Þorrablót Skálholtssóknar 2015
Þorrablótsnefnd 2015: f.v. Hólmfríður, Bryndís, Magnús, Ingibjörg og Ingvi.
Í þorrablótsnefndinni 2015 voru þessi:
Hljómsveitin Karma (mynd af vef)
Hólmfríður Ingólfsdóttir, Holtagötu 15, formaður,
Bryndís Malmo Bjarnadóttir Helgastöðum,
Magnús Skúlason Hveratúni,
Ingibjörg Einarsóttir Teigi og
Ingvi Þorfinnsson Spóastöðum.
Fyrsti skráði fundur var haldinn 19. október, í Holtagötu 15 og þá lá fyrir dagsetningin 23. janúar, bóndadagur, fyrir þorrablót og hjómsveitin Karma hafði verið ráðin fyrir kr. 270.000.
Ákveðið var að blása til félagsvistar 2. nóvember og hún var síðan í Oddstofu. Þar var spilað á þrem borðum.
Lýður Árnason (mynd af vef)
Næsti fundur var síðan 6. nóvember í Skálholtsbúðum og var hugsaður fyrir hugarflug. Þangað komu sjö og afraksturinn var 43 hugmyndir að atriðum. Nú fór þáttur myndbandstækninnar vaxandi og það var meðal umræðuefnanna hvað skyldi vera á tjaldi og hvað í lifandi flutningi.
Böðvar Þór (mynd af vef)
Þann 11. nóvember var næsti fundur í Skálholtsskóla og þarna voru 14 mættir. Þeirra á meðal Lýður Árnason læknir og kvikmyndagerðarmaður. Hann bauðst þarna til að skrifa handrit að kvikmynd um ferðaþjónustuna og efni henni tengt. Þegar þarna var komið hafði Magnús Skúlason þegar tekið upp og sett saman stutt skot.
Allt var þetta rætt, efnistök og útfærslur. Allt fór að gerjast.
Í framhaldinu lá leið í Aratungu til að kanna aðstæður.
Viku síðar var næsti fundur í Skálholtsbúðum. Þar var lagt fram ítarlegt handrit frá Lýði, að stuttmynd um túrismann í Bláskógabyggð. Þá kom einnig fram að Böðvar Þór Unnarsson væri að skrifa handrit að annarri mynd.
Þarna var rædd þörf á að skrifa stutta þætti til að leika á sviði og á næsta fundi þar sem 14 voru mætt, var Benedikt Skúlason kominn með einn slíkan.
Benedikt (mynd pms)
Nú fóru upptökur í hönd og fyrsti upptökudagur á mynd Lýðs var 29. nóvember hófst á leikvellinum í Laugarás, en þaðan var svo haldið í Skálholtskirkju til frekari upptöku. Auk þessa hittust þeir Lýður, Magnús og Böðvar til að skipuleggja upptökur.
Síðan var undirbúningsfundur 9. desember fyrir upptökudag 13. desember, í Skálholtsskóla. Þarna voru mættir 15. Fjallað var um og safnað búningum og leikmunum.
Svo rann upp hinn mikli upptökudagur, 13. desember.
„Góður hópur hittist í Skálholti og þaðan haldið með rútunni hennar Bryndísar [Malmo] í Þrastarlund, þar sem upptökur hófust. Þetta varð langur dagur, 11 klst. Þátttakendur kaldir og lúnir í lok dags, en gleðin í fyrirrúmi“.
Á fundi nefndarinnar þann 30. desember voru ýmis hagnýt mál rædd. Þar má nefna yfirferð um dagskrá blótsins, dreifibréf, heimagerða aðgöngumiða, Margréti Bóasdóttur sem mögulegan forsöngvara og fleira. Þarna kom fram að Matthildur Róbertsdóttir og Jens Pétur Jóhannsson myndu flytja minni karla og kvenna.
Þriðja janúar var ætlunin að taka upp myndskeiðið “Dæluskúrinn”
Áfram var fundað. Þann 4. janúar í Skálholtsskóla og þar voru 16 mættir.
Benedikt var þá búinn að skrifa annan leikþátt: „Samstöðufundur“. Þá var skipað í hlutverk í „Kosningavöku“, textar voru lesnir yfir og spáð í útfærslur. Elinborg og Guðmundur komu með vísu sem skyldi flutt á samstöðufundi.
Íris Blandon
(mynd af vef)
Áfram héldu æfingar og upptökur. 8. janúar komu 15 í Skálholtsbúðir þar sem skipað var í hlutverk í leikáttunum. Íris Blandon tók að sér leikstjórn og Guðrún Ólafsdóttir ljós og tjöld.
Ákveðið að Íris Blandon yrði með stuttar kynningar milli atriða og svo kom í ljós að endurtaka þyrfti lokaatriðið í mynd Lýðs og það var síðan gert 14. janúar. 15 janúar var allt farið að taka á sig endanlega mynd. Æfður var söngur við lokalag, en hann hafði Kristján Valur Ingólfsson samið.
Lokaæfing með áhorfendum í sal var fimmtudagskvöldið 22. mars og allt gekk vel.
“Miðasala átti að vera í tvo daga, en það reyndist uppselt eftir fyrri daginn og miklar umræður urðu um það í sveitinni.
Á fimmtudeginum var raðað upp í salnum og þá gátum við fjölgað sætum í 300. Allir sem vildu fengu miða og endaði gestafjöldi í 296 manns”.
Það var ákveðið að selja inn á ballið og þá bættust 8 við.
Þorrablótið 23. janúar, 2015
Þorrablótið var sett kl. 21 og dagskráin rann af stað.
“Allt gekk að óskum og góður rómur gerður að skemmtiatriðum. Dansleikurinn hófst á miðnætti”.
Svona var dagskráin:
20.00 Húsið opnað - dregið um borð - gestum vísað til sætis.
21.00 Setning Hólmfríður Ingólfsdóttir, formaður. - Fjöldasöngur: Hvað er svo glatt…
21.40 Minni karla: Matthildur Róbertsdóttir - söngur: Táp og fjör…
Minni kvenna: Jens Pétur Jóhannsson - söngur: Fósturlandsins Freyja …
22.00 Borðhald og fjöldasöngur
23.45 - 03.00 Dansleikur - Hljómsveitin Karma
Og svo framhaldið:
Á fundi í Holtagötu 2. mars, var farið yfir uppgjör vegna blótsins og ráðstöfun ágóðans. Þar var ákveðið að leggja hann á bankareikning í bili.
Seldir voru 296 miðar á 3.000, eða alls fyrir kr. 888.000. Stæstu kostnaðarliðir voru hljómsveitin Karma 270.000 og starfsfólk (dyravarsla og sjoppa) kr. 140.000.
Hagnaður að þessu blóti reyndist verða kr. 420.810, sá langmesti af þorrablótum Skálholtssóknar.
Á fundinum var skipað í næstu nefnd og ákveðin dagsetning samveru í Oddsstofu 19. mars, þar sem nefndin skilaði af sér.
VIÐBÆTIR:
Desember 2016
Hagnaði af Þorrablóti 2015 og 2011 var ráðstafað svo:
- talstöð til Björgunarsveitar Biskupstungna kr. 195.720
- Verndarsjóður Skálholtskirkju vegna viðgerðar á gluggum kr. 300.925
Upphæðin hafði ávaxtast á bankareikningi.
Sýnishorn úr dagskrá 2015
Örstutt myndskeið. Leikari Benedikt Skúlason
Kosningavaka
(lag: Þannig týnist tíminn)
Líkt og sveitarstjórn sem búið er að kjósa,
eins og vindbelgur sem geymir ótal orð,
þar hefst huugarflug heilmikilla ljósa,
þar kaust þú þar kaus ég
þar býr kindin er spikið oss gaf.
Líkt og skrifstofan þar sem enginn lyftir hendi
eins og Valtýrinn sem birtist við og við.
Þar sem oddvitinn er bara‘ í hálfu starfi
þar komst þú, þar kom ég
þar býr kindin er spikið okkur gaf.
Þannig léttist lundin
Þannig léttist lundin
þannig léttist lundin
á þorrablóti við og við.
Líkt og gamall hver sem ekki fékk að gjósa,
eins og uppsláttur sem vantar fleiri borð.
Þar er gamalt fress sem búið er að gjóta.
Þar ert þú, þar kem ég
Þar býr kindin er spikið okkur gaf.
Líkt og gamall foss sem allir vilja njóta
eins og gróðagjald sem hent er fyrir borð.
Eins og gróðurhús, sem selt er fyrir Skóda,
þar ert þú þar kem ég
þar býr kindin er spikið okkur gaf.
Þannig léttist lundin.....
Líkt og hryllingsmynd á Ljósalandi þínu,
eins og snillingur sem tekur til og til.
Eins og björtust von er býr í húsi fínu,
þar ert þú, þar kem ég,
þar býr kindin er spikið okkur gaf.
Eins og hundraðkall, sem enginn tímdi að borga,
inn á kirkjusafn, sem geymir gamalt drasl.
Þar er Skálholtskór, sálmana að orga,
þar ert þú, þar kem ég
þar er kindin sem spikið okkur gaf.
Er þetta‘ ekki æðislegt
Er þetta‘ ekki æðislegt
Er þetta‘ ekki æðislegt
á þorrablóti við og við.
Þorrablótslagið
Lagboði: Ég er á leiðinni
Texti: Kristján Valur Ingólfsson
Þetta er Þorrablótslagið,
við þökkum og hverfum á braut,
komið nóg, næturgrín
ný dagur bráðum skín.
Við höfum skoðað í skyndi
hve skemmtilegt var hérna og
firnist fjótt, nú er nótt
við nöguð bein og trog.
Því nú er Þorrablót,
og þvílík blíðuhót,
við munum sýna þeim sem þiggja þessa nótt.
Allt grafið er og gleymt
og gleðin endurheimt.
Er líður þessi stund
sem hverfur undrafljótt.
En trogin tæmast ekki
þó tuggið sé í kór
við örkum öll í dansinn
eins og kýr í miðjum flór.
Treystum böndin við trogin
og talsvert við innbyrðum af
matvælum, en mesta skikk
má hafa hér af drykk.
Allir erum vér vinir
vort Tungnarétta blóð
rautt og blátt, rennur hægt
runum öllum burt er bægt.
Hér eru‘ á leiðinni
alltaf á leiðinni
þúsundir túrista og engin þörf er á
rukkun á gjaldsvæðum
eða bílastæðum
þegar þeir versla vel
ég voða mikið sel!
Kosningar - leikþáttur
Persónur eru Pétur, Margeir, Óttar Bragi, Helgi og Sylvía, þrjú stykki talningarmenn og Lýður.
Á senu er borð og kjörkassi. Við borðið sitja talningarmenn. Margeir og Óttar Bragi haldast í hendur með spjöld. Margeir heldur á spjaldi þar sem stendur Þ öðrumegin og Ferðin.is hinumegin. Óttar heldur á spjaldi þar sem stendur Þ öðrumegin og MS hinumegin. Sylvía og Helgi haldast í hendur og halda á spjöldum þar sem stendur T öðrumegin og Litli oddviti og First lady hinumegin.
Pétur: (kemur inn á senuna og slær með golfkylfu og tautar) Óttalegt kerlingagolf eruð þið að spila hérna í Tungunum. Ég verð að fara upp í Hrepp til að geta spilað eins og maður!
Talningarmaður: Kjörfundi er lokið og þú verður að fara að telja!
Pétur: Bíddu aðeins! (tekur síðan eitt pútt).
Talning hefst.
Pétur: T,T,T,T,T,T ….hérna kemur Þorn og svo annað Þorn.
(Á meðan á talningunni stendur gera talningarmenn hreyfingar með höndunum og mynda stafina Þ og T).
Pétur: Óttalegar kerlingar getið þið verið að geta ekki sagt Þorn, eins og menn! (heldur áfram að telja öðru hvoru Þorn. Pétur segir Þorn með miklum tilþrifum og sveiflar golfkylfunni um leið).
Pétur: Ég er allur að þorna upp! (fær sér að drekka)
Óttalegur lýður hefur kosið hérna! Hérna Lýður, taktu við!
(Lýður tekur við að telja. Á meðan sveiflar Pétur golfkylfunni)
Pétur: Jæja, þá er þetta komið og Þorn vann.
Liðið fer að efast.
Kjósendur: Bíddu það er ekki rétt!
Pétur: Nei, þetta var bara djók og getið þið ekki tekið djóki? Þið eruð nú meiri kerlingarnar! (Pétur snýr spjöldunum að Helga og Sylvíu og síðan að Margeiri og Óttari Braga og hreytir í þá)
Pétur: Fariði nú ekki að grenja eins og kerlingar. Þetta gengur bara betur næst!
Pétur: “Nanna félagsmála kvað!”
Uppfært 01/2020