Til félaga í Vatnsveitufélagi Laugaráss
Apríl 1989
Inngangur
Svo sem gert var á síðastliðnu ári finnst stjórn vatnsveitufélagsins tilvalið að senda ykkur smá hugvekju fyrir aðalfund félagsins, sem haldinn verður þann 8. apríl n.k.
Að þessu sinni tökum við fyrir mál sem mikið hefur verið rætt undanfarin ár og sem skoðanir hafa verð mjög skiptar um.
Hér er um að ræða hvort vatnsveituféagið eigi að hefja sölu á vatni til garðyrkjubænda, til vökvunar í gróðurhúsum.
Stjórnin hefur tekið saman upplýsingar um þetta mál og birtast þær hér fyrir neðan, en skýrt skal tekið fram, að alls ekki má líta á það sem hér fer á eftir sem tillögur stjórnar vatnsveitufélagsins, heldur fyrst og fremst tilraun til að gera grein fyrir hvernig ákvörðum um sölu vatnsins í þessu skyni gæti litið út. Stjórnarmenn hafa ekki einu sinn kannað í sínum röðum hvort allir eru sammála um málið á hvorn veginn sem er. Hinsvegar teljum við að nauðsynlegt sé, vegna allrar þeirrar umræðu og þeirra deilna sem átt hafa sér stað, meira og minna, en án þess að nokkur hafi í raun kannað neitt til hlítar, að leggja eitthvað það fram sem gæti skapað umræðugrundvöll.
Áætlun um möguleika á að koma á sölu á köldu vatni til gróðurhúsanotkunar á svæði Vatnsveitufélags Laugaráss.
1. Hvers vegna?
Vegna aukinnar ásóknar garðyrkjubænda í Laugarási í að fá að nota kalt neysluvatn til að vökva ýmsan gróður í gróðurhúsum sínum, hefur stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss íhugað hvernig hægt sé að koma til móts við garðyrkjubændur í þessum efnum, án þess að auka kostnað vatnsveitufélagsins.
Það hefur sýnt sig, að ýmiss gróður hefur ekki þolað sum þeirra efna sem eru í kælda hveravatninu, sem hingað til hefur aðallega verið notað til vökvunar hér. Má þar nefna, að til dæmis er og mikill flúor í hveravatninu og getur hann valdið skaða á sumum tegundum gróðurs, við viss skilyrði, að minnsta kosti. Fleiri efni geta komið til greina sem skaðvaldar, en þau verða látin liggja milli hluta hér. Að minnsta kosti getur útfelling þessara efna valdið stíflu í vökvunarkerfum og óþægindum sem því fylgja, auk þess sem útfelling veldur ljótum blettum á blöðum ýmissa skrautjurta.
Hvað sem öðru líður má telja það víst að kalda vatnið sé hreinna og þessvegna betra til vökvunar en kælda hveravatnið, en margir telja þó að hveravatnið sé alveg nógu gott.
2. Hvernig?
Nú spyrja menn sem annaðhvort sætta sig við hveravatnið, eða þurfa yfirleitt ekki að vökva neitt: „Hversvegna ætti vatnsveitan að steypa sér út í kostnað vegna einhverrar vökvunar í gróðurhúsum? Ekki var vatnsveitan stofnuð til þess!“ Þessi skoðun á fyllilega rétt á sér, enda alveg sönn, en við í vatnsveitustjórninni höfum hugsað málið út frá þessum forsendum:
1. Þessi aðgerð má ekki valda vatnsleysi.
2. Ekki má ofgera dreifikerfi vatnsveitunnar.
3. Ekki má þetta bitna á þeim sem ekki vilja vatnið. (þ.e.a.s. ekki borga meira þess vegna).
4. Þetta má ekki kosta vatnsveituna neitt.
5. Greiðsla fyrir það vatn sem notað verður í gróðurhúsum verður að vera sanngjörn.
6. Þessi aðgerð verður að afnema það misrétti sem er á milli plöntutegunda hvað varðar aðgang að köldu vatni.
7. Þetta gæti aukið tekjur vatnsveitufélagsins.
8. Þetta ætti að afnema alla misklíð sem þessi vatnsmál hafa valdið á undanförnum árum.
9. Við nýtum þetta góða vatn okkar betur.
Hvaða einföld lausn er nú til á þessu máli?
Samkvæmt þeim gögnum sem við höfum undir höndum, fer vatnsnotkun í gróðurgúsum sjaldan yfir 5 lítra á fermetra á sólarhring, eða frá því að vera 0,3 lítrar í desember, upp í 5 lítra í júní. Ef við gefum okkur að við þurfum að vökva 20.000 fermetra (sem er meira en allt það flatarmál sem er undir gleri í Laugarási í dag), þyrftum við 100.000 lítra, miðað við 5 l/ferm.
Þetta þykir ef til vill mikið, en hvað er þetta mikið rennsli á mínútu? 100.000/1440=69,5 l/mín., eða rúmlega 1 l/sek.
Hve mikil er svo heimilisnotkunin? Miðað við 120 íbúa og 300 l á mann á sólarhring, er hún um 24.000 lítrar. Þá gerir heimilisnotkunin og gróðurhúsanotkunin samtals 124.000 lítra á sólarhring.
Það vatnsmagn sem vatnsveitan hefur yfir að ráða er milli 120 og 200 l/mín, eða 172.000 til 288.000 lítrar á sólarhring. Við höfum þannig, að minnsta kosti um 49.000 lítra á sólahring til vara, þótt notkunin sé í hámarki og framboðið í lágmarki.
En nú segja menn:“Vökvunin fer öll fram á það takmörkuðum tíma sólarhringsins að það verður ekki til nóg vatn á þeim tíma.“ Þá erum við komin að merg málsins. Þetta er aðeins framkvæmanlegt með því móti að hver og einn garðyrkjubóndi safni vatni allan sólarhringinn í tank sem tekur alla sólarhringsnotkunina. Þ.e.a.s. gróðrarstöð sem hefur 1500 ferm undir gleri þyrfti þá að hafa tank sem tekur um það bil 8.000 lítra og rennslið í þann tank væri þá um 5,5 l/mín til að fylla tankinn á einum sólarhring. Þessi stöð þyrfti þá að kaupa 5,5 mín/l til að fullnægja þörf stöðvarinnar.
3. Framkvæmd
Hver garðyrkjubóndi sem hefði í hyggju að kaupa vatn af vatnsveitufélaginu með þessum hætti, yrði, samkvæmt framangreindu, að koma sér upp tanki sem rúmar sólarhringsvatnsþörf stöðvarinnar. Síðar sæi vatnsveitufélagið um að koma upp þeim útbúnaði sem er nauðsynlegur til að skammta í tankinn, en þar er um að ræða þrýstijafnara, loka og fleira, sem eftir er að hanna. Auk þess þarf að vera einhverskonar yfirfallsloki til að hindra að vatn fari til spillis þegar tankurinn er fullur. Þessi útbúnaður verður að vera varinn gegn frosti og úrkomu og innsiglaður af vatnsveitufélaginu þannig, að það vatnsmamagn sem keypt er, verði óbreytt, nema um annað verði samið.
Vatnið í tanknum verða menn að passa að frjósi ekki og best er að koma í hann einhverskonar útbúnaði til að halda vatninu á því hitastigi sem menn telja að best henti til vökvunar.
Úr tanknum er síðan dælt vatni til vökvunar eftir þörfum upp á gamla mátann.
Þess má geta, að trúlega er nú þegar til staðar á flestum stöðvum, tankur sem mætti nýta í þessum tilgangi og sá dælubúnaður sem til þarf á hverjum stað.
4. Gjaldtaka
Trúlega verður greiðslum háttað þannig, að menn borga ákveðið stofngjald fyrir útbúnað sem settur yrði upp, auk ákveðins stofngjalds á hvern mínútulítra. Síðan myndu menn borga ákveðið árgjald fyrir hvern lítra. Þessi gjöld verður að ákveða eftir hendinni, þegar reynsla kemur á framkvæmdina, en það er svo algert skilyrði að allur kostnaður lendi á þeim sem kaupa vatnið og venjulegt heimilisgjald verði í engu fyrir breytingu vegna þessa
5. Hvað er að heita vatninu?
Eins og áður hefur verið tekið fram, inniheldur heita vatnið töluvert af uppleystum efnum sem eru sum skaðleg plöntum í of miklum mæli.
Samanburður á efnainnihaldi heita og kalda vatnsins.
Samkvæmt bókinni „Væksthus teknik“ sem er útgefin af Væksthusinfo í Danmörku 1980, eru eftirtalin mörk sett á innihald efna í vökvunarvatni. (ath. allar tölur tákna mg/l (ppm):
Þessi sýni voru rannsökuð 1985 og 1986, en alltaf er töluverður munur milli sýna sökum ónákvæmni í mælingum eða breytinga á efnainnihaldi vatnsins.
Samkvæmt þessum niðurstöðum eru fjögur efni í hveravatninu, sem fara yfir mörkin: natríum, klór, járn og flúor (tölur í sviga). Samkvæmt sýni sem Vatnsveitufélag Laugaráss sendi Iðntæknistofnun Íslands 1985, mældust uppleyst steinefni í kalda vatninu vera 75 mg/l, en aftur á móti voru uppleyst steinefni í hveravatninu hvorki meira né minna en 354 mg/l.
Það má því ljóst vera, að kalda vatnið er hreinna en heita vatnið og því væntanlega betra til ræktunar.
6. Að lokum
Það er ekki á dagskrá hjá stjórn vatnsveitufélagsins að gera neina byltingu í vatnssölumálum og þetta bréf er ekki lýsing á væntanlegum aðerðum stjórnarinnar, heldur erum við aðeins að leitast við að vekja umhugsun um vatnssölumál og þá möguleika sem eru fyrir hendi á því sviði.
Fjölmennið á aðalfundinn. Hann verður haldinn í kjallara sláturhússins þann 8. apríl n.k. kl. 16.00.
Stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss
Ingólfur Guðnason, formaður
Magnús Skúlason, gjaldkeri
Páll M. Skúlason, ritari.
Uppfært 07/2024