Laugarás 3 / Helgahús 1949
Þetta hús gekk ávallt undir nafninu Helgahús meðal Laugarásbúa, en í fasteignaskrá heitir íbúðarhúsið nú Laugarás 3.
Laugarásjörðin varð læknissetur 1923. Allt til 1946 voru læknarnir með búskap á jörðinni, sá síðasti var Ólafur H. Einarsson, sem var læknir frá 1932 - 1946. Núverandi íbúðarhús var byggt 1949.
1946 - 1970 Helgi Indriðason (f. 30.01.1914, d.20.01.1995) og Guðný Aðalbjörg Guðmundsdóttir (f. 02.04.1913, d. 17.04.1993) (Gauja). Þegar þau fluttu í Laugarás og tóku við búskapnum bjuggu þau í kjallara læknishússins, en þegar ljóst var að Knútur læknir þurfti á honum að halda, byggði Helgi nýtt íbúðarhús og þangað fluttu þau Guðný 1949.
Helgi var bróðir Guðmundar Indriðasonar á Lindarbrekku, frá Ásatúni í Hrunamannahreppi. Guðný var systir Jóns Vídalín Guðmundssonar sem bjó á Sólveigarstöðum frá 1953 - 1967. Jónína Jónsdóttir, síðar á Lindarbrekku, var í kaupavinnu hjá Helga um það leyti sem húsið var byggt. Fjósið og hlaðan sem nú standa, ásamt íbúðarhúsinu voru byggð á tíma Helga og Gauju undir lok 6. áratugarins.
Þau hjón eignuðust ekki börn, en fóstursonur þeirra var Birgir Stefánsson (11.07.1948), en hann býr nú í Reykjavík og kjördóttir þeirra var Gróa Kristín (f. 02.01.1952). Hún býr í Reykjavík.
Helgi og Gauja brugðu búi, aðallega vegna heilsuleysis Helga, en einnig vegna þess að hefðbundinn búskapur fór ekki sérlega vel með ört fjölgandi garðyrkjubýlunum. Búskapur lagðist af í Laugarási þegar þau fluttu til Reykjavíkur. Þar starfaði Helgi í nokkur ár til viðbótar. Í sumarleyfum dvaldi fjölskyldan oft í sumarbústaðnum litla á Sigurðarstöðum.
Íbúðarhúsið í Laugarási hefur verð leigt ýmsum eða fylgt embætti hitaveitustjóra frá því búskapur lagðist af.
1970 - 1975 Sverrir Ragnarsson og Karitas S. Melstað (Ösp)
1975 - 1980 Pétur Guðmundsson og Svandís Ottósdóttir (Austurbyggð C/24). Pétur var ráðinn til að vera umsjónarmaður með hitaveitunni. Þau byggðu sér hús þar sem kallað er Austurbyggð C og fluttu þangað.
1980 - 1990 Benedikt Skúlason og Kristín Sigurðardóttir (Kirkjuholt). Benedikt tók við hitaveitustjórastarfinu af Pétri og einnig íbúðarhúsinu. Fjós og hlaða gegndu hlutverki n.k. vélamiðstöðvar hitaveitunnar. Þegar Benedikt og Kristín fluttu í nýbyggt hús í Kirkjuholti var skilið á milli íbúðarhúss og annarra bygginga, enda sá Benedikt áfram um hitaveitumálin.
1990 - 2004 Ásta Rut Sigurðardóttir frá Vatnsleysu (f.06.05.1966), systir Kristínar, og Sveinn Kristinsson (09.05.1964). Þau fluttu síðan í hús sitt Þöll í Reykholti. Þau eignuðust 3 börn sem heita: Kristinn Fannar (f. 22.07.1986), Guðrún Linda (f. 21.07.1991) og Sigurður Snær (f. 05.10.1996)
2004 - Pétur Sigmarsson (f. 16.12.1979)(Sigmarshús) og Kolbrún Ósk Sigtryggsdóttir (f. 05.05.1981).
Land: 5200m²
Íbúðarhús 1949: 152m²
Vélageymsla/iðnaðarhúsnæði 1960 og 1974: 270m²
uppf. 11.2018