera hveralækinn sem þarna rann út í Lónið, eða Vöðla og kólnaði þar áður en hann náði Hvítá. Í þessum læk runnu 20-30 sek/l af ríflega 90°C heitu vatni. Hinsvegar er fremur ólíklegt að brautin heim á Laugarásbæinn hafi legið um snarbratta brekkuna fyrir framan hann. Inn á kortið hefur verið teiknuð leið sem væri líklegari miðað við þetta svæði eins og það er nú: yfir afrennslið frá Lóninu og síðan upp á Laugarás hjá Krosshól og Lindarbrekku. Það sem helst mælir gegn því að þessi leið hafi verið valin, er að samkvæmt herforingjaráðskortinu var Lónið miklu opnara út í ána en nú er.

Þetta var leiðin sem lá heim að Laugarásbænum og síðar læknissetrinu, eða þar til vegur hafði verið lagður þar sem hann er enn: af Skálholtsvegi, eftir Skúlagötu og upp Hverabrekku. Þarna lá einnig leið að Auðsholtsferju, en það má vart á milli sjá hvor var hentugri, ef fólk var var á leið sem krafðist þess að nota báðar ferjurnar.

Loks ber að nefna legu brautarinnar milli Auðsholtsferju og vestur fyrir Smáholtin. Henni var valin staður neðst í Langholti, sunnanverðu. Þó svo reynt væri, alla jafna, að forðast að leggja leiðir yfir blautar mýrar, var ekki hjá því komist að leggja leiðina yfir mýrina milli Langholts og Smáholta. Mýrar voru, eins og nærri má geta, fremur illa fallnar til að leggja brautir um. Þurrlendi holtanna hentaði betur.

Barátta Skúla læknis.

Brautir/vegir milli Skálholts og Laugaráss. Ekki er staðfest vegstæði innan gulu brotalínanna, en rask bendir eindregið til að þarna hafa á einhverjum tíma legið braut yfir Langasund.

Eins og þegar hefur verið nefnt hafa varðveist bréfasendingar Skúla Árnasonar, læknis í Skálholti til Sýslunefndar Árnessýslu, en hann sendi nefndinni bréf flest vor í 10 ár, allt frá því hann settist að í Skálholti. Leið hans milli Skálholts og Iðuferju lá yfir Langasund og síðan líklegast suður með Tíðaholti. Engar athugasemdir hafði hann við þessa braut utan leiðina yfir Hundapollsrásina, eins og hann kallaði lækinn sem rennur suður eftir Langasundi, niður í Hundapoll og þaðan í Hvítá. (sjá meðfylgjandi mynd). Rásin er á mörkum jarðanna Skálholts og Laugaráss.

Fyrsta bréfið skrifaði Skúli vorið eftir að hann kom í Skálholt og þar tekur hann meðal annars fyrir brautina milli Skálholts og Auðsholtsferju:

Með því að sýsluvegurinn frá Auðsholts ferjustað að Skálholti, eða Skálholtstúni austanverðu má víða heita ófær, skal ég hér með virðingarfyllst skora á hina háttvirtu sýslunefnd Árnessýslu, að hún, á næsta fundi sínum leggi til fé til þessa vegar. Versti kafli hans er brúin yfir Hundapollsrásina og upp með Skálholtstúni að austanverðu fyrir ofan brúna og sama er að segja við vesturenda brúar þeirrar sem liggur vestanundir Auðsholtshamri.

Brúin sem vísað er til vestanundir Auðsholtshamri hefur líklega verið yfir afrennsli frá Laugarásmýrinni út í Hvítá. Ekki eru finnanleg nein viðbrögð frá sýslunefndinni við þessu bréfi.

Skúli gætir þess að sýna fyllstu kurteisi í þessu bréfi sínu, eins og öðrum sem hann sendi á nefndina: “Ég vona að hin heiðraða sýslunefnd taki tillit til þessara kvartana frá minni hendi, þar sem ég oft er sóttur yfir þessar vegleysur bæði á degi og nóttu og þarf oftast að hraða mér sem mest má verða.”

Vorið 1904 víkur Skúli aftur að brúnni yfir Hundapollsrásina:

Kamparnir á brúnni yfir Hundapollsrásina fyrir austan Skálholt, er svo fallnir, að timburflaki sá sem á vatnsauganu er, nær ekki og trén sloppin svo þar er ófært þegar leysir. Vegna þess að brúin er of lág og vatnið getur ekki haft framrensli, flóir yfir brúna í vatnavöxtum. Frá brúarauganu þarf því að skera skurð. Í seinustu leysingu var vatnið á flekanum fyllilega í kvið.

Enn kemur Hundapollsrásin við sögu vorið 1905, en þar fjallar Skúli um helsu misfellur á sýsluvegum sem hann telur “óumflýjanlegt að gjöra við hið bráðasta”:

Að gjöra brú yfir Hundapollsrásina fyrir austan Skálholtstún. Í brúaraugað hefur verið dregið grjót í vetur. Verði ekki gjörð brú yfir rásina strax og ísa leysir og klaki fer úr jörð, verður með öllu ófært með hest að Skálholti.

Næst kemur Hundapollsrásin við sögu í bréfi Skúla vorið 1907:

Þá er að minnast á brúna yfir Hundapollsrásina fyrir austan Skálholt. Í hana þarf ofaníburð og að lengja hana til beggja enda þó ekki væri nema sem svaraði 10-20 föðmum við hvorn enda. Af því að brúin endar í mýri beggja vegna, veðst þar upp árlega, svo kafhlaup* verða seinni hluta sumars.
(* e-ð sem maður sekkur djúpt í - ísl. orðabók)

Enn freistar Skúli þess að fá Sýslunefnd Árnessýslu til að laga þá vandræðabraut sem lá yfir Langasund, milli Skálholts og Laugaráss, vorið 1909. Það sem helst hefur breyst í framsetningu Skúla, í bréfum hans til nefndarinnar er, að eftir því sem bréfin verða fleiri, dregur úr kurteisinni, en það bendir til að hann sé harla óánægður með það hvernig sýslunefndin bregst við óskum hans. Hundapollsrásin hefur ekkert lagast á þeim tæpa áratug sem Skúli reynir að fá fram umbætur á brautinni. Síðasta bréf hans um þetta efni er frá því vorið 1909:

Með því að brúin yfir Hundapollsrásina fyrir austan Skálholt er orðin svo út vaðin, að hún á köflum er orðin ófær yfirferðar og við báða enda hennar, sem endar í mýri, kafhlaup, leyfi ég mér virðingarfyllst að skora á hina háttvirtu sýslunefnd Árnessýslu, að hún hlutist til um að lagt verði fé af sýslusjóði til þess að gera við aðalgallana. Hingað til hefur ekki verið lagt fé til að bera ofaní brúna, sem, án þess að það sé gert, getur ekki orðið varanleg.
Brúin yfir Langasund er nú orðin alófær og hljóta þá allir Biskupstungnamenn sem fara yfir Hvítá á Iðu, að fara yfir Hundapollsbrúna, og við það hlýtur umferðin að aukast stórum.
Ég get ekki, með neinni vissu, sagt hve mikið fé muni þurfa til þess að lengja, gera við og bera ofaní téða brú, en hygg að talsvert mundi mega bæta hana ef sýslan sæi sér fært að leggja til hennar alt að 200 kr.
Á leiðinni frá Hundapollsrás brúnni að Tíðaholti eru nokkrar mjóar, blautar keldur, sem nauðsyn er á að gert sé við líka.

Ekki batnaði ástand vegarins yfir Langasund næstu árin. Þegar Sigurmundur Sigurðsson tók við embætti héraðslæknis í Laugarási, árið 1925, þurfti hann að ferðast með fjölskyldu sinni þarna yfir. Sonur hans Sigurður lýsir þeirri leið svona, í bók sinni “Á milli landshorna”:

Fyrir austan og neðan tún í Skálholti var keldan illfæra, sem skilur landamörk Skálholts og Laugaráss og liggur í Undapoll [Hundapoll] sem kemur úr Hvítá. Austan keldu er Söðulholt þar sem reiðverum var sprett af hestum fyrr á öldum meðan biskupar sátu staðinn. …… Leiðin frá Skálholti að Laugarási er áþekk og þaðan að Spóastöðum. Ferðin yfir mýrina gekk því fljótt yfir, þótt blaut væri með varasömum keldum.

Í vestur frá Skálholti

Nýleg loftmynd af svæðinu milli Skálholts og Brúarár, úr fórum LMÍ. Ég hef síðan teiknað inn á hana brautirnar sem lágu milli Skálholts og Brúarár árið 1910, eins og þær eru sýndar á dönsku herforingjaráðskorti.

Frá Skálholti var um tvær leiðir að ræða í átt að Brúará, annarsvegar braut sem lá á svipuðum stað og nú, og hinsvegar braut sem lá suður í átt að Skálholtstungu, að ferjunni við Reykjanes. Eins og nærri má geta hafði Skúli læknir í Skálholti ýmislegt við samgöngur á þessu svæði að athuga, rétt eins og aðrar þær brautir sem hann þurfti að fara um, starfs síns vegna.
Eftir fyrsta veturinn í Skálholti sendi hann sýslunefnd Árnessýslu bréf, þar sem hann tekur ástand samgöngumála vestan Skálholts fyrir:

Eins og kunnugt er, var á sýslufundi fyrra árs sett lögferja á Brúará að Reykjanesi til þess að læknis yrði leitað að Skálholti þó um nótt væri. Nota þá ferju allflestir Grímsnesingar. Síðan lögferja komst þar á, hefur Spóastaðaferja verið mjög lítið notuð og sýnist því liggja beinast við að breyta stefnu sýsluvegarins og láta hann liggja um Skálholt frá Auðsholti að Reykjanesi, en taka af sýsluveginn frá Skálholtstúni austanverðu að Spóastöðum, því sá spotti er mjög lítið farinn, en þarf bráðrar aðgjörðar við .

Meirihluti vegarins frá Skálholti að Reykjanesi er fær, en þó eru tvær rásir sem þarf að brúa, fyrir utan mýrarsund vestur frá Skálholtströðum. Þar er brú, sem má fara ef við hana væri gjört, sem eigi mundi kosta mjög mikið. Verði eigi gjört við veginn að Reykjanesi, er naumast fært þangað á sumardegi og ekki síst um nótt, sem oft kemur fyrir þegar læknis er vitjað.
Frá Reykjanesferju að vestanverðu er mýri mjög ill yfirferðar sem hið bráðasta þyrfti að brúa. Eins og stendur er þar enginn vegur og hef ég orðið að flæmast til og frá um mýri þessa og þó aldrei komist hjá að hleypa ofaní þegar jörð hefur verið þýð. Þar er mjög vandratað fyrir ókunnuga, ekkert til þess að átta sig á þegar myrkt er af nótt.
Ég vona að hin heiðraða sýslunefnd taki tillit til þessara kvartana frá minni hendi, þar sem ég oft er sóttur yfir þessar vegleysur bæði á degi og nóttu og þarf oftast að hraða mér sem mest má verða.

Virðingarfyllst
Skálholti 25. marz, 1901
Skúli Árnason.

Ekki verður séð af fundargerð sýslunefndar á þessu ári, að Reykjanesbrautin hafi verið gerð að sýsluvegi, en svo virðist þó hafa verið gert, eins og fram kemur síðar. Vel má hinsvegar skilja ástæður Skúla fyrir því að óska eftir því að brautin frá Skálholti að Reykjanesferju yrði færð á forsjá sýslunnar. Umrædd braut lá betur, við samgöngum yfir í Grímsnes, en sú sem var milli Skálholts og Spóastaða. Sýslunefndin veitti hinsvegar fé til brautarinnar vestan Brúaár, sem bendir til að brautin þeim megin hafi verið á forræði sýslusjóðs, þetta kemur fram í bréfi Skúla vorið 1904, en þar segir:

Undanfarin ár hefur verið veitt fé af sýslusjóði til þess að brúa mýrina að vestanverðu Brúarár hjá Reykjanesi en þar er enn eftir 134 faðma langur kafli, sem er með öllu ófær þegar ís leysir úr jörðu. Á þessum kafla þarf að vera vatnsauga og á það þarf 3 tré 5 álna löng og á vatnsaugað annað, sem er á þeim kafla vegarins er gjörður var árið 1901 vantar 3 tré sex álna. Fyrir utan þetta vantar ofaníburð í ca 250 faðma af brúnni, sem gjörð var 1902 og 1903 verði eigi gjört við þetta á næsta vori verður eigi komist með hest yfir mýrina án þess að hleypa ofaní.

Brautin kemur aftur við sögu í bréfi Skúla að sýslunefndar vorið 1905. Þá verður ekki annað séð en brautin sé komin í tölu sýsluvega:

Skolalækur (mynd LMÍ)

Á sýsluveginum að Reykjanesi frá Skálholti þarf að brúa nokkrar keldur. Í Grímsnesinu þarf að bera í Reykjanesbrúna og laga hana á nokkrum stöðum, annars er því fé á glæ kastað sem í hana hefur verið lagt undanfarin ár. Yfir öll brúaraugun, sem eru þrjú, þarf að leggja timburhlera, sem til frambúðar hlýtur að verða ódýrast.
Á Skolalækinn* [í mörkum milli Bjarnastaða og Svínavatns] þarf að setja timburbrú. Sá lækur er oft að vetrinum með öllu ófær.
*Kallast Skólalækur á herforingjaráðskorti 1910.


Vorið 1907 sendi Skúli enn bréf til sýslunefndar í þeirri von að nefndin tæki umkvartanir [hans] til greina:

Fyrir nokkrum árum var lagt fé af sýslusjóði til þess að gjöra færan veg frá Skálholti að Reykjanesi. Því fé var varið til að gjöra brú yfir mýrarsund fyrir vestan Skálholt. Í þessa vinnu lögðum við Skálholtsbændur mjög mikla vinnu. Brú þessi er nú farin að bila og getum við ekki af eigin ramleik gjört við hana.
Seinastliðið ár var gjörð önnur ný brú yfir annað mýrarsund nokkru vestar. Fé það, sem til hennar var veitt, var svo lítið, að við, ábúendur Skálholts gerðum hana upp á okkar kostnað, að minsta kosti til helminga við sýslusjóð. Frá þeirri brú þarf að skera skurð til þess að veita frá henni vatni og sömuleiðis að bera meira ofaní hana með því að ofaníburð er ekki að hafa góðan. Til þess að gjöra báðar þessar brýr varanlega mundi þurfa fullar 60 kr. Okkur Skáhyltingum hefur komið saman um að leggja til fé að hálfu við sýslusjóð ef sýslunefndin veitti 30 kr. til viðgerðar á brúm þessum.

* líklega átt við Kvernalæk eða Myllulæk.
Sigurður Skúlason (sonur Skúla Árnasonar, læknis): Nokkur örnefni í Skálholtslandi 1953, en þar segir: “Kvernalækur. Svo nefndist fyrr á öldum lækurinn, sem rennur vestan við Íragerði og Kyndluhól niður í Undapoll. Dr. Björn Sigfússon hefur bent mér á þetta forna heiti og kveðst hafa rekizt á það í ísl. annálum (útg. Bókmenntafélagsins). Mér er það í barnsminni, að lítið mylnuhús stóð við lækinn skammt neðan við Kyndluhól. Voru kvarnirnar knúðar vatnsafli. Lækurinn var þá stundum kallaður Myllulækur.”

Hluti vegakerfisins vestan Brúarár, árið 1910. Mýrin rétt vestan Reykjanes er líklega það svæði sem Skúli vísar til sem Reykjanesbrúna. (heimild Herforingjaráðskort Dana).

Siðasta bréf Skúla um samgöngumál vestan Skálholts barst sýslunefnd svo vorið 1909 og þar fjallar hann meðal annars um Reykjanesbrúna fyrir vestan Brúará.

Þá er að minnast á Reykjanesbrúna fyrir vestan Brúará. Sú brú er að kalla má ófær. Í efri enda hennar, sem er svo mjór, að ekki verður komið við vagni til þess að bera ofaní brúna með, hefur einu sinni verið borið og hefur sá kafli þolað hest.
Verði ekki, á þessu sumri veitt nægilegt fé til þess að hlaða brúna upp, gera við vatnsaugu og bera ofan í hana, er öllu því fé á glæ kastað, sem varið hefur verið til brúarinnar og ófært með hesta frá Reykjanesi út á sveit. Hvað kosti að gera við brúna get ég ekki sagt, en til þess þarf mikið fé. Án brúarinnar tel ég lítt fært að leita læknis að Skálholti úr Grímsnesinu. Ég vona að sýslunefndin ráði bót á þessu.

Á þessu ári veitti sýslunefndin kr. 100 til Reykjanesbrúarinnar og smáaðgerða á sýsluvegum í Grímsnesi. Þá veitti hún kr. 210 til Hundapollsbrúar og fleira þar í kring.

Hér er látið staðar numið við lýsingar Skúla Árnasonar, læknis, á ástandi vegamála í nágrenni Laugaráss og Skálholts í upphafi síðustu aldar.

Upp úr þessu fór að komast meiri hreyfing á samgöngumálin. Árið 1910 sendi oddviti Tungnamanna bréf til Sýslunefndar þar sem hann hvatti hana til að beita sér fyrir því við stjórnarráð Íslands “að það taki upp í fjárlagafrumvarp sitt, fjárveiting til brúargjörðar yfir Brúará, þar sem Grímsnesbrautinni er ætlað að liggja yfir ána, er lagt verði fyrir næsta þing svo auðið verði að koma brúnni á sumarið 1911.

Þarna virðist ljóst, að ákvörðun hefur verið tekin um að leggja brautina milli Spóastaða og Torfastaða, sem síðan hefur verið aðal samgönguæðin í Biskupstungur. Eftir sem áður lá sýsluvegurinn upp Grímsnes að Reykjanesferju, í það minnsta til 1913. Á þessum áratug var hinsvegar farið að huga alvarlega að lagningu nýs vegar upp Grímsnes að Brúará og þaðan upp Tungur.

Í tímariti Verkfræðingafélagsins í maí 1921 er greint frá því að fullgerð sé braut “frá Sogsbrú um endilangt Grímsnes að Brúará austanvert við Mosfell, en þar verður sett ný brú á ána í sumar.” Brúin kom á Brúará við Spóastaði á þessu ári.
Áfram var haldið og 1924 var brautin að Torfastöðum fullgerð.

Sigurður Sigurmundsson lýsir ferð fjölskyldu sinnar í Laugarás, í bók sinni Á milli landshorna, þegar faðir hans, Sigurmundur Sigurðsson tók við embætti héraðslæknis í Laugarási árið 1925.

Og enn um hríð var haldið áfram, þar til kom að járnbrú en hún liggur yfir á, blátæra og vatnsmikla, þ.e. Brúará. Hinumegin ár er vegurinn sprengdur inn í klettaklif, en er því sleppir nam bíllinn staðar. Komið á leiðarenda. Örskammt þana frá er bærinn Spóastaðir, en hann var í hvarfi. Þangað var nú haldið fótgangandi.
Áformað var að gista næstu nótt í Skálholti, en þangað var um hálftíma ferð.
Vegir voru þá engir milli bæja, rignt hafði mikið um vorið og lá því víða í holtum og mýrarkeldum. Engin óhöpp urðu þó á þessari leið.

Daginn eftir lagði hópurinn svo í ferðina milli Skálholts og Laugaráss, en frásögn Sigurðar af henni er hér ofar, þar sem Hundapollsrásin er til umfjöllunar.

Í fundargerðum hreppsnefndar kemur fram að unnið var í veginum milli Spóastaða og Skálholts árin 1924 -1926. Árið 1927 var unnið í veginum milli Spóastaða og Laugaráss og 1928 virðist hafa verið settur kraftur í þessa braut og þá ekki síst vegna læknissetursins, enda segir í fundargerð hreppsnefndar: “Samkvæmt skilyrðisbundnu loforði frá Grímsnesingum um kr. 150.00 framlag til Laugarássbrautarinnar, var samþykt að hreppurinn legði fram til þess vegar kr. 200.00 gegn því að Laugardalshreppur legði einnig fram kr 50.00.”
Eftir þetta ár var talað um leiðina frá Brúará að Laugarási og þar í gegn, að Iðuferju, sem “Laugarásbrautina”. Biskupstungnamenn fóru fram á það við hina hreppana, að þeir legðu eitthvað til þessarar brautar, en árið 1930 setti sýslunefnd kr. 1.000 í brautina og taldi sýslunefndarmaðurinn Skúli Gunnlaugsson, að “best myndi að ráða vinnuflokka þar eð ekki myndu fást nægilegur mannafli innan sveitar, en sjálfsagt að leita eftir því fyrst.” Enn var unnið í þessari braut og í október árið 1933 var bókað í hreppsnefnd: “Ætlast er til að bílar verði notaðir til flutnings á ofaníburði, er frost er komið, en um kr. 300 voru fyrir hendi er ætlað væri til lagningar, sem nauðsyn væri á að vinna fyrir.”

Þegar Ólafur Einarsson tók við héraðslæknisembættinu sjö árum síðar, árið 1932, var kominn akvegur að Skálholti, þannig að fjölskyldan komast þangað með bíl. Milli Skálholts og Laugaráss var “aðeins slóði eða kerruvegur til flutninga. Mýrin milli Skálholts og Laugaráss var erfið yfirferðar og Einar minnist þess að hafa verið þar eitt sinn á ferð á hesti, þegar hann stóð allt í einu í fæturna beggja vegna hestsins, sem þá hafði sokkið að kvið.” (viðtal við Ólafsbörn)

Bílaöld heldur innreið sína í uppsveitir

Eftir að menn byrjuðu að flytja bíla til landsins í upphafi tuttugustu aldarinnar, liðu áratugir áður en þeir urðu almenn eign, ekki síst til sveita, enda slík tæki ekki á hvers manns færi að kaups og harla lítið um vegi sem voru nægilega burðugir fyrir þá nýju tegund farartækja sem um var að ræða. Það voru helst vöruflutningabílar sem notast var við til að byrja með, sem þá voru notaðir til vegagerðar.

Það fór ekki hjá því að einhverjir sæju ofsjónum yfir því fé sem eytt var í Laugarásbrautina á þessum árum. Þannig var fjallað um fjárveitingar úr ríkissjóði til vega í sveitinni í janúar 1934 og greint frá því að í Laugarásbrautina væru ætlaðar kr 1.700 á meðan Tungubraut skyldi fá kr. 300. “Komu fram raddir um það, að þessi skifting væri óréttmæt og að nauðsynlegt væri að hreppsnefndin hefði íhlutunarrétt um það hvernig þessu fé yrði skift.” Ekki bætti það úr að Grímsnesingar voru hættir við framlag sitt og ekkert kom frá öðrum hreppum.

Á þessum árum var enn viðhaldið gömlu brautinni yfir Langholt í Hrosshaga. Þannig var Skálholtssókn ofan ár og Hrosshaga ætlað að vinna í Hrosshagabraut árið 1934.

Ágreiningur um legu

Tómas Tómasson í Auðsholti (1874-1952)

Árið 1934 greindi Tómas Tómsson í Auðsholti hreppsnefnd frá því, að ágreiningur væri uppi um legu sýsluvegarins að Laugarási og var sýslunefndarmanninum Skúla Gunnlaugssyni falið að leysa málið fyrir hönd nefndarinnar, en vinna við brautina stöðvaðist meðan beðið var úrskurðar. Ekki er greint frá því í gögnum hreppsnefndar hvaða kosti var þarna deilt um, en þetta virðist hafa haft það í för með sér, að ekkert var unnið við brautina þetta ár.

Í júní árið eftir óskaði Tómas eftir “úrskurði hreppsnefndarinnar um hvar endanlega yrði lagður vegurinn austur á Auðsholtshamar. Lagði hann, sem fyr áherzluna á beina leið austur mýrina en að ekki yrði lagður vegur eftir Laugarásholti. Taldi hann líkur til að sú leið yrði lítið eða ekkert lengri. Samþykt var að fá mann til að mæla báðar leiðirnar og færi svo, að nyrðri leiðin yrði lengri, taldi Tómas líklegt að Auðsholtsbændur legðu þann spotta án kröfu til endurgjalds fyrir undirbygginguna. Til þess að mæla þetta var ráðinn Þorst. Sigurðsson á Vatnsleysu og fyrir hreppsn. hönd Skúli Gunnlaugsson og ákveðið að framkvæma það á annan í hvítasunnu.”

Laugarás 1964 (loftmynd LMÍ) Gulu brotalínurnar sýna þá vegi sem ákveðnir voru á 4. áratugnum. Bleika brotalínan sýnir brautina að og eftir Laugarásholtinu. Rauða brotalínan er tilgáta um legu brautarinnar að og frá Iðuferju þar til veglínan eins og hún er nú, var mörkuð gegnum Laugarás. Með henni varð núverandi Skúlagata til og Hverabrekkan upp að læknissetrinu.

Það verður að viðurkennast, að sú lýsing sem þarna er að finna á því sem um var að ræða, er ekki nægilega skýr til að hægt sé að fullyrða með vissu, um hvaða val var þarna að ræða. Nyrðri leiðin er að öllum líkindum núverandi Ferjuvegur og má þá reikna með að hin hugmyndin hafi verið að fara með veginn eftir núverandi Skúlagötu, upp á Laugarásholtið og eftir því á Auðsholtshamar. Það má reikna með, að vilji Tómasar hafi orðið ofan á, þó það hafi sennilega ekki verið áhlaupaverk að undirbyggja Ferjuveginn núverandi, þar sem hann liggur yfir botnlausa mýrina.

Árið 1935 má segja að vegakerfið í gegnum og um Laugarás hafi í stórum dráttum verið komið í það horf sem það er nú, árið 2021. Sannarlega ber að hafa í huga, að einu íbúarnir á þeim tíma var fjölskylda héraðslæknisins, sem þurfti að komast í þrjár áttir, að Iðuferju, að Brúará hjá Spóastöðum og að Auðsholtsferju.
Bílaeign jókst hægt þó svo aðalvegirnir ættu að vera orðnir akfærir og núverandi Hverabrekka kom, að sögn barna Ólafs læknis miklu seinna, en ekki hafa fundist upplýsingar um hvaða ár það var, en Ólafur læknir keypti sinn fyrsta bíl árið 1942 og má reikna með að ekki hafi brekkan verið gerð mikið síðar en það. Fram til þess tíma er brekkan var gerð fær ökutækjum lá leið eftir Laugarásholtina í átt að Auðsholtsferju og þaðan áfram.

Þá er að berjast fyrir brúnni

Ólafur Einarsson við fyrsta bílinn sinn, árið 1942. (mynd frá börnum Ólafs)

Þegar akfær vegur var kominn frá Spóastöðum að Iðuferju, kom að því að ráðamönnum í hreppnum fannst tími til kominn að hefja baráttu fyrir brú. Á almennum sveitarfundi þann 1. mars, 1937 var haldinn almennur sveitarfundur á Vatnsleysu. Þar var eftirfarandi bókað um brúna:

2. Oddviti hreyfði því, að þar sem vegir væru svo mjög oft ófærir hingað uppeftir vegna snjóþyngsla og svo myndi oft geta orðið framvegis, þá væri nauðsynlegt að hefja máls á því á rjettum vettvangi að flýtt yrði fyrir því að brú kæmi á Hvítá hjá Iðu og vegur að henni báðum megin þar, sem sú leið er sjáanlega oftast fær þó hin leiðin sé ófær. Umræður urðu um þetta mál og hnigu umræðurnar mjög í þá átt að nauðsyn sje mikil fyrir þessa samgöngubót frá fleiri hliðum séð.
Fram kom tillaga frá oddvita, svohljóðandi:
„ Almennur sveitarfundur í Biskupstungnahreppi að Vatnsleysu 2. marts 1937 skorar á þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir því að brú verði bygð á Hvítá hjá Iðu svo fljótt sem unt verður“. Tillagan var samþykt með öllum greiddum atkvæðum.  Þá var oddvita falið , ásamt Þorsteini Sigurðssyni á Vatnsleysu að koma tillögu þessari á framfæri fyrst og fremst við þingmennina, einnig að fá til liðs við okkur þá aðila sem hlut eiga að máli með hagsbætur af þessari umræddu brú.

Um aðdragandann að byggingu brúar yfir Hvítá hjá Iðu og byggingu hennar, má lesa í sérstökum kafla.

Oddvitanefndin lét sig brúargerð varða, með áskorunum og samþykktum, allt frá 1933, en það ár samþykkti nefndi “í einu hljóði að skora á þing og stjórn, að byggja hið bráðasta brýr yfir Hvítá að Iðu og Kiðjabergi.”, reyndar vildi nefndin einnig, á sama ári, skoða þann kost, að setja upp kláfferju á ferjustaðnum.

Tíu árum seinna skoraði sýslufundur Árnessýslu á Alþingi “að veita, á næsta árs fjárlögum, fé til byggingar brúar á Hvítá hjá Iðu“. Samþ. í e. hlj.”

Svona gekk þetta áfram, með áskorunum á yfirvöld, en brúin var loks opnuð fyrir almenna umferð í desember, árið 1957.


Lýkur hér umfjöllun um vegasamgöngur við Laugarás og í nágrenninu.

Uppfært 08/2024