Stöðugt verður saga þorrablóta í Biskupstungum lengri og vegna þess að þorrablótsnefndir Skálholtssóknar hafa verið einkar duglegar að halda fundargerðir í undirbúningi blótanna á fjögurra ára fresti, fannst mér tilvalið að taka saman yfirlit yfir þessa árlegu gleði, þau ár sem hún hefur verið í umsjá fólks í sókninni.
Við undirbúning skemmtiatriða fyrir þorrablót kynnist fólk hvert öðru með allt öðrum hætti en í hversdagslegum samskiptum. Reyndin er sú, að í hverjum og einum leynist eitthvað sem ekki var á allra vitorði áður. Samvinna af þessu tagi þjappar fólki saman, á árstíma sem það þarf kannski frekar en á öðrum tímum, að sleppa fram af sér beislinu og kalla fram aðrar hliðar á sjálfu sér, jafnvel einhverjar sem það vissi sjálft ekki að væru þarna.
Fyrir utan fundargerðir þorrablótsnefnda er þarna að finna myndefni frá mér og öðrum sem tilgreindir eru. Mig vantar enn myndir frá nokkrum blótanna, bæði ljósmyndir og myndbönd. Ég biðla til þeirra sem kunna að eiga efni af þessu tagi, sem þau væru tilbúin að leyfa mér að birta, að hafa samaband við mig.
Hér er hlekkur á upphafssíðu þar sem ég hef gert lauslega grein fyrir upphafi þess að haldin voru þorrablót eða vetrarskemmtanir í Biskupstungum. Inni á þessari síðu eru síðan hlekkir á einstök þorrablót sem Skálholtssókn hefur staðið fyrir frá 1963 til 2019.