Kristín Ágústsdóttir

Kristín Ágústsdóttir

Kristín Ágústsdóttir, frá Löngumýri:

Krossinn  1967-1969

Ég var þrjú sumur í Krossinum, frá lokum maí fram í byrjun september. Fyrstu sumrin  var ég í eldhúsinu og borðstofu, en síðasta sumarið í afleysingum. 

Sumarið 1969 hef ég haldið dagbók og sé að Jóna Hansen, sem var forstöðukonan, hafði hringt og sagt mér að mæta 29. maí. Ég mætti þá til að undirbúa komu barnanna. Þarna kemur fram að ég talaði við Siggu Ásu í Auðsholti. Hólmfríður á Iðu kom þarna 30. maí, en ég veit ekki hvort það var bara heimsókn eða hvort hún var að vinna þarna þetta sumar. Rósa Hanna og Gígja komu 3. og  4. júní, en mig minnir að Gígja  hafi verið ráðskona þetta sumar. Guðný Guðmundsdóttir kona Helga Indriðasonar var ráðskona fyrri sumrin.

Ég held að öll árin sem ég var þarna hafi dagskráin verið svipuð.

Töskur barnanna komu degi á undan þeim og við tókum upp úr þeim og röðuðum í merktar hillur eða skápa. Í mínum huga voru deildirnar 4 og eitt svefnherbergi með hverri deild. 30 börn á deild og mér finnst 3-5 fóstrur,  en kannski voru þær bara 3 á deild. Svo var vökukona. Hún vakti alla nóttina og fór á milli deilda. Það var sérstök pissuvakt, þ.e. fóstrur sem létu börnin pissa ef þurfti til ca. 11, en, nei ég man það ekki, kannski  einhver fóstra sem man þetta.

1970 f.v. Valdís, Jóhanna, Auður, Drífa, Harpa, Sigga, Kristín Sif. Mynd: Olga Sverrisdóttir

1970 f.v. Valdís, Jóhanna, Auður, Drífa, Harpa, Sigga, Kristín Sif. Mynd: Olga Sverrisdóttir

Sumrið 1969, þegar ég var í afleysingum þá bakaði ég fram að hádegi á föstudögum en fór þá að sofa því ég átti ég að leysa vökukonuna af.  Það var nú ekkert spennandi að vaka ein yfir þessu öllu, en ég man að ef börnin vöknuðu snemma mátti vekja fóstru sér til aðstoðar.

Ég leysti af í barnaborðstofunni. Í því fólst að leggja á borð og bera fram matinn, taka af borðum og ganga frá og vaska upp. Mig minnir að það hafi verið komin einhverskonar uppþvottavél. Kannski er það bara vitleysa. Það voru tveir mjög stórir vaskar og nóg af heitu vatni. Ég leysti líka af í eldhúsi, borðstofu og ræstingum. Svo var ég í að baða börnin eftir hádegi einn dag.

Einn daginn skrifa ég að Jóna Hansen hafi farið með vitlausa löpp fram úr. Hún átti það til að gjósa en var samt ágæt, en mjög ströng.

1970 - Elva, Auður, Anna, Kristbjörg, Karen, Klara, Sigrid, Íris, Tóki, Linda. Mynd: Olga Sverrisdóttir

1970 - Elva, Auður, Anna, Kristbjörg, Karen, Klara, Sigrid, Íris, Tóki, Linda. Mynd: Olga Sverrisdóttir

Sum börnin voru allt sumarið, það er að segja þau sem eldri voru. Þau yngri voru í sex vikur ég sé að skiptin áttu sér stað um miðjan júlí. Þá komu ný börn í stað þeirra sem fóru heim. Mér finnst að þau yngstu hafi verið 3 ára og hef oft hugsað um hvurslags meðferð þetta var að senda svona ung börn í burtu í sex vikur.

Bjössi í Skálholti kom með mjólkina í stórum mjólkurbrúsum og Ingólfur á Iðu kom ef eitthvað bilaði. Það var farið með börnin í Skálholt í messu eða sunnudagaskóla á hverjum sunnudegi held ég. (Það var áður en það varð hættulegt). Þau gengu þetta og héldu í lykkju á bandi til að enginn færi út úr röðinni og fóstrur á undan og eftir. Það var ein lærð fóstra og sú sem ég man eftir hét Erna Aradóttir og var með lítinn son sinn með sér sem hét Ari Sævarsson.

Við fengum einn frídag í viku og helgarfrí mig langar að segja tvisvar á sumri. Við fengum launin greidd þegar við hættum, en gátum fengið pening hjá Jónu Hansen ef við þurftum. Auðvitað þurftum við vasapening til að geta farið á böll. Við fórum á  böll um hverja helgi, stundum bæði föstudag og laugardag og jafnvel sunnudag í Aratungu, að Flúðum og á Borg. Þar spiluðu Mánar, Dúmbó og Steini og jafnvel Hljómar, ásamt fleiri hljómsveitum. Það er ekki langt síðan ég henti ballmiðunum mínum, annars hefði ég getað talið upp hljómsveitirnar. Við fórum þetta mest á puttanum og var mesta furða hve vel það gekk. Ég var heppin að vera úr næstu sveit og átti bræður sem fóru stundum á ball líka og ég fékk þá kannski far og gat tekið einhverjar með mér. Í dagbókinni sé ég að það var ball á Borg 5. júlí, í Aratungu 12. júlí  og á Flúðum 26. júlí.

Svo var eitt sem mér finnst mjög merkilegt í dag, en það var að hann Kristinn á Brautarhóli, sem kom á fimmtudagskvöldum með fullan Willis jeppann sinn af sælgæti og gosi til að selja okkur. Ég fer alltaf í sjoppuna/verslunina (Bjarnabúð) sem sonur hans rekur  þegar ég á leið þar um.

Það var girtur reitur uppi við hlið sem í var plantað trjám og blómum. Þessi reitur var kallaður Paradís og þarna var Jóna oft og iðulega  að reita arfa og sinna gróðrinum. Rauða myllan var stór geymsla sem var þarna á hlaðinu þar kenndi margra grasa.

Mér finnst að börnin hafi átt frekar góða daga þarna og ég þori að fullyrða að það var enginn vondur  við þau. Mér var hugsað til þessa tíma þegar ég horfði á myndina Sumarbörn um daginn og mikið var ég fegin að hugsa til þess að þetta sem gerðist þar hefði ekki getað gerst í Krossinum. Ég man einu sinni eftir að hafa rekist á strák sitjandi uppi á borði í baðherberginu og hann átti að vera þar í skammarkrók. Hafði gert eitthvað af sér eða verið óþægur. Þetta var reyndar frændi minn.
Jóna var ströng en ekki vond. Hún hélt mismikið upp á fólk, en almennt held ég að hún hafi bara verið ágæt. Eflaust er þetta svona fjarlægðin gerir fjöllin blá.

Ég hef ekki haldið sambandi við margar stelpur sem voru með mér, en þær eru þó nokkrar. Við Gígja (Guðrún Ingvarsdóttir) á Reykjum vorum í ágætu sambandi ég var með henni í herbergi öll árin, en hún lést 2008.  Herbergin voru þriggja manna flest held ég, með einu rúmi og kojum. Rósa Hanna var með mér í herbergi. Hún var í Krossinum í ein fjögur ár og sem barn líka í amk eitt ár. Og  svo Valgerður frá Vorsabæ. Ingunn Jakobsdóttir var kennari hér um tíma og þá endurnýjuðust kynni okkar.

Gígja kom ásamt slatta af stelpum í heimsókn til mín í sumarbústaðinn minn á Skeiðunum 1996. Þá voru þær að halda upp á að 25 ár voru liðin síðan Krossinn hætti. Þetta voru stelpur sem voru eftir að ég hætti nema 4 þeirra.  Þær sem ég man eftir eru fyrir utan þær sem ég hef minnst á voru Guðrún Jónasdóttir frá Kjóastöðum, Sigrún, sem var á straustofunni (Hólmfríður á Iðu segir að hún sé enn á lífi), Steinunn frá Norðurbrún þvottahúsi. Þórdís og Þórunn Kristinsdætur áttu ættir að rekja að Skriðufelli, en mig minnir að Jóhann á Skriðufelli hafi verið afi þeirra, Jenný Hjálmtýsdóttir og mamma hennar Guðlaug var vökukona, Sigurveig man ekki hvers dóttir var vökukona, Jóna frá Helgastöðum var í eldhúsinu, Guðný, fullorðin kona og dóttir hennar Helga, Auður Hauksdóttir sem er forstöðumaður Vigdísarstofnunar, Unnur Ólafsdóttir veðurfræðingur kona Þórarins Eldjárn og tvær systur hennar, Sigríður og Marta. Kristín Gylfadóttir var frænka þeirra.

Uppfært 09/2024