Guðmundur Indriðason (1915-2016) og
Jónína Sigríður Jónsdóttir
(1927-2016) á Lindarbrekku

——————————————

Þetta viðtal við Guðmund og Jónu á Lindarbrekku birtist í Litla Bergþór í desember 2010. Það var Geirþrúður Sighvatsdóttir sem tók viðtalið og skráði. 

„Sjáðu útsýnið"

Viðtal við Guðmund og Jónínu í Lindarbrekku

Það var í froststillu og fögru veðri um miðjan október, sem blaðamaður Litla-Bergþórs bankaði upp á hjá þeim heiðurshjónum, Guðmundi og Jónu í Lindarbrekku í Laugarási til að heyra um líf þeirra og störf í Biskupstungum. Nokkrum dögum áður hafði ég komið við hjá þeim af öðru tilefni. Þá kallaði Guðmundur á mig inn í stofu, þar sem hann stóð við gluggann og horfði út yfir Hvítá og Vörðufellið.

Jóna og Guðmundur á yngri árum (Mynd úr Litla Bergþór)

„Sjáðu útsýnið. Það er þessu útsýni að þakka að mér tókst að halda konunni hérna! Hún er alin upp við sjó og þarf að sjá út á vatn til þess að þrífast".
Svo leit hann kankvís á konu sína, sem tók undir orð hans.
Þegar ég ók íburtu stóð hann enn við gluggann og horfði á útsýnið, gamall maður en ungur í anda. Eftirminnileg mynd.

Guðmundur er elstur Tungnamanna, 95 ára frá því í vor og ótrúlega ern og sprækur eftir aldri, enda hefur hann unglinginn Jónínu sér við hlið. Hún er 12 árum yngri en hann og ekki síður ern og hress.

Ætt og uppruni

Guðmundur á Lindarbrekku fagna aldarafmæli 2015 (mynd PMS)

Fyrst er að forvitnast um ætt og uppruna Guðmundar og gefum við honum orðið: 
„Ég er ættaður úr Tungunum og úr Hrunamannahreppi. Móðir mín hét Gróa Magnúsdóttir og var frá Bryðjuholti í Hrunamannahreppi, dóttir Magnúsar Jónssonar frá Efra-Langholti og Guðnýjar Einarsdóttur frá Bryðjuholti, en hún var ættuð frá Sóleyjarbakka. Faðir minn var Indriði Grímsson frá Ásakoti í Biskupstungum, en Grímur Guðmundsson afi minn var bóndi á Kjaranstöðum, ættaður úr Laugardal og Grímsnesi. Amma mín, móðir föður míns, hét Helga og var Guðmundsdóttir frá Brekku í Biskupstungum, Magnússonar frá Austurhlíð. Það er ekki mikið af nánum ættingjum mínum eftir hér í sveitinni, en við Sigurður Erlendsson á Vatnsleysu erum þó nokkuð skyldir. Björn á Brekku, afi hans, var bróðir ömmu minnar.

Grímur afi minn varð kalkaður í mjöðm í ellinni, hafði ofreynt sig. Þeir fóru eitt sinn þrír karlar í eftirleit, Gísli Guðmundsson í Kjarnholtum og Þorsteinn á Drumboddsstöðum ásamt honum. Þegar þeir koma innan að, að Sandá, var hún í vexti og þeir komust ekki yfir. Grímur afi sagði þá: „Látið ekki svona, ég ber ykkur yfir" og það gerði hann, enda var hann heljarmenni. En karlinn varð auðvitað blautur og þannig gengu þeir, hann blautur, þeir þurrir, og stoppuðu ekki fyrr en á efsta bæ, Kjóastöðum eða Brattholti. En þegar hann settist niður eftir gönguna stirðnaði hann upp. Og seinni árin gekk hann við hækjur. Hann átti margt af krökkum, bjó í Ásakoti. En hann gat ekki séð fyrir börnunum vegna lasleika og þau voru boðin upp.

Guðmundur í réttum á áttunda áratugnum. (mynd úr Litla Bergþór)

Guðmundur í réttum á áttunda áratugnum. (mynd úr Litla Bergþór)

Elsti sonurinn, Kristinn, varð sjómaður 15-17 ára. Hann giftist seinna konu frá Snorrastöðum, en þar gistu menn sem voru á leið í verið oft, áður en lagt var á heiðina.
Indriði fór í Austurhlíð að sitja yfir ánum, Sigríður lenti í Miklaholti fyrst, svo í Höfða.

Þegar Kristinn varð seinna kaupamaður í Bryðjuholti, tók hann Sigríði systur sína undir sinn verndarvæng í Bryðjuholt. Hún fór svo í vist hjá sveitarstjóranum á Álftanesi, giftist vinnumanni frá Ísafirði, bjó í Hafnarfirði og átti 10 börn. Tveir synir hétu Guðmundur, annar fór í Galtalæk og dó ungur, hinn flutti austur í Sandvík í Norðfirði þar sem hann varð sjómaður, giftist fallegri konu og átti 10 börn.

Sumarliði var skáld, ólst upp á Reykjavöllum og varð seinna vinnumaður á Torfastöðum hjá sr. Eiríki og Sigurlaugu. Hún hélt mikið upp á hann og safnaði ljóðunum hans. Því miður brann það allt á Torfastöðum á árunum milli 1945 og '50. Það voru haldnar ungmennasamkomur í Miklaholti þar sem Sumarliði var ritari og fundargerðirnar voru í ljóðum. Sumarliði varð bóndi í Torfastaðakoti (nú Vegatungu) 1915-1918, en flutti suður og byggði bæinn Litla-Hvamm. Kona hans, Guðný Kristjánsdóttir var úr Landssveit, systir Jónínu á Hvítárbakka, en þær voru rjómabússtýrur í Torfastaðakoti.

Indriði, pabbi minn, fór í Bryðjuholt seinna, eins og Kristinn og Sigríður og þar kynntist hann Gróu konu sinni, mömmu minni. Þau bjuggu í Snússu, örreytiskoti, sem var hluti af vesturbænum í Efra Langholti, á móti Langholtskoti. Faðir minn dó 55 ára úr berklum, þegar ég var 13 ára. Sr. Kjartan fann út að þeir sem dóu voru þeir, sem voru kirkjuræknastir og fóru til altaris, þeir smituðust af bikarnum. Hallgrímur, Helgi og Kristinn bræður mínir fengu líka berkla.

Golfskálinn Snússa, í landi Ásatúns. (Mynd Sunnlenska)

Einar Jónsson myndhöggvari, sem var náskyldur mömmu, skar út bakka og raðaði þar á mörgum bikurum, til að hver hefði sitt staup og smitaðist ekki. Held að sá bakki sé enn til í Hrunakirkju.

Systur minni, Sigríði, leiddist nafnið Snússa á jörðinni. Hún þurfti að fylgja þeim suður sem veiktust og læknarnir gátu ekki skrifað nafnið á bænum rétt. Hún gekk í það eftir að faðir minn dó, að breyta nafninu í Ásatún. Ríkharður Jónsson myndhöggvari hjálpaði henni að fá þetta í gegn. Eftir það gekk bylgja af nafnabreytingum yfir nágrennið. Til dæmis breyttist Bolafótur í Bjarg og Reykjadalskot í Túnsberg. Ég hef þá kenningu að Snússa sé komið af nafninu Snasa, klettasnasa fyrir ofan bæinn.

Ásatún. Jörðin var áður hjáleiga frá Efra-Langholti og hét Snússa. En árið 1936 létu ábúendur breytanafninu og kölluðu hana Ásatún. Landið var lítið en grasgefið og þurrlendi að mestu. Sumarhagar eru allgóðir, en vetrarbeit rýr. Engjar voru litlar. Vesturpartur Efra-Langholts littur undir Ásatúni. Veiðiréttur er í Litlu-Laxá. Landið er afgirt. Bærinn stendur norðan undir Langholtsfjalli austanverðu.

Sunnlenskar byggðir 1, bls. 298. Búnaðarsamband Suðurlands 1980. "(Mynd af vef Ísmús)

Grímur afi var um tíma í Torfastaðakoti þar sem hann var undir umsjón Eiríks prests. Hann hafði það verk að gefa reiðhesti sr. Eiríks. Einhverntíma líkaði honum ekki við klárinn og henti stafnum sínum á eftir honum og braut hann. Þetta var merkilegur útskorinn stafur, sem fjallmenn höfðu gefið honum. „Nú fór ver", sagði prestur. „Gerir ekkert fyrst ég hitti helvítið!" sagði karl þá.

Það voru til fleiri skemmtilegar sögur af honum. Grímur afi og Helga, amma mín, fóru til foreldra minna í Ásatún úr Torfastaðakoti og dóu þar. Þeir lengdu baðstofuna, eða „Karminn" eins og viðbyggingin var kölluð og þar bjuggu þau. Það var nú ekki haft mikið við, það var alltaf moldargólf inni hjá þeim.

Þarna í Snússu ólst ég upp. Ég man eftir mér með kíghósta, var víst eitthvað heitt og fór út og sofnaði á bæjarveggnum. Vaknaði svo við það að mér fannst mamma vera að vekja mig, en þegar ég opnaði augun sá ég að það var álfkona. Ég sá hana svo hverfa inn í brekkuna og var viss um að það var álfkona. En eftir það batnaði mér.

Fjórtán ára var ég sendur til bróður mömmu í Bryðjuholti. Þar var kennari, sem átti að kenna mér að lesa, en ég var lesblindur og það var ekki mikill skilningur á því þá. En ég hafði heyrnarminni. Sigga systir reyndi líka mikið að kenna mér.

Við vorum 11 systkinin sem fæddumst, en elsta barnið dó, svo við vorum 10 sem komumst upp.

Elstur af þeim sem lifðu var Magnús, fæddur 1903, en hann ólst upp í Bryðjuholti og flutti seinna til Keflavíkur. Næst, númer þrjú, var Sigríður f. 1905, hún hefur búið í Reykjavík. Svo komu Hallgrímur (1907) og Óskar (1910). Þeir tóku við búinu í Ásatúni eftir að mamma dó 1939 og giftust aldrei. Sjötta var Guðný (1912), hún var sótt tveggja ára af ömmu sinni og nöfnu í Bryðjuholti og ólst þar upp, hún bjó seinna í Reykjavik. Svo kom Helgi (1914) sjöundi. Helgi fór á Hólaskóla og varð seinna bóndi í Laugarási. Hann vildi láta bændur stækka túnin. Jarðarbætur voru áður aðallega unnar með spaða en Jón í Laugum sléttaði með traktor fyrir Búnaðarfélagið. Kristján, skólastjóri Hólaskóla, tók út jarðarbæturnar og bauð Helga vist í Hólaskóla tvo vetur. Hann vann sem fjósamaður á sumrin og í kaupavinnu í Eyjafirði. Ég fæddist númer átta í röðinni árið 1915, síðan Laufey (1917), en hún var bústýra hjá þeim Hallgrími og Óskari í Ásatúni alla æfi og giftist ekki. Tíundi var Jakob (1918), hann var við Laugarvatnsskóla, giftist dóttur kaupmanns í Keflavík og rak lengi Brekkubúð þar í bæ. Yngstur var Kristinn, (1920) en hann dó ungur úr berklum, aðeins 17 ára.

Bryðjuholt. Meðaljörð að landrými. Landið er grösugt og gott til beitar, bæði sumar og vetur. Að meirihluta er landið mýrlendi, en þurrlendi er þó mikið og gott ræktunarland, en er nokkuð langt frá bæ. Í landinu austanverðu eru lágir ásar og lægðadrög með valllendisgróðri. Engjar eru allagóðar. Veiðiréttur er í Hvítá. Áin veldur lítilsháttar landbroti. Landið er afgirt. Bærinn stendur í brekku framan í lágum ás. „Veðrasamt er hér og verður oft að skaða,“ segir í Jarðabók Á.M. Heimild.

Sunnlenskar byggðir I, bls. 310. Búnaðarsamband Suðurlands 1980. (Mynd af vef Ísmús)

Vinnumennska

Frá 14-17 ára aldurs var ég vinnumaður í Bryðjuholti og vann síðan á búinu heima eða var sendur í kaupavinnu á bæina. Var einn vetur í Dalbæ, annan í Hvammi, sumar í Hruna, fór þaðan til Guðmundar í Núpstúni og var á Hæli eitt sumar.

En eftir að mamma dó og Hallgrímur og Óskar tóku við búinu, fór ég á flakk. Við Helgi fórum í Bretavinnu 1939, í stríðinu, en ég entist nú ekki lengi í því, var í einn vetur.

Við Helgi höfðum talað um það að okkur langaði að ríða Sprengisand. Um vorið réðum við okkur í kaupavinnu í Sólheimatungu í Borgarfirði og ákváðum að fara ríðandi þangað frá Ásatúni - um Sprengisand! Það var mikil ævintýraferð, sem ég hef sagt frá áður í Eiðfaxa (nr. 2, 1991).

Eftir átta vikna heyskap í Sólheimatungu fórum við aftur suður til Reykjavíkur, Helgi í uppskipunarvinnu og ég vann í Helluofnum.

Bjarni Bjarnason (1889-1970)

Seinna um haustið 1940 lenti ég svo á Laugarvatni sem vinnumaður. Emil í Gröf var þá ráðsmaður þar og hann fékk mig til að reisa þak á hesthús fyrir Bjarna á Laugarvatni. Helgi bróðir hafði bent honum á mig, en hann tók svo við sem ráðsmaður af Emil. Þá var rekin rafstöð á Laugarvatni og ég var fenginn til að vakta hana. Fór kvölds og morgna, kl. 23:30 að kvöldi til að lækka spennuna og svo hækka hana kl. 7:30 á morgnana, áður en kerlingarnar fóru að elda grautinn. Bjarni var þá á þingi og við sáum um reksturinn á búinu.

Eitt sinn keypti Bjarni traktor af Ólafi Ketilssyni. Það var garmur og alltaf að bila. Það þurfti að fá mann að sunnan á vegum Ólafs til að gera við hann í hvert sinn sem hann bilaði. Svo var það að Bjarni kallaði á mig inn á skrifstofu. Ég átti að fara suður til að taka á móti ýtu. Hann var búinn að semja við Árna Eyland hjá Sambandinu. Svo fór ég suður, en Bjarni gleymdi að láta mig hafa farareyri. Það þurfti að kaupa olíu á ýtuna og fá vörubíl til að flytja hana. Vörubíll fannst, en fyrst var að ná ýtunni út. Hún var í kassa, sem stóð á Sambandslóðinni, ég fékk kúbein og var sagt að rífa kassann utan af. Svo þurfti að keyra ýtuna yfir á skólalóð Vesturbæjarskólans, þar sem var brekka, til að keyra hana upp á bílinn. Bensínið fékk ég skrifað, því það var bensínstöð á Laugarvatni. Sonur Árna sagði mér til hvernig átti að setja hana í gang og keyrði hana svo sjálfur vestur á Skúlagötu.

Þegar við komum á Laugarvatn var Bjarni ekki úti að taka á móti ýtunni, hefur kannski verið á þingi. En Olli (Þorkell) og hinir skólakrakkarnir skoppuðu í kring og þótti ég merkilegur maður! Rafgeymirinn var óhlaðinn, svo það þurfti að snúa í gang. En það tókst að koma ýtunni í gang og keyra hana niður af pallinum. Ég hafði unnið áður á traktor hjá Búnaðarfélagi Hrunamanna, svo ég þekkti aðeins inn á vélar.

Skólahús Menntaskólans að Laugarvatni 1954 (mynd Sigurður B. Jóhannesson, af síðu NEMEL)

Fyrsta verk mitt á ýtunni á Laugarvatni var að grafa fyrir nýju skólahúsi menntaskólans. Það var mikill gröftur. Kjallarinn, sem nú er mötuneyti skólans, var lengi notaður sem bílageymsla Þorkels.

Og af því að ég var áðan að minnast á brunann á Torfastöðum, þá var ég sendur frá Laugarvatni til að grafa þar fyrir nýju íbúðarhúsi, hlöðu og fjósi eftir brunann. Það hafði kviknað í fjósinu, sennilega af því að askan var sett undir kýrnar. Seinna fengu þeir Guðjón í Skálholti og Þorsteinn á Vatnsleysu mig til að grafa fyrir nýjum sökkli undir kirkjuna á Torfastöðum, þegar steyptur var grunnur undir hana.

Bergsteinn Kristjónsson (1907-1996) (mynd af síðu NEMEL)

Bergsteinn Kristjónsson (1907-1996) (mynd af síðu NEMEL)

Ég var á Laugarvatni 1940-1951. Vann mest fyrir búið á ýtunni. Bara verst hvað illa gekk að fá borgað. Þegar ég hætti átti ég mikið inni hjá Bjarna, en Bergsteinn sá við honum, hann vissi af peningi og gerði upp við mig áður en aurinn var notaður í annað!

Við Jóna kynntumst á Laugarvatni, en hún var þá í eldhúsinu við skólann í einn vetur. Síðan fór hún til Helga í kaupavinnu hér í Laugarási og svo aftur í Húsmæðraskólann á Laugarvatni annan vetur. Þann vetur trúlofuðum við okkur. Á Laugarvatni höfðum við bara herbergið sem ég bjó í og annað til í Björkinni og þar fæddist fyrsta barnið, Indriði, sumarið 1951.

Flutt í Laugarás

Lindarbrekka. Upprunalega húsið er nokkurnveginn sá hluti sem er yfir rauðu línunni. (mynd úr Litla Bergþór)

Um haustið 1951 flutti ég með konu og barn í Laugarás, í 29 fermetra kofa hangandi hérna í brekkubrúninni. Ég málaði kofann og veggfóðraði og hann varð bara notalegur. Ég skírði hann Lindarbrekku af því að það eru tvær lindir hér í brekkunni. Það var Hulda, kona Knúts læknis, sem vildi endilega að ég keypti lóðina af Sigurði í Tóbakinu (Jónssyni) en hann hafði keypt af Jóhanni Sæmundssyni prófessor, sem reisti kofann á stríðsárunum úr rússneskum bílakössum og vín- og tóbakskössum. Ég fékk lóðina á sama verði og hann hafði keypt, 36 þúsund, minnir mig.

Lóðin var hálfur hektari og allt upp á rönd! Þarna í gamla húsinu bjuggum við þangað til við fluttum í nýja húsið 1981.

Helgi Indriðason (1914-1995)

Helgi Indriðason (1914-1995)

Helgi kom hingað í Laugarás 1946, var fyrst í kjallaranum á læknishúsinu, en svo þurfti læknirinn á húsnæðinu að halda. Helgi byggði þá nýtt hús sumarið 1949, þegar Jóna var í kaupavinnu hjá honum, og flutti inn fyrir jól.

Oddvitarnir hér í uppsveitunum keyptu Laugarásjörðina 1923 undir lækninn, en Skúli læknir var þá í Skálholti. Þeir sáu jörðina auglýsta og fengu hana ódýrt. Helgi Ágústsson, oddviti Hrunamanna fór ríðandi á Eyrarbakka með sölusamninginn og lét þinglýsa honum. Eigandinn vildi seinna rifta samningnum, en það var ekki hægt af því að búið var að þinglýsa honum. En þá vantaði hús undir læknínn. Á Geysi var hús frá konungskomunni, það var rifið og flutt á klökkum í Laugarás. Guðmundur á Kjaranstöðum flutti húsið og Jóhann, faðir Ingólfs á Iðu sá um bygginguna.

Fólk tók okkur vel hér í Laugarási. Ég vann hin og þessi störf, við að stinga upp hús hjá Jóni Vídalín og við gróðurhúsabyggingu hjá Skúla í Hveratúni. Fyrsta sumarið í Laugarási var ég gæslumaður í Krossinum (Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási), sá um ljósavélarnar. Ég lenti líka fljótlega í því að vinna á ýtu sem þeir áttu Loftur á Felli og Bjössi í Skálholti.

Skálholt

Biskupshús (frá 2018, gestahús) í byggingu 1956

Svo fékk ég vinnu í Skálholti. Við Ingólfur á Iðu tókum að okkur að byggja skála fyrir væntanlegan vinnuflokk við uppgröft og kirkjubyggingu, en Brynjólfur Melsted, verkstjóri hjá Vegagerðinni, tók að sér verkstjórn við skálann og keyrði allt efni í hann. Við þekktumst síðan ég var 17 ára í vegavinnu frá Sandlækjarholtinu að Stóru Laxá. Ingólfur fékk svo vinnu á vörubíl og hætti, svo þá var ég einn eftir það.

Skálinn var notaður á fyrstu Skálholtshátíðinni 1956. Þarna bjuggu fornleifafræðingar, innlendir og útlendir. Ása frá Holti í Stokkseyri var ráðskona, en eldhús og ráðskonuherbergi var líka í skálanum, sem var 5-6 metra breiður og um 30 metra langur. Þegar farið var að byggja og allt komið á fullt, átti að staðsetja Biskupshúsið. Og þá var eini staðurinn, þar sem það skyggði ekki á aðrar byggingar, þar sem skálinn stóð. Þá átti að flytja skálann, en hann slitnaði í sundur! Stubbur úr honum var þó notaður sem skýli við kirkjubygginguna.

Verkstjóri við húsið hans Bjössa (Skálholtsbýlið) var Jón Sæmundsson og sótti ég um vinnu hjá honum. Hann vildi ekki ráða mig, en Leó, málarinn sem málaði húsið hans Bjössa að innan, vildi fá mig til að mála. Hann þekkti mig frá Laugarvatni, en hann var bakari þar. Kona hans, Steinunn, var ráðskona hjá Grími á Syðri-Reykjum.

Svo fór ég að vinna við aðrar byggingar, það þurfti að byggja verkfærahús hjá Bjössa. Kristinn Sæmundsson frá Ósabakka tók að sér skemmuna og ég vann með honum. Þeir bræður, Jón og Kristinn, drukknuðu um veturinn í Hvítá, fóru niður um vök. Þá kom Tómas í Auðsholti og við kláruðum skemmuna.

Skálholtskirkja í byggingu 1957

Svo fór ég að vinna við kirkjubygginguna. Það var flokkur frá Almenna byggingafélaginu sem tók verkið að sér, smiðir frá Selfossi, Eyrabakka og Reykjavík. Ég gekk inn í það. Við vorum sex smiðir frá þessu félagi, sem unnum við uppslátt og við að steypa upp á fyrstu hæð. Friðgeir Kristjánsson, smiður frá Hvoli í Ölfusi, ég og fleiri heimamenn, steyptum upp turninn næst, svo var þakið sett á kirkjuna næsta sumar. Við Friðgeir áttum eftir að vinna oft saman síðar við að byggja fjós og fleira vítt og breytt um sveitir, m.a. byggðum við yfir Sigurð á Villingavatni. Það var Hörður Bjarnason, sonur Bíó-Bjarna frá Galtafelli, sem var arkitekt að kirkjunni, en Guðjón Arngrímsson var ráðsmaður og hafði eftirlit með byggingarframkvæmdunum. Herði fannst Guðjón vilja ráða of miklu og rak hann, en Guðjón lét Sigurbjörn biskup ráða sig aftur til að vakta staðinn allan byggingartímann! Þegar verið var að steypa kirkjutuminn var Hörður arkitekt í Bretlandi og erfitt að ná í hann til að ákveða hæðina á turninum. Þurfti að bíða þangað til hann kom heim, til að ákveða endanlega hæð.

Ég varð handlangari þegar farið var að múra kirkjuna. Hrærði múr í tvo múrara og halaði múrfötumar upp á einfaldri trissu. Náði að hafa við þeim!

Þegar kom að því að innrétta kirkjuna, vildu þeir Guðjón, Tryggvi yfirsmiður, vinur hans úr Hafnarfirði og Magnús Már, formaður byggingarnefndar í Skálholti, hafa mig með. Þess vegna vann ég áfram við innréttingu á kirkjunni. Við hellulögnina inni í kirkjunni varð ég aðstoðarmaður Þóris Bergsteinssonar, hellulagnarmeistara og þótti nokkuð góður í að skera hellurnar til. Þeir voru ánægðir með mig karlarnir og vildu hafa mig í vinnu, og það var gott.

Vinnan við kirkjuna var samt oft stopul, það voru engir peningar og aðallega unnið á sumrin.

Guðmundur Sveinsson (1923-2011)

Guðmundur Sveinsson (1923-2011)

Yfirsmiður við byggingu prestssetursins í Skálholti hét Stefán og hafði verið yfirsmiður við byggingu Aratungu og félagsheimilisins í Árnesi m.a. Hann féll frá meðan verið var að byggja prestssetrið og Guðmundur Sveinsson frá Ósabakka tók þá að sér að klára verkið. Og þegar kirkjan var búin, var byrjað á skólabyggingunni.

Við Ingólfur á Iðu byggðum líka upp Sumarbúðirnar í Skálholti. Skálinn var fluttur innan úr Búrfelli, einhverjir Selfyssingar gáfu húsið til þess að börnin hefðu góða aðstöðu. En mötuneytið var fyrst í kjallaranum á Biskupshúsinu. Ég held ég geti sagt að það séu bara tvö hús í Skálholti, sem ég hef ekki unnið við, Organistahúsið og Rektorshúsið. Reyndar ekki Oddsstofu heldur. En af því að ég þekkti innviðina í öllum húsum var ég oft síðan kallaður í Skálholt ef eitthvað var að. Sr. Guðmundur Óli kallaði reyndar alltaf á Ingólf á Iðu til að gera við, en Ingólfur tók svo mig með." segir Guðmundur og kímir.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður, afhendir Guðmundir heiðurspeninginn. (mynd út Litla Bergþór)

Fyrir vígslu Skálholtskirkju voru útbúnar orður, sem sæma átti þá menn, innlenda og erlenda, sem ötullegast höfðu unnið að endurreisn og uppbyggingu Skálholtsstaðar. Peningurinn nefnist: „Heiðurspeningur til minningar um vígslu Skálholtskirkju og afhendingu Skálholtsstaðar til Þjóðkirkjunnar 1963". Einhverra hluta vegna gleymdist að afhenda orðurnar heimamönnum og er Guðmundur Indriðason einn eftirlifandi þeirra heimamanna, er áttu að fá orðu en fengu ekki á sínum tíma. Á því var ráðin bragarbót á 95. afmælisdegi hans þ. 15. maí 2010.

„Já, orðan. Það var sr. Sigurbjörn Einarsson sem gekkst fyrir því að láta útbúa merkið, en það var steypt í Danmörku og gyllt í Reykjavík. Ég get sýnt þér orðuna og forsetabréf sem fylgdi henni, en þar segir nákvæmlega til um hvernig hún skal líta út, og hvernig á að bera hana. Ólafur Helgi (sýslumaður) hringdi í mig nokkru fyrir afmælið og spurði hvort hann mætti koma við á afmælisdaginn. Ég áttaði mig ekki á hvað hann vildi, en sagði að auðvitað væri það sjálfsagt. En þetta var þá erindið að sæma mig orðunni. Ég kveið því hálfpartinn að þetta yrði óskaplega vandræðalegt og leiðinlegt. En Ólafur Helgi gerði þetta vel, hann mætti í fullum skrúða og athöfnin var bara hátíðleg.

Sjálfseignarbóndi

Eftir kirkjuvígsluna 1963 hætti ég í Skálholti og gerðist sjálfseignarbóndi. Ég vann samt eitthvað áfram við smíðar, byggði m.a. þrjú hús í Laugarási, hjá Herði V. Sigurðssyni í Lyngási, Jóhanni Ragnarssyni (innskot pms: kvæntur Sigríði Ólafsdóttur Einarssonar, læknis í Laugarási) og kláraði hús hjá Sævari í Heiðmörk. Og svo auðvitað mitt eigið hús.

Lindarbrekka 2014. Fjærst er góðurhúsið, vinstra megin íbúðarhúsið og hægra megin skemman og Krosshóll (fjær). (Mynd PMS)

Fyrsta gróðurhúsið sem ég eignaðist var gróðurhús, sem stóð hér fyrir neðan Lindarbrekkulóðina á Sigurðarstöðum, eða Krosshól eins og Sigurður Sigurðarson berklalæknir og síðar landlæknir vildi kalla húsið. Krosshóllinn er á lóðamörkum milli Lindarbrekku og Sigurðarstaða og þar stóð áður fyrr kross, sem átti að stefna á þegar farið var yfir ána frá Iðu. Sigurður bað mig um að rífa gróðurhúsið, því það var orðið gamalt. Ég var auðvitað ekki seinn á mér, og flutti það inn á mína lóð og byrjaði sjálfur með ræktun. Ræktuðum gúrkur og gulrætur. Svo byggði ég nýtt gróðurhús 1976.

Þegar ég lít til baka, held ég að bestu árin mín hér í Laugarási hafi verið þegar ég var með gróðurhúsið. Það var góð afurð af því og við vorum skuldlaus þegar við hættum. Búin að byggja íbúðarhús, skemmuna og gróðurhús, en gamla íbúðarhúsið var dæmt óíbúðarhæft. Hörður og Hjalti hjálpuðu mér og sögðu mér til með ræktunina og líka Skúli í Hveratúni. Magnús sonur hans bjó um tíma í gamla Lindarbrekkuhúsinu og kíkti þá stundum við hjá mér. Hann hafði orð á því hvað honum fannst gúrkurnar spretta snemma hér uppi á brekkubrúninni. Ég sagði honum að það væri ekkert skrítið, ég væri búin að nota sólina þegar hún kæmi niður til hans í Hveratún! He-he! En þó ég segi sjálfur frá, þá held ég að gúrkurnar okkar hafi verið sérlega bragðgóðar. Enda alltaf ræktaðar í mold.

Þórður í Akri hefur verið með húsið á leigu síðan ég hætti, ætli það hafi ekki verið um 1994, en ég þurfti að hætta þegar hjartað þoldi ekki lengur álagið útaf hitanum. Aðal áhugamál mitt í gegnum tíðina hefur verið hestamennska, en frá henni hef ég sagt í nokkrum viðtölum, sem Þorkell Bjarnason tók við mig í Eiðfaxa árið 1999 (tbl: 4, 5, 8 og 10).

Ég tók reyndar sveinspróf í trésmíði frá Selfossi 1972, með fyrstu einkunn. Ég var orðinn leiður á því að menn voru að agnúast út í að ég hefði sömu laun sem smiður og þeir sem höfðu lært. Ég skal sýna þér sveinsstykkið mitt" segir Guðmundur og sýnir mér veggskáp íþvottahúsinu. Forláta skáp með rennihurðum. Í stofunni er líka fallegt sófaborð sem Guðmundur smíðaði meðan hann var á Laugarvatni, fékk að skreppa í smíðastofu skólans í frístundum.

„Annars var ég alltaf miklu flinkari járnsmiður en trésmiður. Hér áður fyrr smíðuðu bændur, allir sem gátu, járn undir hestana sína heima. Ég var alinn upp við það. Ég var með eldsmiðju og smíðaði skeifur, hófjárn og beislisstengur. En ég smíðaði bara fyrir sjálfan mig og fyrir kunningskap. Kristinn á Brautarhóli seldi skeifur fyrir mig og vildi fá meira, en þá vantaði efni. Eins var með hófjárnin, þegar ég fékk stóra pöntun, þá hætti ég. Kofinn fauk svo í ofsaveðri og þá hætti ég þessu alveg!

Mér hefur liðið vel hér í Laugarási, þó við flyttum hingað í lítinn kofa. Ég ákvað það þegar ég var á Laugarvatni, að ég vildi byggja þar sem væri hverahiti og rafmagn. Rafmagnið fengum við fyrst frá vindmyllu sem fauk, en 1956 var lagt rafmagn og sími yfir Hvítá. Staurar og lína fóru fljótlega í flóði og þá var lagður jarðkapall yfir ána fyrir bæði rafmagn og síma. Það má til gamans segja frá því að ég var búinn að sækja um lóð í Ásatúni til búskapar áður en við fluttum hingað, en nú er það land sem ég hefði fengið þar komið undir 100 sumarbústaði."

Að lifa vel og deyja vel - minningargrein um Guðmund, eftir Pál M. Skúlason

Jónína  

Jóna á Lindarbrekku 2015 (Mynd pms)

Eins og fram kom í spjallinu við Guðmund, var hann orðinn 36 ára þegar hann flutti með unga konu og barn í Laugarás árið 1951. Jónína Sigríður Jónsdóttir, eða Jóna í Lindarbrekku (Jóna á Lind), eins og hún er jafnan kölluð, hefur staðið við hlið Guðmundar í 60 ár og blaðamaður er ekki í vafa um að Guðmundur hefur verið heppinn að fá hana sem lífsförunaut. Annað getur ekki verið, eins unglegur og lífsglaður og hann er. En hvaðan er hún œttuð og hvernig lá leið hennar hingað á Suðurland:

„Ég er fædd 6. febrúar 1927 á Neskaupstað og uppalin þar. Foreldrar mínir voru Jón Pétursson, ættaður af Héraði og Katrín Guðnadóttir frá Vöðlum í Vöðlavík. Faðir minn átti 15 alsystkini, af þeim komust 12 upp og móðir mín átti 22 systkini og hálfsystkini, en 11 af þeim komust upp. Þannig að það er margt af frændfólki fyrir austan. Við vorum sex systkinin og komumst fimm upp. Ég er elst, Guðni Þorvaldur býr í Reykjavík. Kona hans heitir  Eva Sturludóttir og þau eiga eina dóttur og fyrir átti hann eina dóttur. Una Stefanía býr á Neskaupstað, gift Ara Sigurjónssyni og þau eiga sex börn. Þórunn býr í Hafnarfirði og á fjórar dætur með Magnúsi Skarphéðinssyni. Seinni maður hennar heitir Sigurjón Jónsson. Yngst var Anna Margrét sem bjó á Neskaupstað, en hún er látin. Hennar maður hét Högni Jónasson, en hann fórst í snjóflóði. Þau áttu átta börn. Seinni maður hennar er lifandi og heitir Gísli Hafliðason. Við Guðmundur eigum svo fjögur börn.

kjollinn.JPG

Faðir minn var mótoristi, eins og vélstjórar á skipum voru kallaðir, og pípulagningameistari og móðir mín húsmóðir. Ég gekk í barnaskóla á Neskaupstað og byrjaði snemma að vinna fyrir mér. Þrettán ára var ég í Firði í Mjóafirði hjá Sesselju Sveinsdóttur í eitt sumar og eftir fermingu vann ég í frystihúsi á Neskaupstað og var m.a. einn vetur í vist í Vestmannaeyjum. Einn vetur var ég í Reykjavík og vann þar við kjólasaum í „Kjólnum". Ég var nú aðallega notuð til að sauma perlur og pallíettur á kjólana og líkaði það ekkert sérstaklega og hætti um vorið. Svo veiktist mamma, var veik í tvö og hálft ár og þá var ég heima.

Húsmæðraskóli Suðurlands, Lindin

Eins og Guðmundur er búinn að segja þér vann ég veturinn 1948-1949 í eldhúsinu við skólann á Laugarvatni, fór sumarið eftir í kaupavinnu til Helga, bróður hans í Laugarási og síðan í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og var þar veturinn 1949-1950. Það ár, 1950, giftum við Guðmundur okkur hjá borgardómara í Reykjavík í sólskini og góðu veðri á Jónsmessumorgni kl 11. Hann 35 ára og ég 23 ára.

Björkin á Laugarvatni. (Mynd af vef NEMEL)

Við byrjuðum að búa í Björkinni á Laugarvatni og þar bjuggum við þar til við fluttum í Lindarbrekku í desember árið 1951. Við keyptum húsið um sumarið og Guðmundur var að gera það upp þar til við fluttum. Það voru heilmikil viðbrigði að koma hingað í Laugarás. Fyrir austan og á Laugarvatni var rafmagn. Hér var ekki rafmagn. Ég þurfti að læra að elda á kolavél og olíueldavél og nota lampa. En gamla húsið var ljómandi fallegt og öll börnin ólust upp í þessu húsi.

Ég var auðvitað heimavinnandi meðan krakkarnir voru litlir. Þvotturinn var þveginn í hvernum, en það hætti þegar rafmagnið kom 1956. Þetta var erfitt, en ég hefði ekki viljað vera án þessarar lífsreynslu. Ég var ekki alin upp við það að fá allt upp í hendurnar og þekki engan sem hefur orðið hamingjusamur af því að vera ríkur! Ég held að enginn hafi orðið ánægðari með bíl en ég var þegar ég fékk hjólbörurnar hér í Laugarási. Það breytti öllu að geta keyrt þvottinn í hjólbörum heim úr hvernum og vörurnar heim af brúsapallinum! Og eitt er það sem aldrei hefur vantað í Lindarbrekku og það er matur", segir Jóna og brosir.

Systkinin á Lindarbrekku f.v. Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði. (Mynd pms)

„Börnin okkar eru fjögur. Indriði, sem er elstur, er fæddur í Björkinni 1951. Hann býr í Reykjavík, giftur Ester Gunnarsdóttur (d. 2023) og þau eiga fjögur börn. Síðan kom Jón Pétur 1955. Hann býr á Selfossi, giftur Guðrúnu Halldóru Hjartardóttur frá Brjánsstöðum í Grímsnesi og þau eiga þrjú börn. Katrín Gróa fæddist 1956, hennar maður er Þórarinn Guðnason. Þau búa á Neskaupstað og eiga þrjú börn. Yngstur er svo Grímur, fæddur 1961. Hans kona er Guðbjörg Jóhannsdóttir frá Felli og þau eiga fjögur börn auk þess sem Grímur á dóttur í Skagafirði. Þau búa á föðurarfleifðinni, Ásatúni í Hrunamannahreppi, sem þau keyptu af systkinum Guðmundar 1987, minnir mig.

Við bjuggum í 30 ár í gamla bænum, fluttum í nýja húsið 1981 og á næsta ári erum við búin að búa þar í 30 ár!

Ég hef mest unnið í Skálholti, leysti af þar af og til þegar verið var að byggja kirkjuna. Var einn vetur með mötuneytið í kjallara Biskupshússins, tók þar við sem ráðskona af Stínu Björns í Skálholti. Vann svo í Skálholti á hverju sumri eitthvað í 20 ár, eða til 1983. Einn vetur skúraði ég á Heilsugæslustöðinni.

Ég gekk í Kvenfélagið 1956 og var kosin í skemmtinefnd daginn sem ég gekk í félagið. Með mér gengu í félagið María í Skálholti og Guðný svilkona mín, kona Helga, Magga á Iðu og Þórdís, kona Jóns Hallgrímssonar læknis. Við vorum allar kosnar í skemmtinefndina og svo vorum við bara kosnar endalaust áfram næstu árin. Stundum hættum við í eitt ár en vorum svo kosnar aftur! Ég hef alltaf haft gaman af því að leika, alveg frá því ég man fyrst eftir mér. Og þegar ég nú var komin í skemmtinefnd hjá Kvenfélaginu stakk ég upp á því að við myndum setja upp leikrit á þorrablótinu og það þótti takast svo vel að við gerðum það í mörg ár. Ég setti þá reglu að það mátti ekki segja nei ef maður var beðinn. Það kom auðvitað vel á vonda, því ég gat ekki heldur sagt nei! Ég held að að þessi regla sé enn í heiðri höfð í Kvenfélaginu.

17. júní 1983 F.v. Jóna, Karítas Óskarsdóttir, Renata Vilhjálmsdóttir, Ari Konráðsson, Sigurður Ólafur Ingvarsson
(Mynd pms)

Fyrsta þorrablótsleikritið var rússneska leikritið „Bónorðið", þar sem ég lék með þeim Jóni Vídalín og Þórarni á Spóastöðum. Það var mjög skemmtileg samvinna, leikið á Vatnsleysu 1957. Jón Hallgrímsson læknir útvegaði leikritið og æfði. Stærsta leikritið sem ég lék í var „Er á meðan er" á vegum ungmennafélagsins. Það leikrit ætti vel við núna! Við settum það upp veturinn 1964-1965, stórt leikrit og við fórum víða með það, alltaf fyrir fullu húsi - nema síðast í Keflavík, þá klikkaði auglýsingin!

Á umræddu þorrablóti. F.v. Jóna, Jens Pétur Jóhannsson, Elinborg Sigurðardóttir, Matthildur Róbertsdóttir, Fríður Pétursdóttir. (Mynd Karítas Óskarsdóttir)

Ég lék síðast á þorrablóti fyrir Palla Skúla fyrir 10 - 15 árum. Það var svona „heimaleikrit", lék ólétta kerlinu, það var ólag á símanum. Sagðist nú ekki skilja að ég léti hafa mig út í svona lagað! En svo, þegar ég varð áttræð, hélt þorrablótsleikfélagið hér í Skálholtssókn mér heilmikla veislu í Skálholtsskóla. Mér þótti vænt um það, við vorum búin að bralla margt saman, þetta var góður hópur.

Það mætti rifja margt upp, en ég vil bara segja að mér hefur liðið afskaplega vel hér og er þakklát fyrir hvað okkur var tekið vel hér í Tungunum.

Það er liðið langt á kvöld þegar undirrituð kveður þessi heiðurshjón og heldur út í haustkulið. Þrátt fyrir háan aldur var enga þreytu á þeim að sjá, það var ekki við annað komandi en ljúka viðtalinu.

Jóna tók til mat fyrir okkur og súru gúrkurnar hennar voru heimalagaðar og alveg einstaklega bragðgóðar. Uppskriftin er hérfyrir neðan! Kœrar þakkir fyrir skemmtilegt spjall og góðar veitingar. G.S.

 

 

Súrar gúrkur Jónu á Lindarbrekku

Gúrkurnar lagðar í saltvatn, t.d. yfir nótt, áður en þær eru flysjaðar og tekið innan úr þeim og þær skornar í bita. Má líka í staðinn sjóða aðeins upp á gúrkunum í vatni með ediki og smá salti. Er fljótlegra.


Bitamir settir í krukku og heitum sykur-ediklegi hellt yfir og krukkunum lokað.
Lögur:
1 lítri borðedik 3% (eða sterk ediksýra (15%) þynnt 1:6)
1/2 kg sykur soðið saman.

Jóna á Lind - minningargrein um Jónínu eftir Pál M. Skúlason

uppf. 09.2024