Þegar Gestur stal bát

Það sem hér fer á eftir er frásögn Gests Oddleifssonar (1896-1984) sem birtist í Tímanum 22. mars, 1964. Frásögnin er áhugaverð ekki síst vegna þess að hún varpar ljósi á hvernig samgöngum í nágrenni Laugaráss var háttað á fyrstu áratugum 20. aldar.

Gestur Oddleifsson

Fyrst smávegis um Gest úr minningagrein G.Þ.I í Mbl. 15. nóv. 1984:
Jarðskjálftasumarið 1896 flúði flest fólk í Hrunamannahreppi úr torfbæjum sínum og svaf í tjöldum og útihúsum fram á haust. Þann 6. september fæddist Gestur Oddleifsson í heyhlöðukofa og var samkvæmt kirkjubókum skírður við hlöðudyr. Hann var næstelstur barna hjónanna Oddleifs Jónssonar og Helgu Skúladóttur, sem þá bjuggu á hálfum Berghyl.
Hugur Gests mun hafa staðið til náms, en vegna heilsubrests föður hans, reyndist það ógerlegt. Hann fór á vertíð til Keflavíkur 1914 og sótti sjóinn til 1930.
Á sumrin fékkst hann við akstur og hafði áætlunarferðir fyrir Skeið og Hreppa með endastöð á Sandlæk, einnig fór hann með póst í Grímsnes og Biskupstungur.
Sumarið 1928 og 1929 vann hann á bílastöð Kristins og Gunnars.

Árið 1930 hóf Gestur störf í ölgerðinni Egill Skallagrímsson, þar sem hann starfaði til 1974 er hann lét af störfum vegna heilsubrests.
Árið 1926 kvæntist hann Marínu Guðmundsdóttur, dóttur hjónanna Guðmundar Ólafssonar bónda í Syðra-Langholti og konu hans, Önnu Árnadóttur.

Gestur Oddleifsson var hæggerður maður, hógvær og með afbrigðum grandvar. Hann flíkaði ógjarnan tilfinningum sínum, en var þó hlýr og manni leið vel í nærveru hans. Hann notaði hverja stund sem aflögu var til bóklesturs, einkum hafði hann yndi af ættfræði og stundaði sjálfur rannsóknir á því sviði.


Þegar ég stal bát við Brúará

Ferð sú, er hér verður sagt frá, var engin langferð, aðeins frá Langholtskoti í Hrunamannahrepp að Haga í Grímsnesi, og ekki ætlast ég til þess, að hún verði talin neitt merkileg. En sérstæð var hún og mér ógleymanleg. Og af henni má þó sjá þann reginmun, sem er á því að ferðast milli nálægra sveita nú eða var fyrir fimmtíu árum.

Gestur Oddleifsson (myndin sem birtist með frásögninni)

Þetta var nálægt miðjum október 1913. Ég var hjá foreldrum mínum í Langholtskoti, réttra seytján ára. Ég hafði farið tvær fjallferðir um haustið, í fyrrasafn og eftirsafn, og svo átti ég eftir að fara lestaferð til Reykjavíkur, en nú stóðu yfir aðalsláturfjárrekstrar þangað. Það má geta þess, að ég vandist snemma við alls konar ferðalög, svo sem fjallferðir, kaupstaðaferðir, læknisvitjanir og sendiferðir margs konar. Til þess lágu margar ástæður, svo sem slæmt heilsufar föður míns þá á tímabili, svo að hann kveinkaði sér við ferðalögum, en vinnumann hafði hann ekki ráð á að hafa. Og þar sem ég var elztur okkar þriggja bræðra, komu ferðalögin fyrst í minn hlut.
Það var líka síður en svo, að ég teldist undan þeim þá. Yfirleitt hafði ég gaman af að ferðast, og venjulega gekk mér það furðuvel, þótt það byggðist oft á velvilja og fyrirgreiðslu samferðamanna, er tóku mig að sér. Þó gat að sjálfsögðu sitthvað óvænt borið að höndum, og það eru þau atvik, sem sízt gleymast, og þar í flokki er þessi litla ferðasaga.

Það var dag einn að pabbi fékk bréf frá Skúla Skúlasyni, mági sínum, en móðurbróður mínum, þá búsettum í Laugardal, síðar í Keflavík. Og efni bréfsins var beiðni um að nálgast frá séra Kjartani í Hruna — ég man nú ekki, hvort heldur það voru peningar úr Sparisjóðnum Gullfossi, er prestur veitti forstöðu, eða það voru einhver skjöl. Hitt man ég, að fyrirferðin var aðeins sem sendibréf. Jafnframt bað Skúli þess, að maður væri sendur tiltekinn dag gagngert með þetta að Haga í Grímsnesi, og þangað ætlaði hann svo að koma til móts við sendimanninn á báti yfir Apavatn frá Austurey. Eitthvað hafði bréfinu seinkað, svo að allt var að komast í eindaga, og hinn tiltekni dagur var morgundagurinn.

Nú var brugðið hart við. Pabbi brá sér að Hruna og rak erindið við séra Kjartan. Hitt var ekkert vafamál, að ég ætti að fara þessa sendiferð, enda hafði ég áður farið út í Laugardal. Og svo var samin ferðaáætlun fyrir mig um kvöldið, og voru mér að sjálfsögðu lagðar ótal lífsreglur. Áætlunin var í meginatriðum þessi: Ég átti að fara ríðandi að Auðsholti, fá hestinn geymdan þar til næsta dags, en mig sjálfan ferjaðan yfir Hvítá. Svo átti ég að ganga að Spóastöðum, fá þar flutning yfir Brúará, halda svo að Haga, hitta Skúla frænda og gista þar eina nótt — fara svo heim daginn eftir sömu leið.

Sumarið 1913 var sunnan lands eitt hið mesta óþurrkasumar, er elztu menn þá töldu sig muna, og hélzt sami rosinn til veturnótta, en þá stytti upp með frosti. Þegar saga þessi gerðist, voru því mýrar frostlausar og öll jörð svo vatnsfull sem mest gat orðið og allar ár flugmiklar. Þennan umrædda undirbúningsdag var rigning, einnig næstu nótt, og ekki tók betra við, er út var litið að morgni ferðadagsins: Rigning sem áður og þar við bættist suðaustanrok, ósvikið slagveður.

Nú var mest rætt um það, hvort Litla-Laxá mundi verða reið. Til hennar sást að heiman, og hún var næsta vatnsfallið — trúlegra þótti, að svo væri. Svo er ekki að orðlengja það: Eftir drjúgar bollaleggingar sezt ég á hestbak og held út í óveðrið. Ég sullaðist nú út yfir Geldingaholtsmýri. Hún var æði vatnsfull, en það setti ég ekkert fyrir mig — henni var ég kunnugur. Svo kom ég að Litlu-Laxá vestan Geldingaholts. Þar var þá gott vað á henni, sem ég þekkti vel. Ég sá strax að áin var mjög mikil, en hélt hana þó reiða og lagði hiklaust í hana. Sú varð líka raunin á, að ekki flaut yfir hjá mér, en fast að því. Svo hélt ég sem leið lá niður með ánni, en þá átti ég eftir annað vatnsfall, áður en ég kæmi að Auðsholti, en það var Stórós. Honum var ég mjög lítið kunnugur, en því fleira hafði ég heyrt um hann talað og mjög á einn veg — nefnilega, að hann væri stórhættulegur, enda orðið stundum að slysi. Vöð á Ósnum voru mjög misjöfn og breytileg frá ári til árs. Það fór meðal annars eftir því hvernig Hvítá hagaði sér við ósmynnið. Stundum var þar eyri og þá var vaðið auðvitað þar, og svo vissi ég að átti að vera nú. Hitt vissi ég líka, að eftir því sem Hvítá var vatnsmeiri, var dýpra í Ósnum. Ég sárkveið fyrir að fara yfir Stórós. Þar kom enn eitt til: Skömmu fyrir aldamótin var sett brú á Stórós, er þótti mjög lofsvert og þarft. Þá hafði Einar Brynjólfsson frá Sóleyjarbakka ort vígsluljóð, trúlega að fyrirmynd Hannesar Hafsteins, er orti um Ölfusárbrú. Þessi ljóð voru á margra vörum þar eystra í mínu ungdæmi. Nú man ég aðeins upphafið á þeim. Það var svona:

Allir þekkja Ósinn stóra
Auðsholtsbænum hjá,
margan hefur manninn skelkað
meinvætturinn sá.

Þetta stef söng allt af í huga mér, því að nú var brúin flotin af — hafði farið sinn veg í stórflóði nokkru áður en hér var komið — hún skelkaði mig sannarlega sú meinvættur. Ekki dugði þó annað en bera sig karlmannlega, og svo kom ég þá að Stórósi. Jú — það stóð heima, þarna var eyri við ósmynnið, þótt nær flyti nú yfir hana, og þarna var braut út í vatnið. Þá var ekki um annað að gera en láta slag standa, og yfir um mjakaðist ég með hálfum huga. Feginn var ég er vatnið var að baki og heldur var það grynnra en Laxá, þó að litlu munaði.

Svo kom ég að Auðsholti til Tómasar í Vesturbænum, en hann hafði ferjuna. Ég bar upp erindi mitt, bið hann að gæta hestsins til morguns og flytja mig yfir ána. Hann kveðst fús til þess að annast hestinn. Hitt sé verra, að nú sé svo hvasst, að vart sé flutningsfært — býður mér í bæinn að fá kaffi og sjá til, hvort ekki batni veðrið. Nú sat ég og beið æðilengi. Tómas var á gangi út og inn, en lítið vildi lygna. Loks kemur hann inn með allmiklum asa og segir kominn mann, er þurfi að ná fundi héraðslæknisins í Skálholti, Skúla Árnasonar, og telji hann sig verða að reyna að flytja manninn yfir, þó að tvísýnt sé. Ég megi auðvitað vera með, ef ég vilji, en hann eggi mig ekki á það eins og á standi. Ég þurfti engan umhugsunarfrest, heldur fór strax og óttalaus með honum. Þeir voru tveir ferjumenn og við tveir farþegar, og allt gekk þetta vel yfir ána.

Ég freistaði þess að teikna leið Gests upp í samræmi við lýsingu hans, en líklegt er, að teikningin sé ekki alveg í samræmi við það sem raunin var, en hún gefur þó vísbendingu um við hvað gat verið að eiga á fyrstu áratugum aldarinnar.

Að sjálfsögðu hafði Tómas spurt mig um allt viðvíkjandi ferðalagi mínu og ég sagt honum allt af létta. Hann sagði mér þýðingarlaust að treysta á ferju á Spóastöðum, því að þar væri enginn heima, sem gæti flutt, enda ekki skylduferja þar. Ég spurði, hvað þá væri til ráða. Hann kvað vera straumferju á Brúará nokkru fyrir neðan Spóastaði, og sagði mér stefnu á hana og hvernig ætti að nota hana, en bætir svo við, að vel geti verið, að Tungnamenn hafi tekið ferjuna upp, er þeir hafi lokið fjárflutningum á henni. Fyrir einum eða tveimur dögum hafi þeir þó farið þar yfir með sláturfjárrekstur á suðurleið. En ef svo væri, ætti ég ekki annars úrkosti en fara niður á móts við Reykjanes, en þar væri lögferja. Ég þakkaði Tómasi allar upplýsingarnar, en vonaðist til að þurfa ekki á Reykjanesferjunni að halda, svo úrleiðis sem það væri.

Svo gengum við ferðalangarnir að Skálholti. Hinn fór auðvitað ekki lengra, en ég tók strikið vestur mýri eftir leiðsögn Tómasar í Auðsholti, og svo glögg var hún, að ég stefndi beint á straumferjuna. Ekki þurfti ég samt að hrósa happi — sú góða ferja flaut ekki lengur. Tungnamenn höfðu sett hana upp á græn grös vestan ár og búið vel um.

Þetta var nú lakara, þó að ekki dygði að setja það fyrir sig. Ég varð að snúa móti veðrinu og halda niður á móts við Reykjanes, þótt ónotakrókur væri. Er ég kom þar gegnt bænum og bátnum, sem var bundinn við árbakkann beint á móti mér og virtist aðeins steinsnar frá tánum á mér, tók ég að veifa og kalla. Það bar fljótt árangur, því að út úr bænum kom maður, svo annar og hinn þriðji, og tóku að ganga um bæjarstéttina hinir rólegustu. Ég fór að álasa þeim í huganum fyrir seinlæti, því að fljótt setti að mér hroll svo hundhrakinn sem ég var. Svo skunduðu þeir í bæinn aftur einn af öðrum. Ég bjóst við, að þeir ætluðu í hlífðarföt, þó að ekki væri langt að fara eftir mér. Svo leið og beið, en enginn kom út aftur. Mér hætti að lítast á þetta, barði mér til hita og ranglaði um árbakkann, náttúrlega bölvandi hátt og í hljóði. Ætluðu þeir virkilega að gera mig innkulsa með þessu seinlæti sínu?

Og það er skemmst af að segja, að ég gafst upp á biðinni. Hún varð svo löng, að ég sannfærðist um, að ekki ætti að sækja mig, þó að ég gæti með engu móti skilið ástæðuna fyrir því. Þarna var ég laglega settur — mjög illa á mig kominn, blautur, kaldur, sárgramur og ráðalaus og komst ekki yfir Brúará. Hábölvað þótti mér að snúa til baka að Skálholti. En var um annað að ræða?

Ég rölti af stað upp með Brúará, sömu leið og ég hafði komið. Nú minntist ég þess að hafa séð bát við ána, er ég kom ofan að, þó að ég aðgætti það ekkert þá — hann hvolfdi á eyri nálægt Skálholtshver. Ég fór að hugleiða, hver mundi eiga bátinn og til hvers hann væri notaður — máske var stunduð veiði á honum. Ég fann bátinn. Þetta var lítill járnbátur, sams konar og ég hafði séð við Apavatn, er ég dvaldist lítinn tíma í Austurey. Og þar hafði ég lært áralag á svona fleytu. Ég fór nú að skoða farkostinn. Þarna voru árar, og austurtrog, og báturinn bar með sér, að fé hefði nýlega verið flutt á honum. Nú tók að stríða á mig sár löngun til þess að stela þessum báti. Ég fann þó, að í mikið væri ráðizt, og annað: Myndi ég ráða við hann? Þarna hagaði vel til að setja hann á flot, sléttur sandur, og að utanverðu sé ég að var bakki. En myndi ég koma honum þar upp, því ekki gat það komið til mála að skilja við hann á floti?

Þessu velti ég fyrir mér æðistund. Loks varð það úr, að ég gerði tilraun — mér mundi þó hitna á að baksa við bátinn. Og svo hófst ég handa, velti upp bátnum og setti hann á flot. Hann hefur líklega verið fisléttur, því að sæmilega gekk mér þetta. Svo reri ég yfir ána og gekk það ágætlega, en að ég væri að stofna mér í nokkra lífshættu flögraði aldrei að mér. Nú var hið erfiðasta eftir — að koma bátnum upp á árbakkann. Það tók ég skolli nærri mér, tókst það þó með herkjum. Síðan hvolfdi ég bátnum og gekk að öllu leyti svo vel frá honum sem ég hafði vit á.

Þá var ég kominn í Grímsnesið og þessi farartálmi að baki. En samvizkan unni mér ekki friðar, því að auk þess að þetta var þjófnaður, gat það líka verið eigandanum bagalegt, að báturinn væri utan ár til næsta dags. Eftir mikil heilabrot tók ég það ráð að fara niður að Reykjanesi og spyrjast fyrir um þennan bát.

Bóndi kom til dyra. Hann spurði strax, hvaðan mig bæri að. Ég kvaðst koma hér ofan með ánni, en bætti svo við fullur gremju við þennan mann: — Ég var líka fyrir stuttu síðan hér gegnt bænum að kalla ferju, því að Tómas í Auðsholti fullyrti við mig, að hér væri lögferja, svo að ég hefði fullan rétt til þess að kalla eftir henni. Eða hafði hann haft rangt fyrir sér í því?
Nei, ekki kvað hann það vera, en hitt gæti ókunnugum sézt yfir, að nú væri ekki fært að flytja fyrir roki. Ég sagði sem var, að það hafi mér ekki komið til hugar, fyrst og fremst vegna þess, að ég hafi rétt áður verið fluttur yfir Hvítá í Auðsholti og virtist mér þar ólíku saman að jafna, og svo gæti ég bent honum á, að ég væri kominn yfir Brúará á báti, en honum hefði ég neyðzt til þess að stela. Það var sem sé móður í mér. Bóndi svaraði með mestu hægð, að það væri nú ekki nýtt, þegar óvitar og angurgapar stofnuðu sér í hættu, að hælast um á eftir, ef allt slampast af.

Þarna sló hann mig út af laginu, þetta sjónarmið kannaðist ég vel við, og nú umþóttaði ég mig í hasti — sagðist ekki vera kominn til þess að standa í þrætum við hann, heldur til þess að spyrja um bát þann, er ég hafði tekið austan Brúarár. Vissi hann hver ætti bátinn, og mundi það verða bagalegt þó hann væri utan árinnar, þar til um miðjan næsta dag?

Bóndi kvaðst vita þetta. Skúli læknir ætti bátinn, og öruggt væri, að engum baga gæti það valdið honum, þótt ég skilaði bátnum ekki fyrr en á morgun. Hann væri örsjaldan notaður, en núna fyrir einum eða tveimur dögum hafi verið flutt á honum sláturfé, sem rekið var suður.

Mér kom nú vel að heyra þetta. Bóndi tók svo að spyrja um mitt ferðalag. Svo bauð hann mér í bæinn, en það þáði ég ekki, enda farið að framorðnast. Þá bauðst hann til þess að segja mér til vegar að Mosfelli, og það fann ég á eftir, að kom mér vel, því að hæglega gat ókunnugur lent þar í torfærum. Kvaddi ég svo bónda og hélt sem leið lá upp hjá Mosfelli og Seli að Haga. Þá var farið að dimma, er ég kom þar, enda hafði ég orðið fyrir ærnum töfum um daginn. Mér var tekið tveim höndum í Haga. Þar bjó gestrisið og greiðugt fólk. Ég hafði komið þar áður, og svo var jafnan góður kunningsskapur milli þess og Skúla, frænda míns. Ég spurði, hvort Skúli hefði komið þar. Guðni bóndi kvað nei við, enda þess ekki að vænta, veðrið hafði ekki verið þesslegt í dag, að nokkrum smábáti væri fært á Apavatni.

Eftir ríkulegar góðgerðir gekk ég snemma til náða og svaf vært. Er ég vaknaði morguninn eftir, heyrði ég, að Skúli var kominn, enda þá komið logn og nærri þurrt veður. Mér voru nú færð þurr plögg mín, og snaraðist ég í fötin. Það tók mig ekki langan tíma að Ijúka erindum við Skúla, auðvitað sagði ég ferðasöguna frá deginum áður. Ekki hlaut ég neitt hrós hjá þeim Skúla og Guðna fyrir tiltækið með Skálholtsbátinn. Þeir átöldu mig raunar ekki heldur og viðurkenndu, að ég hefði verið illa settur, en Skúli áminnti mig að um að afsaka þetta við Skúla lækni, sem ég lofaði að gera, enda alltaf ætlað mér það.

Ég sá það löngu seinna, hvað valdið hafði, hversu fálega þeir tóku þessu úrræði mínu. Þeir hafa fljótt séð í hendi sér, að ekki þurfti miklu að muna, svo að illa færi, og senniIega hefur þeim ekki vaxið í augum róðrarkunnátta mín, enda sitt hvað að gutla eitthvað á stöðuvatni í góðu veðri eða á straumvatni í roki.

Eftir að hafa þegið góðgerðir og kvatt í Haga hélt ég af stað og þræddi leiðina frá kvöldinu áður. Ekki þurfti ég að vera upp á aðra kominn með ferju fyrir Brúará. Báturinn beið mín og gekk ég beint að honum, setti hann á flot og reri yfir, dró hann svo í sitt fyrra far og bjó um hann alveg á sama hátt og verið hafði — hélt svo heim að Skálholti.

Eftir því sem nær dró bænum, dvínaði kjarkur minn. Hvernig myndi læknirinn taka þessu? Ég fór að íhuga, hvað Reykjanesbóndinn hafði sagt, og hversu daufar undirtektir þeirra í Haga höfðu verið. Máske hafði ég gert stórfellt glapræði?

Það var óburðugur drengur, er barði að dyrum í Skálholti og gerði boð fyrir lækninn. Hann kom út, brosandi og elskulegur, eins og hans var vandi. Eitthvað hefur víst vafist fyrir mér að bera upp erindið, því hann varð fyrri til að inna mig eftir hvað ég vildi sér. Ég kvaðst kominn til að biðja hann afsökunar á tiltæki mínu í gær. Ég hefði stolið bát frá honum til þess að komast yfir Brúará. Hann spurði strax hvort ég hefði gengið vel frá bátnum aftur, og ég fullyrti, að nákvæmlega eins væri frá honum gengið og verið hefði, er ég tók hann. Þá sagði hann mér að koma inn og segja sér betur frá þessu ferðalagi mínu. Ég sagði honum nákvæmlega frá öllu. Hann hlustaði af áhuga á frásögnina, spurði stundum nánar út í eitt og annað, svo sem hvar og hvenær ég hefði lært áralagið. Ég fór að verða heldur rólegri, er á leið söguna, því ekkert virtist læknirinn skipta skapi, alltaf sama ljúfmennskan. Svo er ég hafði lokið frásögunni varð honum fyrst að orði: „Mér þykir ótrúlegast, að þu skyldir ráða við bátinn einsamall, þú hlýtur að vera heljar kraftamaður eftir aldri“. Auðvitað þótti mér hrósið gott, og máske hef ég verið svo barnalegur þá að halda mig sæmilega sterkan. Loks stundi ég upp þeirri spurningu, hvað ég ætti að borga honum fyrir þetta. Þá hló Skúli læknir og hélt hann færi nú ekki að taka borgun af mér. Sér þætti bara vænt um, að báturinn sinn skyldi hafa orðið mér að liði, fyrst ég hafi haft áræði og dug til að notfæra mér hann — taldi vafasamt, að margir jafnaldrar mínir hefðu haft dug til að gera slíkt í mínum sporum.

Ekki var læknirinn eins hrifinn af frammistöðu þeirra í Reykjanesi. Mér duldist ekki, að hann taldi það ódugnað af þeim að sækja mig ekki, er ég kallaði ferjuna. Hann var að sjálfsögðu vel dómbær á það, bæði vanur ferðamaður og kunnugur staðháttum þarna. Hann taldi vítavert að gera enga tilraun til þess að tala við mig eða reyna að gera mér skiljanlegt, hvers vegna þeir sæktu mig ekki. „Því“, sagði hann, „ferjumenn vita aldrei að óathuguðu máli, hverra erinda þeir kunna að fara, er kalla ferju“.

Eftir að hafa þegið góðgerðir í Skálholti og þakkað lækninum fyrir mig svo vel sem ég hafði vit á, snaraðist ég af stað. Nú var það lundléttur og léttstígur unglingur, sem trítlaði austur að ferjustaðnum í Auðsholti, því að auðvitað var sem létt væri af mér þungu fargi við þessi góðu málalok. Og fyrst læknirinn tók þannig á málinu, fannst mér ég geta látið mér í léttu rúmi liggja dóm annarra á þessu tiltæki mínu.

Ekki þurfti ég lengi að bíða ferjunnar í Auðsholti. Auðvitað sagði ég Tómasi ferðasöguna, þó að ég muni nú ekki fyrir víst, hvað hann lagði til þeirra mála. Minnir mig þó, að hann hrósaði mér fyrir áræði. Svo settist ég á bak hesti mínum og hélt heim. Nú var allt auðveldara viðfangs en daginn áður: Veðrið var gott, heldur hafði fjarað úr ám og ósum og svo var ég ekki heldur búinn að gleyma, hvernig vöðin lágu.

Að áliðnum degi kom ég svo heim, og satt að segja fannst mér ég hafa staðið mig vel, og ekki man ég annað en foreldrar mínir væru mér nokkurn veginn sammála um það.

Annars mun þeim hafa þótt mest um vert, að ég var kominn heim heill á húfi. Og að nokkrum dögum liðnum skyldi ég svo fara suður, eins og það var kallað, til Reykjavíkur, og þá með vagna.

Uppfært 07/2022