Sterkar minningar frá sumardvöl
Petur Holm, eða Pétur Sophus Hreiðarsson fæddist 1954 og dvaldi sem barn í Krossinum í tvö sumur, líklegast, að því er hann telur 1959 og 1960. Hann er þó ekki alveg viss, en veit að seinna sumarið kom gamall strætisvagn á svæðið og þar með meiri fjölbreytni í leiktækjum.
Pétur á ekkert sérlega góðar minningar frá dvölinni og hefur leyft mér að birta þau minningabrot sem hann hefur skráð niður. Kvikmyndin Sumarbörn, í leikstjórn Guðrúnar Ragnarsdóttir (2017) varð að hans sögn til að kveikja minningar frá þessum tíma.
Petur hefur nú búið erlendis í 44 ár og breytti nafni sínu af hagkvæmnisástæðum.
Ég var í Laugarási í tvö sumur, sennilega 8 vikur í hvort skipti. Myndin (Sumarbörn) byrjar eins og mín ferð byrjaði. Litlar rútur frá Guðmundi Jónassyni. Rúturnar voru troðfullar af grenjandi krökkum hrópandi á mæður sínar sem stóðu fyrir utan næstum því hálfvælandi.
Ég ætlaði mér ekki að grenja eins og smábarn, en að vera gallharður, en ég man þó ennþá vel hvað kökkurinn sat í hálsinum lengi. Stærri hetja var maður ekki. Bara einn lítill 5 ára gamall strákur í heiminum.
Gæslukonurnar voru unglingsstelpur um eða undir tvítugu. Ég man að ein var spurð af yfirfóstrunni þegar við vorum að fara á stað í rútunni, hvað hún væri gömul. Stelpan sagðist vera 18. Hún taldist, sem sagt, ásamt jafnöldrum sínum, nógu gömul til að geta séð um 30 börn sem leið illa vegna heimþrár allan sólarhringinn. Mörg barnana grétu sig í svefn. Ekki þó harðjaxlinn ég. Ég vaknaði þó einn morguninn og var búinn að pissa undir. Ég skildi þá ekkert í því.
Stelpugreyin voru engar mömmur og gátu náttúrlega ekki sinnt 30 börnum, svo krakkarnir pössuðu sig sjálfir. Maður gæti kallað þetta fálæti eða vanrækslu með tilheyrandi vanlíðan hjá alsaklausum börnunum. Ábyrgðin hvílir á Rauða krossinum sem stofnun og yfirmönnum þeirrar stofnunar. Þetta fólk var ekki starfi sínu vaxið. Allt voru þetta Íslendingar.
Foreldrarnir höfðu enga hugmynd hve mikil vanlíðan fylgdi þessari sveitadvöl.
Þegar við vorum baðaðir stóðum við í röð, vorum þvegnir og skolaðir með vatnskönnu og þurrkaðir, eins og á færibandi. Þetta gerðist ef til vill einu sinni í viku. Í skálanum sem ég svaf í voru tvö klósett í ganginum við dyrnar út. Þar fyrir innan herbergi með vöskum þar sem við þvoðum okkur og tennur voru burstaðar og fatageymsla, að mig minnir. Þaðan var gengið inn i svefnsalinn með kojuröðum beggja vegna. Úti á miðju gólfi voru ofnarnir í röð og við hvern ofn var hlandkoppur. Sperrunum var haldið saman neðan með ca 10-12 mm steypustyrktarjárni sem "strækbånd" Málið var, að geta farið þvert yfir skálann á morgnana yfir í hina kojuröðina með því að hanga í steypustyrktarjárninu. En svo voru alltaf einhverjir bófar sem reyndu að toga náttfatabuxurnar af kappanum og ef það tókst, dýfðu þeim í fullan hlandkoppinn.
Það var herbergi í skálanum þar sem tvær af gæslustelpunum sváfu.
Skálarnir myndu líklega þykja vera brunagildrur í dag. Allt byggt í þunnu timbri.
Laugarás var lélegur staður fyrir börn. Ekkert um að vera og eins og í myndinni Sumarbörn var maður mest utandyra. Það var lítið sem ekkert haft fyrir börnunum. Engum var refsað og það var engin harðneskja, nema kannski í eitt skipti þegar reynt að þvinga mig til að éta ógeðslegan graut. Alveg eins og í myndinni ældi ég honum upp. Mér þessar gæslustelpur vera dálítið heimskar að reyna að neyða mann til að borða eitthvað sem maður ekki vildi borða. Það var ekki heil brú í því, að manni fannst. Hvers vegna borða eitthvað sem maður ekki vill? Ruglaðar, vondar kerlingar fannst manni.
Foreldrar máttu ekki heimsækja börnin sín, en ég fékk reyndar einusinni heimsókn en það voru nágrannar okkar þau Jón Nordal og kona hans Sólveig, sem voru í bíltúr og komu óvænt við. Óskaplega þótti mér vænt um það. Heiðursfólk bæði tvö.
Það var ekki mikið um tilbreytingu. Ég man eina ferð upp á Vörðufell sem mér fannst vera ævintýri. Svo eina ferð í lykkjubandi út í Skálholtskirkju sem var í byggingu. Að öðru leyti var tilvera bara innan girðingar. Það var heitavatnstankur í kofa uppi á holtinu á milli barnaheimilsins og þorpsins. Þar var farið inn og litir bræddir á tanknum. Sem var líklega að hluta einangraður með torfi.
Það var ekki mikið um leiktæki og þau sem þarna voru, voru frekar leiðinleg. Seinna sumarið sem ég var þarna kom strætóinn. Ég man þegar hann kom niður brekkuna. Að geta lokað hurðinu með koparhúninum eins alvöru strætóbílstjórar gerðu í Reykjavík, var heilmikið mál. Annars voru leiktækin leiðinleg. Strætóinn var góð tilbreyting.
Það voru þarna tvö hús sem stóðu sér undir brekkunni. Ég held að stærra húsið, sem var nær, hafi verið geymsla fyrir tæki og töskur. Fötin okkar voru svo í hólfum í svefnskálanum. Allt var merkt með númeri frá Rauða krossinum, sem mamma saumaði í hverja flík. Ég er ekki viss, en ég held að annað sumarið hafði ég nr. 124. Ég er jú vaxinn upp úr görmunum, svo staðfestinguna á númerinnu vantar. 😀
Hitt húsið (húsið sem sjá má á myndinni) var eiginlega beint á móti inngangnum á ská fyrir neðan heitavatnstankinn. Húsið var eiginlega grafið inn neðst í brekkuna. Maður sér moldarbarðið á bakvið. Það var hægt að ganga út á þakið að aftanverðu. Ég veit ekki til hvers húsið var notað. Ef það var eitthvað notað. Það var neglt fyrir gluggana með spýtum. Það gæti verið að það hafi verið rafstöð sem var kveikt á kvöldin. Við borðuðum kl. 18 og ætli að við höfum ekki verið sofnuð um hálf áttaleytið og þá var bjart. Svo ég man ekkert í að hafa heyrt í vélinni. Rafstöð er þó líklegt. Húsið gætið hafa verið grafið inn í brekkuna til þess að dempa vélarhávaðann frá rafstöðinni. Eina steinhúsið á staðnum. Ég var með Lister dísilrafstöð í Afríku í 5 ár og það er bölvaður hávaði af þessu.
Ekki man ég eftir neinum þeirra sem eru á myndinni (myndinni sem hér fylgir)og heldur ekki að það hafi verið "kaffi" úti. Svo ég fer að halda að ég hafi verið á staðnum 1960 og 1961. Allavega söng Raggi Bjarna í transistortækjum gæslustelpnana "Vertu að ekki að horfa svona alltaf á mig" og það lag kom út 1960. Litli bróðir minn var með seinna sumarið.
Seinna fór ég til sumardvalar í Stykkishólmi hjá nunnum. Þær gerðu eins gott og þeim var unnt. Mér hefur síðan alltaf verið vel til nunna. Nunnurnar og séra Úbas voru gott fólk. Þau voru öll útlendingar, en gerðu góða hluti á Íslandi.
Upp úr 1980 kom ég að Laugarási. Þá voru byggingarnar fallnar saman. Það var gott að sjá að þessar barnafangabúðir væru hrundar.
Kvikmyndin Sumarbörn er greinilega byggð á þekkingu og reynslu frá þessum stöðum. Dálítið skrítið var, að eins og í myndinni dreymdi mig og hugsaði til hests í Laugarási. Kannski er hestur tákn um frelsi í huga barna á þessum aldri?
Ofangreind lýsing á einungis við þau ár sem ég var í Laugarási, eða líklegast til sumrin 1959-1960.
Mér sýnist aðstæðurnar í Laugarási hafa breyst í rétta átt eftir að Jóna Hansen varð forstöðukona. Jóna var kennari að mennt og hafði aflað sér þekkingar um starfið erlendis. Hún virðist hafa haft mjög gott orð á sér sem kennari og manneskja. Sem sagt fagmenneskja með þekkingu börnum og skoðanir, og ekki bara einungis dugandi stjórnsöm ráðskona. Henni var ekki alveg sama þó gæslustelpurnar legðust fyrir út í móa í teppi með timburmenn eftir sveitaböllin og sinntu ekki börnunum. Sjálfsagt geta mörg börn þakkað henni fyrir að dvölin varð bærilegri en hún var áður.
Ég læt mér detta í hug að hugsunarhátturinn við ráðningu yfirmanna á svona staði, áður en Jóna Hansen var ráðin, hafi verið einhvernveginn svona: "Hún eða hann getur haft stjórn á þessu. Dugnaðurforkur, sem er skyld honum....." ..frekar en viðkomandi hafi vit á börnum og þörfum þeirra og uppeldi. Réttur titill hefði kannski átt að vera: Geymslustjóri!
Í Breiðuvík var til dæmis ráðinn gamall skipstjóri. Hvaða vit hafði sá maður á barnauppeldi? Enda var varð dvölin þar að sögn, mannskemmandi fyrir óharðnaða unglinga.
Á Silungapolli voru bæði sumarbörn, sem voru börn sem voru send "í sveit", og svo vetrarbörn sem voru þar vegna félagslegra aðstæðna, til lengrar dvalar.
Það fór alltaf gott orð af Vatnaskógi hjá skátunum og Stykkishólmi sem nunnurnar ráku. Þar var mikið af krökkum af Vellinum og Keflavík og Njarðvíkum. Þar var reynt að hafa ofan af fyrir þeim. Það var gott að vera í Stykkishólmi.
Við vorum Reykvísk fjölskylda, án náinna ættingja úti á landi, 5 systkini, pabbi sigldi, og mamma stundum með honum á sumrin. Þetta var aðalástæðan fyrir því að við fórum á þessa staði.
Uppfært 12/2018