Talsvert hérað, þetta læknishérað

Þó svo fátt birtist á þessum vef þessa mánuðina, þýðir það ekki að vinna við hann liggi niðri. Þvert á móti. Einhver stærsti hluti vefsins er saga læknishéraðsins, Grímsneslæknishéraðs sem síðan varð Laugaráslæknishérað. Ekki neita ég því, að ef læknissetrið hefði alltaf verið í Laugarási, væri þetta einfaldara viðfangs, en vegna þess að fyrstu tvo áratugi læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu var setrið í Skálholti og því er ekki hægt að líta framhjá þeim merka stað þegar þessi saga er skrifuð. Eins og við vitum öll, þá er saga Skálholts umfangsmeiri en svo að ég leggi í að taka hana saman, nema að litlu leyti.

Nú er ég langt kominn með að tína til ábúendur í Skálholti frá því Valgerður biskupsekkja fór af staðnum 1816, fram að þeim tíma þegar íslenska ríkið keypti jörðina. Í Laugarási er ég búinn að taka saman yfirlit yfir ábúendur á nítjándu og tuttugustu öld.

Ég er nánast búinn að taka saman eigendasögu Skálholts, en Laugarás er skemmra á veg kominn, en þetta allt eru bara bakgrunnsupplýsingar.

Stofnun læknishéraðsins, flutningur setursins í Laugarás, oddvitanefndin eða stjórnarnefndin sem hélt um þræðina, læknarnir og annað fólk sem kom að málum, frá upphafi til þess tíma þegar læknishéraðið var lagt af og varð hluti af HSU.

Afskaplega er ég nú ánægður með hve langt er í að mig, eftirlaunamanninn, skorti verkefni. Ætli stærsti vandi minn verði ekki að reyna að takamarka mig, frekar en að verða uppiskroppa með efni.