Þorrablót Skálholtssóknar 1987
Þorrablótsnefnd 1987: f.v Guðmundur, Benedikt, Áslaug, Renata og Elsa.
Þorrablótsnefndina þetta ár skipuðu þessi:
Guðmundur Ingólfsson Iðu, formaður,
Benedikt Skúlason Laugarási,
Áslaug Jóhannesdóttir Spóastöðum,
Renata Vilhjálmsdóttir Brekkugerði og
Elsa Marísdóttir Asparlundi, sem var ritari nefndarinnar.
Undirbúningsfundur var haldinn 5. des 1986, sem verður að teljast í seinna lagi, en reyndist þó í góðu lagi. Það var formaðurinn sem kallaði nefndina saman á heimili sínu að Iðu.
Tveir dagar komu til greina til að halda blótið, 24. eða 31. janúar. Þarna var ákveðið að leita til Péturs Skarphéðinssonar Launrétt III um að stjórna blótinu.
Þessi nefnd var hefðbundnari í hugsun en ýmsar aðrar, sem sjá má af þessu:
„Nefndarfólk er á einu máli um að hafa þorrablótið með hefðbundnum hætti Tungnamanna, þ.e. eta úr trogum“.
Nefndin ákvað að kalla fólk til starfa, sem ekki reyndist síðan ganga eftir að fullu, því ekki tókst að fá fólk til að flytja minni karla og kvenna og féll sá hefðbundni þáttur niður.:
„Þá er fyrirséð, að minni karla og kvenna falla niður, þar sem ekki fást karlmenn til að mæla fyrir minni kvenna“.
Stefnt var að því að fá Jón Sigurbjörnsson til að flytja brag eftir Margréti á Iðu og Pál M. Skúlason til að lesa upp sögu eða ljóð. Loks voru settir nokkrir punktar á blað sem nota mætti til að semja smá leikþætti út frá og einnig að fá eftirtalið fólk í samvinnu í leikþættina: Magnús Skúlason Hveratúni, Guðna Ölversson Varmagerði, Karítas Melstað Ösp, Sverri Ragnarsson Ösp, Þröst Leifsson Birkiflöt, Helga Sveinbjörnsson Iðu, Jónínu Jónsdóttur Lindarbrekku og Loft Ingólfsson Iðu.
Næst var haldinn fundur þann 15. desember í matsal sláturhússins. Þá hafði bæst við liðsstyrkur: Jakob Hjaltason, Magnús Skúlason, Páll M. Skúlason og Karitas Melstað. Á þessum fundi kom fram að þorrablótið yrði haldið þann 31. janúar. Húsið hafði verið pantað svo og hljómsveitin Krass (starfaði 1986 - 1995) ráðin til að leika fyrir dansi og einnig undir borðum og fjöldasöng.
Rætt um frumsamið skemmtiefni og var mönnum falið að leggjast undir feld og hugsa og semja síðan.
Sverri Ragnarssyni var falið að sjá um fjármál blótsins.
Úr fundargerð 29/12, 1986 (ritari Elsa Marísdóttir)
Þann 29. desember var haldinn fundur í matsal SS, en á hann mættu þau Elsa Marísdóttir, ritari nefndarinnar og bræðurnir Páll, Benedikt og Magnús Skúlasynir. Aðrir höfðu boðað fjarvistir.
Svo segir í fundargerð:
”Bræðurnir höfðu allir samið smáþætti, bráðsmellna og hnitmiðaða. Þættirnir voru lesnir yfir og síðan var rætt vítt og breitt um tilhögun á þorrablótinu, æfingar, tímasetningar o.fl.”
Að síðustu var ákveðið að koma saman næst þegar formaður ákvæði slíkt.
Hveratúnsbræður, f.v. Páll, Benedikt og Magnús.
Það má sennilega segja að þarna hafi hafist af alvöru þátttaka Hveratúnsbræðra í þorrablótum Skálholtssóknar. Eftir þetta hafa þeir komið að þessum blótum með virkum hætti fram á þennan dag, í það minnsta þeir Magnús og Benedikt.
Á fjórða fundi nefndarinnar, enn í matsal SS, þann 4. janúar var dagskráin mótuð eftir föngum, en sífellt var að bætast við. Svona litu drögin út á þessum fundi:
- Setning Guðmundur Ingólfsson,
- Veislustjóri, Pétur Skarphéðinsson, tekur við stjórn.
- Borðhald hefst og sunginn fjöldasöngur úr söngbók þorrablótsins.
- Ef til vill minni kvenna og karla.
- Smáþættir úr lífi Tungnamanna:
„Sveitó 19-86“ (þarna var Lottó komið til sögunnar)
Ballet
Barnaballskór syngur gamanvísur
Viðtal við menn að koma úr bændaferð
Hjálparsveit við störf
Bjössi við steininn
Blómarækt í Tungum
Viðtal við oddvita
Laxeldisráðstefnu lýkur
Ræðustúfur gamla mannsins
Inn á milli skyldu koma auglýsingar og stefið „ Sveitó nítján – átta- sex“
Ákveðið að fá Sigríði Guttormsdóttur til að kynna atriðin og Jens Pétur Jóhannsson til að aðstoða með lýsingu.
7. janúar var næsti fundur í matsal SS og þar var farið yfir efnið og skipað í helstu hlutverk. Hafnar voru æfingar á ballettinum og leikþættir lesnir saman.
Á fundi nefndarinnar á Ösp, þann 25. janúar var aðalefnið miðasalan á blótið. Þegar hafði verið ákveðið að selja 280 miða og þar af voru 37 miðar fyrir fólk (og maka) sem myndi vinna við skemmtunina og að undirbúningi. Miðaverð var ákveðið kr. 600, eða þrefalt hærra en 1983.
Auglýst hafði verið, að rétt á miðum ætti heimilisfólk í Biskupstungum 16 ára og eldra og burtfluttir ef húsrúm leyfði. Miðasala fór fram í Aratungu 20. og 22. jan. og á Ösp þann 21.
Sverrir (sem hélt utan um þessi mál) tjáði fundarmönnum að seldir miðar og fráteknir væru samtals 299 og þá ættu amk tvö heimili eftir að fá miða sem þau höfðu falast eftir. Samþykkt að afgreiða miða á þessi heimili en loka síðan á frekari sölu.
Lokafundur nefndarinnar var haldinn þann 17. febrúar, á Iðu.
Stærstu kostnaðarliðirnir voru hljómsveitin Krass sem tók kr. 45.000 og Aratunga kr. 40.000 (með fatavörslu og þrem dyravörðum).
Ágóðinn varð kr. 42.444. Samþykkt var að gefa barnaskólanum í Reykholti bækur fyrir upphæðina og ákveðið að hafa samráð við Þuríði Sigurðardóttur kennara um bókakaupin.
Þá var kosið í nefnd til að halda utan um þorrablótið 1991.
Sýnishorn af kveðskap frá 1987
Nú er Kalli á nýjum jeppa
hann er að hreinsa hund,
Á ég ekki að rýja hann líka
það tekur enga stund.
Þorfinnur í fjárhúsinu
hann kunni þetta strax
Fiskamat á garðinn gefur
hann er að fita lax.
Sverrir er á H-listanum
og fleiri’ í sveitinni.
Hann á enn í mesta basli
at taka‘ upp úr töskunni.
Þá skal komið lagi á hlutinn
nú mun heyrast bofs.
Og láta aðeins sjóða skutinn
á Verkstæði Guðmundar og Lofts.
Þórir þarf að þjóta í bæinn
hann er að verða of seinn.
Þetta er nú meiri bíllinn
– keðjulaus, óhreinn
Þeir Bjarni og Gústi saman keppa
um sveitamannsins fé.
En við verslum við þá báða
svo sár nú enginn sé.
Gunnlaugur í bílnum nýja
geysist vítt um sveit.
Hann er að tala í bílasíma
um eitthvað sem enginn veit.
Benni þarf að fá að vita
af miklu kuldunum,
Svo hann geti haldið hita
á Laugarásbúunum.
Heilsugæslan hefur tölu
þar er þetta títt,
Hún þarf að hefja smokkasölu
alveg upp á nýtt.
Hreppsnefndin á stólum rökum
ræðir öll sín mál.
en hún er samt úti á þökum
sem virðast nokkuð hál.
Ef þú hefur harma að hefna
og enginn af því veit.
Biddu þá hreppstjórann að hefna
öllum um alla sveit.
(höfundur ekki þekktur)
Í Skálholtssókn er skemmtilegt að búa
þar skeður margt og ýmsu er hægt að trúa.
en ekki skal nú skrafa um það lengur,
ég skýri heldur frá því hvernig gengur.
Á Spóastöðum bjartsýnn bóndi býr,
sem búmark nýtir fyrir ær og kýr.
Hann auramönnum líka leigir strax
leyfi til að veiða „Spóalax“
Björn og prestur báðir eiga stóð
býsna margt og viðkoman er góð,
því folöld fæðast allan ársins hring,
sem eru og verða mesta höfuðþing.
Dýralæknir dvelur líka hér,
dável röskur ef hann tómstund sér,
hann nýtir beit á blettum hér og þar
og búskap stundar næstum allsstaðar.
Garðyrkjumenn geysifjölmenn stétt
í gróðurhúsum starfa og planta þétt,
uppfinningamenn þar margir leynast,
en misjafnlega hugmyndirnar reynast.
Læknar tveir hér lina allra þraut,
lyf þeir gefa, lýsi og hafragraut.
Orðhvatur þó annar stundum þyki,
hann æðrast ei, en heldur sínu striki.
Hér verslun stendur, víð til veggja‘ og há
og vöruúrval margt er þar að sjá.
Vídeó þú getur leigt þar líka
og lögleg bönd sem alla gera ríka.
Stoltið okkar sláturhúsið er
og starfrækt er það enn, sem betur fer.
Því heilsu manna hollt og gott mun vera
að hafa líf og fjör og nóg að gera.
Á verkstæði menn verða oft að leita
með viðgerðir og ýmsu þarf að breyta.
Þar er líka þetta og hitt að frétta
sem þykir enginn vafi að sé hið rétta.
Á Helgastöðum staðan er mjög góð,
við stóðið raular Jón og syngur ljóð.
Þar gæðingsefnum gnótt er úr að velja,
göfugt kyn, sem alls ekki má selja.
(höfundur er ekki þekktur þó grunur beinist að ákveðnum aðila)
Enn frá 1987, að talið er:
Félagslíf er fjölbreytt hér í sveitum
við finnum hvergi betra þótt vér leitum.
Alla daga eitthvað um að vera.
- Ja, þau lifandis, skelfingar ósköp sem fullorðna fólkið
sýnist hafa að gera.
Krakkarnir sem koma heim úr skóla
hvergi sjá á foreldrunum bóla.
Skilaboðin skrifuð eru á diskinn:
- Elsku Siggi minn, ég skrapp í ljós og gufu, vertu nú þægur
– og hitaðu upp fiskinn.
Hvar er pabbi? Hvert hefur hann farið?
Á korktöflunni blasir við þeim svarið:
Á þriðjudögum þjálfar hann kirkjukórinn.
Þá börnin vita að þau eiga að fara út í fjós, sópa og gefa
- og klára að moka flórinn.
Ef Solla hringir, segðu að ég sé farinn
og sennilega verði ég við barinn.
Ef Maggi kemur máttu ekki gleyma
að skila til hans voða góðri kveðju og segja að á sunnudaginn eftir kl. 5 verði bæði
- mamma og pabbi heima.
Já, leikfimi og Lionsklúbb þau stunda
um landsins gagn og nauðsynjar þau funda,
í skipulags og skólanefndum mæta
og í allskonar stjórnum, þingum og ráðum og Guð má vita hverju
- þau hagsmunanna gæta.
Því uppeldið má annast bara á hlaupum,
til afþreyingar vídeó við kaupum.
Börnin þegja og það er fyrir mestu
- að við fullorðna fólkið komumst á sem allra flestar ráðstefnur og þing til að fjalla um það sem er..
..BÖRNUNUM FYRIR BESTU!
(höfundur ekki þekktur)
Uppfært 01/2020