Børge Lemming og Lemmingsland
Það var nokkuð oft minnst á þetta nafn, Lemming, í Hveratúni. Það var talað um að áður en Skúli og Guðný fluttu í Laugarás, hefði búið á garðyrkjubýlinu sem þau keyptu, danskur maður sem hét Børge Lemming og að býlið hafi borið nafnið Lemmingsland, hvort sem það var nú raunverulegt heiti þess eða ekki.
Þegar samantekt á efni í sögu Laugaráss stóð yfir, fór vaxandi áhugi á að fá að vita meira um þennan Børge Lemming.
Hversvegna kom hann til landsins?
Hvað gerði hann hér annað en búa í Laugarási?
Var hann einn?
Hversvegna hvarf hann aftur af landinu?
Hvað varð um hann?
Það var ekki um annað að ræða en hefja leit að upplýsingum um þennan huldumann, sem hafði haft svo mikil áhrif á líf Skúla og Guðnýjar og afkomenda þeirra alla án þess að vita nokkurntíma af því.
Þetta byrjaði á leit á timarit.is og þar fannst tvennt. Annarsvegar listi yfir farþega með Gullfossi sem birtist í Vísi 31. janúar, 1938 og hinsvegar auglýsing í Morgunblaðinu þann 1. febrúar, 1941.
Þetta tvennt varpaði ekki miklu ljósi á þessi mál, svo leitinni var haldið áfram og nú á intenetinu í víðara samhengi - gúglað, sem sagt. Sem betur fer er nafnið Lemming ekki jafn algengt og t.d. Hansen og því fóru málin smám saman að skýrast.
Á síðunni myheritage.dk birtist Børge og það sem meira var nafn konu og sonar.
Í framhaldinu tók við leit á samfélagsmiðlum, sem lyktaði með því, að sonarsonur þeirra hjóna, Allan Lemming brást við skilaboðum. Hann er sonur Sørens Lemming og Lissie Lemming. Faðir hans er látinn fyrir 20 árum, en hann sendi erindið til móður sinnar Lissie Lemming, tengdadóttur Børge og Ketty, sem brást afar vel við og nú liggja fyrir alveg nýjar upplýsingar um þetta fólk sem í upphafi var bara “danskur maður að nafni Lemming”.
Hér er birt þýðing á því sem Lissie tók saman og sendi um hjónin Børge og Ketty Lemming.
Ketty Hilma Madsen, fæddist 29. október, 1920 á Frederiksallée 20, Árósum. Hún var skírð þann 12. desember, 1920.
Børge Johannes Magnus Lemming fæddist 30. ágúst, 1913 á Bulowsgade 21 í Árósum. Hann var skírður 25. febrúar, 1914.
Árið 1938 fór Børge til Íslands til að upplifa landið. Ketty fór síðan á eftir honum þegar hún náði átján ára aldri, 1938. Hún mátti ekki fara fyrr en þeim aldri væri náð.
Ég veit ekki hversvegna þau fóru til Íslands, held þó að það hafi verið til að kynnast landinu, en það hafði ekkert með stríðið að gera.
Ekki veit ég hvað þau gerðu fyrstu tvö til þrjú árin.
Þau giftust þann 30. desember, 1939 í kirkjunni á Mosfelli í Grímsnesi og eignuðust 5 börn meðan á Íslandsdvölinni stóð:
Kirsten Agnea Ketty Lemming (21. apríl, 1939).
Elisabet Ketty Lemming (27. júní, 1941)
Søren Peter Børge Lemming (3. mars 1943)
Hans Peder Børge Lemming (5. mars, 1944)
Inge Birte Lemming (24. mars, 1945)
Søren Peter Børge Lemming var skírður í Skálholtskirkju, sem þá var, þann 2. janúar, 1944.
Ég vissi ekki að þau hefðu stofnað garðyrkjubýli í Laugarási og að þau hafi kallað býlið Lemmingsland.
Þau höfðu orð á því einhverntíma, að þau hafi viljað snúa aftur til Danmerkur, en að það hefðu þau ekki getað fyrr en stríðinu lauk.
Þau sögðu einnig frá þvi að þau hefðu spjallað við ameríska hermenn í gegnum girðingu og að þau hafi átt skipti við þá með ýmislegt. Ameríkanarnir fengu mat og Børge og Ketty meðal annars sígarettur.
Þau sögðu að þau hefðu ekki getað selt býlið, en að önnur fjölskylda hefði fengið það (yfirtekið) gegn því að greiða skuldir sem á því hvíldu.
Árið 1946, eftir stríðið fluttu þau aftur til Danmerkur, til Árósa. Þau fóru með skipi og ferðin tók viku, því þau hrepptu afar slæmt veður. Allir á skipinu urðu sjóveikir. Þetta var erfið ferð með 5 lítil, sjóveik börn. Skipstjórinn þurfti auk þess að fara sérlega varlega vegna hættu af tundurduflum.
Eftir komuna til Danmerkur eignuðust hjónin tvö börn í viðbót, en það voru Viola Lemming (21. ágúst, 1947) og Runa Lene Lemming (21. október, 1961).
Børge hóf störf sem skrúðgarðyrkjufræðingur (anlægsgartner) en Ketty á saumastofu.
Árið 1956 var Børge, ásamt tveim öðrum að grafa brunn. Þegar þeir höfðu grafið niður á talsvert dýpi urðu þeir fyrir súrefnisskorti og urðu að drífa sig upp. Sá fyrsti sem upp komst slapp vel, Børge var annar í röðinni og hann hlaut af þessu heilaskaða vegna súrefnisskorts. Sá þriðji komst ekki lifandi frá þessu.
Børge var fluttur til Kaupmannahafnar á sjúkrahús og gekkst undir aðgerð á höfði og lá lengi inni. Eftir þetta gat hann lítið unnið.
Ketty lagði hart að sér og var í fleiri en einu starfi. Bæði hún og börnin unnu við blaðburð til að eiga fyrir húsaleigu, mat og öðrum nauðsynjum.
Ég kom til sögunnar 1967 og þá vann Børge örlítið við skrúðgarðyrkjuna og Ketty dreifði dagblöðum á skellinöðru.
Foreldrar mínir létust 1979 og 1983.
Ketty og Børge bjuggu 5 km. frá okkur í Låsby á Jótlandi, tvö þúsund manna bæ 25 km fyrir vestan Árósa.
Børge lést 20. mars, 1998, á 85. aldursári. Ketty lést 21. desember, 2009, 89 ára að aldri. Þau bjuggu á Kjelbjergvej 16 í Toustrup st.
Sonur þeirra og eiginmaður minn, Søren Peter Børge Lemming, sá sem skírður var í Skálholti, lést úr krabbameini 12. nóvember, 1999.
Ketty og Børge sögðu ekki margt um Íslandsdvölina svo það er takmarkað sem ég veit um þann tíma. Systkini Sørens vita ekkert umfram það sem ég veit, svo það er takmarkað sem ég get aðstoðað með, en ég vona að það sé hægt að nota þetta eitthvað.
kær kveðja
Lissie Lemming
Textinn frá Lisse Lemming á frummálinu
Ketty Hilma Madsen. Født den 29. oktober 1920 på Frederiksalle 120, i Århus. Døbt den 12. december 1920. Børge Johannes Magnus Lemming Født den 30. august 1913 på Bulowsgade 21, i Århus. Døbt den 25. februar 1914.
I 1938 rejste Børge selv til Island for at opleve Island, Ketty rejste til Island efter hun blev 18 år oktober 1938 da hun ikke måtte rejse før hun blev 18 år.
Hvorfor de rejste til Island, tror jeg det var for at opleve Island, ikke noget med krigen af gøre. De sejlede til Island.
Jeg ved ikke hvad de lavede de første par år.
De blev gift den 30. december 1939 i Mosfelli, Island.
De får 5 børn på Island:
1. 21 april 1939 Kirsten Agnea Ketty Lemming
2. 27 juni 1941 Elisabet Ketty Lemming
3. 3 marts 1943 Søren Peter Børge Lemming
4. 5 marts 1944 Hans Peder Børge Lemming
5. 24 marts 1945 Inge Birte Lemming
Søren Peter Børge Lemming er døbt den 2. januar 1944. i Skalholt kirke på Island.
Jeg vidste ikke at de startede deres gartneri i Laugaras, og de kaldte deres gartneri Lemmingland.
Ketty og Børge har fortalt at de ville rejse hjem til Danmark, men kunne ikke rejse hjem før krigen var slut, de fortalte at de snakkede med de Amerikanske soldater igennem hegnet, og de udvekslede forskellige ting, Amerikanerne fik mad og Ketty og Børge fik bland andet cigaretter.
De fortalte at de ikke kunne sælge gartneriet, og en anden familie overtog gartneriet mod at betale gæld.
I 1946 efter krigen flyttede de tilbage til Danmark.
De sejlede til Danmark, det tog en uge for der var stormvejr og alle på båden var søsyge, det var hårdt at sejle med 5 små børn som alle var søsyge, skibets kaptajn skulle også passe på for der var miner i vandet, så de skulle sejle langsomt.
De 2 sidste børn fik de da de kom hjem til Danmark:
6. 21 august 1947 Viola Lemming
7. 21 oktober 1961 Runa Lene Lemming
Da de kom hjem startede Børge som anlægsgartner. Ketty arbejde på en systue.
I 1956 var Børge med til at grave en brønd, de var 3 personer om det, men da de havde gravet langt ned, var der ikke ilt nok så de måtte skynde sig op, den første der kom op, var ok, Børge var nr. 2 der kom op, men han havde taget skade i hovedet, med for lidt ilt. Den 3 døde af for lidt ilt. Han kom på hospitalet i København og blev opereret i hovedet og var indlagt i lang tid, derefter kunne han ikke arbejde ret meget.
Ketty arbejder hårdt, havde flere job, både børnene og Ketty kørte med aviser for at få råd til husleje og mad mm.
Jeg kommer ind i billedet i 1967. Børge hjælper meget lidt en anlægsgartner, og Ketty kørte stadig ud med aviser på knallert.
Ketty og Børge havde Guldbryllup 31 december 1989
Mine Lissie Lemmings forældre døde i 1979 og 1983
Ketty og Børge boede 5 km fra hvor vi bor i Låsby. Lissie og Sørgen Lemming.
Søren Peter Børge Lemming døde af kræft den 12. november 1999.
Børge døde den 20. marts 1998 af alderdom.
Ketty døde 21 december 2009 af alderdom.
Ketty og Børge Lemming boede Kjelbjergvej 16, Toustrup st.
Ketty og Børge har ikke fortalt så meget om den tid på Island, så det er begrænset hvad jeg ved om den tid på Island, og de andre af Sørens søskende ved heller ikke mere end mig, så det er begrænset hvad jeg kan hjælpe dig med, så håber du kan bruge det jeg har sendt til dig.
Med venlig hilsen Lissie Lemming.
Viðbót eftir frekari upplýsingaleit.
Það er ekki ólíklegt að saga þeirra Börge Lemming og Ketty konu hans, eins og hún tengist Laugarási, hafi byrjað haustið 1937, en dagana 23. september til 3. október það ár, var haldin mikil norræn garðyrkjusýning í Kaupmannahöfn.
Dagana 23. sept. til 3. okt. síðastliðna stóð hin 6. norræna garðyrkjusýning yfir í Kaupmannahöfn. Fyrsta norræna sýningin var í Stokkhólmi 1897. En þessi sýning var sú fyrsta, er allar Norðurlandaþjóðirnar fimm tóku þátt í. Finnar og Íslendingar hafa ekki verið með fyr. Sýning þessi var haldin til minningar um 50 ára afmæli félags danskra garðyrkjumanna. (Nýja dagblaðið 24.11.1937)
Meðal þeirra Íslendinga sem þarna sýndu afurðir sínar, var garðyrkjubóndinn á Laugabóli í Mosfellsveit, Ólafur Gunnlaugsson (1904-1966).
Þann 30. janúar, 1938 kom Gullfoss til Reykjavíkur og meðal farþega var B. Lemming, nokkur. Í maí var hann síðan talinn sem einn starfsmanna á Laugabóli hjá Ólafi. Börge var þarna 25 ára lærður garðyrkjumaður og má reikna með að Ólafur og hann hafi hist á sýningunni í Kaupmannahöfn og Ólafur ákveðið að bjóða honum til starfa hjá sér á Íslandi. Það var, í blöðum á Íslandi, gert heilmikið út hlut Dana á sýningunni og því ekki ólíklegt að akkur hafi talist í því fyrir íslenska garðyrkju, að fá nokkra innspýtingu til að þróa íslenska garðyrkju áfram. Ekkert verður fullyrt um þetta hér, en þetta er ein líklegasta ástæða þess að Börge kom til Íslands. Hann átti þá unnustu í Árósum, sem var ný orðin 17 ára og því má reikna með að ástæða þess að Börge ferðaðist einn, í stað þess að bíða þess að unnustan næði 18 ára aldri, hafi verið boð um hentuga vinnu á Íslandi.
Börge var síðan á Laugabóli þar til Ketty Hilma, en það var nafn unnustunnar, kom á eftir honum árið 1939. Hún hlýtur að hafa komið fyrir mitt ár, því fyrsta barn þeirra fæddist í apríl, 1940.
Árið 1939 var stofnað garðyrkjubýli úr landi Reykjaness í Grímsnesi, sem hlaut nafnið Reykjalundur. Þar var ráðsmaður Magnús Bjarnason (1913-1979), ráðskona Ingibjörg Jósepsdóttir (1912-2008). Þau Börge og Ketty réðu sig að Reykjalundi og var Börge tilgreindur í sóknarmannatali, sem garðyrkjustjóri. Loks var Einar/Ejnar Tönsberg (1910-1986) tilgreindur í Reykjalundi, sem verkamaður.
Ekki er ljóst hvernig þessum búskap var háttað, eða hver eigandinn var, en það er alveg eins hægt að gera ráð fyrir að Jón Guðmundsson (1891-1973) bóndi í Reykjanesi hafi haft þar hönd í bagga. Hvað sem því líður, var þarna saman komið ungt fólk og Börge hefur verið ætlað að nýta þarna þekkingu sína sem garðyrkjumaður.
Þann 30. desember, 1939, voru þau Börge og Ketty gefin saman í hjónaband, af sr. Guðmundi Einarssyni, í Mosfellskirkju, en þá var Ketty komin um það bil fimm mánuði á leið með fyrsta barn þeirra, sem fæddist þann 21. apríl og hlaut nafnið Kirsten/Kristin Agnea/Agnya Ketty (nöfnin hafa mismunandi stafsetningu eftir því hvaðan upplýsingarnar eru fengnar).
Á fundi oddvitanefndar Laugaráshéraðs, þann 10. maí, 1939 var þetta bókað:
Rætt um að reyna að hagnýta hlunnindi jarðarinnar, með því að leigja jarðhita og nauðsynlegt land til gróðurhúsa.
Var samþykkt að leigja hvern sek.l. vatns á kr. 100 á ári og ca 25 kr fyrir hvern hektara lands.
Form og hjeraðslækni falið að leita eftir leigumöguleikum.
Þá var hjeraðslækni falið að skrifa Búnaðarfjel. Íslands og biðja um mælingu á landi Laugaráss og að gert yrði kort af því.
Það má alveg reikna með því, að Börge hafi ekki séð fyrir sér, fullnuma garðyrkjumaðurinn, að ílendast sem starfsmaður hjá öðrum og því hafi hann, leitað hófanna hjá formanni oddvitanefndarinnar, sem var á þessum tíma, presturinn á Mosfelli, sr. Guðmundur Einarsson, sem gifti þau Ketty. Það varð úr að þessi nýbökuðu dönsku hjón ákváðu að freista gæfunnar. Líkur benda til að þau hafi komið í Laugarás vorið 1940, en þar voru þau skráð í sóknarmannatali í árslok, ásamt dótturinni, sem var sögð óskírð.
Það er ekki einfalt að átta sig á því, hvernig þau fóru að því, með nýfætt barn sitt, að lifa af fyrsta veturinn í Laugarási, en þau hljóta að hafa haft einhverja aðstoð, til dæmis má reikna með því, að þau hafi fengið inni í Reykjalundi eitthvað áfram og ekki finnst mér ólíklegt, að læknishjónin í Laugarási, Ólafur og Sigurlaug, hafi verið þeim innan handar. Um þetta er þó engar upplýsingar að hafa.
Lóðin sem þau fengu í Laugarási, er sú sama sem Hveratún stendur á nú. Þau byggðu sér gróðurhús, sem var um 100 ferm. og bjuggu fyrstu árin í þeim enda þess, sem snéri að hveralæknum. Í sóknarmannatali frá því í árslok 1943 segir, að fjölskyldan búi í gróðurhúsi.
Í Laugarási eignuðust Ketty og Børge fjögur börn og árið 1944 munu þau hafa flutt í húsið sem þau byggðu og sem síðan hýsti Hveratúnsfjölskylduna til ársins 1961. Það má ljóst vera að líf þessara hjóna og barna þeirra í Laugarási var enginn dans á rósum, enda fór svo, árið 1945, að þessi tilraun þeirra til að koma undir sig fótunum á Íslandi gekk ekki upp og þau hurfu á braut og sigldu til Danmerkur með börnin fimm, árið 1946. Börnin voru þau Kirsten Agnea Ketty (21. apríl, 1940), Elisabet Ketty Lemming (27. júní, 1941), Søren Peter Børge Lemming (3. mars 1943), Hans Peter Børge Lemming (5. mars, 1944) og Inge Birte Lemming (24. mars, 1945).
Heimsókn um átta áratugum síðar.
Það var árið 2017 sem ég fann ekkju Sørens, Lissie og son hennar Allan. Lissie sagði mér að hana hafi lengi langað að koma til Íslands til að skoða söguslóðir tengdaforeldranna og ég hvatti hana auðvitað til þess og bauðst til að vera henni innan handar. Eftir það heyrði ég ekki meira frá þessu fólki fyrr en um miðjan mars, en þá fékk ég skilaboð frá Allan, þar sem hann greindi frá því að þau kæmu til landsins í lok maí og kvaðst vona að þau gætu átt aðstoð mína vísa, sem var auðvitað sjálfsagt.
Svo skipulögðum við þetta allt saman og laugardaginn 28. maí hittumst við og lögðum leið okkar í Laugarás, Skálholt, Mosfell og Reykjalund. Danirnir sem þarna voru, auk Lissie og Allans, eiginkona Allans, Nicola Dorthe og dóttir Lissie, Jette og eiginmaður hennar, Søren.
Þetta var hinn ánægjulegasti dagur, en með í för voru einnig þau Sigrún systir mín og Ari, sem bæði eru vel heima í danskri tungu, en þau bjuggu í nokkur ár í Árósum. Húsbændurnir í Hveratúni, þau Magnús og Sigurlaug tóku svo á móti hópnum og afkomendurnir fengu tilfinningu fyrir því hvernig aðstæður voru á staðnum, árið 1940.
Sören Lemming var skírður í Skálholti og því var það eðlilegur viðkomustaður og sömuleiðis Mosfellskirkja, þar sem Ketty og Børge gengu í hjónaband 30. desember 1939.
uppf. 09.2024