Þorrablót Skálholtssóknar 1983
Þorrablótsnefnd 1983 skipuðu þessi:
Jósefína Friðriksdóttir, Launrétt III, formaður,
Steingrímur Vigfússon Lyngbrekku,
Guðrún Ólafsdóttir, Vesturbyggð 1 og
Svandís Ottósdóttir Austurbyggð 3, ritari.
Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn 24. okt. 1982 að Launrétt III. Þar var stefnt á að blótið yrði haldið 5. febrúar eða 29. janúar, til vara. Mest af skemmtiefninu skyldi vera heimatilbúið og lagt til að Margrét Björnsdóttir Lyngbrekku skyldi sjá um skreytingar á húsnæði.
SVO ÞETTA: „Fundarmenn stinga upp á að hafa sameiginlegan mat fyrir alla, það er, að sleppa því að hver komi með sitt trog eins og tíðkast hefur hér í sveit“.
Á öðrum fundi nefndarinnar, þann 11. nóv. kom fram að hljómsveitin Rætur hefði verið ráðin á þorrablót sem halda skyldi þann 5. febrúar.
Félagsvist var haldin í matsal sláturhúss 14. nóvember til að marka upphaf undirbúnings.
„Mun þetta vera gamall siður, að sóknarmenn komi saman fyrir og eftir blót“.
Eins og við hafði mátt búast varð þetta niðurstaðan varðandi hugmyndir um að leggja af trogaþorrablót:
„Horfið hefur verið frá þeirri uppástungu nefndarmanna að hafa sameignlegan mat, þar sem við höfum heyrt að það muni ekki mælast vel fyrir hjá mörgum sveitungum“.
Það var ánægja með vel heppnað spilakvöld í byrjun nóvember. „Þangað komu um 40 manns og virtust allir vera mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag að koma saman og taka í spil. Gestir komu með kaffibrauð með sér og varð úr sannkallað veisluborð“.
Gestir á spilakvöldinu voru beðnir að gauka að nefndinni einhverju skemmtiefni, en hún hét því fyrir sitt leyti að hafa augu og eyru opin fyrir ýmsum spaugilegum atburðum.
Á þriðja fundi nefndarinnar, 3. desember, var ákveðið að nota það fyrirkomulag við sölu miða, að dregið skyldi um borð um leið og miðar væru afhentir. Ennfremur að halda þeim sið að hafa „beinakerlingu“ og veita verðlaun fyrir besta vísubotninn.
Það voru prentaðir 300 miðar og aðgangseyrir ákveðinn kr. 200. Tvö hundruð! - segi og skrifa. Þetta kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir, en skýringin er einföld: um áramótin 1980-1981 voru skorin tvö núll aftan af íslensku krónunni, þannig að kr. 100 urðu að einni krónu.
Fyrir þessa breytingu kostaði bensínlítirinn í kringum 260 krónur, eftir myntbreytingu kr. 2.60 – Sígarettupakkinn kostaði 900 kr., -eftir myntbreytingu kostaði hann 9 krónur. Ein vodkaflaskan kostaði 11 þúsund, eftir myntbreytingu kostaði hún 110 krónur.
Það segir kannski eitthvað um verðbólguhraðann á þessum árum að miðinn á þorrablótið kostaði kr. 3000 sem samsvaraði þrjátíu nýkrónum. Verðbólga á Íslandi var mikil þessi árin, en 1980 var hún um 60% og fór yfir 100% 1983. Það verður nú að teljast vel í lagt að miði á þorrablótið hafi hækkað sem svaraði þrjátíu nýkrónum 1979 í tvö hundruð nýkrónur 1983, en svona var víst verðbólgan.
Dagskrá þorrablótsins 1983 var svona, í stórum dráttum:
- Húsið opnað kl. 20.30
- Kl. 21 - Setning formanns
- Söngur – undirleikur Gylfi Jónsson
- Minni karla: Ingibjörg Bjarnadóttir + söngur - Táp og fjör…
- Minni kvenna: Guðmundur Gils Einarsson Auðsholti + söngur - Fósturlandsins Freyja…
- „Sjónvarp Tungur“
dagskrá:
Stundin lokkar
Fréttir
Veðurfregnir
Auglýsingar
Þættir úr félagsheimili
Þátttakendur í „Sjónvarp Tungur“: Fríður Pétursdóttir Laugargerði, Jóna á Lindarbrekku, Þrúða í Auðsholti, Gunnlaugur Skúlason Launrétt 1, Helgi Guðmundsson Akri, Pétur Guðmundsson Laugarási, Guðmundur Jóhannsson Launrétt 3, Georg Franzson Tröðum auk nefndarfólks.
Í lok dagskrár söng Jón Sigurbjörnsson nokkrar heimatilbúnar gamanvísur við undirleik Gylfa Jónssonar og síðan hófst dansinn.
Svo segir:
„Sá háttur verður hafður að dregið verður um 8-11 manna borð um leið og fólk mætir. Þau borð sem eiga að vera aftast í kaffisal munu verða flutt niður í sal á meðan dagskráin er, en síðan flytjast aftur upp, þegar dansinn byrjar og vonumst við til að allir verði ánægðir með þetta fyrirkomulag“.
Tilkynning um þorrablótið var send á alla bæi á fyrsta degi þorra. Margrét Björnsdóttir tók að sér að myndskreyta tilkynninguna og einnig söngskrána.
„Sökum þrengsla í félagsheimili okkar mun heimilisfólk í Biskupstungum, 16 ára og eldra, eiga forgangsrétt á miðum, en burtflutt Tungnafólk velkomið meðan húsrúm leyfir“.
Pappírsdúkar voru keyptir á borðin, en það var talið kosta svipað og þvottur á dúkum.
Lokaæfing fór fram föstudagsköldið 4. febrúar. Þá var einnig skreytt og borð dúkuð. Margrét Björnsdóttir útbjó skálar úr leir til að hafa undir kerti.
Á síðasta fundi nefndarinnar fyrir blót, voru lokaákvarðnir teknar og “var ekki laust við að fólk væri svolítið stressað”.
Seldir miðar á blótið voru 257 @200 og því fyrir alls kr 51.400.
Hljómsveitin Glóra fékk kr. 18.000 (sem samsvaraði 1,8 milljónum gamalkróna) í sinn hlut og Aratunga v húsaleigu kr. 12.850.
Ágóði af blótinu var því kr. 13.423,80
Uppfært 03/2021