HVERATÚN 1941
stofnað um 1941, en kallaðist þá Lemmingsland, eftir því sem best er vitað.
Stofnandinn var danskur maður Børge Johannes Magnus Lemming (1913-1998) sem einhverjir telja að hafi komið frá Skálholti. Kona hans var Ketty Hilma Lemming (fædd Madsen) (1920-2009). Hann kom til landsins frá Árósum, 1938 með Gullfossi, en hún seinna það ár.
Á tíma þessara hjóna kallaðist býlið Lemmingsland. Þau byggðu fyrst gróðurhús og bjuggu í því til að byrja með en byggðu síðan steinhús, um það bil 60 m². Húsið var sambyggt gróðurhúsi og í því var ekki gert ráð fyrir eldhúsi, enda hverir í næsta nágrenni.
Ekki er enn ljóst hverjar ástæður lágu að baki því að Børge og Ketty fluttu til Íslands, né heldur hvað varð til þess að þau hurfu úr Laugarási og aftur og til Danmerkur.
Hér er fjallað nánar um Børge og Ketty Lemming
Þau Skúli Magnússon (f. 29.09.1918, d. 05.08.2014) og Guðný Pálsdóttir (f. 07.10.1920, d. 19.12.1992) keyptu Lemmingsland og fluttu á staðinn vorið 1946.
Skúli hafði þá starfað á S.-Reykjum hjá Stefáni og Áslaugu um 5 ára skeið.
Guðnýju mun ekki hafa hugnast að búa á stað með þessu nafni og því sóttu þau um nafnbreytingu til örnefnanefndar. Þau sendu inn 3 tillögur og eina þeirra átti sr. Eiríkur á Torfastöðum, og hana samþykkti nefndin.
Þegar Skúli og Guðný tóku við býlinu voru þar fyrir 3 lítil gróðurhús. Þau fengu einnig að nýta gróðurhús Grósku (síðar Sólveigarstaðir) í einhvern tíma auk þess sem þau buggu í íbúðarhúsinu þar, væntanlega frá því þau komu á staðinn 1946 og að minnsta kosti til 1947, því það ár fæddist þar frumburður þeirra.
Þó svo íbúðarhúsið í Hveratúni hafi þegar verið byggt þegar Guðný og Skúli tóku við, var þar ekkert eldhús og það er ekki ólíkleg ástæða fyrir því að þau hófu búskap sinn í Grósku. Skúli útbjó eldhús í húsinu og lokaði þar með fyrir beint aðgengi að gróðurhúsinu sem því tengdist.
Skúli stofnaði lögbýlið Hveratún, en til þess að það gengi þurfti býlið að vera að lágmarki 3 ha. Landið sem Hveratún hafði til umráða var aðeins 1 ha (sem í sjálfu sér var alveg nóg). Því var ekki um annað að ræða en taka 2 ha í viðbót, á leigu. Það land er austan í Kirkjuholti, vestan Skálholtsvegar og þar eru nú Kvistholt, Kirkjuholt og íbúðarhúsið í Asparlundi (Kirkjuholtsvegi 1). Það land sem þarna var um að ræða, var að stórum hluta í halla, en um það bil 1 ha var sléttlendi og þar sem stunduðu þau Skúli og Guðný útirækt. Það var útbúin grænmetisgeymsla rétt fyrir ofan ræktarlandið, grafin í brekkuna og tryft yfir. Þá byggðu þau fjárhús í brekkurótinni rétt við lóðarmörk þar sem Lyngás kom síðar. Ætli fjárhúsið hafi ekki verið um 15-20 m², en það mótar enn (2018) fyrir rústum þess. Loks má nefna, að í brekkunni upp Kirkjuholtið mótar enn fyrir rás sem grafin var einhverntíma þegar reykkofa var komið fyrir í brekkubrúninni. Reykur var síðan leiddur upp brekkuna í húsið eftir þessari rás, sem grófst síðan út með árunum.
Um tíma áttu þau Hveratúnshjón einnig kú sem bar nafnið Kusa og hest, sem fékk óhentugt uppeldi sem slíkur, en hét Jarpur.
Guðný og Skúli eignuðust 5 börn, en þau eru: Elín Ásta, Sigrún Ingibjörg (f. 20.05.1949), Páll Magnús, Benedikt og Magnús. Þar að auki flutti faðir Skúla, Magnús Jónsson (f. 05.11.1888, d. 06.01.1965) til þeirra í Hveratún 1950.
Það varð ljóst þegar á leið 6. áratuginn að fjölskyldan myndi þurfa stærra húsnæði og því var hafist handa við að byggja. Með fæðingu síðasta barnsins taldi fjölskyldan 8 manns. Það var flutt í nýja húsið, eða „nýja bæinn“ eins og húsið kallaðist til aðgreiningar frá „gamla bænum“, 1961.
Gamli bærinn gengdi áfram hlutverki langt fram á 8. áratuginn, fyrst sem fyrsta húsaskjól fjölskyldna sem voru að flytja í Laugarás og þurftu afdrep meðan þær voru að byggja yfir sig, og síðar sem tímabundinn íverustaður barna Guðnýjar og Skúla, aðallega á sumrum.
Þessar fjölskyldur bjuggu í gamla bænum í Hveratúni um lengri eða skemmri tíma:
1964-1967 Hörður Vignir Sigurðsson og Ingibjörg Bjarnadóttir sem stofnuðu Lyngás
1967-1968 Óttar Guðmundsson og Gíslunn Jóhannsdóttir sem stofnuðu Teig
1968-1971 Helgi Kúld og Guðrún Skúladóttir sem stofnuðu Asparlund
1971-1975 Gunnar Tómasson og Elsa Marísdóttir sem keyptu Asparlund.
Eftir að Gunnar og Elsa fluttu í nýtt íbúðarhús dvaldi hjúkrunarfræðingur við heilsugæslustöðina í húsinu ásamt tveim börnum skamma hríð. Eftir það var ekki föst búseta í húsinu.
Gamli bærinn var jafnaður við jörðu 1982 og á grunni hans byggðu þau Magnús Skúlason, sonur þeirra Guðnýjar og Skúla (f. 09.09.1959) og Sigurlaug Sigurmundsdóttur (f. 25.12.1962) sér hús sem þau fluttu í 1983. Þau höfðu áður búið um níu mánaða skeið í gamla húsinu á Lindarbrekku. Þegar fjölskylda þeirra stækkaði byggðu þau síðan við húsið 1989, með útbyggingu til vesturs.
Skúli og Guðný ráku Hveratún til 1983 en þá komu þau Magnús og Sigurlaug inn í reksturinn. Þau tóku síðan alveg við, árið 2003 og hafa stundað sína garðyrkju þar síðan. Börn þeirra eru: Elín Ingibjörg (f.23.04.1983) er í Svíþjóð, Guðný Þórfríður (f. 28.10.1985) býr í Hafnarfirði, Herdís Anna (f.03.03.1991) býr á Selfossi, Skúli (f. 10.04.1995) og Marín (f. 10.11.1996).
Skúli bjó áfram í nýja húsinu til hausts 2012 þegar hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu, þar sem hann dvaldi til dauðadags.
Viðtal við Skúla Magnússon, frá 2003
Land: 1 ha
Íbúðarhús 1960 140 fm og 1989 98 fm
Gróðurhús um 2500 fm
uppf. 11.2018