Þorrablót Skálholtssóknar 1995 

Þorrablótsnefnd 1995: f.v. Magnús, Sigríður, Jens Pétur, Toril og Sigrún.

Þorrablótsnefnd 1995: f.v. Magnús, Sigríður, Jens Pétur, Toril og Sigrún.

Úr fundargerð 1995

Í þorrablótsnefndinni 1995 voru þessi:
Magnús Skúlason Hveratúni, formaður,
Sigríður Guttormsdóttir Launrétt III,
Jens Pétur Jóhannsson Laugarási,
Toril Malmo Helgastöðum og
Sigrún Reynisdóttir Engi, sem var ritari.

Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn í Hveratúni 6. des. 1994 og fljótt varð ljóst að hér mátti eiga von á ýmsu. Nefndin var fljót að ákveða að halda þorrablótið þann 21. janúar, en síðan gerðist það, að uppástungur um hljómsveitir urðu sem hér segir: hljómsveit frá Vestfjörðum, önnur úr Rangárvallasýslu, og einnig var nefnt diskótekið Skeiðungur – Jón [Bjarnason]. Magnús fékk það snúna hlutverk að athuga málið.

Það voru ekki bara hljómsveitarmálin sem tóku á, heldur einni þetta:
Jens Pétur sló fram djarfri tillögu um að láta Jón kokk sjá um mat á blótinu. Tillagan fékk ekki miklar undirtektir”.

Það átti síðan að útbúa dreifimiða til að gefa fólki kost á að koma í skemmtinefndina og stefna því síðan saman í Skálholtsskóla til að bera saman bækur sínar.

Þann 12. des. var svo blásið til fundar með áhugasömum og þarna voru þessi stödd: Magnús, Georg og Brynja, Jens og Matthildur, Þorfinnur og Áslaug, Guttormur, Toril, Sigríður G., Gunnar á Birkiflöt, Hólmfríður Ingólfsd., Páll og Dröfn, Sigrún á Engi og Kristján Valur í Skálholti.

Þarna tók Kristján Valur að sér minni kvenna og stefnt á að fá Kristínu Sveinbjörnsdóttur til að taka að sér minni karla.
Mikið gaman og mikið grín hjá okkur”.

Páli fannst best að fólk tæki að sér að semja vissa leikþætti. Ekkert var ákveðið þarna, en allir voru beðnir að leggja höfuð í bleyti fram að næsta fundi þann 29. desember. Á þann fund komu þessi: Dröfn, Páll, Benedikt, Hákon, Magnús, Hófí, Sigrún R., Sigríður G og Guttormur.

Þarna var dagskrá ákveðin, svo og fyrirkomulag skemmtiatriða. Búið var að fá flesta til að semja eitthvað.

Svo hófust æfingar 3. janúar, 1995 og gengu eðlilega fyrir sig.

Það sem hér fer á eftir er samantekt ritara nefndarinnar sem skráð var í kjölfar blótsins.

Fór vel fram, skemmtiatriðin tókust með ágætum.
Eftir að allir höfðu fengið sér sæti hélt Magnús ræðu formanns og setti blótið. Margrét Bóasdóttir og Hilmar Örn Agnarsson stjórnuðu fjöldasöng.

Kristján Valur Ingólfsson flutti minni kvenna með miklum ágætum og Kristín Sveinbjörnsdóttir minni karla með miklum glæsibrag.

Skemmtiatriðin byrjuðu svo með upphafssöng sem Magnús Skúlason hafði samið: „Nú skulum við halda blótið“.

Þar næst kom fréttaþáttur: Náttmyrkur, sem heimsótti Biskupstungur. (en hann var nokkurskonar stæling á dægurmálaþætti á RUV sem kallaðist Dagsljós)

Hér fyrir neðan eru myndir sem Elinborg Sigurðardóttir tók af skemmtiatriðum.

Leikendur voru:

Náttmyrkursþulir: Hólmfríður Bjarnadóttir og Páll M Skúlason
Tilkynningalestur: Sigríður Guttormsdóttir
Fréttalestur: Kristján Valur Ingólfsson
Maður vikunnar: Benedikt Skúlason, Guttormur, Magnús
ES staðlar: Benedikt Skúlason, Elinborg Sigurðardóttir
Kosningarapp: Hólmfríður Bjarnadóttir, Elinborg Sigurðardóttir, Sigrún Reynisdóttir, Sigurlaug Sigurmundsdóttir, Dröfn Þorvaldsdóttir og Toril Malmo.
Vinnustaður vikunnar: Dröfn, Sigrún, Sigurlaug (ólétt)
Gátan: Benedikt Skúlason
Skiltamaður: Guðmundur Ingólfsson
Bygginganefnd: Magnús Skúlason og Hákon Gunnlaugsson
Kvikmyndagagnrýni: Matthildur Róbertsdóttir
Kósakkar: Kristján Valur, Loftur Ingólfsson, Guttormur Bjarnason, Guðmundur Ingólfsson, Magnús Skúlason, Jens P Jóhannsson, Hákon Gunnlaugsson.
Bóndi: Benedikt Skúlason
Gísli oddviti: Sigrún Reynisdóttir
Kínverji: Dröfn Þorvaldsdóttir
Fjallkóngur: Toril Malmo.
Fólk í réttum: Allir aðrir leikendur.
Lokasöngur: Allir – höfundur texta Benedikt Skúlason

Páll M. Skúlason

Sviðsskiptingar: Karólína Gunnarsdóttir
Myndvarpari á vegg: Þórður Halldórsson
Myndirnar tók Magnús Skúlason af fólki og dýrum.
Ljósamaður: Gunnar Sigurþórsson
Spilari: Hilmar Örn Agnarsson
Málun: Hólmfríður Bjarnadóttir, Kristín Sigurðardóttir
Sviðsmynd og skreytingar: Toril Malmo ásamt Karólínu Gunnarsdóttur

Leikstjóri: Páll M Skúlason

Um miðasölu

Á blótið voru seldir 235 miðar og boðsmiðar voru 32.
Pælingar nefndarinnar varðandi miðasölumálin:

„Nauðsynlegt að skrifa hverjir kaupa miða og með hverjum þeir ætla að sitja og hve margir eru til borðs. Síðan er hægt að skipta borðunum í hlutfalli af því og láta fólk draga um það.

Okkur fannst að fækka ætti um 30 manns vegan óánægju gesta við það að missa borðið sitt þegar farið var að dansa og færa þurfti borðin. Og ekki hlæeypa fólki inn eftir skemmtiatriðin svo fjölgi ekki í húsinu“.

Á fundi 6. febrúar 1995 í Hveratúni, horfði nefndin á upptöku af lokaæfingu.

Efni fundarins að öðru leyti að skipa nýja nefnd og ákveða afdrif ágóðans sem reyndist vera kr. 163.000. Engin niðurstaða varð um ágóðann, en ýmis verkefni nefnd.

Þarna var næsta nefnd valin, nefndin sem sjá skyldi um þorrablótið 1999 og einnig ákveðið að boða til félagsvistar í Skálholti. Þar skyldi horft á upptökuna og spilað hálft spjald auk þess sem nýja nefndin yrði kynnt.

Þann 18. maí hittist nefndin enn til að ræða ráðstöfun ágóðans. Fram kom að búið var að kaupa tölvu fyrir skólann, en það höfðu allir samþykkt. Hún kostaði kr. 80.000. Þá var ákveðið að kr. 83.000 sem eftir væru, skyldu gefin upp í ofn sem kaupa á í Aratungu, en áætlaður kostnaður við hann er kr. 250.000

Það var Sigrún Reynisdóttir sem ritaði fundargerðir og frásagnir vegna þorrablótsins 1995.


Sýnishorn af efni 1995

Upphafssöngur
lag: Karen Karen

Gott Tungnafólk,
hér kemur nú það,
við höldum blótið í kvöld
og hana nú

Það er svo marg sem við getum hér sagt og gert í kvöld.
Þótt úti geysi hríð og myrkrið svart hafi þar völd.
Náunginn minn, já nágranninn þinn
verða teknir nú í gegn.

Ó Gísli minn
ég segi það nú
það kemur seinna að þér
og hana nú.

Þegar Skálholtssókn tekur sig til og heldur blót
þá tekst það alltaf vel hvernig sem allt úr skorðum fer.
Við skemmtum okkur vel hvernig og vonandi líka þér.
Höfum það nú gott.

Já hreppsnefndin,
dýragarðurinn,
brytinn og húsvörðurinn
fá skammtinn sinn.

Gaman, gaman
það er heila málið.
Gaman gaman
höfum það nú gott.

Já, Ragnar Lýðs og hundarnir hans.
Hann Unnar skólastjóri
og Ólafur G.

Hlátrasköll
lát heyrast í kvöld.
Gefum nú fýlunni frí
nema bara hákarlinum í.

Dægurmálaþátturinn Náttmyrkur hefur göngu sína.

Það voru tveir kynnar sem sáu um upphafsinnslagið:

Dægurmálaþátturinn
Náttmyrkur
Heilsar á þessum fyrsta
laugardegi í þorra
Árið 1995.
Það eru engin smámál sem við munum taka á í þessum þætti:
Öldrunarmál
Eiturlyf
Ísland og EES
Sveitarstjórnarkosningar sællar minningar
Jarðgangagerð
Réttastemmning
Skemmtigarður….
Til hvers er eiginlega að telja þetta allt upp, það fer hálfur þátturinn í þetta.
Ég er alveg sammála, en okkur var sagt að gera þetta svona.
Já, það hefur alltaf verið gert svona og sennilega aldrei betur við en einmitt hér og nú.
Einmitt. Við sendum þennan þátt Náttmyrkurs út úr Biskupstungum.
Þangað áttum við nefnilega leið á síðasta ári.
Biskupstungur þar sem Gullfoss skartar sínu fegursta.
Við hliðina á pulsusjoppu í tjaldi.
Steindauður Geysir laðar að ferðamenn í þúsundatali á hverju ári.
Hvorki meira né minna en þrjár almenningssundlaugar.
Svipað og það væru 480 sundlaugar í Reykjavík.
Þrír prestar
480 í Reykjavík.
Allir á sömu þúfunni.
Fjórar verslanir
640 í Reykjavík.
Oddviti sem er sagður ætla að stífla Hvítá á árinu.
Með því að setjast í hana.
Þetta er ótrúleg sveit.
Ekkert íþróttahús.
Íbúarnir borða enn út trogum.
Sauðkindin er númer eitt.
Rósa Ingólfs sér um skemmtiatriði á þorrablótum.
Nei, hættum þessu nú - þátturinn er að verða búinn.
OK
Þetta er dægurmálaþátturinn Náttmyrkur - fyrst þetta …….

Lokalag 1995

Lag: Yfir til þín.

Yfir til þín, mín sveit með gamla trogið
yfir til þín, í blankheitum og neyð.
yfir til þín, með sálartetrið bogið
og hefur engu logið um þrengingar á leið.

Yfir til þín, mín sveit með svaka skuldir,
yfir til þín, með mjólkurkú og kál.
Yfir til þín, sem bjarga ótal fundir
og gleðilegar stundir við hreppsins vandamál.

Af bæ í burtu ferðu og bjartan daginn sérðu
þinn gamli draumur getur ennþá ræst.
Til hrellingar þá sérðu, í sjötta sætið ferðu
það gengur bara betur næst.

Yleining mín, á botninn loksins komst ég
Yleining mín, er ber ég fyllsta traust.
Yleining mín, nú bjarta framtíð sé ég
og nú loksins tel ég þú réttu örlög hlaust.

Af bæ í burtu ferðu og bjartan daginn sérðu
þinn gamli draumur getur ennþá ræst.
Til hrellingar þá sérðu, í sjötta sætið ferðu
það gengur bara betur næst.

Uppfært 01/2020