Frumkvöðull í ylrækt

Skúli Magnússon, Hveratúni

Skúli Magnússon, Hveratúni

Viðtal við Skúla Magnússon í Hveratúni

Það var Geirþrúður Sighvatsdóttir sem tók þetta viðtal og það birtist í Litla Bergþór í desember 2003

Einn af elstu mönnum í Biskupstungum er Skúli Magnússon í Hveratúni í Laugarási, sem nýlega varð 85 ára. Skúli er jafnframt einn af frumkvöðlum í garðyrkju og frumbyggi í Laugarási, reisti þar garðyrkjubýli með konu sinni Guðnýju Pálsdóttur árið 1945. Skúli starfar enn við garðyrkjuna og er mjög vel ern þrátt fyrir háan aldur, helst að heyrnin bagi hann eitthvað. Og til að heyra um líf hans og starf, er blaðamaður Litla-Bergþórs kominn heim í stofu til hans, í notalegt húsið í trjálundinum í Laugarási.

Hin klassíska spurning í upphafi, hvaðan ertu Skúli?

Foreldrar Skúla, Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir

Ég er fæddur að Rangárlóni í Jökuldalshreppi í N-Múlasýslu, þann 29. september 1918. Foreldrar mínir voru Ingibjörg Björnsdóttir, fædd 1893 og Magnús Jónsson, fæddur 1887, bæði ættuð af Héraði.

Á þriðja ári flutti ég með foreldrum mínum að Freyshólum á Fljótsdalshéraði, en þar voru þau með blandaðan búskap, kindur og svo kýr fyrir heimilið.

Skúli (sitjandi) með fósturforeldrum sínum Sigrúnu og Benedikt, ásamt fóstbróður sínum Sigurði Blöndal.

Á 5. ári fór ég í Mjóanes, til Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal og Benedikts Blöndal. Var upphaflega fenginn að láni, sem leikfélagi Sigurðar, sonar þeirra, en ílentist þar og varð fóstursonur þeirra.

Foreldrar mínir fluttu nokkru seinna að Víkingsstöðum á Héraði og voru þar með búskap, þar til Alfreð bróðir minn tók við búskapnum. Móðir mín varð þá ráðskona hjá honum, en faðir minn fór að vinna sem múrari, aðallega hjá setuliðinu, við að reisa braggahverfi víða um Austurland. Á efri árum kom hann svo til okkar í Laugarás og vann ýmis létt störf við garðyrkjuna þar til hann dó árið 1965. Móðir mín dó fyrir austan 1968.

Voruð þið mörg systkinin?

Við vorum 6 systkinin. Elstur var Alfreð, fæddur 1914. Hann giftist og átti 3 börn í því hjónabandi, en skildi og tók seinna við búi með móður okkar, að Víkingsstöðum á Héraði. Næstur var Haraldur, fæddur 1915. Hann vann lengst af sem byggingamaður við járnavinnu, var ógiftur og bjó á Víkingsstöðum. Ég var 3. í röðinni, fæddur 1918. Þá komu 3 systur, Björg, fædd 1919, Sigfríður fædd 1921 og Pálína, fædd 1925.

Systkini Skúla, f.v. Alfreð, Haraldur, Björg, Sigfríður og Pálína

Björg giftist Friðbergi Einarssyni og voru þau fyrst með búskap á Hrollaugsstöðum á Héraði, fluttu seinna í Loðmundarfjörð og voru með búskap þar, en síðar vann Friðbergur sem verkamaður á fjörðunum og bjuggu þau þá á Eskifirði. Þau áttu 10 börn, sem flest búa fyrir austan.

Yngstu systurnar voru báðar ógiftar, Sigfríður vann lengi á Landsspítalanum, en Pálína var sjúklingur og var því oft á hælum.

En þú ólst upp í Mjóanesi?

Já, ég ólst upp hjá fósturforeldrum mínum til 18 ára aldurs, fyrst í Mjóanesi, þar sem þau ráku alþýðuskóla á eigin vegum og voru jafnframt með blandaðan búskap. Þau tóku ungt fólk innan við tvítugt, bæði karla og konur, til náms. En áður höfðu þau bæði verið kennarar á Alþýðuskólanum á Eiðum.

Húsmæðraskólinn á Hallormsstað

Þegar ég var 12 ára, 1930, fluttu þau að Hallormsstað, þar sem þau tóku við rekstri Húsmæðraskólans, sem verið var að stofna þar. Sigrún varð fyrsta skólastýra skólans.

Þó ég væri alinn upp að hluta til á húsmæðraskóla var samt aldrei hugsað um að kenna mér neitt sem viðkom húshaldi, fékk ekki að vaska upp, hvað þá annað. Það var ekki lenska í þá daga, að strákar ynnu hússtörf, en sem betur fer hefur það nú breyst. Mér sýnast synir mínir bara furðu liðtækir við heimilisstörfin, þó ég segi sjálfur frá!

Ég lauk fullnaðarprófi þarna á Hallormsstað og tók síðan gagnfræðapróf frá Menntaskólanum á Akureyri.

Sigurlaug Erlendsdóttir

Sigurlaug Erlendsdóttir

Þá var ákveðið að gera úr mér garðyrkjumann. Fóstri minn hafði mikinn áhuga á að nýta orku með heimarafveitu og vildi setja upp garðyrkjustöð, sem hituð yrði upp með rafmagni. Úr því varð aldrei, en það var sótt um skólavist fyrir mig í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Ég komst þó ekki inn strax, því ákvæði var um að nemendur yrðu að hafa starfað í a.m.k. eitt ár í ylræktarstöð, áður en þeir fengu inngöngu í skólann. Það var því fyrir milligöngu frú Sigurlaugar á Torfastöðum, sem var skólasystir fóstru minnar úr Kvennaskólanum, að ég fékk vist hjá hjónunum Stefáni og Áslaugu á Syðri-Reykjum, kom þar um áramótin 1940-'41. Og þar ílentist ég og fór svo að ég var hjá þeim í alls 5 ár. Dvölin á Syðri-Reykjum var góður skóli. Þar var þá önnur stærsta garðyrkjustöð á landinu á eftir Garðyrkjuskólanum og var stunduð fjölbreytt ræktun.

Starfsfólk á S.-Reykjum. Stefán undir gula + en Skúli undir þeim rauða.

Þarna vann fjöldi manns, meðal annarra mjög færir ræktunarmenn, danskir, hollenskir, norskir og sænskir, auk margra Tungnamanna, sem unnu ýmis störf og við uppbyggingu mannvirkja, því alltaf var verið að byggja og stækka. Þarna störfuðu milli 15 og 20 manns þegar mest var. Allt var mjög skipulagt og þegar ég byrjaði að vinna, man ég að við vorum sérstaklega áminntir um stundvísi. En svo gekk allt mjög ljúfmannlega fyrir sig enda Stefán og Áslaug alveg einstakir húsbændur. Stefán sá til þess að ég og annar strákur, sem höfðum mikinn áhuga á blómarækt, fengum sérstaka kennslu hjá hollenska garðyrkjufræðingnum.

Og eftir árs dvöl þarna þóttist ég bara vera orðinn nokkuð menntaður maður og fór ekki á garðyrkjuskólann.

Tíminn á S-Reykjum var einhver allra besti tími sem ég hef upplifað, bæði skemmtilegur og lærdómsríkur vegna þess fjölmennis, sem þar var og þarna kynntist ég fjölda Tungnamanna, sem varð til þess að ég fór að sækja mannfagnaði og fundi og falla inn í umhverfið. Ég átti gott með að kynnast þeim, því þá var ekki síminn, tölvur eða sjónvarp, og maður var manns gaman. Þá var líka allt handrukkað og forsvarsmenn yfirvalda, eins og Þorsteinn á Vatnsleysu, Einar í Holtakotum og Skúli í Tungu komu a. m. k. einu sinni á ári að rukka verkafólkið um tryggingar, skatta og þess háttar.

Minkaskott þurfti að fara með til Skúla í Tungu. Ég man, að einhverju sinni vildi svo til, að ég hafði drepið 2 minka, en það voru ekki ferðir í Bræðratungu daglega svo ég geymdi skottin og loks þegar ég ætlaði með þau, hafði ég týnt öðru þeirra. Ég fór samt með hitt skottið og Skúli tók mér ljúfmannlega og borgaði það. Þegar ég var að fara gat ég þess að minkarnir hefðu nú reyndar verið tveir, en annað skottið hefði glatast. Skúli leit þá á mig, brosti við og sagði, „Nú þú verður auðvitað að fá greitt fyrir bæði skottin, ég sé það á þér að þú segir satt um þetta nafni". Svona var Skúli, hann treysti mönnum.

Ég lenti einu sinni í því að vera í sóknarnefnd eftir að ég kom hér niður í Laugarás og þurfti þá að rukka kirkjugarðsgjöld. Það tók mörg kvöld, bara hér í hverfinu, því það þurfti líka að spjalla og drekka kaffi. Einhvernveginn höfðu menn meiri tíma, eða gerðu sér minni rellu út af tímanum í þá daga.

Fluttist þú beint hingað í Laugarás frá S-Reykjum?

Guðný Pálsdóttir

Jú, og þá var ástin komin í spilin — segir Skúli og brosir við. - Þarna á Syðri-Reykjum kynntist ég konu minni, Guðnýju Pálsdóttur, frá Baugsstöðum í Gaulverjabæjarhreppi og það endaði auðvitað þannig að við fórum að hugsa um hreiður eins og fuglarnir!

Guðný var fædd 1920 og við höfðum reyndar kynnst áður, þegar hún var á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og mun það hafa verið fyrir mína tilstilli að hún kom að S-Reykjum til að hjálpa til við heimilishaldið, með Elínu ráðskonu okkar, í verkamannabústaðnum Nýborg. En það var húsið þar sem við verkafólkið bjuggum og mötuðumst. Þar búa nú þau Ólafur Stefánsson og Barbara kona hans. En þarna þróaðist semsé kunningsskapur okkar, sem hélst óslitinn þar til hún lést árið 1992.

Hveratún skömmu eftir að Skúli og Guðný fluttu í Laugarás. Gróðurhúsið lengst til hægri var í eigu Ólafs Einarssonar, læknis.

Árið 1945 frétti ég af lausri lóð hér í Laugarási sem var til sölu. Lemmingsland var það kallað, en danskur maður, sem Lemming hét hafði verið þar með garðyrkju. Þessa lóð keypti ég og það voru skrítin kaup. Ég þurfti ekki að borga krónu, heldur fékk bunka af víxlum, sem voru svo að falla allan ársins hring. Það var Steindór Gunnlaugsson, bróðir Skúla í Tungu, sem hafði milligöngu um kaupin og hann skrifaði upp á hjá mér. Svo var framlengt og borgað inná, þar til tókst að borga upp. Þetta var strembið, þótt 45.000,- þætti ekki stór upphæð í dag. En þetta var árið 1945 og þá var þetta þó nokkur upphæð.

Konunni þótti ómögulegt að búa á Lemmingslandi svo við sóttum um nafn til Örnefnanefndar. Máttum senda inn þrjár tillögur að nöfnum og átti Örnefnanefnd síðan að velja eitt af þeim. Ég stakk upp á 2 nöfnum, en þá vantaði eitt og ég bar mig upp við sr. Eirík Stefánsson á Torfastöðum, sem spurði hvort ég vildi ekki kalla býlið Hveratún. Þá var Hilmar Stefánsson bróðir Eiríks í Örnefnanefnd og svo vildi til að Hveratún varð fyrir valinu. Ég kalla því að sr. Eiríkur hafi skírt býlið og þykir heiður að því.

Á lóðinni voru 3 lítil gróðurhús, um 100 ferm hvert þeirra og lítið og lélegt íbúðarhús og þar byrjuðum við Guðný búskap okkar. Fyrstu árin vorum við með kýr og kindur til heimilisins, en svo lagðist það af.

Hverjir bjuggu í Laugarási þegar þið fluttuð þangað og voru menn byrjaðir með garðyrkju hér þá?

Á næstu lóð við okkur, á Sólveigarstöðum, var gróðararstöð á vegum Náttúrulækningafélagsins, sem Gróska hét og hafði Björn Kristófersson, síðar skrúðgarðaverkstjóri í Reykjavík, forstöðu fyrir henni. Það voru einu gróðurhúsin, fyrir utan okkar.

Nú, fyrsta árið, sem við vorum hér, var Ólafur Einarsson, læknir, í læknishúsinu og var þar með einhvern búskap. Síðan kom Helgi Indriðason frá Ásatúni í Hrunamannahreppi og tók við búskapnum ásamt Guðnýju Guðmundsdóttur konu sinni, og nokkru síðar komu Guðmundur bróðir hans og Jónína Jónsdóttir, kona hans, og keyptu lóð með sumarbústað í Lindarbrekku og byrjuðu þar með garðyrkju.

Um sama leytið og við fluttum í Laugarás, keypti svo Jón Vídalín, (bróðir Guðnýjar, konu Helga) Gróskuna og hann varð næsti nágranni okkar. Ég man líka eftir Guðrúnu í Höfða, en hún kom hingað fyrstu árin til að þvo. Mér fannst alltaf gaman að koma til hennar, því hún var mjög fróð og sérstök, en kannski öðruvísi húsmóðir en maður átti að venjast.

Hvað ræktuðuð þið til að byrja með?

Við byrjuðum með grænmeti, tómata, gúrkur og steinselju. Svo var byggt við og stækkað smátt og smátt, og nú eru þetta aðallega paprika, salat og steinselja sem við erum með. Við höfum byrjað á ýmsu, byrjuðum einu sinni á blómum, en þá féll verðið og allt fór í afföll, svo við hættum við það. Núna eru um 2000 fermetrar undir gleri.

Yngsti sonur minn, Magnús, er garðyrkjufræðingur og hefur starfað með mér frá því hann kom heim úr námi, um 1980 og tekur væntanlega við þessu öllu bráðlega. Hann byggði íbúðarhúsið sitt á grunni gamla hússins 1983 og býr núna þar með fjölskyldu sinni.

Hver eru börn ykkar Guðnýjar.

Við eignuðumst 5 börn og af þeim búa 4 í Laugarási.

Hveratúnsfjölskyldan 1989

Elst er Elín Ásta, fædd 1947, gift Gústaf Sæland frá Espiflöt. Þau búa hér á Sólveigarstöðum, eru með blómarækt og eiga 4 börn, Skúla, Huldu, Eirík og Guðna Pál. Skúli býr með fjölskyldu sinni hér í Varmagerði í Laugarási.

Næst er Sigrún Ingibjörg, fædd 1949. Hún býr á Selfossi, vinnur á tannlæknastofu og er gift Ara Bergsteinssyni sálfræðingi, syni Bergsteins og Sigrúnar á Laugarvatni. Þau eiga 3 stráka, Agnar Örn, Bergstein og Skúla.

Þriðji er Páll Magnús, fæddur 1953, kvæntur Dröfn Þorvaldsdóttur og þau búa hér í Kvistholti í Laugarási. Þau eiga 4 börn: Egil Árna, Þorvald Skúla, Guðnýju Rut og Brynjar Stein. Páll er kennari og er nú aðstoðarskólameistari við Menntaskólann að Laugarvatni.

Síðan er Benedikt fjórði í röðinni, kvæntur Kristínu Sigurðardóttur frá Vatnsleysu og þau búa í Kirkjuholti hér í Laugarási. Börn þeirra eru þrjú, Bergþóra Kristín, Valgerður Björk og Sigurður Skúli. Benedikt er nú veitustjóri hér í sameinuðum hreppum Bláskógabyggðar.

Og yngstur er Magnús, fæddur 1959. - "Ekki er nú andagiftin mikil!" sagði Jón Vídalín nágranni okkar, þegar við skírðum Magnús og vorum áður búin að skíra Pál Magnús - Magnús er giftur Sigurlaugu Sigurmundsdóttur og býr, eins og ég sagði áðan, hér í Hveratúni. Þau eiga 5 börn: Elínu Ingibjörgu, Guðnýju Þórfríði, Herdísi Önnu, Skúla og Maríni. Eins og þú sérð, er þetta orðinn heilmikill hópur og svo eru barnabarnabörnin líka orðin nokkur.

Það fer sem sagt vel um þig hér í faðmi fjölskyldunnar?

Skúli níræður 2008

Jú, jú. Ég er sjálfs míns herra hér í húsinu og get alveg eldað sjálfur. En börnin eru dugleg að bera í mig mat, svo ég hef varla undan! Sérstaklega er hún Ásta dugleg að koma. Ég vinn ennþá alla daga, er að dunda eitthvað mér til heilsubótar. Mér finnst mikilvægt að hreyfa mig og hafa áhuga á einhverju. Það er ómögulegt að leggjast í rúmið!

Hvað finnst þér um þróunina í garðyrkjunni og hvernig er framtíðarsýnin?

Ja stórt er spurt! - Það blæs svo sem ekki byrlega núna. Ef vel gengur í einni tegund garðyrkju haugast allir í það og kæfa hvern annan. Svo gerir innflutningur garðyrkjubændum erfitt fyrir og ansi hætt við að svo verði áfram. Eina bjargræðið væri ef Guðni ráðherra gerir einhverjar rúsínur! En þeir ráða ekki við þetta. Það á allt að vera svo opið og þótt við Íslendingar setjum reglur, koma aðrar reglur frá Evrópusambandinu, sem ganga yfir okkur öll. — Annars vil ég helst ekki sjá annað en það sem mér er hagstætt og sé því ekki annað en að garðyrkjan eigi eftir að blómstra enn og aftur og verða áfram lífsbjörg okkar sem að henni vinnum.

 Átt þú þér einhver áhugamál önnur en garðyrkjuna?

Nei, ætli það. Þetta snýst allt um garðyrkjuna. Það væri þá ekki nema að lesa og fylgjast með. Hér áður fyrr fékk ég tækifæri til að kynnast fólki og hrataðist þá stundum í nefndir og vesenaðist í félagsmálum og logaði af áhuga á meðan. En það er eðlilega ekki lengur. Ég læt duga að mæta á Lions-fundi núorðið.

Er eitthvað sem þú vildir segja að lokum?

Ja, ekki nema óska Tungnamönnum gleðilegra jóla og farsældar í framtíðinni, með þökk fyrir mig. Þeir hafa eiginlega alið mig upp og eiga því þakkrir skildar!

Og með þessar árnaðaróskir í farteskinu þakkar blaðamaður fyrir góðar móttökur og skemmtilegt spjall við þennan aldna höfðingja.

Geirþrúður Sighvatsdóttir skráði.

uppf. 09.2018