LJÓSALAND 1965

Ingigerður Einarsdóttir (mynd Hulda Jóhannsdóttir) og Jóhann Eyþórsson (Mynd Tómas Jónsson)

Ingigerður Einarsdóttir (mynd Hulda Jóhannsdóttir) og Jóhann Eyþórsson (Mynd Tómas Jónsson)

Ingigerður Einardóttir (frá Holtakotum) (f. 27.02.1924, d. 25.11.2006) og Jóhann Eyþórsson (f. 17.02.1921, d. 02.09.2005) fengu land þar sem Skálholtsvegur og Ferjuvegur mætast. Á þeim tíma starfaði Ingigerður við matseld bæði fyrir barnaheimili Rauða krossins og sláturhúsið á haustin. Fjölskyldan bjó um tíma í húsnæði barnaheimilisins og einnig í skúr sem settur var upp við sláturhúsið. Fyrsta íbúðarhúsið á Ljósalandi var 30m² skúr sem hafði gegnt hlutverki vinnuskúrs við byggingu heilsugæslustöðvarinnar. Skúrinn var fluttur í heilu lagi á núverandi stað 1967. Fljótlega var síðan byggt við skúrinn og myndar hann enn einn hluta íbúðarhússins.

Ingigerður og Jóhann sóttu atvinnu annað að mestu og byggðu ekki varanlegt gróðurhús á landi sínu, en plasthús byggðu þau þar sem Ingigerður stundaði ræktun. Hún var, að sögn, meðal þeirra fyrstu hérlendis  til að rækta papriku.  Syni eignuðust þau fimm:

Ljósalandsbræður: f.v. Páll Eyþór, Einar Jörundur, Heiðar Ingi, Sveinn Sævar og Ólafur Unnar (mynd frá Heiðari og Páli)

Páll Eyþór (01.12.1950) býr á Akureyri, Einar Jörundur (04.03.1953) býr í Kópavogi, Heiðar Ingi (f. 31.01.1955) býr á Tálknafirði, Sveinn Sævar (f.27.02.1957, d. 09.06.1967), Ólafur Unnar (f. 18.10.1959) býr í Reykjavík.

Þau seldu og fluttu burt 1971 og skildu 1982. Ingigerður bjó á Tálknafirði í einhvern tíma en flutti síðan til Akureyrar.

Jóhann bjó í Reykjavík og sambýliskona hans þar til 20 ára var Borghildur Þórðardóttir (f. 1926).

Gísli Jón Oddsson, Sigurbjörg S. Steindórsdóttir (Bagga) (mynd Karítas Óskarsdóttir)

Gísli Jón Oddsson, Sigurbjörg S. Steindórsdóttir (Bagga) (mynd Karítas Óskarsdóttir)

Gísli Jón Oddsson (f. 06.06.1922, d. 05.01.1995) og Sigurbjörg (Bagga) Svanhvít Steindórsdóttir (f. 22.06.1925, d. 23.08.2008) keyptu Ljósaland 1971, en þau komu hingað frá Hveragerði. Áður höfðu þau rekið garðyrkjustöð í Eyjafirði. Gísli og Bagga voru um fimmtugt um þetta leyti og börn þeirra því uppkomin og koma ekki við sögu þessa.  Þau byggðu gróðurhús og stunduðu garðyrkju þann tíma sem þau voru í Laugarási. Gísli  lést í byrjun árs 1995 og það ár flutti Bagga aftur í Hveragerði þar sem hún bjó síðan þar til hún lést.

 

Friðrik Svanur Oddsson (f. 22.09.1937) keypti Ljósaland 1995, en hann stundaði enga garðyrkju þar. Hann tarfaði í yleiningaverksmiðjunni í Reykholti. 

Þórlaug og Hrafn (myndir af Fb)

Þórlaug og Hrafn (myndir af Fb)

Árið 2002 keyptu Hrafn Magnússon (f. 07.05.1959) og Þórlaug Sigfúsdóttir (f. 06.03.1973).  Þau stunduðu ekki neina umtalsverða ræktun í gróðurhúsum og fluttu til Reykjavíkur á fyrri hluta árs 2013. Börn þeirra eru: Kolbeinn Máni (f. 09.09.1995) og Steingerður Sunna (f. 25.04.2002)

Núverandi eigendur (frá 2013) eru Böðvar Þór Unnarsson (f. 02.04.1977) og er hann þar með lögheimili og stundar vinnu annarsstaðar, Jónas Unnarsson (f. 07.02.1979) og Ragnheiður Jónasdóttir (f. 08.02.1950).

Böðvar, Jónas og Ragnheiður (myndir af Fb)

Böðvar, Jónas og Ragnheiður (myndir af Fb)


Land: 1ha
Íbúðarhús 1967: 112 fm
Gróðurhús um 400 fm

Ljósaland 1973 (líklegast) (mynd frá Asparlundi)

uppf. 10.2018