Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson

KROSSHÓLL / Sigurðarstaðir 1942

Þessi sumarbústaður hefur ávallt verið kallaður Sigurðarstaðir af Laugarásbúum, en eigendurnir sjálfir hafa kallað hann Krosshól.

R. Bryndís Ásgeirsdóttir

R. Bryndís Ásgeirsdóttir

Sigurður Sigurðsson (f. 02. 05. 1903, d. 05. 04. 1986), fv. berklayfirlæknir og landlæknir, tók það land sem hér um ræðir á leigu, en upphaflega ástæðan fyrir því mun hafa verið sú að hann, eins og svo margir aðrir sem höfðu aðstöðu til, vildi hafa afdrep fyrir fjölskyldu sína ef kæmi til loftárása á höfuðborgina. Hann fékk 3-4 hektara erfðafestulóð til 60 ára í gegnum vinskap sinn við Ólaf H. Einarsson (gamla læknishúsið), sem þá var héraðslæknir, jafnframt því sem hann hafði yfirráð yfir Laugarásjörðinni, og mikið sjálfdæmi um ráðstöfun hennar. Lóðinni fylgdi nýtingarréttur í Sigurðarhver.  

Árið 2002, þegar erfðafestusamningurinn rann út,  var samið um að breyta landinu í 4 lóðir og er hver þeirra um hálfur hektari. Sá hluti landsins sem Sigurður fékk upphaflega rann til baka til landeiganda, Laugaráshéraðs og 1993 gerður Biskupstungnahreppur og Skógræktardeild Ungmennafélags Biskupstungna með sér samkomulag um að ungmennafélagið annaðist landið og þá skógrækt sem þar var hafin. Með þessu var upphafleg lóð skert verulega. 

Efst í þessu landi er sumarbústaður sem Sigurður reisti og er enn í eigu afkomenda hans og Ragnheiðar Bryndísar Ásgeirsdóttur (f. 04. 02. 1905, d. 03. 07. 1980).

Í litlu dalverpi í suðaustur frá bústaðnum reisti Sigurður 300m² gróðurhús, sem mun hafa verið fyrsta járngrindargróðurhúsið sem byggt var á landinu. Nálægt gróðurhúsinu byggðu Jón Vilhelm Ásgeirsson, bróðir Bryndísar og kona hans, Sigríður Friðfinnsdóttir síðan lítið sumarhús, þar sem þau dvöldu í nokkur sumur, en síðan tók Sigurður við því. Í þessu húsi bjuggu garðyrkjumenn sem sáu um ræktunina, sem fólst meðal annars í útiræktun. Meðal þeirra voru tvíburabræðurnir Þór og  Njáll Þóroddssynir, en Njáll bjó síðar í Friðheimum í Reykholti.  Þarna starfaði einnig um tíma Hansen nokkur,  danskur garðyrkjumaður. Síðar tóku garðyrkjubændur, t.d. Skúli Magnússon í Hveratúni, gróðurhúsið á leigu í lengri eða skemmri tíma. Gróðurhúsið var rifið og grindin flutt að Lindarbrekku 1976.

Litli bústaðurinn nýttist um tíma sem bráðabirgðahúsnæði fyrir nýjar fjölskyldur í Laugarási, sem þar bjuggu um skamman tíma, t.d. bjuggu Óttar Guðmundsson og Gíslunn Jóhannsdóttir (Teigur) þar í nokkra mánuði 1967 áður en þau fluttu í gamla bæinn í Hveratúni og síðan á Teig. Helgi J. Kúld og Guðrún Skúladóttir (Asparlundur) voru í húsinu sumarið 1968, en fluttu síðan í gamla bæinn í Hveratúni. Loks nýttu þau Guðný Guðmundsdóttir og Helgi Indriðason (Helgahús) húsið sem sumarbústað í einhver ár eftir að þau fluttu úr Laugarási. Hann var rifinn fyrir um 10 árum.

Sigurður og Bryndís eignuðust 3 dætur: Sigrúnu Erlu, Svanhildi og Guðrúnu.

Sumarhúsið er nú sameign Sigrúnar og Svanhildar, og tveggja barna Guðrúnar, en hún er látin. 

Land: 3 – 4 ha í upphafi, en nú 4375m²

Sumarbústaður: 50m²

Uppfært 07/2020