Fríður Pétursdóttir (1935-2020) Laugargerði
„Það var eins og að flytja í allt aðra sveit“
Viðtal við Fríði Pétursdóttur í Laugargerði í Laugarási.
Viðtalið tók Svava Theodórsdóttir og það birtist í Litla Bergþór í júní 2013
Ég er oft spurð um hvaðan ég sé og vefst mér þá jafnan tunga um tönn. Velti fyrir mér hvort ég geti sagst vera undan jökli. Þaðan er ég ættuð, en af vondu fólki er ég ekki komin.
Faðir minn var sonur útvegsbændanna Guðmundar og Jófríðar í Rifi.
Jófríður Jónsdóttir, amma mín, var fædd 1879. Hún var mikil merkiskona og varð fræg um allt Snæfellsnes fyrir að neita að láta stúlkurnar sínar, dauðþreyttar sjálfar, draga blautan sjófatnað af piltunum og bera heim til að þvo og þurrka fyrir þá, svo þau væru tilbúin í næsta róður eins og þá tíðkaðist. Í staðinn bauð hún karlmönnunum að þjóna stúlkunum.
Þegar hún lést, árið 1973, báru kvenfélagskonur kistu hennar úr kirkju og stóðu heiðursvörð fyrir hana. Þetta þótti alveg sérstakt og hafði ekki gerst áður.
Faðir minn hét Pétur Guðmundsson, fæddur 21. janúar 1906, hann dó 9. febrúar 1978.
Móðir mín, Guðbjörg Elín, var fædd 10. desember 1910 á bænum Spjör í Eyrarsveit, dóttir Ragnheiðar Guðbrandsdóttur og Sæmundar Skúlasonar er þar bjuggu.
Ragnheiður amma mín lést af barnsförum þegar móðir mín var sex ára. Þá var hún tekin í fóstur að Furubrekku til Þorkels, móðurbróður síns og Theodóru Kristjánsdóttur, konu hans. Theodóra og Vilborg, móðir Fríðu í Hrossaga, voru systur og er þetta það næsta sem ég kemst því að teljast frænka Fríðu.
Ég fæddist í Reykjavík 21. mars 1935 og er næst elsta barn foreldra minna.
Við áttum fyrst heima í Skerjafirði og svo á Grettisgötu. Það helsta sem ég man frá þeim tíma er, hvað ég átti flottan pabba. Hann var vélstjóri á varðskipinu Ægi og gekk í búningi með gylltum hnöppum. Hann sigldi einnig til útlanda og kom heim með ávexti og fínustu brúður.
Svo fluttum við í Norðurmýrina, á Kjartansgötu 6.
Á sumrin vorum við í Djúpuvík á Ströndum. Mamma saltaði síld en pabbi var vélstjóri í síldarverksmiðjunni hjá Kveldúlfi. Í Djúpuvík komst ég í fyrsta skipti undir læknishendur og var skorin upp við kviðsliti. Ragnar Ásgeirsson, læknir sagði að ég hefði orgað ógurlega þegar átti að svæfa mig. Dagarnir eftir aðgerðina voru ævintýralegir, ég var borin út á plan í dívanskúffu og sett upp á fjórar síldartunnur. Þegar ég fór að hressast var ég keyrð um í gömlum barnavagni sem Heiðar, elsti bróðir minn, stjórnaði.
Á stríðsárunum var farið með konur og börn úr borginni. Um tíma dvöldum við á Þingborg í Flóa og á Efri Brú í Grímsnesi vegna stríðsins og þar man ég vel eftir mér. Okkur krökkunum fannst þetta þó tóm vitleysa, hermennirnir voru svo góðir við okkur og gáfu okkur sælgæti og ávexti, það gat varla stafað mikil hætta af þeim.
Næst fluttum við í Blesugróf, í lítinn sumarbústað sem pabbi keypti og byggði við og úr varð hið myndarlegasta hús sem var nefnt Bjarkarlundur. Ég gekk í Laugarnesskóla í tvo vetur. Já, ég þurfti að ganga, þar sem það var svo lítil byggð þarna innfrá að þar voru engir strætisvagnar í förum. Mér verður stundum hugsað til baka til þess þegar ég gekk í svarta myrkri í gegnum sandgryfjurnar og söng hástöfum til að fæla í burtu draugana, sem ég var nokkuð viss um að væru þarna.
Uppvaxtarárin
Svo kom að því að foreldrar okkar gerðu eitthvað af viti að mati okkar systkinanna: Við fluttum á Siglufjörð.
Síldin togaði í og þar var næga vinnu að fá. Pabbi var ráðinn vélstjóri við verksmiðjur ríkisins. Við komum þangað 15. mars. 1944 eftir 14 daga siglingu með Esjunni sem fór fyrst austur fyrir land. Við Langanes var svo mikill hafís að skipið varð að snúa við og fara aftur til Reykjavíkur og reyna vesturleiðina. Á Ísafirði lokuðumst við inni í fimm daga. Það var reynt að komast út en við urðum alltaf frá að hverfa. Ennþá get ég framkallað hljóðin þegar skipið byltist inn á milli ísjakanna og þeir skófu skipshliðina. Það voru óhugnanleg hljóð.
Þetta hafðist þó að lokum og við komumst loksins HEIM til Siglufjarðar. Þar var allt á kafi í snjó og hægt að fara á sleða og skíði sem við fengum við komuna. Þetta átti nú vel við okkur. Svo byrjuðum við í skóla og þar var vel tekið á móti okkur. Framan af var ég kölluð „stelpan í Ríkishúsunum“ vegna þess að við bjuggum í einu af fjórum húsum sem Ríkisverksmiðjurnar áttu. Seinna bættist nafnið mitt við og eftir það var ég „Fríður í Ríkishúsunum“.
Þetta var dásamlegur tími, það var að koma vor og allur undirbúningur að síldarsöltun var að byrja. Fyrsta sumarið mitt var ég fyrst og fremst barnapía hjá mömmu. Fimmta barnið var á leiðinni og ég passaði yngri systkinin mín, sem voru þá tveggja og fimm ára. Ég eignaðist margar vinkonur og lékum við mikið boltaleiki og þá var mér jafnframt veitt tilsögn í norðlensku. Maður sagði ekki: þreddán, fjórdán og fimmdán heldur þrettán, fjórtán og fimmtán með greinilegum téum.
Sumarið eftir var ég orðin nokkuð kotroskin, ég var sko orðin 10 ára. Margar stelpur fengu að fara með mæðrum sinum að salta, en mamma mín fór ekki, þar sem hún var með lítið barn heima. Besta vinkona mín og ég ákváðum að ganga fyrir söltunarstjórana og ráða okkur í pláss, en alls ekki tvær saman. Við litum stórt á okkur og gengum um hvert planið af öðru og menn hristu höfuðið. Við gátum fengið pláss saman eða ekki. Svo kom að því að Gígja fékk pláss, stjórinn á því plani var frændi hennar, en hann vildi ekki setja tvö pláss undir smástelpur, svo að ég hélt áfram að leita. Loksins hitti ég almennilegan mann, sá hét Skafti Stefánsson á Nöf. Hann mældi mig út svolitla stund og sagði svo um leið og hann rétti mér höndina: „Ég vil alveg eins ala upp stúlkurnar mínar sjálfur“.
Þar sem herbergið mitt var á annarri hæð þá þurfti að setja hjólabjöllu í gluggann og svo var snúra fest niður í grindverk, þá þurfti Ræsir ekki annað en að toga í snúruna þegar ræst var út í söltun, þá vaknaði ég, en enginn annar í húsinu. Mér fannst ég vera orðin fullorðin.
Hjá Skafta á Nöf var ég í átta sumur eða þar til ég flutti suður á ný. Ein af mínum fyrstu minningum frá Siglufirði eru frá 17. júní 1944, þegar ég var níu ára. Það voru allir samankomnir á íþróttavellinum. Mér leiddist þessi samkoma og gekk því af stað heim. Á leiðinni blasti Hólshyrnan við mér og upp á henni blakti íslenski fáninn. Það voru nokkrir strákar úr skátunum og slysavarnafélaginu sem höfðu haft fyrir því að fara með skipsmastur alla leið upp á Hólshyrnuna og flögguðu þar. Þarna skynjaði ég í fyrsta skipti að ég væri íslensk og hvaða merkingu 17. júní hefur fyrir okkur Íslendinga.
Bakvandræði
Ég varð snemma hávaxin miðað við aldur og fjórtán ára var ég fullvaxin. Í minni barnaskólatíð sátum við á bekkjum sem voru samfastir við borðin sem við unnum við og það var engan veginn gert ráð fyrir frávikum í hæð. Enda fór það svo að 14 ára gömul var ég nánast komin með kryppu á bakið.
Ég er rétthent og notaði hægri hendina til allra hluta og notaði hana mjög mikið. Ekki bara að ég spilaði handbolta, heldur voru litlu systkinin oft hangandi á vinstri mjöðminni á mér. Við söltunina skar ég auðvitað með hægri hendinni og þar varð maður að vera virkilega handfljótur, sem jók enn álagið. Það var farið með mig til Reykjavíkur til Bjarna Jónssonar, sérfræðings á Landakoti, sem ráðlagði leikfimi og að ég sæti sem allra minnst.
Það má segja að Helgi Sveinsson, leikfimikennari á Siglufirði, hafi náð að rétta úr mér aftur. Hann lét mig gera æfingar, allar fyrir vinstri höndina. Ég hékk, kastaði bolta og greip með vinstri höndinni og sat svo, allt upp í hálftíma, með kústskaft spennt fyrir aftan bak með höndunum.
Vegna baksins kom það ekki til greina að ég færi í gagnfræðaskólann eins og flestir mínir jafnaldrar gerðu, svo að iðnskólinn varð fyrir valinu.
Það var tvennt sem ég gat hugsað mér að læra, klæðskerann eða hárgreiðslu, en í hvorugu faginu var hægt að komast á námssamning hjá meistara á Siglufirði. Ég tók því iðnskólapróf sem gaf mér rétt til verknáms í bakstri eða hárgreiðslu.
Í mínum huga var Siglufjörður á þessum tíma mikill menningarbær þar sem félagslífið blómstraði. Við gengum í öll félög, skátana og stúkuna, þar sem var dansað einu sinni í viku. Svo vorum við í skíðafélaginu og handboltanum. Móðir mín var í slysavarnafélaginu, kvenfélaginu og kirkjukórnum. Það voru sett upp leikrit á hverjum vetri og mamma tók þátt í þeim, milli þess sem hún eignaðist börn. Hjónaklúbburinn var í uppáhaldi hjá pabba þar sem hann var mikill matmaður og dansari og þessi klúbbur snerist mest um þetta tvennt og að sjálfsögðu um þorrablót. Það var gaman að vera í eldhúsinu þegar pabbi útbjó þorratrogið.
Svo voru eftirminnlegir tónlistarkennarar og kórstjórar við barnaskólann, t.d. Ragnar Björnsson sem tók mig í raddpróf og sagði þegar ég var búin að tísta og baula eitthvað, að drepast úr feimni, frammi fyrir stórum hóp af krökkum. „Nú, þú ert messósópran, farðu í bassann“.
Flutt frá Siglufirði
Árin liðu eins og í ævintýri og svo hvarf síldin. Fólkið beið í von um að hún kæmi aftur, en margir fluttu í burtu svo stórsá á bæjarfélaginu. Til merkis um það þá voru fermingabörnin 72 talsins þegar elsti bróðir minn fermdist vorið 1947. Tveimur árum seinna, þegar ég fermdist, snjóavorið mikla 1949, þá vorum við bara 64 og svona gekk þetta.
Fermingin er mér minnisstæð. Hún fór fram á sumardaginn fyrsta í þreifandi byl og mikilli ófærð. Það þurfti að sækja okkur heim á vörubíl og fá jarðýtu til að fara fyrir bílnum svo hægt væri að koma okkur í kirkjuna. Þarna sátum við á opnum pallinum, ásamt foreldrum okkar, vafin í teppi til að reyna að hlífa fötunum og hárgreiðslunni.
Mamma átti eina kú, sem höfð var í fjósi hjá nágranna okkar og oftast kom það í minn hlut að mjólka hana. Svo voru okkur gefnir tvíkelfingar eitt vorið. Þeir áttu eiginlega að fara í pottinn, en við tókum svo miklu ástfóstri við þá að það kom ekki til greina að slátra þeim.
Veturinn 1952 var svo ákveðið að yfirgefa Siglufjörð. Síldin var að mestu horfin, börnin orðin sjö og það þurfti nokkuð til að hafa í og á hópinn.
Jörðin Laxnes í Mosfellssveit var laus til ábúðar, en hún hafði verið í eyði um nokkurra ára skeið og úr varð að hún yrði næsti verustaður okkar. Móðir mín flutti suður um vorið með fjögur yngstu börnin og kvígurnar tvær, en þær voru allur bústofninn til að byrja með. Pabbi og við eldri systkinin vorum bundin við okkar störf ef síldinni þóknaðist að sýna sig, annars var það frystihúsið og að vaska saltfisk og pakka, ríða net eða hvað sem var hægt að fá að gera.
Aðkoman að Laxnesi var vægast sagt hálf napurleg fyrir móður mína. Flestar rúður voru brotnar, húsið hafði staðið opið og hross haft vetursetu í eldhúsi og stofu. Það voru margir ættingjar og vinir sem réttu hjálparhönd og er mér sagt að um þrjú tonn af skít hafi verið stungin út.
Í ágúst, þegar ég kom suður, var allt komið í sæmilegt horf. Þarna blómstraði stórbúskapur eftir aðeins tvö ár. Þá voru komnar 30 kýr i fjósið, 250 hænur og nokkrar rolluskjátur. Það var nóg að bíta og brenna. Ég held að þessi ár hafi verið bestu ár foreldra minna, en stóðu samt alltof stutt, því mamma dó 1963 aðeins 53 ára. Þá hætti pabbi búskap og fór frá Laxnesi.
Hjalti kemur til sögunnar
Um þetta leyti var nýlega búið að reisa félagsheimilið Hlégarð og fljótlega eftir að við fluttum fór ég þangað á ball. Þar, á þessu fyrsta balli, kynntist ég manninum mínum, Hjalta Jakobssyni. Hann fæddist 15. mars 1929 á Blómvangi í Mosfellssveit, sem var fyrsta garðyrkjustöð landsins. Þaðan flutti hann að Tjaldanesi og var farinn að vinna í garðyrkjunni 12 ára gamall og vann síðan við hana allt sitt líf.
Hann fór í Garðyrkjuskólann í Ölfusi þegar hann var 15 ára og síðan til Danmerkur, þar sem hann vann við garðyrkju í eitt ár.
Við giftum okkur um jólin 1953 og mánuði seinna, þann 21. janúar 1954, fluttum við hingað í Tungurnar. Þá var Pétur, elsti sonur okkar rétt tveggja mánaða gamall, en hann fæddist 22. nóvember 1953.
Við höfðum ráðið okkur sem ráðsfólk að Stóra-Fljóti, sem var þá í eigu Ragnars Jónssonar sem átti Þórskaffi. Hjalti þekkti vel til í sveitinni þar sem hann hafði verið í Víðigerði, en ég hafði aðeins komið hér einu sinni um hásumar.
Flutningurinn er mér minnisstæður, Eiríkur í Fellskoti keyrði búslóðina, sem varla væri kölluð búslóð í dag, og við vorum á litla sendibílnum okkar. Í þá daga var þetta löng ferð og ýmislegt leitaði á huga minn á leiðinni. Ég ætlaði að fara að verða húsmóðir með mann, eða jafnvel menn, í vinnu og heimili og ég sem kunni fátt til þeirra verka. Jú, ég gat soðið kjöt og fisk, var nokkuð góð í að elda grjónagraut og kakósúpu og ekki má gleyma hafragrautnum.
Myrkrið á leiðinni var skelfilegt, síðustu ljós sem heitið gátu voru frá Selfossi. Skömmu seinna mátti sjá glampa frá Ljósafossi og enn lengra, eitt ljós langt frá vegi, það var á Miðengi. Ég furðaði mig á því hve fáir bæir væru á leiðinni, en áttaði mig fljótlega á því að hér um slóðir var ekkert rafmagn. Við keyrðum því bara lengra og lengra inní myrkrið.
Það voru mikil viðbrigði fyrir mig, sem ólst upp við bæði rafmagn og rennandi vatn, að koma í Gufuhlíð, þar sem hvorugt var að finna. Mér var fengið eitthvað sem mér fannst bara vera einhverskonar dós með gleri upp úr, en var 10 línu lampi sem ég hafði aldrei áður séð.
Litli kofinn í Gufuhlíð var enn minni á þeim tíma en hann er nú, þar sem risið var ekki komið á hann. Forstofan var pínulítill skúr og eldhúsið var svo lítið, að ekki var hægt að setjast þar. Það var smá skonsa til að sofa í og önnur til að sitja í. Húsgögnin voru fá, það var dívan til að sofa á, tveir armstólar, lítil bókahilla og skrifborðið hans Hjalta.
Við höfðum þrjá 10 línu lampa sem var vægast sagt lítil birta. Í eldhúsinu var kolaeldavél. Svoleiðis tæki hafði ég séð, en aldrei kveikt upp í, og þarna var stafli af dagblöðum, spítukubbar og kol í fötu. Það var ekki fyrr en daginn eftir að við komum sem ég réðst í það stórvirki að kveikja upp í fyrsta skipti og elda einhvern mat.
Mér leiddist líka alveg óskaplega í myrkrinu fyrst eftir að við komum, þar sem ég þekkti enga manneskju. Eina fólkið sem ég kannaðist aðeins við voru Lilja Júlíusdóttir í Víðigerði og maður hennar, Ólafur Sveinsson, en þau voru líka frá Siglufirði, höfðu flutt hingað 1946.
Fyrsti vinnumaðurinn okkar var óðalsbóndasonur úr sveitinni. Einhverju sinni þegar ég bauð upp á saltfisk til hádegisverðar, spurði hann hvort ég ætti ekki jarðarberjasultu. Ég varð hvumsa við en lét hann hafa sultu og hann fékk sér væna slummu á diskinn og tólg yfir og sagði um leið og hann bauð mér að smakka líka, „Þetta er rosalega gott“. Hjalti fékk sér og lét vel af, en ég ætlaði nú ekki að láta þá spila með mig, svo að ég beið þangað til þeir voru farnir með að smakka og ég verð að viðurkenna að þetta var lostæti. En það sagði ég engum lifandi manni fyrr en fyrir stuttu síðan.
Eftir fimm mánuði í kofanum í Gufuhlíð fluttum við í fjósið á Stóra-Fljóti, þar sem við sváfum í innsta básnum, ef svo má segja. Það komu aldrei kýr í þetta fjós, sem hafði verið byggt af Lofti Þorsteinssyni og hans hollensku konu. Það var stúkuð af íbúð í hluta fjóssins, alveg þokkaleg að sjá, en þar var hræðilega kalt og við urðum að klæða okkur í ullarsokka og peysur fyrir nóttina. Í hinum hluta fjóssins var sandgólf og þegar næddi vildi sandurinn berast inn í íbúðina til okkar. Seinna fékk slökkviliðið inni í þeim enda og þar var slökkvibíllinn geymdur.
Útsýnið úr eldhúsglugganum fannst mér stórkostlegt, ég sá inn á Langjökul og mig dreymdi skíðaferðir. Þarna var engin eldavél, hún var alltaf á leiðinni með næstu ferð en kom aldrei. Við fengum því að láni litla olíuvél og gamli prímusinn minn úr skátaferðunum kom sér vel. Bakaraofn fyrir olíuvélar var til hjá Stefáni Þorsteinssyni sem þá bjó á Stóra-Fljóti og flakkaði hann á milli húsa eftir þörfum. Þarna var heldur ekkert kalt vatn en nóg af sjálfrennandi heitu vatni úr hvernum.
Í Reykholti fæddust okkur tveir synir í viðbót, Erlingur f. 22. júlí 1955 og Hafsteinn f. 18. febrúar 1957.
Þegar ég átti von á Hafsteini þá var svo snjóþungt í Tungunum að það komst ekki mjólkurbíll hingað í heila 10 daga. Ég vildi vera komin suður tímanlega til að eiga barnið og Ólafur Ketilsson hafði lofað að láta mig vita þegar hann færi næst, en sveik mig. Úr varð að Sigurjón í Vegatungu keyrði mig í Hveragerði og þaðan tók ég rútu sem þurfti að fara Krísuvíkurleiðina til Reykjavíkur. Ferðin tók mig 14 tíma og allan tímann sat ég, kasólétt, með Erling á hnjánum, en mamma ætlaði að passa hann fyrir mig á meðan ég væri á fæðingadeildinni.
Kvenfélagið
Í maí 1954 gekk ég í Kvenfélagið til að kynnast konunum í sveitinni. Þá var til siðs þegar nýjar konur gengu í félagið að setja þær beint í skemmtinefnd og þar hafnaði ég eins og aðrar. Með mér í nefndinni voru þær Júlíana Jónsdóttir í Miklaholti og Lilja í Víðigerði.
Á þessum tíma var Aratunga enn ekki orðin að veruleika og skemmtanir voru haldnar í samkomuhúsinu á Vatnsleysu. Þar var lítið um salernisaðstöðu og ekkert vatn, þannig að þegar við vorum með jólaskemmtun fyrir börnin, gripum við með okkur koppa fyrir þau. Eftir skemmtanir skúruðum við svo húsið úr snjó eða tókum með okkur brúsa með heitu vatni úr hvernum í Reykholti.
Mér datt fljótlega í hug að það gæti verið gaman að hafa þorrablót í sveitinni, svona eins og tíðkuðust fyrir norðan og sem við Lilja könnuðumst báðar vel við. Það varð úr, að við í skemmtinefnd Kvenfélagsins stóðum fyrir fyrsta þorrablóti Tungnamanna árið 1955.
Við handskrifuðum boðsbréf til allra ábúenda í sveitinni og notuðum kalkipappír til að létta okkur verkið. Þá var vinnumaður á Stóra-Fljóti, Ívar Grétar Egilsson frá Króki, sem hjálpaði okkur með nöfn og heimilisföng fólks.
Við báðum Þórð Kárason á Litla-Fljóti að semja fyrir okkur gamanbrag um sveitungana. Hann kvaðst ekki vilja gera grín að sveitungunum, en samdi engu að síður fyrir okkur ágætan brag sem var sunginn á blótinu við gítarundirleik. Sá sem söng hét Guðjón Björnsson en hann vann í Víðigerði hjá Lilju. Þessi bragur var síðan oft sunginn á seinni blótum.
Þetta mæltist mjög vel fyrir og húsið troðfylltist og úr varð að Kvenfélagið stóð fyrir þessu áfram í tvö til þrjú skipti. Þá komu upp raddir um að það væri eiginlega ekki sæmandi að Kvenfélagið væri að græða á drykkjuskap sveitunganna, þó héldum við inngangseyri í lágmarki, mig minnir að það kostaði 15 krónur inn á fyrsta blótið. Formaður félagsins, sem þá var Anna Magnúsdóttir, kom því þá þannig fyrir að blótið fluttist yfir á sóknirnar, sem er auðvitað svolítið broslegt ef litið er til ástæðunnar fyrir því að Kvenfélagið mátti ekki halda þessu áfram.
Tveir góðir vinir mínir, þeir Jóhannes í Ásakoti og Egill á Króki, voru að byggja við Gufuhlíðina á þessum tíma og voru þess vegna í fæði hjá mér. Þeir voru báðir mjög hrifnir af þorrablótinu og þegar þeir voru að spjalla miðuðu þeir tímatalið gjarnan við blótið: „Já, það var þarna viku fyrir þorrablótið“ eða „það var þarna hálfum mánuði eftir þorrablótið“.
Blótið var með mínum fyrstu verkefnum í Kvenfélaginu, en síður en svo það síðasta. Á þessum árum var varla haldin sú samkoma í sveitinni að Kvenfélagið sæi ekki um veitingar á henni og var starfið að því leytinu umfangsmeira en það er nú. Aðstaðan var svo allt önnur þá. Hér var bara veitingastaðurinn á Geysi og þar var lokað á vetrum.
Flutt í Laugarás
Eftir ársdvöl í sveitinni langaði okkur Hjalta að verða sjálfra okkar herrar og sóttum því um lóð fyrir gróðurhús í Laugarási, en það var þá eini staðurinn sem hægt var að fá lóðir á. Það gat verið löng bið eftir svari við slíkri umsókn og við vorum orðin hálf vonlítil um að þetta gengi og búin að ákveða að flytja til Reykjavíkur þar sem Hjalti hafði sótt um starf hjá lögreglunni og fengið það. Hann var meira að segja búinn að fara suður og máta einkennisbúning þegar við fengum loksins bréf þar sem okkur var veitt Laugargerðislóðin.
Við fluttum í Laugarás árið 1957. Hjalti var þá búinn að steypa grunn að fyrsta gróðurhúsinu okkar, en við byrjuðum að rækta í húsi sem við leigðum af Ólafi Einarssyni. Fyrstu sjö árin bjuggum við í Lauftúni sem krakkarnir í hverfinu kölluðu „Silfurhúsið“ af því að það var álklætt og það glampaði svo fallega á það. Þar var allt nánast jafn frumstætt og hafði verið í Reykholti, munurinn var sá að nýbúið var að leggja rafmagn í Laugarás. Það var lagt fyrir köldu vatni í húsið en þar sem það var sjálfrennandi og engin dæla þá náði það bara að renna í klósettkassann en ekki í vaskinn, við höfðum ekki baðkar. Ég þurfti því að ná í vatn út í hver, sem var nánast við húsvegginn, ef mig vantaði vatn til annars en að sturta niður.
Húsið í Lauftúni hefur ekki verið nema um 40 fermetrar og þar var ekkert þvottahús. Þau voru almennt ekki við bústaðina á þessum tíma heldur voru þvottarnir þvegnir úti við hver eða hjá Guðnýju í Hveratúni sem bjó svo vel að vera með þvottahús. Þegar þurfti að þvo suðuþvott þá var óhreini þvotturinn settur í sápuvatn í bala, svo var öllu skellt í hverinn þar sem það var látið malla góða stund. Ef um eitthvað viðkvæmara var að ræða þurfti að láta vatnið standa og kólna. Rennandi kalt vatn úr Vörðufelli kom ekki í Laugarás fyrr en sláturhúsið var byggt.
Á þessum tíma var búið að byggja Lauftún, Sólveigarstaði og Hveratún hérna niðurfrá. Uppi á ásnum voru svo Lindarbrekka, Læknishúsið og Laugarásbýlið. Þessir bústaðir voru misvel búnir, t.d. var Hveratún miklu meira hús og betur einangrað en Lauftún, en læknishúsið og býlið voru enn betri hús.
Þegar Jakob fæddist, 2. febrúar 1960, bjuggum við enn í Lauftúni. Einmitt þá gekk yfir næstmesta flóð vegna klakastíflu, sem gengið hefur yfir við Hvítárbrú frá upphafi. Ingólfur á Iðu setti merki á brúarstólpann, sem sýndi hve langt flóðið náði upp. Hjalti hjálpaði Jóni Vídalín á Sólveigarstöðum að bjarga plöntunum hans frá skemmdum og komst því ekki strax að sjá son sinn.
Og svo liðu árin
Hvað mannlíf varðar fannst mér eins og ég væri að flytja í allt aðra sveit að koma hingað niðureftir. Hér vorum við öll eins og ein stór fjölskylda og samheldnin var mikil. Kannski var það vegna þess að við vorum öll svo nýflutt í sveitina. Hér voru allir jafnir, hvort sem það voru læknirinn, bóndinn, smiðurinn eða garðyrkjubændurnir. Ef eitthvert barnið átti afmæli þá mættu allir, börn jafnt sem fullorðnir, konur og karlar.
Þegar Guðbjörg fæddist 13. desember 1964 bjuggum við ennþá í Lauftúni, en vorum byrjuð að byggja þetta hús hérna í Laugargerði. Ingólfur á Iðu var aðalsmiðurinn við húsið. Hann var mikill listasmiður á allt sem hann kom nálægt. Við fluttum inn í húsið rétt fyrir jólin 1965 og hér bjuggum við þegar okkar yngsta barn, Marta, fæddist þann 8. ágúst 1968.
Árin liðu svo við vinnu, barnastúss og eril. Það var Kvenfélagið, en þar var ég m.a. formaður um tíma frá 1975 til 1979.
Svo var það ungmennafélagið, sem krakkarnir voru félagar í. Ég þurfti oft að keyra þau á æfingar og keppnir og aðstoða þau með bakstur fyrir félagið þegar á þurfti að halda og annars bara sinna öllu sem fylgir því að eiga börn.
Ég hélt líka áfram að vera virk í félagslífi sveitarinnar. Ég lék með leikdeild Ungmennafélagsins í fjórum leikritum, en þau voru: Bör Börsson, Skálholt, Gísl og Er á meðan er. Þá má ekki gleyma öllum smáleikþáttunum og gríninu sem maður hefur tekið þátt í á alls konar samkomum.
Það var óskráð regla hérna niður frá að það mátti ekki segja „nei“ við að taka þátt í því sem við vorum að gera þegar Skálholtssókn var með þorrablót.
Ég vann alltaf við garðyrkjuna en töluvert út frá heimilinu líka. Ég, Brynja Ragnarsdóttir á Birkiflöt, Halla Bjarnadóttir á Vatnsleysu og Fríða Gísladóttir í Hrosshaga tókum að okkur veitingarekstur í Aratungu á árunum 1973 til 1978. Þá var verið að koma með ferðamenn að skoða Gullfoss og Geysi og það vantaði fleiri veitingastaði í sveitina. Halla og Fríða voru í sal og við Brynja sáum um eldhúsið. Upp úr þessu urðum við miklar vinkonur og ég, Halla og Brynja aðstoðuðum hver aðra við allskonar veisluhöld í fjölskyldunum okkar s.s. fermingar og þess háttar.
Um það leyti sem við hættum rekstrinum í Aratungu var stofnað hlutafélag um saumastofuna Strokk sem starfrækt var hérna í Sláturhúsinu á tímabili. Þar var Brynja yfir og ég vann hjá henni ásamt fleirum. Við Brynja störfuðum saman í ein 30 ár þegar allt er talið og tókum saman að okkur veitingareksturinn í Skálholti þegar Strokkur og saumaskapurinn var liðin tíð.
Þáttaskil
Skömmu eftir að við tókum Skálholt að okkur veiktist Hjalti. Veikindin mörkuðu þáttaskil í í lífi okkar.
Það var árið 1991 og við Hjalti vorum að leggja af stað til Reykjavíkur að sækja farmiða til Írlands, sem við vorum búin að panta, en þangað ætluðum við í frí. Hjalti, sem var að raka sig áður en við færum, tók eftir því að hann var orðinn óeðlilega gulur í andliti. Okkur leist illa á þetta og ákváðum að kíkja við hjá lækninum áður en við legðum af stað og fá hans álit á þessu.
Það varð ekkert úr suðurferðinni þann daginn, Hjalti var sendur strax á sjúkrahúsið á Selfossi þaðan sem hann var sendur áfram suður á Landspítala. Þar var hann skorinn upp daginn sem við höfðum ætlað til Írlands. Það var ekkert hægt að gera, þetta reyndist vera krabbamein í brisi og skeifugörn og það var gallið sem litaði hann svona gulan.
Hjalti var heima eins lengi og nokkur möguleiki var á. Ég sinnti honum ein þangað til ég gat það ekki lengur með nokkru móti. Þá var hann lagður inn á Sjúkrahúsið á Selfossi og ég flutti eiginlega þangað með honum. Það var sett auka rúm inn á stofuna hjá honum og þar gátum við sofið áfram saman, hlið við hlið, þó svona væri komið og það var ómetanlegt. Þetta var fyrir tíma líknardeilda og ég sá mikið til um að sinna honum áfram, bara við mikið betri aðstæður en heima og allt starfsfólk var okkur yndislegt.
Hjalti dó 18. júní, 1992 og er jarðaður á Selfossi. Ég sem hafði lítið getað sinnt vinnunni í Skálholti á meðan á veikindum Hjalta stóð, hellti mér út í vinnu. Ég var komin út í Skálholt að vinna rúmri viku eftir að hann dó og þar var ég næstu 10 árin. Börnin voru öll farin að heiman og ég gerðist vinnualki til að þurfa ekki að vera ein hérna heima.
Reynir
Þegar ég átti frí flæktist ég mikið. Ég var mikið á Jaðri hjá Mörtu dóttur minni og stundum fór ég norður í Staðarskála og var þar hjá vinkonu minni.
Það var í einni slíkri ferð árið 2000 að ég kynntist Reyni. Ég kom við í sjoppu í Borgarnesi og rakst þar á kunningja minn sem var að fá sér að borða. Með honum var Reynir. Ég settist hjá þeim og við fórum að spjalla og eitt leiddi af öðru.
Hann heitir fullu nafni Reynir Ásberg Níelsson, fæddur 26. apríl 1931 (d. 1921) og er alinn upp á Hreðavatni í Norðurárdal hjá fósturforeldrum sínum. Hann er rafvirkjameistari og hefur unnið við það alla sína ævi. Í Borgarnesi rak hann verslun og verkstæði og þar átti hann einbýlishús. Þegar ég kynntist honum var hann skilinn við konuna sína og var að selja eignirnar. Hann var hættur að vinna, enda kominn um sjötugt þegar þetta var. Við héldum sambandi og heimsóttum hvort annað nokkrum sinnum sem endaði með að við ákváðum að fara að búa saman.
Þar sem hann var að selja allt sitt varð úr að hann flytti hingað til mín, sem var alls ekki sjálfsagt þar sem hann þekkti engan hér en alla í Borgarnesi. Ég hefði í sjálfu sér alveg getað hugsað mér að flytja í Borgarnes, bara ekki í þetta stóra hús sem hann átti, þannig að það lá beinna við að hann flytti hingað að því leyti.
Samtals eru afkomendur okkar orðnir 63 sem er dágóður hópur.
Ég á mín sex börn, þau eiga samtals 20 börn og langömmubörnin eru orðin 11 að tölu.
Reynir átti líka sex börn en varð fyrir þeim harmi að missa yngstu dóttur sína fyrir fimm árum 43 ára gamla. Barnabörnin hjá honum eru orðin 13 og barnabarnabörnin sjö.
Okkur líður ágætlega, erum nokkuð heppin með heilsufarið og við reiknum með að búa hérna í Laugargerði eins lengi og heilsa og kraftar leyfa, sem verður vonandi sem lengst.
Ég þakka Fríði fyrir skemmtilegt viðtal.
Svava Theodórsdóttir.
Uppfært 09.2024