Til félaga í Vatnsveitufélagi Laugaráss
Apríl 1988
Vatnsveitufélag Laugaráss var stofnað 12. júní 1964 og var tilgangur félagsins að sjá félögum fyrir neysluvatni. Stofnendur félagsins voru Sláturfélag Suðurlands, Laugaráslæknishérað vegna héraðslæknis- og héraðsdýralæknisbústaða, Rauði kross Íslands, Jón Vídalín Sólveigarstöðum, Hjalti Jakobsson Laugargerði, Skúli Magnússon Hveratúni, Páll Dungal Ásholti, Ólafur Einarsson, Einar Ólafsson og Hörður V. Sigurðsson. Einnig Biskupstungnahreppur, vegna 10 óbyggðra lóða.
Aðalhvatinn að stofnun félagsins var bygging sláturhúss SS og bygging nýs héraðslæknisbústaðar. Fyrir íbúa Laugaráss var tilkoma þessa félags náttúrulega bylting í vatnsmálum. Þetta var þeirra félag. Þeir báru sjálfir ábyrgðina á þessu fyrirtæki og skiptust á um að stjórna því og svo hefur verið fram á þennan dag.
Framhaldið
Vatnsveitufélag Laugaráss sá félögum fyrir neysluvatni og samkvæmt samþykktum félagsins áttu allir ábúendur rétt á að ganga í félagið með þeim réttindum og skyldum sem þar var kveðið á um.
Þetta fyrirkomulag gekk vel fyrstu 17 árin eða svo, en byggð í Laugarási breyttist; íbúum fjölgaði og ræktun varð fjölbreyttari. Þar kom, að árið 1971 var gerð sú breyting á samþykktum félagsins, að stjórn var heimilað að veita mönnum leyfi til að nota kalt vatn til græðlinga- og blómaræktunar í þeim tilfellum sem kælt hveravatn væri sannanlega ónothæft.
Með þessari breytingu var opnuð í hálfa gátt leið til notkunar kalda vatnsins til ræktunar. Yfirleitt er það regla, að þar sem smugur eru reyna menn að komast í gegn, og er það ekki nema eðlilegt. Ásókn í kalda vatnið hefur stöðugt farið vaxandi og hefur núverandi stjórn og örugglega líka þær sem áður hafa setið, reynt að halda í horfinu af fremsta megni. Þetta var m.a. gert með því að stórhækka gjald fyrir vatn til ræktunar árið 1985.
Árið 1981 var tekin ákvörðun um að heimila Skálholtsstað aðgang að vatni félagsins og var gerður samningur þar um sem gilti til þriggja ára í senn. Þessi ávörðun var og er umdeild. 1987 var gildistími samningsins styttur, þannig að nú gildir hann í eitt ár í senn.
Vangaveltur
Í upphafi byggði þetta félag, á grundvallaratriðum í eðlilegum samskiptum manna: trausti og samvinnu. Menn töldu sig vera félagið og félagið töldu menn vera sig. Stjórnir félagsins hafa haft þetta að leiðarljósi. Þær hafa fylgt eftir samþykktum félagsins, og reynt að gera öllum jafn hátt undir höfði, innan þess ramma sem þær sögðu til um.
Í sögu sinni „Dýragarður“ segir George Orwell frá dýrum sem gerðu uppreisn gegn hörðum húsbónda og stofnuðu „fyrirmyndarríki“, þar sem allir voru jafnir. Í fyrstu gekk þetta vel hjá dýrunum og þau sættu sig við ýmiss konar óþægindi og harðræði, vegna þess að nú voru þau eigin herrar. Það var enginn sem notfærði sér þau. En sá tími kom að það voru ekki allir sem sættu sig við þetta jafnrétti. Sum dýrin töldu sig vera gáfaðri og merkilegri en önnur dýr og í skjóli þess ákváðu þau að þau skyldu vera jafnari.
Ástæða þess að ég minnist á þessa frægu ádeilu Orwells hér, er kannski ekki sú, að hægt sé að líkja Vatnsveitufélagi Laugaráshverfis við hana, heldur er hér á þetta minnst til að benda, að ef til vill er ekki hægt að búa til samfélag þar sem hagsmunir heildarinnar og ákveðinna einstaklinga innan hennar fara saman. Við, sem erum íbúar í þessu litla samfélagi og í þessu litla Vatnsveitufélagi, reynum yfirleitt í lengstu lög að komast hjá því að ganga í skrokk á nágrönnum okkar, sem, af einhverjum ástæðum telja sér ekki skylt að fara að að þeim samþykktum sem gerðar hafa verið. Svona samfélag verður að byggja á gagnkvæmu trausti, ekki síst okkar samfélag, því samstaða er okkur nauðsynleg til að koma okkar sérmálum fram gagnvart yfirvöldum okkar.
Í upphafi sögðu menn, þegar rætt var um vatnsveitufélagið: „Við verðum að gera hitt eða þetta,“ en nú heyrist æ oftar: „Þið verðið að gera þetta og hitt.“ Hverjir skyldu þessir „þið“ vera? Jú, ætli það sé ekki stjórnin.
Það væri hollt fyrir félaga að hafa það í huga næst þegar þeir sjá sig knúna til að bölva vatnsveitunni, að þeir eru þá um leið að bölva sjálfum sér, en ekki einhverju fjarlægu yfirvaldi.
Hvað er framundan?
Þessari spurningu verða félagar í Vatnsveitufélagi Laugaráss sjálfir að svara. Hér skal tæpt á nokkrum atriðum til umhugsunar:
1. Ásókn í kalt vatn til notkunar í gróðurhúsum hefur stóraukist, ekki síst vegna dyranna sem opnaðar voru í hálfa gátt. En það er ljóst, að til þess að hægt sé að verða við kröfum af þessu tagi, verður að vera til nægilegt vatn og það verður að endurnýja allar stofnæðar.
Eflaust má finna meira vatn og auðvelt ætti að vera að skipta um stofnæðarnar.
Eru félagar tilbúnir að leggja fram fé til þessara framkvæmda?
2. Félagsmenn ættu að íhuga hvort rétt sé að legga niður vatnsveitufélagið og láta hreppinn um vatnsöflun og dreifingu.
3. Félagsmenn ættu að íhuga framhald samningsins við Skálholt.
4. Félagsmenn ættu að íhuga hvort rétt sé að taka upp sölu vatns eftir mælum til þess að komast fyrir óeðlilega vatnsnotkun.
5. Félagsmenn ættu að íhuga framtíð félagsins í núverandi mynd, með þeim hömlum sem fyrir hendi eru í samþykktum félagsins. Vilja félagsmenn að reynt verði að halda í horfinu með óbreyttum hætti, eða telja þeir að beita þurfi meira aðhaldi til að koma í veg fyrir óleyfilega notkun vatns.
Stjórn vatnsveitufélagsins telur, að í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað undanfarin ár, að tími sé kominn til að endurskoða tilveru félagsins og hvetur félaga til að hugleiða hver þeir vilja að framtíð þessa félags verði.
Aðalfundur félagsins verður haldinn þann 16. apríl n .k., sbr. meðfylgjandi fundarboð. Allir félagar eru hvattir til að koma á þennan fund.
Kær kveðja,
stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss
Sævar Magnússon
Páll M. Skúlason
Magnús Skúlason
Uppfært 07/2024