Erfið sumardvöl í Laugarási 

Ólafur Haukur Matthíasson

Ólafur Haukur Matthíasson var á sjöunda ári þegar hann var sendur til fjögurra vikna dvalar á barnaheimilinu í Laugarási, Krossinum, sumarið 1957. Þessi tími reyndist hafa heilmikil áhrif á líf hans.

Eftirfarandi viðtal skráði Páll M. Skúlason í orðastað Ólafs.

Ólafur Haukur á svipuðum tíma og hann dvaldi í Laugarási


Ég var nú sennilega ekki rólegasta barn sem um getur. Ætli ég hafi ekki verið frekar ódæll jafnvel, eins og stundum var sagt óþekkur. Ástæða þess að ég var sendur í Laugarás var sú að afi minn og amma, sem þá voru sextugt, þurftu á hvíld að halda.
Ég vildi ekki fara á barnaheimili, hreint ekki, en það var ekki eitthvað sem ég gat ákveðið.

Það var lagt af stað í rútu frá plani við Arnarhól að morgni dags. Það var mikið grátið og mörg okkar sem þarna vorum, voru afar ósátt við að leggja í þessa ferð. Þarna var strákur sem var eitthvað yngri en ég, sem barðist um á hæl og hnakka, grét og öskraði, en það breytti engu. Þessi strákur var Bolli.

Fyrir utan stóðu aðstandendur, margir með tárin í augunum.

Framundan var átta vikna dvöl fjarri fjölskyldum hjá sumum, en aðrir áttu að vera í fjórar vikur, þannig var það með mig, að mig minnir.

Dvölin í Krossinum var upp og ofan og ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi verið auðvelt barn að eiga við. Ég grét mig í svefn á hverju kvöldi. Ég man eftir gamalli konu sem sat við kojuna hjá mér og sagði: „Óli minn, þú ferð heim á morgun“. Auðvitað fór ég ekki heim, en þetta dugði til að ég sofnaði. Daginn eftir var þetta svo gleymt. Nýr dagur, nýjar upplifanir, læti, fjör og skemmtilegt. Svo kom aftur kvöld og heimþráin tók yfir á ný. Svona gekk þetta fyrir sig.

Ég á nokkrar brotakenndar minningar frá þessu sumri. Minnst þess að hafa verið tekinn upp á einhverskonar svið í matsalnum og tuskaður þar eitthvað til. Ég man ekki hvort um var að ræða flenginu eða annarskonar refsingu, sem karlmaður, sem mér fannst vera skólastjórinn, framkvæmdi. Ég reikna með að þetta hafi ekki síst verið öðrum til viðvörunar. Ég er ekki viss um hvað ég á að hafa gert af mér, en kemur í hug að mögulega haf ég skrúfað frá krana svo út úr flæddi.

Mér finnst að það hafi verið talsverð harka gagnvart börnunum, en veit ekki hvort sú upplifun tengist því að ég var fremur ódæll.

Yfirleitt vorum við bara þarna að leik í kringum heimilið; úti allan daginn, en eitthvað var um að við færum í gönguferðir og þá vorum við í bandi. Ég man til dæmis eftir gönguferð í Skálholt og svo fórum við í berjamó.

Bolli, strákurinn sem barðist hvað mest gegn því, í rútunni við Arnarhól, að fara í Laugarás reyndist vera ansi uppátækjasmur og ég hef sennilega þessvegna tengst honum meira en mörgum öðrum þarna. Við vorum heilmikið saman.

Einn daginn ákváðum við að strjúka og lögðum af stað fyrir hádegi.

Það var afskaplega gott veður, ekki ský á himni, logn, heitt. Leið okkar lá í áttina að ánni, Hvítá, sem var í 5-600 metra fjarlægð. Á leiðinni þurftum við af fara yfir einn eða tvo skurði og svo vorum við komnir niður að ánni. Líklegast komum við að henni á sandeyrinni sem er rétt fyrir neðan þar sem brúin er nú, en þá var hún í byggingu.

Ég man að áin var alveg spegilslétt.

Þarna hurfu fyrirætlanir okkar um að strjúka og við fórum að leika okkur, fundum þarna spýtukkubba sem við hentum útí, byrjuðum svo að vaða aðeins úti.

Þetta var bara eins og að sulla í polli.

En þannig var það ekki.

Bolli hafði vaðið lengra út í en ég, þegar straumurinn fór að taka í hann og vatnið dýpkaði snögglega. Hann fór að hrópa, ég reyndi að grípa í hann. Náði að snerta hönd hans rétt áður en straumurinn tók hann. Ég var sjálfur við það að fara sömu leið, en einhvern veginn tókst mér að krafla mig upp á bakkann. Svo held ég að ég hafi bara verið þar.

Það næsta sem ég man er að það kom karlmaður hlaupandi á skyrtu og í inniskóm og fór að leita í ánni. Svo minnir mig að ég hafi sé einhvern hinumegin við ána.

Ég var sóttur og farið með mig heim, til Reykjavíkur. Þetta var ekkert rætt við mig svo ég muni. Ég frétti síðar að ég hefði sagt við föðurbróður minn: „Ég var svolítið drukknaður“.

Ég hef lifað með þessari reynslu síðan, og finnst, eftir því sem árin hafa liðið, að þetta mál hafi verið þaggað niður. Ég hef séð fréttatilkynningu frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins, sem birtist í dagblöðum. Þar er bara talað um að Bolli hafi verið einn á ferð. Þetta hefur orðið til þess að það hefur stundum hvarflað að mér, að þessi minning mín um að hafa verið þarna með honum, væri ekki raunveruleg, heldur bara hugarburður minn.

Nú veit ég að svo er ekki, því í tengslum við þetta verkefni: efnissöfnun vegna sögu þessa barnaheimilis, hafa starfsmenn staðfest að Bolli var ekki einn þarna á ferð og hafa lýst sig sammála því að málið hafi verið þaggað niður. Það skiptir mig miklu máli.


Aths. Eins og fram kemur hjá Ólafi hér fyrir ofan var Bolli Guðmundsson ekki einn á ferð þegar hann féll í ána. Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurdeild og skýrslu hreppstjóra Biskupstungnahrepps, sem sjá má hér fyrir neðan, er hinsvegar talað um að Bolli hafi verið einn síns liðs. Þarna er augljóslega um að ræða talsvert misræmi í frásögnum. Eftir því sem fólk sem starfaði þetta sumar í Krossinum og sem hefur tjáð sig um málið, kemur fram að þeir hafi verið tveir, piltarnir sem þarna var um að ræða.

_______________________________________________________________________________

Bolli Guðmundsson var 5 ára þegar hann féll í ána og eftirfarandi fréttatilkynning frá Reykjavíkurdeild RKÍ birtist í dagblöðum í kjölfarið:

Fimm ára drengur drukknaði í Hvítá hjá Iðu í fyrradag

Fimmtudaginn 18. júlí, um hádegisbil varð það hörmulega slys, að fimm ára drengur, Bolli Guðmundsson skráður til heimilis að Drápuhlíð 3, tók sig út úr barnahópnum í sumardvalarheimili Rauða krossins í Laugarási, Biskupstungum og beið bana í Hvítá.

Foreldrar drengsins, Soffía Sigurjónsdóttir og Guðmundur Ólafsson, eru nú til heimilis að Heiði í Ytri-Njarðvík.

Í Laugarási dveljast 120 börn. Mikið og hentugt land er umhverfis heimillð, en um það bil stundarfjórðungs gangur er niðúr að ánni, þar sem börnunum er að sjálfsögðu haldið frá að koma, enda skurðir og hindranir á þeirri leið.

Fóstrurnar voru komnar heim með börnin til hádegisverðar og var drengurinn þá í hópnum. Áður en gengið var til borðs, tóku fóstrurnar eftir að drenginn litla vantaði, en hann hafði verið mjög erfiður í gæzlu. Var þegar hafin leit og menn fengnir til hjálpar frá Iðu hinumegin Hvítár. Kl. 15 fannst lík hans í ánni. Hafði hann gengið fram af bakkanum, þar sem djúpur hylur er framundan. Er þetta drjúgan spöl utan endimarka þess lands þar sem fóstrurnar gæta barnanna. En þennan sólríka, heita sumardag voru börnin flest í sólbaði í brekkunum kringum heimilið. Margar þúsundir barna hafa verið í sumardvöl á vegum Rauða krossins og aldrei orðið banaslys fyrr. Til allrar gæzlu hefur verið vandað eins og föng voru á, einni fóstru ætlað að annast 10—12 barna hóp. Hefur slys þetta vakið oss harm og orðið oss aukin áminning um, hver ábyrgð fylgir þessu starfi. Reykjavíkurdeild R.K.Í.


Hreppstjórinn í Biskupstungnahreppi, Erlendur Björnsson á Vatnsleysu, vann skýrslu í kjölfar slyssins og er hún varðveitt á Þjóðskjalasafni. Skýrsluna skráði hann á eyðublað sem kallaðist:

Mannskaðarannsókn
Samkvæmt lögum nr. 42, 10. nóvember 1913 um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum, sbr. reglugerð nr. 24, 1. apríl 1936.

Hér er það sem Erlendur skráði um lát Bolla Guðmundssonar:

1.Tilefni mannskaðarannsóknar:
Valgarð Runólfsson, eftirlitsm. R.K.Í. tilkynnti undirrituðum 18. júlí um kl. 12.15 að barn hefði drukknað í Hvítá.

2. Nafn, fæðingardagur og ár, staða og heimilisfang hins látna.
Bolli Guðmundsson, skráður til heimilis Drápuhlíð 3 Rek. f. 20. ág 1952

3. Dánardagur og ár og stund dags.
fimmtud. 18. júlí ‘57 kl. um 11.30 f.h.

4. Aðdragandi atburðar
Hvarf úr hópi barna við barnaheimili R.K.Í. Laugarási, mun hafa fallið í hyl í Hvítá og druknað. Líkið fannst kl. 14.40 s.d.

5. Vitnisburður sjónarvotta
Börn gáfu þá skýringu að drengurinn hefði farið niður að Hvítá, var því strax brugðið við og Ingólfur bóndi Jóhannsson, Iðu fenginn til að slæða umræddan hyl, og náði hann líkinu á fyrrgreindum tíma.

6. Niðurstaða almennrar líkskoðunar
Læknir taldi ekki nauðsynlega krufningu

Þar sem ekki taldist þörf á krufningu skráði hreppstjóri ekkert frekar í skýrsluna.

Uppfært 09/2024