Fyrsta starfsárið
Þann 5. júlí, 1952 tók barnaheimilið í Laugarási, „Krossinn“ til starfa, þegar 112 reykvísk börn á aldrinum 3-8 ára fylltu húsin. Þau voru þarna komin til átta vikna dvalar.
Talsvert var fjallað um Krossinn þetta sumar og þá sérstaklega í tengslum við heimsókn fyrirmenna úr þjóðlífinu í ágúst.
Ég læt hér fylgja umfjöllun í Vísi frá þessu fyrsta ári.
Um 120 börn geta verið á barnaheimilinu í Laugarási.
Skemmtilegt barnaheimili, sem er vel í sveit komið.
Að Laugarási í Biskupstungum tók til starfa í vor fullkomið barnaheimili, sem rekið er af Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands. Á barnaheimili þessu geta dvalið 120 -130 börn samtímis, en húsakynni þar eru mjög góð og aðbúnaður barnanna hinn bezti. Í sumar eru á barnaheimilinu 112 reykvísk börn, er njóta þar sumardvalar í 8 vikur.
Heimilið tók til starfa 5. júlí s. l., en þótt það hafi verið í smíðum í allmörg ár var ekki fyrr hægt að taka það til notkunar, því það er nú fyrst að það er fullgert.
Þótt forráðamenn Rauða kross Íslands hafi af miklum dugnaði barist fyrir því að koma þessu heimili upp, hafa þeir notið góðs skilnings og stuðnings ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurbæjar, en báðir þessir aðilar hafa lagt fram fé til þess að verkið yrði fullgert.
Byggingarnar, sem þarna eru, og mynda húsakynni barnaheimilisins voru áður í eigu Bandaríkjahers hér, og voru notaðar sem sjúkrahús og stóðu við Hafravatn. RKÍ fékk byggingarnar að gjöf frá ríkinu og flutti þær á þenna fagra stað, en hann þótti heppilegur af ýmsum sökum, m. a. vegna þess að þar er nóg af heitu vatni, fallegt umhverfi, myndarleg bú í nágrenninu, þar sem hægt er að fá ýmislegt, sem barnaheimili er nauðsynlegt, og svo var staðurinn talinn mátulega langt frá höfuðstaðnum.
RKÍ bauð í gær nokkrum gestum austur að Laugarási til þess að skoða þetta nýja barnaheimili. Voru í förinni Steingrímur Steinþórsson forsætisráðherra, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, bæjarfulltrúarnir Auður Auðuns, Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir og Guðmundur Vigfússon, húsbygginganefnd RKÍ og aðrir forstöðumenn Rauða krossins, auk fréttamanna blaða og útvarps, sem boðið var að slást í förina til að skoða staðinn.
Þegar að Laugarási kom var gestum öllum boðið upp á rausnarlegar veitingar hjá Ingibjörgu Ingólfsdóttur frá Fjósatungu, forstöðukonu barnaheimilisins. Starfsfólk er alls 26 manns í barnaheimilinu, 23 stúlkur, forstöðukona, kennarinn Þórður Kristjánsson frá Súgandafirði og vélamaður.
Byggingarnar eru 10 smáhús, sem tengd eru saman, og eru þar 4 svefnskálar fyrir börn, tveir fyrir drengi og aðrir tveir fyrir stúlkur, borðsalur, setustofa, eldhús, þvottahús, herbergi til að ganga frá þvotti og hús fyrir starfsfólk. Á þessu ágæta barnaheimili dvelja nú 112 börn á aldrinum 3-8 ára, og er dvalarkostnaður 600 kr. á mánuði.
Þegar gengið er um húsin sér fljótt að þar er ekkert að vanbúnaði, en öllu vel og snyrtilega fyrir komið. Auðséð er að spítalabyggingar þessar hafa verið einkar hentugar til þess að gera úr þeim barnaheimili, sem og foráðamenn RKÍ hafa séð. Rúm barnanna í svefnskálunum eru með kojusniði, tvö og tvö saman, neðra og efra rúm. Rúmin, flest borð og nokkrir aðrir húsmunir eru smíðaðir í Reykjalundi, og er góður frágangur á öllum þeim munum. Í þvottahúsi eru 3 þvottavélar og ýmsar aðrar vélar, sem flýta fyrir þvotti og sýnist þar allt vera mjög fullkomið.
Þorsteinn Scheving Thorsteinsson, formaður RKÍ, og Kristinn Stefánsson læknir, formaður byggingarnefndar, skýrðu gestum frá framkvæmdum og tilhögun heimilisins. Rakti Þorsteinn söguna, síðan RKÍ tók að fást við það að útvega reykvískum börnum dvalarvist í sveit. Þökkuðu þeir báðir bæjarstjórn og ríkisstjórn fyrir góða aðstoð og skilning á þessum málum.
Nýja barnaheimilið í Laugarási var talsvert fréttaefni, ekki síst fyrsta starfsárið og umfjöllunin var nánast eingöngu fremur jákvæð.
Það var sagt frá því þegar barnahópurinn fór í Laugarás um miðjan júní og þegar hann kom aftur í rútum til borgarinnar í ágúst, eftir átta vikna dvöl fjarri sínum nánustu. Það var talað um erfiðan viðskilnað barna og foreldra þegar haldið var austur í rútum og síðan fögnuðinn og feimnina sem einkenndi samfund í lok sumars, þegar rúturnar fluttu ungviðið til baka.
Um ellefuleytið í gærmorgun mátti sjá að á norðanverðum Arnarhól hafði safnazt nokkur hópur karla, kvenna og barna og fór sá hópur vaxandi. Höfðu margir setzt niður í grasið og virtust bíða einhvers og hvað það var kom í ljós er klukkan sló hálf tólf. Óku þá inn á bifreiðastæði þarna skammt frá þrír langferðabílar með 120 ungmenni á aldrinum 3—7 ára innanborðs og voru þarna komin börnin, sem dvöldust í sumar á barnaheimili Rauða krossins að Laugarási.
Pabbar, mömmur, afar, ömmur, bræður og systur ruku á fætur og hlupu niður að bílunum, teygðu sig upp að gluggunum til að reyna að sjá í hvaða bíl þeirra kollur væri. Jú, þarna var litli kúturinn hennar mömmu sinnar, brosandi út undir eyru.
Dyrnar voru opnaðar, börnin stukku út og varð þá heldur en ekki fagnaðarfundur. „Hvernig hefurðu það elskan mín?" — „Var ekki gaman?" — „Er ekki gaman að vera komin(n) heim til mömmu og pabba?" — og börnin voru kysst og föðmuð. Jú, það var afskaplega gaman að vera kominn heim, en ekki var laust við að þau minnstu væru hálf rugluð og vissu ekki alveg hvað eiginlega var að gerast.
– Vísir ágúst 1963
Uppfært 12/2018