Hagsmunafélaginu gerð nokkur skil.

Hagsmunafélag Laugaráss fæddist lifði og dó síðan. Sannarlega var þetta hið merkasta félag og kom ýmsu góðu til leiðar. Kannski má segja að það hafa haldið Laugarásbúum saman og skapaði heimikla samkennd, allavega meðan fólkið var sæmilega ásátt um hvert stefnt skyldi.

Nú er ég sem sagt búinn að taka saman það efni sem ég hef komið höndum yfir, um Hagsmunafélag Laugaráss. Þar sem verkefni félagsins voru af ýmsum toga hef ég kosið að skipta umfjölluninni um það í þrennt: BÖRN OG LEIKVÖLLURINN, FRAMFARAMÁL og HITAVEITAN. Þá ákvað ég að taka saman í einn þátt upplýsingar um stjórnar- og nefndafólk.

Ég hef reyndar áður birt þættina um börnin og leikvöllinn og stjórnar- og nefndafólkið, en nú bætist við þáttur um önnur mál sem félagið beitti sér í og kallast hann Framfaramál. Ég á alveg eftir að fjalla um hitaveitumálin og aðkomu hagsmunafélagsins að þeim. Það hyggst ég gera með sérstökum kafla um hitaveituna, sem ég læt falla undir yfirflokkinn sem ber nafnið “STARFSEMIN”.

Tvennt vil ég nefna í þessu sambandi:

  1. Mér finnst áríðandi, að Laugarásbúar sem muna þá tíma sem um er fjallað, hafi samband við mig ef þeir muna hluti öðruvísi en ég hef greint frá, eða þá langar að bæta einhverju við. Netfangið mitt er pallsku hjá gmail.com og síminn 8989152.

  2. Ég hef valið myndir af handahófi til að lífga upp á textann og hef reynt að hafa þær sem næst umfjöllunarefninu hverju sinni. Þessar myndir eru úr því safni sem ég á eðe hef fengið frá öðrum. Ég hef áður beðið fólk að leyfa mér að komast í myndir sem það á frá Laugarási og ítreka þá beiðni ennþá.