Í sannleika sagt er hér ekki um að ræða neinar stórfréttir, enda hefur hugur minn verið talsvert bundinn við annað undanfarið ár eða svo. Þessi biðtími þýðir þó engan veginn að ég hafi gefist upp á rólunum, þvert á móti hefur tíminn nýst nokkuð vel í vangaveltur um ýmislegt sem að þessum vef lýtur, en því munu verða gerð skil síðar.
Þrennt vil ég nefna hér og nú um vefinn:
Ég er langt kominn með að flytja inn efni um Hagsmunafélag Laugaráss, sem var og hét, en er ekki kominn svo langt enn að unnt sé að opna fyrir efnið. Þetta var safaríkt félag að mörgu leyti, og söknuður að félagsskap af því tagi.
Ég hef fengið tvær myndir af byggingu Hvítárbrúar haustið 1957. Myndirnar tók Þorsteinn Eiríksson frá Löngumýri, en hann var skólastjóri á Brautarholti á Skeiðum. Það var barnabarn konu hans, Sólveigar Hjörvar, Baldur Vilhjálmsson sem fann þessar myndir í fórum ömmu sinnar. Myndirnar eru komnar á vefinn HÉR.
Ég hef einnig fengið loftmynd af Laugarási frá 1993 (allavega meðan enginn heldur öðru fram með rökum). Það var Guðbjörg Runólfsdóttir sem tók þessa mynd og leyfði mér að nota og hana læt ég fylgja þessu innleggi, en hana er einnig að finna HÉR.