Runólfur Bjarnason bóndi á Iðu, drukknaði við ferjustörf þann 18. september, 1903, en þá hafði verið sett upp svokölluð dragferja á ferjustaðnum. Það sem hér fylgir er frásögn að þessu sviplega slysi, eins og hún birtist í Þjóðólfi um viku síðar.

Þjóðólfur, 25. september, 1903:

Banaslys við Iðuferju

Runólfur Bjarnason, bóndi, drukknaði

Föstudaginn 18. þ. m. drukknaði bóndinn á Iðu í Biskupstungum, Runólfur Bjarnason [37], í Hvítá þar á ferjustaðnum og voru tildrögin að þessu hraparlega slysi þessi:

Næstliðið vor var sett dragferja á Iðu-ferjustað, en nú þurfti hún lagfæringar við, vegna þess að dragferjan nam niðri á eyri að norðanverðu við ána. Hafði Runólfur heitinn fengið mannhjálp til þessarar lagfæringar þennan dag, og ætlaði að færa dragferjuna neðar á ána.

Um kl. 2 kom ritstjóri þessa blaðs og séra Ólafur ritstj. Ólafsson að ánni, og ætluðu að fá flutning upp yfir að Skálholti. Þar kom og jafnsnemma að ánni lestamaður frá Austurhlíð í Biskupstungum, Baldvin [Jónasson (1873-1952) síðar bóndi í Súluholtshjáleigu] að nafni. Í sömu svifunum kom Runólfur heit. og þrír menn með honum að ánni, komu frá miðdegisverði, hlupu þeir óðar í bát, er var að sunnanverðu við ána og ætluðu að róa norður yfir til að laga dragferjuna til fulls, svo að þeir gætu ferjað.

Í bátnum voru, auk Runólfs heitins, Bjarni Jónsson [64] faðir hans til heimilis á Iðu, Dagbjartur Egilsson [44] húsmaður á Iðu og Guðmundur Ófeigsson [38] bóndi í Laugarási. Settu þeir bátinn á flot rétt fyrir ofan dragferjustrenginn, sem spenntur er yfir þvera ána, og liggur hann niðri í vatninu um miðjuna. Hafði opt áður verið róið fyrir ofan strenginn og báturinn annaðhvort farið undir hann (nálægt landi) eða yfir hann (í miðri ánni). En slíkt er mjög óvarlegt og gapalegt, enda varð það að slysi í þetta sinn, því að rétt þegar báturinn var að ýta frá landi, kastaði straumurinn í ánni, sem er afar harður þar við suðurlandið, bátnum á dragferjustrenginn, þar er verst gegndi, of langt frá landi til þess, að báturinn kæmist undir strenginn, en of skammt til þess, að hann gæti farið yfir hann.

Afleiðingin var, að aðeins tveir mennirnir, Bjarni og Guðmundur gátu smeygt strengnum yfir sig, er þá féll í fang þeim Runólfi og Dagbjarti, svo að báturinn hvolfdi þeim úr sér aptur á bak ofan í ána. Gátu þeir þó báðir náð í strenginn, en Runólfur heit., er var fjær landi, þar sem strengurinn var slakari var nálega alltaf í kafi þá örstuttu stund, er hann hélt sér á strengnum, þangað til hann slitnaði af honum, en Dagbjartur, er var nær landi, var ekki jafnmikið í kafi, og gat hann með naumindum bjargazt á strengnum til lands þrekaður mjög og aðfram kominn. Var rétt að því komið, að hann léti hugfallast og sleppti tökum, hafði hann meiðst nokkuð á höndum og fyrir brjóstinu. En vegna straumhörkunnar í ánni var svo erfitt að halda sér á vírstrengnum, er sveiflaðist fram og aptur, og þessvegna var heldur ekki unnt að komast að honum á bátskrifli litlu, er sett var út, þá er slysið bar að af þeim, sem á landi voru, enda ómögulegt að bjarga á þeirri kænu, þótt komizt hefði orðið að strengnum, auk þess, sem það skipti engum togum, að Runólfur heit. slitnaði af honum.

Þá Guðmund og Bjarna rak, niður eptir ánni í bátnum, er var nær barmafullur af vatni, og ekki höfðu þeir nema eina ár, gátu þeir ausið bátinn nokkuð og náð í aðra ár, er flaut niður ána, og komust þeir svo til lands hinumeginn. Það vildi til að bátnum hvolfdi ekki alveg, annars hefðu eflaust allir mennirnir farizt þarna, því að enginn var syndur.

En hraparlegt er, þá er önnur eins slys og þetta koma fyrir, sakir óvarkárni einnar og athugaleysis, eins og hér átti sér stað, af því að farið var fyrir ofan dragferjustrenginn.

Reynslan er opt dýrkeypt. Lík Runólfs heit. var ófundið, er síðast fréttist. Hann var rúmlega þrítugur að aldri, dugnaðarmaður og efnisbóndi, hafði flutt með föður sínum fyrir nokkrum árum austan úr Meðallandi út í Biskupstungur, fyrst að Neðradal, en síðar að Iðu. Hann lætur eptir sig konu og 4 börn í ómegð. Bæði þeir Bjarni og Dagbjartur höfðu áður komizt í lífsháska á sjó optar en einu sinni. — Var harla óskemmtilegt, að horfa á slys þetta og geta ekki að gert.

Uppfært 01/2024