Þorrablót Skálholtssóknar 2019 

Þorrablótsnefnd 2019: f.v Böðvar, Jakob, Sólrún og Guðrún.

Þorrablótsnefnd 2019: f.v Böðvar, Jakob, Sólrún og Guðrún.

Í þorrablótsnefndinni 2019 sátu þessi, svona þegar upp var staðið:
Böðvar Þór Unnarsson Ljósalandi, formaður,
Jakob Narfi Hjaltason Lyngbrekku,
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir Bæjarholti 2,
Guðrún Ólafsdóttir, Vesturbyggð 1, ritari.

Fjórum árum fyrr hafði Sigrún Elfa Reynisdóttir á Engi verið skipuð formaður, en hún flutti í Hveragerði. Ekki verður fullyrt hér neitt um það, hvort skipun hennar hafi haft eitthvað með flutningana að gera, nema síður væri. Varamaður kom aldrei til skjalanna og því var þarna um að ræða fjögurra manna nefnd, en auðvitað komu síðan margir til aðstoðar, eftir því sem á þurfti að halda.

Nefndin hittist fyrst á ótilgreindum degi í október 2018. Þar var farið yfir stöðu mála og ákveðið að boða til spilakvölds 26. október. Aðsóknin að því var þannig, að spilað var á þrem borðum.

Dagur fyrir þorrablótið var ákveðinn 25. janúar, bóndadagur og ráðin var til að leika fyrir dansi hljómsveitin Góðir landsmenn

Frá spilakvöldinu (mynd Jakob Narfi Hjaltason)

Frá spilakvöldinu (mynd Jakob Narfi Hjaltason)

Síðan voru fundir öll mánudagskvöld í nóvember og fram í miðjan des.

Eitt stærsta umfjöllunarefnið á þessu fundum var hugmyndin um að flytja blótið í íþróttahúsið. Jakob athugaði ýmsar leiðir, ræddi við oddvita og fleiri. Ekki reyndist mikill áhugi hjá oddvita að leggja í kostnað vegna flutningsins.

Ákvörðun um að halda blótið í Aratungu var tekin í lok nóvember og í framhaldi af því var húsið pantað og ráðnir dyraverðir.

Þessar myndir tók Páll M Skúlason á æfingu í Slakka.

Magnús Skúlason var fenginn til að sjá um upptökur og vinnslu á skemmtiatriðum og Elinborg Sigurðardóttir og Kristján Björnsson til að flytja minni karla og kvenna. Margrét Bóasdóttir til að stjórna fjöldasöng og Böðvar skyldi leika undir á gítar.

Þessar myndir tók Páll M Skúlason af æfingum og upptökum.

Strax eftir áramót var farið yfir hugmyndir að leikþáttum og byrjað að velja leikara (video).

Stærstur hluti dagskrárinnar sem flutt var á blótinu var sýndur á tjaldi og þann hluta má sjá hér fyrir neðan, en dagskráin var svona:

20.00 Húsið opnað og gestum vísað til sætis.
21.00 Setning - Flugþjónar dreifðu sér um salinn á meðan flugstjórinn fór með ávarp flugstjóra, en það var jafnframt setningarávarp formanns nefndarinnar.
21.30 Minni karla - Elinborg Sigurðardóttir - Táp og fjör ….
21.45 Minni kvenna - Kristján Björnsson - Fósturlandsins….
22.00 Skemmtiatriði - Fyrir utan þau atriði sem sýnd voru á tjaldi voru tvö atriði flutta á sviðinu, en texti þess fyrra er birtur hér neðst. Hitt atriðið var dans boldangskarla úr Skálholtssókn.
23.45 - 03.00 Dansleikur - Góðir landsmenn.


Þorrablót í Biskupstungum 25. janúar 2019 (Bóndadaginn) í boði Skálholtssóknar. Videó atriðin.
Myndataka og klipping: Magnús Skúlason. Leikstjórn Böðvar Þór Unnarsson og leikarar ýmsir

22. janúar voru seldir miðar í Bjarnabúð, alls 229 @ 3500. Ágóði af blótinu, kr. 41.731, rann til endurnýjunar á perum á Hvítárbrú.

Stærstu kostnaðarliðir voru hljómsveitin, sem tók kr. 450.000 og dyraverðir kr. 150.000.

Í mars var haldinn fundur þar sem nefndin skilaði af sér og tilkynnti um þorrablótsnefnd 2023. Í henni eiga þessi sæti:

Anna Gréta Ólafsdóttir Bæjarholti 11, formaður,
Gunnur Ösp Jónsdóttir Bæjarholti 13,
Gunnar Erling Guðmundsson Gerði,
Hildur María Hilmarsdóttir, Spóastöðum og
Gunnar Örn Þórðarson, Akri

til vara eru þau:
Svava Theodórsdóttir Höfða,
Arite Fricke Bæjarholti 12,
Ingvi Þorfinnsson Spóastöðum og
Páll M Skúlason Kvistholti.

Þessar myndir tók Páll M Skúlason á æfingu í Aratungu.


Þessar myndir tók Páll M Skúlason á æfingu í Aratungu:

Sýnishorn úr dagskrá þorrablóts 2019

Heilsueflandi sveitarstjórnarfólk
Höfundur: Benedikt Skúlason
Leikstjóri og aðalhlutverk: Böðvar Þór Unnarsson. Aðrir leikarar voru: Gestur Einarsson Skálholti, Ragnheiður Jónasdóttir Ljósalandi, Páll M Skúlason Kvistholti, Guðrún Ólafsdóttir Vesturbyggð 1, Sólrún Lilja Ragnarsdóttir Bæjarholti 2, Hólmfríður Ingólfsdóttir Holtagötu 15 og Benedikt Skúlason Kriskjuholti.

ST: Jæja þá getum við byrjað þetta. Fyrsta spurning.
ST: Eigum við að byggja leikskóla? Svar í kór: JÁ!
ST: Rosa flottan leikskóla? Svar í kór: JÁ!
ST: Er Valtýr að hætta? Svar í kór: JÁ!
ST: Eru ekki allir leiðir? Svar í kór: JÚ!
ST: Hver fattaði uppá Valtý? Svar í kór: ÉG!
ST: Hver bjó Valtý til? Svar í kór: ÉG!
ST: Verðum við ekki að auglýsa eftir nýjum? Svar í kór: JÚ!
ST: Sá hæfasti verður ráðinn? Svar í kór: JÁ!
ST: Eigum við ekki að leggja ljósleiðara? Svar í kór: JÁ!
ST: Byrja að leggja að Gíslaskála? Svar í kór: JÁ!
ST: Og þriggja fasa rafmagn? Svar í kór: JÁ!
ST: Kýrauga við hvert býli? Svar í kór: JÁ!
ST: Eigum við ekki að sjá um og vernda afréttinn sjálf? Svar í kór: JÁ!
ST: Eigum við ekki samt að virkja, bara smá rennslis? Svar í kór: JÁ! (USSSS)
ST: Eigum við ekki að kaupa öll íþróttamannvirki á Laugarvatni? Svar í kór: JÁ!
ST: Má Víglundur veiða í Hvítá? Svar í kór: NEI!
ST: Má Benni veiða í Hvítá? Svar í kór: NEI!
ST: En má Drífa veiða í Tungufljóti. Svar í kór: JÁ!
ST: Eigum við að moka heim á hvert býli þar sem er sauðfé og kýr? Svar í kór: JÁ!
ST: Eigum við að moka heim til Palla Skúla? Svar í kór: NEI!

ST: Hvað eru allir hættir að hreyfa sig ? Svar: (Umlandi) Nei nei
Er þetta ekki heilsueflandi sveitarfélag ? Svar: Eh….jú.
ST: Svona, svona - koma svo

Svo söng hópurinn eftirfarandi texta Benedikts Skúlasonar við Hvolpasveitarlagið og Böðvar Þór lék undir á gítar:

Okkar sveit okkar sveit
út um allt að kalla.
Okkar sveit okkar sveit
leysir vanda alla.

Með sveitarstjórnar lófa
þau bæta sérhvern dag,
alltaf klár og viðbúin
þau kunna öll sitt fag

Helgi, - Vala, Kolli,
Gunna, Robbi, - Ótti, Rúna.

Strax í dag

Okkar sveit okkar sveit,
út um allt að kalla.
Okkar sveit okkar svei,
leysir vanda alla.

Litlir toppar bjarga þér
okkar sveit hvar sem er.
Bjarga þér - Okkar sveit
ooooó, okkar sveit,
ooooó, okkar sveit,
ooooó, okkar sveit,
Hvolpasveit


Uppfært 03/2021