pallsku2018-16.png

Páll M. Skúlason Hveratúni
Þegar ég kom í heiminn höfðu verið börn í Krossinum í tvö sumur. Af þessari ástæðu nær minni mitt af þessari starfsemi varla lengra en til um 1960. Þar að auki telst ég víst ekki til þeirra sem muna líf sitt og viðburði úr umhverfi sínu í smáatriðum nánast frá fæðingu. Þetta kann að breytast þegar árunum sem ég legg að baki fjölgar enn.

Ég á fyrst og fremst minningabrot um þessa sumarstarfsemi hinumegin við Kirkjuholt og reyni að gera því helsta skil hér.

Loftmynd af Krossinum og nágrenni, sem var tekin 1969. Myndin er fengin hjá Landmælingum Íslands.

Leið okkar upp að krossgirðingu lá eftir göngustíg upp frá Laugargerði. Það voru oft krakkar þarna hinumegin við girðinguna að leika sér, og eftir lýsingum frá þeim sem þarna voru á þessum tíma voru þau oft að dunda sér við að bræða vaxliti á hitaveitulögnum sem lágu þarna yfir. Oftar voru þarna þó engir krakkar, en við heyrðum í þeim fyrir neðan brekkuna, en sáum ekkert. Okkur langaði að fara og taka þátt í leikjum þeirra, sem okkur fannst að hlytu að vera ofboðslega skemmtilegir og framandi, enda borgarbörn að leik. Á móti kom, að í okkar huga var stórhættulegt fyrir okkur að fara inn fyrir girðinguna. Handan hennar gætum við átt von á að verða gripin og okkur refsað, eða jafnvel eitthvað enn verra. Það kom þó fyrir nokkrum sinnum að við mönuðum hvert annað (eða hver annan) til að hlaupa inn fyrir og fram á brekkubrúnina þar sem við blasti Krossinn í allri sinni dýrð, krakkar hvert sem litið var, og fóstrurnar, sem við óttuðumst mest. Þarna var líka strætóinn.
Það kom aldrei til þess að neitt/neinn okkar yrði gripin/n þarna uppi á holtinu, en spennan við aðstæðurnar sem þarna voru, hefur líklega orðið til að festa þetta í minninu.

Merkingar á mynd: 1. Strætónn - 2. Skálinn þar sem leikföng og ferðatöskur barnanna voru geymd. Á einhverjum tíma (fyrir 1960, í það minnsta) var þessi skáli kallaður líkhúsið, vegna meints hlutverks hans þegar hann stóð við Hafravatn, en sennilega er það flökkusaga. - 3. Matjurtagarður Jónu Hansen. Þar hjá var járnhlið sem alltaf var lokað.

Elstu minningarnar tengjast þeirri spennu sem fólst í því að fara í hóp upp að girðingu - Krossgirðingu. Við krakkarnir fórum svo oft á haustin, eftir að borgarbörnin voru horfin á braut, yfir holtið og lékum okkur með það sem þá ver þarna utandyra, rennibrautir og strætóinn. Ég gleymi því seint hvað mér fannst mikið til um þennan strætisvagn, sem auðvitað var bara hræ af gömlum strætisvagni. Maður gat sest undir stýri og þóst aka um borgarstræti, stöðva á stoppistöðvum og grípa í handfang og opna þannig dyrnar fyrir farþegum sem voru að koma inn í vagninn eða fara út.

Stríðsminjar og leikföng (myndir af vef)

Það kom fyrir að við fundum leikföng sem ekki höfðu ratað í geymslu og þar man ég t.d. eftir þessum hlutum sem sjá má á meðfylgjandi mynd, sem ég vissi ekki þá, en veit nú, að eru mataráhöld frá ameríska hernum. Hvernig það kom til að þau urðu leikföng sumarbarna í Laugarási, veit ég ekki.
Auðvitað langaði okkur að komast inn í skálann þar sem leikföngin voru geymd og það er eitthvað sem kveikir minningu um að við höfum, einhverntíma komist undir hann og þannig upp í gegnum gólfið, en þetta kann að vera ímyndun.

Það kom fyrir að pabbi leysti af við að flytja sorp frá eldhúsinu. Mér finnst ekki líklegt að þá hafi Helgi Indriðason haft þann starfa með höndum, því það var notast við traktor og kerru. Ég fékk þá stundum að slást í för. Kerrunni var bakkað inn í sundið milli eldhússkálans og starfsmannaskálans og fyllt með rusli og matarleifum. Best man ég eftir lyktinni, skelfilegri rotnunarlykt og einhvernveginn koma líka hvítir maðkar og suðandi maðkaflugur við sögu. Svo kíktum við einnig inn í eldhúsið, sem var merkilegur heimur - það var allt svo stórt, stórir pottar, risastór hrærivél. Svo voru bæði gólf og veggir einhvernveginn dökkbrúnt á litinn.

Mér finnst það hafi ekki verið daglegt brauð að börnin í Krossinum sæjust utan girðingar. Vissulega komu þau stundum í fylgd fóstranna, yfir holtið. Þá voru þau alltaf í tvöfaldri röð, þar sem þau gengu beggja vegna bandspotta með lykkjum á, sem þau héldu í. Eitthvað rámar mig í að við höfum stundum verið að hjóla eitthvað í kringum svona halarófur, en ekki man ég til þess að við höfum haft eitthvað á móti ræflunum.

Jóna Hansen sem kom alloft í Hveratún til að kaupa grænmeti á Fólksvagninum sínum. Alltaf hressileg og lét vel í sér heyra. Sögu heyrði ég af því hjá einhverjum að einhverju sinni hafi hún komið með barnastrollu til að kaupa grænmeti og börnin síðan haldið á grænmetinu upp í Kross. Svo er eins og mig minni að komið hafi verið með börn til að skoða í gróðurhúsin, en er samt ekki viss.

Svo liðu árin. Þegar ég náði 16 ára aldri fékk ég leyfi til að fara á böll í Aratungu. Það hefur þá væntanlega vrið sumarið 1970 sem það byrjaði. Ég minnist þess að hafa verið samferða starfsstúlkum í Krossinum á nokkur Mánaböll í Aratungu. Í því sambandi kemur tvennt upp í hugann. Annarsvegar ákveðin tortryggni stúlknanna í minn garð, sem ég komst að, að væri til komin vegna misskilnings eða þess að þær héldu mig vera annan en ég var. Hinsvegar man ég eftir því að hafa gengið með einhverjum hópi, eftir að komið var í Laugarás að afloknum dansleik, niður á planið fyrir framan Krossinn og svei mér ef Jóna Hansen kom ekki til umræðu, en eins og eðlilegt má teljast voru svona ballferðir henni ekkert sérstaklega að skapi.

indriði.jpg

Indriði Guðmundarson Lindarbrekku
Man eftir einhverjum þvottaferðum í þvottahúsið. Fannst þetta vera miklar ævintýraferðir, mikill gauragangur og fyrirferð og hlaup, og ekki skemmdu leiktækin, svaka rólur og rennibrautir og vegasölt að ógleymdum strætónum. Var búinn að gleyma honum, var hann ekki grænn? Þetta var dulúð.

palleyþor.jpg

Páll Eyþór Jóhannsson Ljósalandi
Þetta hefur örugglega verið betra en Silungapollur sem var dvalarheimil fyrir börn frá brotnum heimilum, en samt held ég það yrði ekki talið í lagi í dag að senda svo ung börn á barnaheimili af þessu tagi í dag.


biggi.jpg

Birgir Stefánsson Helgahúsi
Ég ólst upp í námunda við Krossinn frá því ég fòr að muna eftir mér og til 1968. Í fyrstu stóð mér ógn af Krossinum, var logandi hræddur um að mér yrði rænt, en ég slapp við það. Man eftir hlaupum upp á líf og dauða en slapp og stelpurnar á eftir okkur.
Ég sá í fyrsta skipti fyrst kvikmynd þarna. Rebbi á eftir hænu og man ég tók fullan þátt, stóð með hænunni með miklum tilþrifum. Ég man ekki hvernig fór, en löngu seinna var mér sagt frá. Mig minnir að ég hafi verið hin mesta skemmtun fyrir ýmsa aðra.
Mér fannst stelpurnar standa sig vel og umhverfið og aðbúnaður hafi verið með ágætum.

heiðar.jpg

Heiðar Jóhannsson Ljósalandi
Ég á nú allmargar minningar frá veru minni í Krossinum, en það eru minningar frá vetrartíma þar sem við bjuggum þarna einn vetur þegar mamma sá um mötuneyti fyrir smiði sláturhússinns.


peturhj.jpg

Pétur Hjaltason Laugargerði
Krossinn var órjúfanlegur hluti af sumri okkar Laugaráskrakka án þess þó að við værum einhvað að gera sérstakt mál úr því. Eftirminnilegt var að sjá krakkana í halarófu gangandi í bandi með lykkju fyrir hvert og eitt ganga um vegi þorpsins. Eins eftir að maður fór að eldast og taka eftir kvenþjóðinni , gönguferðir þeirra um nágrennið á kvöldin og baðferðir þeirra í Launréttina sem var einstaklega áhugavert fyrir unga menn. Samskipti við krakkana sjálfa voru ekki mikil þó eftir að við fluttum í Laugargerðið mátti hitta á þau við girðinguna upp á holti. Þau að bræða vaxliti á hitaveiturörunum og við, sveitamennirnir í furundran, með hor í nös að fylgjast með réttumegin girðingar. Karl faðir minn og Ingólfur á Iðu höfðu einhverja þjónustu þarna bæði gagnvart viðhaldi og viðgerðum ýmisskonar. Til er mynd af þeim félögum við viðgerð á vegg einhvers hússins. Oft fengum við bræður að fara með og þótti mikið ævintýri.

Hafsteinn Hjaltason 1966 (mynd Ingibjörg Bjarnadóttir)

Einhverju sinni fékk Hafsteinn bróðir að fara með pabba sem ekki var í frásögur færandi, nema þegar pabbi hafði lokið verkum og ætlaði heim fannst drengurinn hvergi. Var þá farið að leita og fannst hann í svefnskála, búið að hátta ofan í rúm og drengstaulinn grátbólginn og ómögulegur. Þá hafið það gerst, að þegar börnum var smalað til húss hafði hann fylgt með. Fékk að borða og var síðan settur í sturtu og háttaður ofan í rúm, við hávær mótmæli og grát og gnístran. Til þess var tekið eftir að hann fannst að ein fóstran hafði á orði hun hefði ekkert í þessu skilið, drengurinn hafði aldrei hagað sér svona áður.
Mig grunar að Hafsteinn hafi ekki verið neitt sérstaklega ákafur í af fara með aftur upp í Kross, alla vega ekki fyrsta kastið.

Uppfært 09/2024