Krossinn sem nágranni í Laugarási

Þegar barnaheimilið tók til starfa sumarið 1952 voru enn 5 ár í Hvítárbrúna. Íbúar með fasta búsetu í Laugarási  voru ekki nema 16 um þetta leyti, tveir í læknisbústaðnum, fjórir í Hveratúni, þrír á Lindarbrekku, fjórir á Sólveigarstöðum og þrír eða fjórir  í Helgahúsi. Sumargestirnir, 112 börn og um 30 starfsmenn í Krossinum,  hleyptu íbúatölunni heldur betur upp. 

Fólkinu í þorpinu fór þó ört fjölgandi og 10 árum síðar, 1962, voru þeir orðnir hvorki meira né minna en 50 og í hönd fór enn meiri fjölgun. 

Loftmynd af Laugarási 1964. Þarna er sláturhúsið í byggingu og greina má vatnsveitukofann (VL). Í Launrétt er verið að byggja heilsugæslustöð og íbúð héraðslæknis. Ásholt er að taka á sig mynd og framkvæmdir byrjaðar í Heiðmörk. Á hverasvæðinu má greina með góðum vilja framkvæmdavæði hitaveitunnar. Myndin er fengin hjá Landmælingum Íslands.

Innviðirnir

Eins og nærri má geta var staðurinn sem Krossinum var valinn hreint ekki í alfaraleið, reyndar bara lengst uppi í sveit. Það var líkast til einmitt staðsetningin sem sóst var eftir, kyrrlátt og hættulaust umhverfi.

Eins og nærri má geta voru ekki fyrir neinir umtalsverðir innviðir sem hægt að að tengjast við, si svona. Það var engin vatnsveita, heldur var notast við kaldavatnsbrunn á staðnum sem var „hið mesta hallæris- og vandræðamál“, eins og segir í bréfi RKÍ til Reykjavíkurdeildar árið 1965.

Í júní 1964 var Vatnsveitufélag Laugaráss stofnað og það sama ár Hitaveita Laugaráss. Tilkoma þessara mikilvægu þjónustufyrirtækja gerbreytti auðvitað lífi fólks í Laugarási og skapaði grundvöll til enn frekari þróunar byggðarinnar.

Langstærsta forsendan fyrir stofnun vatsveitu og hitaveitu var sú ákvörðun Sláturfélags Suðurlands að byggja sláturhús í Laugarási, en það tók til starfa haustið 1964.


Uppfært 09/2024